Fréttir

Íslendingar stuðla að virðisaukningu í Bangladesh

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Rækju og fisksamband Bangladesh (BSFF) óskaði fyrr á þessu ári eftir aðstoð frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna og Matís við að finna leiðir til að minnka hráefnistap, við fiskveiðar, slátrun og flutning á markað sem og við að auka nýtingu á aukaafurðum sem falla til við vinnslu.

Rækju og fisksamband Bangladesh (BSFF) óskaði fyrr á þessu ári eftir aðstoð frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna og Matís við að finna leiðir til að að minnka hráefnistap, við fiskveiðar, slátrun og flutning á markað sem og við að auka nýtingu á aukaafurðum sem falla til við vinnslu. Ástæða samvinnunnar er m.a. sú að nokkrir nemendur frá Bangladesh hafa á undanförnum árum verið við nám við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna, þar sem Matís hefur tekið virkan þátt í kennslunni. Þá hefur þekking og árangur Íslendinga við nýtingu aukaafurða og virðisaukningu sjávarafurða vakið athygli þar sem og annars staðar í heiminum.

Tækifæri til nýsköpunar og virðisaukningar

Af þessu tilefni fóru þeir Dr. Guðmundur Stefánsson og Oddur Gunnarsson frá Matís og Mary Frances Davidson frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna til Bangladesh dagana 11.-17. maí síðastliðinn. Þar fengu þau tækifæri til að kynna sér fiskveiðar, vinnslu og fiskeldi með það markmið að leita leiða til að minnka framleiðslu tap, skapa nýjar verðmætar vörur og auka þekkingu á matvælaöryggi. Auk þess að finna leiðir til að auka samstarf milli Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna, Matís og Bangladesh. Heimsóknin vakti talsverða athygli þar í landi og var fjallað um hana í dagblaðinu Financial Express. Enda ljóst að virðisaukning sjávarafurða þar í landi gæti orðið talsverð með breyttum vinnsluaðferðum.  

Fiskur er mikilvæg fæða í Bangladesh og um 15 milljónir manna hafa atvinnu við veiðar, eldi og vinnslu. Á hverju ári eru unnin þar um 3 milljónir tonna af fiski. Mest af því rækjur, tilapia og pangasus sem fara til sölu innanlands. Einungis lítið brot er flutt úr landi, en útflutningur nemur aðeins um 100.000 tonnum. Rækja er viðamesta einstaka útflutningsvaran og árlega eru flutt út í kringum 50.000 tonn af henni, en hráefnisframboð er takmarkað sem stendur í vegi fyrir frekari útflutningi. Rækjan er yfirleitt flutt út haus og skellaus. Við vinnsluna fellur til mikið af aukaafurðum eða allt að 20.000 tonn sem ekki eru nýttar. Þar eru augljós tækifæri fyrir frekari vinnslu og verðmætasköpun og gott tækifæri fyrir Matís til að miðla af þekkingu sinni.  

Eftirliti ábótavant

Í Bangladesh er mikil þörf á að bæta meðhöndlun á afla fyrir innanlandsmarkað. Af þeim 43.000 skipum sem mynda flotann er einungis hægt að ísa fiskinn um borð í fáeinum þeirra oftast vegna aðstöðuleysis auk þess að oft er erfitt að nálgast ís. Það þýðir að stór hluti af þeim afla sem fer á innanlands markað er ókældur frá því að hann er veiddur og þar til að hann kemst í hendur neytandans. Þá eru aðstæður á mörkuðum og í flutningum ekki til fyrirmyndar, því oft er fiskurinn illa eða ekkert ísaður auk þess sem hreinlæti er verulega ábótavant. Talið er að um fjórðungur af aflanum og eldisafurðunum skemmist vegna skorts á kælingu og slæmrar meðhöndlunar og séu því ekki hæf til manneldis.

Eftirlit með vinnslu og öryggi minni skipana er einnig lítið sem ekkert, þrátt fyrir að þau sjái innanlandsmarkaðinum nær eingöngu fyrir fiski. Hinsvegar er eftirlit með stærri skipum og frystitogurum í flestum tilfellum í góðu lagi, en í landinu fyrirfinnast 175 frystitogarar og þar af 74 sem uppfylla ströngustu kröfur og mega flytja vörur til Evrópusambandsins og á aðra stóra markaði. Að sama skapi er lítið eftirlit með löndunarhöfnum, mörkuðum, geymsluaðstæðum, verksmiðjum og fiskeldi. Liggur vandinn í því að alltof fáir einstaklingar sinna þessu eftirliti en í heildina eru þeir rúmlega 70 í landi sem telur 160 milljónir og fara starfskraftar þeirra að mestu í að fylgja eftir lögum og reglum vegna útflutnings. 

Þá er staða fiskistofna  og möguleg ofveiði áhyggjuefni en lítið sem ekkert er fylgst með fiskistofunum og breytingum á stofnstærðum. Þó er von á umbótum í þeim efnum, því Sjávarútvegsráðuneyti Bangladesh á von á rannsóknarskipi árið 2015 en núna eru einu gögnin um afla, veiðiskýrslur einstakra báta og skipa.

Mikill áhugi á samstarfi

Áhugi heima manna á samstarfi er mikill og kom Syed Mahmudul Huq, stjórnarformaður BSFF til Íslands í heimsókn stuttu eftir að utanför Guðmundar og Odds lauk, til að ganga á eftir verkefninu og undirbúningi þess. En tillögur Matís og Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna til BSFF eru þríþættar. Í fyrsta lagi að móta stefnu um námskeiðshald fyrir innanlandsmarkaðinn með það að markmiði að minnka hráefnistöp, bæta matvælaöryggi og að byggja upp innviði í fiskdreifikeðjunni. Í öðru lagi að koma af stað námskeiðum fyrir útflutningsiðnaðinn á betri nýtingu á aukafurðum og aukningu á virði fiskafurða.  Í þriðja lagi að auka samkeppnishæfni útflutningsiðnaðarins með hagkvæmnisrannsóknum á nýtingu þeirra aukaafurða sem nú þegar falla til við fiskeldi og vinnslu í Bangladesh. Vonast er til þess að námskeiðin hefjist í byrjun árs 2014.