Fréttir

SAFE minnir á mikilvægi matvælaöryggis

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

SAFE Consortium gefur út stefnumarkandi skýrslu um rannsóknaráherslur og mikilvægi matvælaöryggis. Skýrslan var afhent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en hún ítrekar mikilvægi þess að matvælaöryggismál séu sett í forgrunn allra matvælarannsókna. 

Þann 4. júní síðastliðinn gaf SAFE Consortium, sem er samstarfsvettvangur Evrópskra rannsóknarstofna á sviði matvælaöryggis, út stefnumarkandi skýrslu um rannsóknaráherslur og mikilvægi matvælaöryggis. Skýrslan var afhent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en hún ítrekar mikilvægi þess að matvælaöryggismál séu sett í forgrunn allra matvælarannsókna.

Matís hefur verið öflugur þáttakandi í  SAFE samstarfinu undanfarin ár ekki síst vegna þess að Oddur Már Gunnarsson sviðstjóri viðskiptaþróunarsviðs hjá Matís hefur gengt lykilhlutverki í starfsemi SAFE. Hann var formaður samtakana frá 2010 til 2012 og hefur undanfarið ár verið aðalritari SAFE. Samhliða hefur Matís tekið yfir rekstur skrifstofu SAFE en það er liður í endurskipulagningu á starfsemi samtakana.

Matvælaöryggi er grunnstoð matvælaiðnaðarins

Um tilurð skýrslunnar segir Oddur: ,,Matvælaöryggi í Evrópu hefur verið í góðum málum og fá vandamál hafa komið upp á síðustu árum, því hafa menn svolítið sofnað á verðinum og fjármagn til málaflokksins hefur minkað og þar með viðbúnaðurinn. Í rammaáætlun Evrópusambandsins er matvælaöryggi orðið samofið öðrum þáttum á borð við fæðuöryggi, sjálfbærni og fleira í þeim dúr. En matvælaöryggi þarf að vera grunnurinn sem við byggjum á. Öll nýsköpun í matvælaiðnaði þarf að byggja á matvælaöryggi og því þarf það að vera nefnt sérstaklega sem grundvöllur fyrir öllum matvælaiðnaði. Það er lítill tilgangur að hafa nóg af mat ef hann er ekki öruggur – öryggið er lykilþáttur.“

Þá hefur Oddur tekið þátt í að marka nýja stefnu SAFE sem byggir á því að færa samtökin frá því að sinna nær eingöngu fræðslu yfir að vera stefnumarkandi fyrir aðra sem koma að þessum málaflokki og búa svo um að matvælaöryggi sé á oddinum allstaðar. Hann segir samtökin hafi þurft að finna  leiðir til að hagræða í rekstri en á sama tíma halda uppi markvissum störfum. Gerð skýrslunnar er hluti af þessu og telur Oddur að SAFE hafi markað sér nýja stöðu með útgáfu hennar. ,,SAFE var mögulega orðið svolítið þreytt vörumerki, þú þarft alltaf að endurnýja það sem þú ert að gera í takt við tímann, til að það skili árangri.“

Hann segir skýrsluna hafa fengið góðar viðtökur af framkvæmdastjórninni í Brussel, þar sem vakin er athygli á þeim hættum sem eru við sjóndeildarhringinn og hvernig byggja megi á núverandi reynslu til að tryggja öryggi neytenda. „Menn voru almennt sammála um að það sem stæði í skýrslunni væri gott og mér fannst erindi hennar ná í gegn. Þeir tóku undir allt sem við sögðum og við vonumst til að það skili sér í framtíðar rannsóknum Evrópusambandsins.“

Langtímarannsóknir gefa yfirsýn

Oddur segir að rannsóknir Matís séu afar mikilvægar fyrir SAFE enda fyrirtækið afar virt í evrópsku vísindasamstarfi. „Það gefur líka mikilvæga yfirsýn að fá skýrslur og rannsóknir frá öllum hornum  Evrópu sem byggja á langtímarannsóknum.  Þær gera okkur kleyft að leita eftir sameiginlegri reynslu og hjálpa samtökunum að koma auga á hætturnar sem eru til staðar. Ennþá er lítið vitað um ýmsa þætti sem snúa að matvælaöryggi, til dæmis áhrifa efnamengunar á matvæli og samhengi aukins ofnæmis og aukaefna í matvælum.“

Oddur segir að samstarf við SAFE sé gott bakland og tryggi Matís góð sambönd innan Evrópu. „Innan samtakana starfa 13 stofnanir og aflið sem felst í fjöldanum verður ekki dregið í efa. Þátttaka í starfi SAFE gefur okkur rödd innan Evrópusambandsins og þannig getum við haft áhrif á það hvaða rannsóknir verða settar í forgrunn þar á næstu árum.“