Fréttir

Hve ferskur er fiskurinn?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Smáforrit fyrir iPhone og Android. Nú er hægt er að meta ferskleika fisks með hjálp smáforritsins „Hve ferskur er fiskurinn?“ (How fresh is your fish?). 

Smáforritið byggir á aðferðafræðinni Quality Index method (QIM) sem er stöðluð aðferð til að meta ferskleika fisks og var þróuð í áralangri samvinnu nokkurra rannsóknastofnana í Evrópu (www.qim-eurofish.com).  Árið 2001 var gefin út handbók um skynmat á ferskum fiski á 11 tungumálum á vegum fiskrannsóknastofnana á Íslandi, Hollandi og Danmörku sem smáforritið byggir á. Handbókin inniheldur leiðbeiningar um skynmat á fiski ásamt myndum, matsskölum og útreikningum á geymsluþoli fyrir þorsk, ýsu, síld, úthafsrækju, innfjarðarrækju, pillaða rækju, ufsa, karfa, lax, skarkola, slétthverfu, sólflúru og sandhverfu.  QIM aðferðin er nú notuð um heim allan. „Þessi matsaðferð er sú besta á markaðnum til að meta ferskleika fisks. Þú þarft ekki að vita hve gamall fiskurinn er þar sem forritið reiknar út hve lengi fiskurinn getur haldist ferskur“ segir Joop Luten verkefnisstjóri hjá QIM Eurofish. Joop Luten starfaði áður hjá Nofima og var prófessor í sjávarútvegsdeild Háskólans í Wageningen. Hann er aðalhvatamaður að þróun þessa árangursríka smáforrits. „Það er mjög mikilvægt að fiskurinn haldi sem mestum gæðum í gegnum allan framleiðsluferilinn, frá veiðum til vinnslu, í gegnum flutninga og allt til fisksalans. Smáforritið er hægt að nota í gegnum alla vinnslukeðjuna að því gefnu að fiskurinn sé hrár, ferskur og slægður” segir Joop Luten.

Smáforritið var hannað af Nofima í Noregi en einnig komu fleiri rannsóknastofnunum eins og Matís að uppsetningu þess. Smáforritið er notað við að meta ferskleika fisks og er til fyrir iPhone og Android, er ókeypis og ætlað fyrir fisksala, fiskframleiðendur, fiskeftirlit, gæðamat, í kennslu og fyrir neytendur sem vilja meta ferskleika eða áætla geymsluþol fisks.

Smáforritið fyrir iPhone var fyrst kynnt í maí 2011 á Evrópsku sjávarútvegssýningunni í Brussel. Önnur útgáfa var kynnt á Sjávarútvegssýningunni í Bremen í febrúar 2012 og í þeirri útgáfu var ferskleikamati fyrir fleiri fisktegundir bætt við. Í desember 2012 var bætt við ferskleikamati fyrir léttsaltaða síld (Maatjesherring). Smáforrit fyrir Android var tilbúið í september 2013.

Hægt er að meta fjölda tegunda með smáforritinu; þorsk, ýsu, síld, úthafsrækju, innfjarðarrækju, pillaða rækju, ufsa, karfa, lax, skarkola, slétthverfu, sólflúru og sandhverfu og einnig léttsaltaða síld (Maatjesherring).  Smáforritið er til á 11 tungumálum; ensku, norsku, íslensku, hollensku, grísku, spænsku, portúgölsku, frönsku, þýsku, dönsku og ítölsku.

Smáforritið inniheldur meðal annars upplýsingar um geymsluþol fisktegunda. Hægt er að setja inn myndir með niðurstöðum og niðurstöður er hægt að geyma og senda niðurstöður með tölvupósti.

Besta matsaðferðin

Smáforritið gefur mikla möguleika á skráningu og eftirliti fyrir fiskframleiðendur og viðskiptavini þeirra. Fiskframleiðendur hafa metið fiskinn á svipaðan hátt með skynmati. Smáforritið gefur þeim möguleika til að meta fiskinn með meiri skilvirkni. Viðskiptavinir þeirra geta einnig notað smáforritið við gæðamat þegar þeir fá fiskinn og sent niðurstöðurnar til baka. Þannig fá báðir aðilar fljótari úrlausnir ef vandamál hafa komið upp t.d. í flutningi. Niðurstöður matsins og myndir er hægt að geyma í gagnagrunni.

Smáforritið aðstoðar þig í nokkrum skrefum við að meta hversu ferskur fiskurinn er

Smáforritið inniheldur leiðbeiningar við mat á gæðaþáttum eins og á augum, roði og tálknum fisksins og hægt að skoða myndir á meðan matið fer fram.

Auðskiljanlegar niðurstöður

Niðurstöður matsins sýna hversu ferskur fiskurinn er og í hve langan tíma hann ætti að haldast neysluhæfur. Niðurstöður eru sýndar á myndrænan hátt með línuritum.

Auðvelt að geyma niðurstöður og finna þær

Öll atriði úr hverju ferskleikamati eru geymdar í gagnagrunni og hægt er að bæta myndum við niðurstöðurnar. Auðvelt er að endurheimta niðurstöður úr hverju mati.

Hægt er að sækja smáforritið fyrir iPhone á iTunes og Android útgáfuna á Google play

Frekari upplýsingar um skynmat á fiski og QIM aðferðina má nálgast á Kæligáttarvef Matís og heimasíðu Matís.