Fréttir

Mjög vel heppnaðir samráðsfundir

Matís, Matvælastofnun (MAST) og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið buðu í gær til samráðsfundar um örugg matvæli | Neytendavernd og viðskiptahagsmunir

Örugg matvæli | Neytendavernd og viðskiptahagsmunir

Gríðarlega góð mæting var á fundinn sem haldinn var í Sjávarútvegshúsinu Skúlagötu 4, sem og samskonar fund sem Matvælastofnun bauð til eftir hádegi á Selfossi. Húsfyllir var á báðum fundum og miklar og góðar umræður sköpuðust. Tilgangur þessara samráðsfunda var að kynna verkefnið Örugg matvæli og ræða stöðu matvælaöryggis á Íslandi.

Verkefnið Örugg matvæli var upphaflega hluti af IPA áætlun vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB, en hefur nú verið hrint úr vör í formi tvíhliða verkefnis milli þýskra og íslenskra stjórnvalda. Staða matvælaöryggis á Íslandi verður rædd í ljósi þess að geta selt matvæli bæði innanlands og á alþjóðlegum markaði.Fundargestum verður gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum og fyrirspurnum á framfæri í pallborðsumræðum í lok fundar.

Verkefninu Örugg matvæli er ætlað að tryggja matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur. Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Örugg matvæli er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Örugg matvæli | Food safety

Verkefnið Örugg matvæli verður án vafa mikill stökkpallur fyrir íslenska neytendur, eftirlitsaðila og ekki hvað síst fyrir framleiðendur og söluaðila. Neytendur vilja nánari upplýsingar um efnin sem eru og eru ekki í matvælum sem þeir neyta og framleiðendur og söluaðilar vilja einnig fá þessar upplýsingar til að auka enn frekar traust neytenda á þeirra vörum.

Nánari upplýsingar má nálgast í skjalinu Örugg matvæli | Aðgerðir og afrakstur og hjá Margréti Björk Sigurðardóttur frá Matvælastofnun (MAST) og hjá Helgu Gunnlaugsdóttur frá Matís.

Fréttir

Matís á Framadögum háskólanna 2014

Framadagar Háskólanna 2014 verða haldnir þann 5. febrúar í Sólinni í Háskólanum í Reykjavík á milli kl 11-16.

Að venju verður Matís með stóran bás og mun kynna starfsemi sína allan daginn.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Framadaga og hjá Jóni Hauki Arnarsyni, mannauðsstjóra Matís eða Steinari B. Aðalbjörnssyni, markaðsstjóra Matís.

Um Framadaga

Framadagar er árlegur viðburður í háskólalífinu þar sem nokkur af helstu fyrirtækjum landsins kynna starfsemi sína fyrir háskólanemendum. AIESEC stúdentasamtökin skipuleggja Framadaga á hverju ári. Framadagar Háskólanna árið 2014 verða haldnir í Háskólanum í Reykjavík miðvikudaginn 5. febrúar frá kl. 11-16. Þar mæta nemendur allra háskóla á landinu á staðinn til að kynnast mannauðsstjórum helstu fyrirtækja landsins – og vonandi ef heppnin er með í för – sækja um vinnu.

Framadagar 2014

Þetta árið hafa 60 spennandi fyrirtæki boðað komu sínu og margir fyrirlestrar komnir á dagskrá. Hér er hægt að skoða bækling Framadaga 2014.

Fréttir

Nha Trang University in Vietnam and Matís gera með sér samstarfssamning

Samstarfssamningurinn er byggður á samningsdrögum (MoU) sem Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (United Nations University-Fisheries Training Programme) og Nha Trang University (NTU) undirrituðu 30. maí 2013. Samningur Matís og Matvælafræðadeildar Nha Trang University kveður á um fimm ára samstarf (2013-2018).

Matvælafræðadeild NTU var komið á fót í Vietnam árið 1959. Deildin hefur á þessum rúmlega 50 árum byggt upp mikla þekkingu í rannsóknum og kennslu og hefur útskrifað rúmlega 5000 matvælaverkfræðinga, rúmlega 1000 matvælafræðinga (BSc) og fleiri hundruð tæknilegra sérfræðinga í sjárvarútvegfræðum og matvælafræði. NTU er í samstarfi við yfir 300 fyrirtæki í Vietnam og framalag háskólans til þróunar matvælaframleiðslu í landinu er mjög mikið.

Starfsmenn Matvælafræðadeildar NTU eru um 60 og þar af hafa 90% meistara- eða doktorsgráðu. Margir þeirra hafa hlotið menntun sína í Japan, Frakklandi, Íslandi, Noregi, Ástralíu, Rússlandi og víðar. Nemendur við Matvælafræðideildina eru nú rúmlega 3000 á öllum stigum, frá nemum í tækniþróun til doktorsnema.

Matís er það mikil ánægja að kynna samstarf við Nha Trang University í þeirri vissu að samstarfið verður árangursríkt.

Frekari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Fréttir

Undirritun samstarfssamnings HA og Matís

Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, og Ögmundur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasvið HA, skrifuðu undir samstarfssamning nú fyrir stuttu.

Samningurinn leggur grunn að frekari eflingu rannsókna og menntunar í sjávarútvegsfræðum, matvælafræðum og líftækni auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna, með það að markmiði að vera í fararbroddi á Íslandi á þeim fræðasviðum sem tengjast sjávarútvegsfræði og líftækni, sem bæði eru kennd við HA. Eitt af markmiðum samningsins er að efla kennslu og rannsóknir á sviði sjávarútvegsfræða, matvælafræða og líftækni, m.a. með sókn í alþjóðlega sjóði og samstarf á sviði nýtingar auðlinda norðurslóða.

Markmið hans er einnig að fjölga þeim sem stunda nám og rannsóknir á þessum fræðasviðum, samþætta rannsókna- og þróunarverkefni á sviði sjálfbærrar auðlindanýtingar, vinnslutækni, líftækni, matvælaöryggis og lýðheilsu, að virkja fleiri starfsmenn Matís í kennslu við HA og gefa viðkomandi starfsmönnum Matís kost á því að fá faglegt akademískt mat hjá HA/Viðskipta- og raunvísindasviði og möguleika á gestakennarastöðum, enda verða greinar birtar undir hatti beggja samningsaðila, ásamt því að samnýta aðstöðu, húsakost og tækjabúnað.

Háskólinn á Akureyri er íslenskur rannsóknaháskóli sem tekur virkan þátt í alþjóðlegu rannsóknastarfi. Í háskólanum eru um 1600 nemendur í grunn- og framhaldsnámi, í staðarnámi og fjarnámi. Sjávarútvegsfræði hefur verið kennd við HA síðan 1990 og líftækni frá árinu 2002, námsgreinarnar eru nú kenndar við Auðlindadeild Viðskipta og raunvísindasviðs HA sem auk þess hefur boðið upp á meistaranám í sjávarútvegs og auðlindafræðum. Vegna eðlis námsins hefur kennsla í sjávarútvegsfræði frá upphafi farið fram í samstarfi við innlend sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki í tengdum greinum.

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins sem sinnir rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvæla- og fæðuöryggis. Matís gegnir umfangsmiklu hlutverki varðandi þjónustu á sviði rannsókna, menntunar og nýsköpunar. Lögð hefur verið áhersla á að mæta þörfum matvælaframleiðenda og frumkvöðla, í samstarfi menntakerfið, m.a. í formi hagnýtra verkefna með þátttöku nemenda.

Á myndinni eru Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Ögmundur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasviðs HA, Rannveig Björnsdóttir, dósent við auðlindadeild HA og fagstjóri hjá Matís, og Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Frétt skrifuð af Hjalta Þór Sveinssyni og birt fyrst á vefsvæði Háskólans á Akureyri, www.unak.is.

Fréttir

Meistaraprófsfyrirlestur í matvælafræði; Helga Franklínsdóttir

Helga Franklínsdóttir flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í matvælafræði. Verkefnið ber heitið „Application of waterjet cutting in processing of cod and salmon fillets“

Hvenær hefst þessi viðburður: 30. janúar 2014 – 15:30
Nánari staðsetning: Matís, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík

Ágrip

Markmið þessa verkefnis var að koma á vitneskju um vatnsskurð á fiski sem gæti nýst í hönnun á FleXicut.  FleXicut er vatnsskurðartækni þróuð fyrir hvítfisk með áherslu á þorsk sem er fær um að skera mismunandi mynstur og beygðan skurð. Samband milli vatnsskurðarskilyrða, tegunda, eðliseiginleika og hitastigs í flökum voru rannsökuð. Þorsk- og laxaflök voru prófuð með því að nota mismunandi forkæliaðferðir og flök annað hvort með eða án roðs. Helstu skilyrði fyrir góðum skurði voru gæði og hreinleiki skurðar til að finna út á hvaða bili bestu skurðarskilyrðin væru. Niðurstöður sýndu fram á að skurðarhraði skipti hvað mestu máli þegar kemur að gæði fiskiflaka þar sem salli eykst í flökunum við aukinn skurðhraða. Bandvefurinn var aðal vandamálið í sporðarsnyrtingunni þar sem skurður var ekki að ná í gegn þá sérstaklega fyrir þorskflök. Undirkæling á undan skurði sýndi fram á betri skurð og minni salla í flökunum. Þetta skipti meira máli fyrir laxaflök í samanburði við þorskflök þar sem gæði skurðar gegnum roð og sporðsnyrtingu var mun betri.

Lykilorð: Vatnsskurður, undirkæling, röntgen, skurðhraði, þrýstingur, spíssastærð, salli, bandvefur.

Leiðbeinendur

Sigurjón Arason, prófessor martvælafræði HÍ og yfirverkfræðingur Matís, dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir, verkefnastjóri Marel og Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri Matís

Prófdómari

Dr. Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Promens Dalvík og Promens Tempra.

Fréttir

Meira en 300 milljónir vegna alþjóðlegs samstarfs

Alþjóðlegt samstarf er fyrirferðamikið í starfsemi Matís. Fyrirtækið hefur, þrátt fyrir ungan aldur, skapað sér tengsl og orðspor erlendis. Markvisst og meðvitað hefur Matís aukið áherslu á erlend verkefni, enda styrkja þau starfsemina hér á landi, efla íslenskt vísindastarf almennt, styrkja atvinnulífið og á endanum skilar ávinningurinn sér til hins almenna Íslendings í formi fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæra og sóknarfæra fyrir landið.

Íslendingar greiða talsvert til sameiginlegra rannsóknarsjóða í Evrópu og með erlendu vísindasamstarfi má í raun sækja það fjármagn til baka, með góðri ávöxtun ef vel er unnið. Grunnur að því er sterkur kjarni vísindafólks og hann er til staðar hjá Matís. Við finnum í vaxandi mæli að til okkar er horft af erlendum aðilum, enda hefur árangur af erlendum samstarfsverkefnum okkar verið góður. Við höfum margt eftirsóknarvert fram að færa og getum styrkt stöðu Íslands með þekkingu sem við sækjum okkur í gegnum þetta samstarf. Með alþjóðlegum verkefnum fáum við aðgang að aðstöðu sem við annars hefðum ekki og tengslum við sérfræðiþekkingu á afmörkuðum sviðum.

Sjöunda rannsóknaráætlun Evrópu (FP7)

Erfitt er að fjalla um samstarfsaðila og verkefnasamvinnu án þess að nefna hlutverk Matís í rannsóknaáætlunum Evrópu. Á árinu var Matís þátttakandi í 22 verkefnum 7. rannsóknaráætlunarinnar. Fá fyrirtæki af stærðagráðu Matís hérlendis eða erlendis geta státað af slíku.

Auk þess að vera þátttakandi í þessum verkefnum er fyrirtækið umsjónaraðili og leiðir sex þessara 22 verkefna. Slíka umsjón um verkefni, hvað þá í þessum fjölda verkefna, fá einungis fyrirtæki sem eru mikils metin á alþjóðlegum vettvangi og uppfylla allar þær kröfur sem öflug rannsóknafyrirtæki þurfa að standast, hvað varðar hæfni starfsmanna og þekkingu, aðstöðu og tæki til rannsókna og ekki hvað síst er varðar ábyrgan rekstur. Heildaverðmæti fyrir Matís á árinu 2013 í verkefnum sem tengjast rannsóknaáætlununum er um og yfir 300 milljónir króna. Ljóst má vera að slíkir fjármunir styrkja stöðu íslensks rannsókna- og vísindastarfs til mikilla muna.

Hér er listi yfir verkefni þar sem Matís er þátttakandi og tengjast 7. rannsóknaáætlun Evrópu. Verkefni merkt með stjörnu eru verkefni þar sem Matís hefur umsjón með verkefninu:

Með auknu alþjóðlegu vísindasamstarfi má segja að brotið sé blað. Íslendingar gjörþekkja útflutning á vörum í gegnum aldir og er þar skemmst að minnast sjávarútvegsins. Þar er bæði um að ræða hráefnisútflutning og einnig meira unnar vörur. Í vísindastarfinu má tala um að við færum okkur úr útflutningi á hráefnum yfir í hagnýtingu íslenskrar þekkingar á matvælaframleiðslu, undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar í gegnum aldirnar. Því „þekkingarhráefni“ breytum við í enn verðmætari vöru sem við bæði getum nýtt okkur í frekari sókn erlendis og einnig hér heima, til framþróunar í matvælaframleiðslu. Þess ávinnings njóta, auk okkar hjá Matís, aðrir innlendir rannsóknaraðilar, stofnanir, háskólar og fyrirtæki.

Uppbygging Matís og áherslur fyrirtækisins gera okkur kleift að sækja fram á erlendum vettvangi. Við höfum yfir að ráða sérþekkingu á mörgum þáttum í sjávarútvegi og einnig má nefna einstakar aðstæður til líftæknirannsókna hér á landi vegna t.d. hverasvæðanna, jökla og náttúrunnar bæði á landi og í sjó. Margar atvinnugreinar gætu því notið góðs af því erlenda starfi sem Matís hefur hrundið af stað en ekki hvað síst eru tækifærin skýrust í sjávarútvegi. Nýjar áherslur á því sviði eru m.a. markaðstengd verkefni og áherslur sem snúa að umhverfismálum og umhverfisáhrifum. Við Íslendingar eigum sannarlega möguleika á að skapa okkur enn sterkari stöðu á afurðamörkuðum heimsins með fiskafurðir okkar. Alþjóðastarf Matís mun hjálpa til í þeirri vinnu á komandi árum.

Svipaða sögu er að segja um íslenskan landbúnað. Þeirri grein munu opnast möguleikar í náinni framtíð erlendis, ekki hvað síst með auknu vísinda- og rannsóknarstarfi. Matís horfir einnig til þeirra möguleika.

Vísindamenn okkar skynja að á erlendum vettvangi höfum við orðspor til að byggja á. Ekki bara vegna þess að við erum Íslendingar heldur vegna þess sem við getum, þekkjum og kunnum.

Fréttir

Getum við betrumbætt öll matvæli með hráefnum úr sjónum?

Nú fyrir stuttu var haldinn hér á landi „kick-off” fundur í nýju verkefni, EnRichMar, sem stýrt er af Matís og er styrkt til tveggja ára í gegnum 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Í verkefninu taka þátt, auk Matís, íslensku fyrirtækin Grímur kokkur sem framleiðir tilbúna sjávarrétti og Marinox sem framleiðir lífvirk efni úr sjávarþörungum.

Nú fyrir stuttu var haldinn hér á landi „kick-off” fundur í nýju verkefni, EnRichMar, sem stýrt er af Matís og er styrkt til tveggja ára í gegnum 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Í verkefninu taka þátt, auk Matís, íslensku fyrirtækin Grímur kokkur sem framleiðir tilbúna sjávarrétti og Marinox sem framleiðir lífvirk efni úr sjávarþörungum. Í verkefninu eru  einnig matvælafyrirtækin Ruislandia í Finnlandi og  Den Eelder í Hollandi, og síðan BioActive Foods í Noregi sem framleiðir omega-duft og olíur, og rannsóknastofnanirnar VTT í Finnlandi, TNO í Hollandi og Háskólinn í Milano á Ítalíu.

Hugmyndin að EnRichMar verkefninu hefur þróast í gegnum samvinnu Matís og Gríms kokks í Vestmannaeyjum frá árinu 2008. Þá hófst verkefni sem miðaði að því að þróa vörur sem bættar voru með lífefnum úr íslensku sjávarfangi eins og þörungum, fiskpróteinum og ómega-3 fitusýrum og var styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Í kjölfarið fékkst styrkur frá Nordic Innovation sjóðnum um vinnu á sama sviði. Almennt mátti álykta út frá þeim verkefnum að auðgun sjávarrétta sé raunhæfur möguleiki og með því að nýta hráefni úr hafinu í fullunnar neytendavörur eykst verðmæti þeirra. Gengið hefur verið skrefi lengra í vöruþróun með íslensk efni úr hafinu til íblöndunar í matvæli og hér hafa skapast markaðstækifæri, bæði fyrir innanlandsmarkað og útflutning við að nýta vannýtt sjávarfang í verðmætari afurðir.

Notkun ómega-3 og lífvirkra efna úr þörungum í matvælum gæti stuðlað að jákvæðum heilsufarslegum áhrifum við neyslu og stöðugleika matvælanna. Meginmarkmið EnRichMar er í raun tvíþætt. Annars vegar að þróa sjávarrétti, mjólkur- og kornvörur auðgaðar með ómega-3 og rannsaka áhrif neyslu slíkra afurða á geð- og heilastarfsemi og hinsvegar slíkar vörur auðgaðar með lífvirku efni úr þörungum og rannsaka áhrif neyslu þeirra matvara á bólgu- og oxunarálag sem og sykursýki.

Þróun tilbúinna matvæla með lífvirkum efnum er mikilvægt viðfangsefni fyrir matvælaiðnaðinn bæði hér heima og annars staðar í Evrópu. Tilgangur verkefnisins er að styrkja samkeppnisstöðu og auka markaðshlutdeild þeirra fyrirtækja sem eru í verkefninu og skapa ný tækifæri á mörkuðum.

Nánari upplýsinga veitir Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís

Fréttir

Aukið matvælaöryggi á Íslandi

Samstarfsverkefni þýskra og íslenskra stjórnvalda, Örugg matvæli, hefur nú verið hrint úr vör. Megintilgangur verkefnisins er að auka matvælaöryggi og neytendavernd á Íslandi með því að auka vöktun á óæskilegum efnum í matvælum.

Örugg matvæli gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd, sem hefur nú þegar verið innleidd í gegnum EES-samninginn. Verkefnið felur í sér kaup og uppsetningu á rannsóknatækjum og þjálfun í faggiltum efnagreiningum og eftirlitsstörfum. Með bættum tækjabúnaði verður hægt að framkvæma mun fleiri mælingar innanlands en nú er s.s. mælingar á þörungaeitri í skelfiski og mælingu 300 varnarefna í matvælum í stað þeirra 60 sem nú eru mæld.

Örugg matvæli var upphaflega hluti af IPA-áætlun vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB en hefur nú verið hrint í framkvæmd í formi tvíhliða verkefnis milli þýskra og íslenskra stjórnvalda. Verkefnið er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Nánari upplýsingar má nálgast í skjalinu Örugg matvæli | Aðgerðir og afrakstur og hjá Margréti Björk Sigurðardóttur hjá Matvælastofnun (MAST) og Helgu Gunnlaugsdóttur hjá Matís.

Fréttir

Vor í lofti

Verkefnið Vor í lofti 2014 er átaksverkefni Matís ohf í samstarfi við sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp. Verkefninu er ætlað að hvetja áhugasama íbúa í sveitarfélögunum til að hrinda hugmyndum sínum á sviði matvælaframleiðslu og líftækni í framkvæmd.

Verkefnið mun standa í eitt ár og er ætlunin að það skili að minnsta kosti þremur fullmótuðum hugmyndum í lok verkefnisins.

Tilgangurinn með verkefninu Vor í lofti 2014 er að auka möguleika á aukinni úrvinnslu hráefnis og efla þannig virðisaukningu þess hráefnis sem fyrir hendi er á sunnanverðum Vestfjörðum. Miklir möguleikar eru fólgnir í því verðmæta hráefni sem til verður á svæðinu, bæði til sjós og lands. Margskonar tækifæri eru fyrir hendi við að fullvinna hráefnið í verðmæta vöru eða þróa nýjar afurðir úr því sem til fellur við úrvinnslu hráefnisins. Mikil þekking og reynsla er fyrir hendi varðandi veiðar og vinnslu á bolfiski en auk þess er fiskeldi öflug og vaxandi starfsgrein á sunnanverðum Vestfjörðum. Í Arnarfirði er vinnsla á kalkþörungum á vegum Íslenska Kalkþörungafélagins á Bíldudal þar sem stærsti hluti afurðanna er fluttur erlendis en hluti fer í fullvinnslu hér á landi til manneldis. Landbúnaður hefur átt undir högg að sækja á svæðinu en þó er bæði sauðfjárbúskapur og mjólkurframleiðsla rekin af myndarskap á þó nokkrum jörðum í sýslunni. Því eru margir möguleikar á bættri nýtingu og fullvinnslu afurða af svæðinu og hægt að bæta arðsemi af rekstri verulega með aukinni verðmætasköpun á heimavelli. Fyrirtæki og sveitarfélög í Barðastrandarsýslu eru mjög meðvituð um vistvæna og góða umgengni við náttúru og lífríki og mörg fyrirtækjanna eru með lífræna vottun eða annars konar viðurkenndar umhverfisvottanir á framleiðslu sinni sem styrkir verulega stöðu þeirra í samkeppni. Slík vottun er svæðinu í heild til framdráttar við markaðssetningu á vörum og þjónustu þar sem umhverfisvitund almennings eykst stöðugt.

Markmið verkefnisins Vor í lofti 2014 er að styðja við hugmyndir sem frumkvöðlar á svæðinu búa yfir og aðstoða þá við að koma hugmyndunum í framkvæmd. Slík aðstoð við hugmyndir leggur öflugan grunn að sprotaverkefnum sem síðan geta vaxið og dafnað í höndum heimamanna og þannig lagt sitt af mörkum til að efla atvinnulíf og samfélagið í heild sinni á sunnanverðum Vestfjörðum. Þær hugmyndir sem hljóta aðstoð Matís munu eiga það sameiginlegt að hægt verður að sjá áþreifanlegan árangur á verkefnistímanum og að minnsta kosti þrjár fullmótaðar hugmyndir, vörur eða viðskiptaáætlanir verði til á þeim tólf mánuðum sem átaksverkefnið mun standa. Gert er ráð fyrir að afrakstur verkefnisins Vor í lofti 2014 verði formlega kynntur haustið 2014 og afurðir þeirra sem tekið hafa þátt í uppbyggingunni kynntar við það tækifæri.

Verkefnið hefur þegar verið kynnt á opnum fundum sem haldnir voru á fjórum stöðum, Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og Barðaströnd, um miðjan desember og voru viðtökur heimamanna prýðisgóðar. Framundan er nánari útfærsla á þeim hugmyndum sem fram hafa komið og tekin ákvörðun um þau verkefni sem verða hluti af átaksverkefninu Vor í lofti 2014. Þeir sem sýnt hafa áhuga á þátttöku munu skilgreina hugmyndir sínar betur á næstu vikum í samstarfi við starfsfólk Matís og útbúa verkáætlun. Gert er ráð fyrir að vinna við vöruþróun og framkvæmd hverrar hugmyndar hefjist í byrjun febrúar þegar gerðir hafa verið samningar við samstarfsaðila og þátttakendur.

Verkefnið Vor í lofti 2014 er styrkt af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði Vestur-Barðastrandarsýslu og Matís auk þess sem verkefni frumkvöðla munu verða unnin í samstarfi við sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp eftir því sem við verður komið.

Nánari upplýsingar um verkefnið Vor í lofti 2014 gefur Lilja Magnúsdóttir, starfsmaður Matís á Patreksfirði (858-5085, liljam@matis.is).

Fréttir

Samningur Háskólans á Bifröst og Matís

Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst skrifuðu í dag undir samning þess efnis að Matís sjái um kennslu og uppbyggingu námsgreina í matvælarekstrarfræði, nýrri námslínu sem verður í boði í Háskólanum á Bifröst frá og með næsta hausti.

Námsgreinar sem Matís mun hafa yfirumsjón með tengjast beint innihaldi, meðferð og framleiðslu matvæla og spannar um fjórðung af námi í viðskiptafræði. Með umsjón með náminu tekur Matís skipuleggja og annast kennslu í mörgum þeim námskeiðum sem tengjast matvælarekstrarfræðinni beint. Námskeiðin eru til að mynda í næringarfræði, örverufræði matvæla, matvælavinnslu, matvælalöggjöf og gæðamálum.

Háskólinn á Bifröst ætlar að verða við kalli atvinnulífsins um land allt sem í vaxandi mæli hefur áhuga á að auka nýsköpun og framþróun á sviði matvælaframleiðslu og rekstrar með því að bjóða upp á nám í matvælarekstarfræði frá og með haustinu 2014.  Lögð er áhersla á alla virðiskeðjuna frá frumframleiðslu að sölu til hins endanlega neytanda.  Námið er 180 ECTS og lýkur með BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á matvælarekstur og hægt verður að stunda það í fjarnámi og staðnámi eða blöndu af þessu tvennu.  

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins sem sinnir rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvæla- og fæðuöryggis. Matís gegnir umfangsmiklu hlutverki varðandi þjónustu á sviði rannsókna, menntunar og nýsköpunar. Lögð hefur verið áhersla á að mæta þörfum matvælaframleiðenda og frumkvöðla, í samstarfi menntakerfið, m.a. í formi hagnýtra verkefna með þátttöku nemenda og með kennslu ákveðinna námskeiða í matvælafræði og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu Þjóðanna.  Matís getur þannig boðið upp á kennara, tengsl við atvinnulífið og aðstöðu til bóklegrar og verklegrar kennslu.  Nú bætist Háskólinn á Bifröst í hóp samstarfsaðila Matís.

 Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst skrifuðu í dag undir samning þess efnis að Matís sjái um kennslu og uppbyggingu námsgreina í matvælarekstrarfræði, nýrri námslínu sem verður í boði í Háskólanum á Bifröst frá og með næsta hausti. Á myndinni er auk þeirra Guðjón Þorkelsson, sviðssjóri hjá Matís.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson.

IS