Fréttir

Ekkert því til fyrirstöðu að nýta meira af hráefnum úr jurtaríkinu í bleikjufóður

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrir stuttu var haldinn fundur á vegum verkefnisins Profitable Arctic charr farming in the Nordic countries. Markmið verkefnisins er að prófa nýjar fóðurgerðir fyrir bleikju sem innihalda meira af hráefnum úr jurtaríkinu en notað hefur verið í bleikjufóðri til þessa.

Verkefnið er styrkt af Norræna Nýsköpunarsjóðnum og er samstarf Íslendinga, Svía og Norðmanna. Verkefnisstjóri er Jón Árnason Matís ohf, en aðrir þátttakendur eru Háskólinn á Hólum, Fóðurverksmiðjan Laxá, Sænski landbúnaðarháskólinn, Polarfeed í Noregi ásamt íslenskum, sænskum og norskum fiskeldisstöðvum. Í verkefninu voru prófaðar nýjar fóðuruppskriftir sem byggðar eru á  rannsóknum þátttakenda á getu bleikju til þess að nýta fóður sem inniheldur meria af hráefnum úr jurtaríkinu. Einnig hefur próteinþörf bleikju verið könnuð, en þær rannsóknir hafa sýnt að komast má af með minna prótein í bleikjufóðri en notað er í eldri uppskriftum. Þátttakendur á fundinum voru rúmlega 20.

Fóður fyrir lax og bleikju getur innihaldið umtalsvert magn af plöntuhráefni – jafnvel yfir 60%. Plöntuhráefni er ódýrara en fiskimjöl og mjög áhugaverður kostur til fóðurgerðar. Í verkefninu var prófað fóður með talsvert meiri útskiptingu fiskimjöls fyrir  plöntuhráefni en þekkt er í því fóðri  sem nú er algengast að nota í bleikjueldi. Flest bendir til að bleikjueldið geti orðið nettó framleiðandi af fiski, þ.e. framleitt meira af fiskipróteini en það sem notað er við framleiðsluna.

Jón Árnason, verkefnastjóri hjá Matís, heldur erindi

Tilraunirnar voru gerðar á fiskeldisstöðvum á Íslandi, Noregi og í Svíþjóð. Talið var mikilvægt að gera tilraunirnar í stórum eldiseiningum í fiskeldisstöðvum til að sannreyna að þessar fóðurgerðir skili sambærilegum árangri í eldi og hefðbundið fóður. Einnig voru gerðar nokkrar tilraunir á minni skala til  að kanna frekar áhrif fóðursins.

Niðurstöðurnar eru afar jákvæðar fyrir bleikjueldið. Vöxtur bleikju sem fóðruð var með nýju fóðurgerðunum var í Jflestum tilfellum sambærilegur við vöxt bleikju sem fóðruð var með hefðbundnu fóðri. Fóðurkostnaður var allt að 20% lægri með plöntufóðrinu, þó arðsemisávinningur væri mis mikill eftir tilraunum.  Bragðprófanir hjá neytendum og þjálfuðum bragðpanelum á Íslandi og í Svíðþjóð leiddu í ljós að fiskur sem framleiddur er með plöntufóðrinu er jafn bragðgóður og fiskur framleiddur með hefðbundnu fóðri. Plöntufóðrið virtist ekki hafa áhrif á velferð bleikjunnar. Hins vegar er líklegt að plöntufóður auki nokkuð losun á köfnunarefnis- og fosfórsamböndum út í umhverfið.

Fundargestir komu úr hópi fiskeldismanna, markaðsmanna og fóðurframleiðanda. Niðurstöður verkefnisins voru ræddar frá ýmsum hliðum.

Samhljómur var um að þær niðurstöður sem kynntar voru ættu ekki að rýra það góða orðspor sem fer af bleikju frá Norðurlöndum á mörkuðum. Niðurstöðurnar  gætu jafnframt  leitt til aukinnar hagkvæmni og sjálfbærini í bleikjuframleiðslunni. Minni notkun fiskimjöls og lýsis í bleikjufóðri hefur bæði efnahagslega og markaðslega þýðingu.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.