Fréttir

Gestir frá löndum Afríku, Mið-Ameríku og Asíu kynna sér starfssemi Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í dag munu hátt settir embættismenn frá fjölmörgum löndum Afríku, Mið-Ameríku og Asíu setjast á skólabekk í Matís og kynnast starfssemi Matís og Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP) en Matís er mikilvægur hlekkur í námi skólans og sér umkennslu á gæðalínu hans.

Tilgangur heimsóknar þeirra er fyrst og fremst að öðlast dýpri skilning á því sem skólinn hefur ypp á að bjóða fyrir íbúa þeirra landa og heimsálfa. Í ferðinni eru hátt settir embættismenn sem hafa með það að gera hverjir komast í námið á Íslandi og því mikilvægt að þekkja vel hvernig skólinn gengur fyrir sig.

UNU-FTP

Auk þess að heimsækja Matís þá munu gestirnir kynna sér starfssemi Hafrannsóknastofnunarinnar, Háskólans á Akureyri og annarra samstarfsaðila skólans en í samstarfi við skólann eru fjölmörg innlend sjávarútvegsfyrirtæki.

Um samstarf UNU-FTP og Matís

Meðal samstarfsverkefna sem Matís tekur þátt í er Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna en auk Matís standa að skólanum Hafrannsóknastofnunin, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólans á Hólum. Verkefni nemenda við skólann eru öll unnin með þarfir í heimalöndum nemendanna í huga. Þannig hafa verkefni í gegnum tíðina fjallað um gerð gæðastuðulsskala fyrir makríl, um áhrif sorbats og kítosans á geymsluþol makríls, um kennsluefni fyrir gerð HACCP kerfis í fiskiðnaði í Norður-Kóreu og um uppsetningu rekjanleikakerfis á innanlandsmarkaði í Kína svo örfá dæmi séu tekin.

Samstarf Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Matís hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Auk grunnnáms, sem allir nemendur skólans fá hjá Matís, annast fyrirtækið sex vikna sérnám og á hverju ári vinna nokkrir nemenda skólans lokaverkefni hjá Matís. Því til viðbótar stundar reglulega nokkur fjöldi nema skólans doktors- og meistaranám hjá fyrirtækinu og því má í raun með sanni segja að Matís sé hluti af skólanum.

Heimasíða Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson hjá Matís.