Fréttir

Upplýsingar vegna IPA verkefnisins Örugg matvæli – fréttatilkynning frá Matvælastofnun (MAST) og Matís

Að gefnu tilefni skal upplýst að verkefnið Örugg matvæli, sem var hluti af IPA áætluninni, er mikilvægt til að tryggja enn frekar matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur óháð inngöngu í ESB.  Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun (MAST) og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna (HES) betur kleift að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi og neytendavernd, en þær hafa nú þegar verið innleiddar á Íslandi í gegnum EES samninginn.

  • Samkvæmt  reglugerð er skylda að mæla að minnsta kosti 190 varnarefni í matvælum og krafist er getu um að mæla minnst 300 varnarefni.
  • Í dag eru einungis mæld 63 varnarefni og því ekki vitað hvort önnur varnarefni séu til staðar í matvælum hér á landi.
  • Sýni af náttúrulegum eiturefnum s.s. sveppaeiturefnum og sýni til mælinga á eiturefnum í skelfiski þarf í dag að greina erlendis.
  • Árið 2011 mældust 8 af 276 eftirlitssýnum vegna varnarefna yfir leyfilegum mörkum, en árið 2012 mældust 3 af 275 eftirlitssýnum yfir leyfilegum mörkum. Það sem af er árinu hafa 5 af 140 eftirlitssýnum innihaldið varnarefni yfir leyfilegum mörkum.
  • Nýjasta dæmið er að 6. ágúst 2013 var innflutt spínat innkallað af neytendamarkaði vegna varnarefnis sem greindist í vörunni og sem ekki er heimilt að nota við ræktun matjurta í Evrópu.

Bakgrunnur

Ísland hefur haft undanþágu til að greina færri varnarefni í matvælasýnum, en EES reglur gera kröfu um, á meðan unnið væri að úrbótum á efnagreiningum. Forsendur fyrir þessari undanþágu og nauðsynlegum úrbótum falla burt ef ekkert verður af framkvæmd verkefnisins „Örugg matvæli“, sem jafnframt nær til fleiri aðskotaefna og efnisþátta í matvælum. Eins og horfur eru í dag og ef íslensk stjórnvöld geta ekki brugðist við, er matvælaöryggi á Íslandi stefnt í hættu frekar en að vinna að nauðsynlegum úrbótum í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir og skuldbindingar.

Neytendur verða að geta gengið að því vísu að matvæli hérlendis ógni ekki heilsu þeirra og ofangreint verkefni er liður í að tryggja það. Því tengist þetta verkefni fyrst og fremst því að framfylgja núgildandi reglugerðum sem snúa að bættu matvælaöryggi á Íslandi.

Það er grundvallaratriði fyrir neytendur að geta treyst því að sá matur sem þeir kaupa og neyta ógni ekki heilsu þeirra. Lykilmarkmið þessa verkefnis er að auka enn frekar matvælaöryggi á Íslandi og vernda neytendur með því að tryggja heilnæmi matvæla á íslenskum markaði. Verkefnið er því knýjandi til að Ísland geti staðið við allar þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist með samþykkt og framkvæmd matvælalöggjafar á EES.

Stuttur viðbragðstími er lykilatriði við uppákomur sem ógna matvælaöryggi. Ísland er landfræðilega einangrað og því þarf að tryggja að nauðsynleg rannsókna- og öryggisþjónusta sé ávallt til staðar í landinu. Í því skyni hefur MAST gert öryggis- og forgangsþjónustusamning við Matís um matvælaöryggi. Matís er opinber rannsóknastofa sem m.a. ber ábyrgð á að greina helstu sýkla og mengun í matvælum sem líklegt er að finnist á Íslandi en fyrirtækið veitir líka ráðgjöf um sýnatöku, greiningu á matvælasýnum og tekur þátt í áhættumati um matvælaöryggi.

Verkefnið Örugg matvæli var sett af stað til að vinna að uppbyggingu nauðsynlegs tækjabúnaðar til að greina varnarefni, aðskotaefni og önnur efni sem geta fundist í matvælum. Starfsfólk rannsóknaaðila og eftirlitsaðila á jafnframt að þjálfa í notkun búnaðar, löggjöf, sýnatökum og gæðamálum, sem tengjast matvælaeftirliti og matvælarannsóknum. Þetta eru verkefni sem í raun felast í núgildandi löggjöf, sem gerir kröfur um sýnatökur og greiningar, ásamt því að eftirlitsfólk fái nauðsynlega þjálfun og eftirlit byggist á áhættumati og skráðum verklagsreglum.

Upphaflega stóð til að fjármögnun verkefnisins kæmi í gegnum IPA styrk, en í ljósi þess að sá styrkur fæst að líkindum ekki, er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld fjármagni verkefnið og vinni þá jafnvel að lausn þess með aðkomu erlendra samstarfsaðila MAST og Matís, sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum.

Nánari upplýsingar veita Ingibjörg Jónsdóttir hjá Matvælastofnun og Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Ölum við fiska á diska framtíðarinnar?

Vöxtur fiskeldis á Íslandi hefur verið hægari en ætla mætti vilji Íslendingar gegna sama hlutverki við matavælaframleiðslu úr fiskmeti og þeir hafa gert hingað til. Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís telur að frekari rannsóknir og þróunarvinnu þurfi til að efla fiskeldi hérlendis.

Samkvæmt spám síðustu ára mun eftirspurn eftir fiskmeti og sjávarfangi aukast umtalsvert en ljóst þykir að veiðar á villtum fiski muni ekki anna þeirri eftirspurn ef fram fer sem horfir. Því eru vonir bundnar við fiskeldi og að eldisfiskur muni mæta aukinni eftirspurn.

„Fiskeldi hefur vaxið hratt á heimsvísu, en sami gangur hefur ekki verið í íslensku fiskeldi,“ segir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisaukningar og eldis hjá Matís. Hann segir Íslendinga hafa aflað upp undir 2% af heimsafla veidds fisks, en Íslendingar ali eingöngu um 0,01% af heildar fiskeldisframleiðslu heimsins. „Vilji Íslendingar gegna sama hlutverki við matvælaframleiðslu úr fiskmeti hér eftir sem hingað til, er ljóst að mikið verk er fyrir höndum,“ segir Arnljótur og bætir við að Íslendingar hafi gert sér vonir um mun öflugra fiskeldi hér á landi en reyndin hefur orðið.  „Hvort sem sjónum er beint að fæðuöryggi á norðurslóðum eða öryggi þeirra matvæla sem framleidd eru hér og seld víða um heim, er augljóst að íslenskt fiskeldi verður að vaxa. Því verður að vanda til verka við rannsóknir í þágu fiskeldis og við þróun þess hér á landi. Bleikja sem hefur fram að þessu borið uppi fiskeldi á Íslandi  er smátegund í hnattrænu samhengi,“ segir Arnljótur.

Lengi býr að fyrstu gerð

Arnljótur segir að við uppbyggingu á eldi sé að mörgu að hyggja og mikilvægt að beita vönduðum faglegum vinnubrögðum á öllum stigum eldisferla. „Margir þættir þar á meðal hreysti fiska er háð arfgerð þeirra. Vísbendingar eru um að þróun á fyrstu stigum eldis geti skilað ávinningi á síðari stigum og því þarf að huga vel að fyrstu gerð í eldinu þar sem gjörvileiki fiska getur komið í ljós snemma á lífsleiðinni. Til að hámarka arðsemi fiskeldis þarf að vanda atlæti fiskanna og huga að að hagkvæmni einkum við fóðurgerð og fóðrun.“

Veldisvöxtur ekki sjálfgefinn

„Sú var tíðin að spár um fiskeldi í framtíðinni virtust byggja á veldisvexti en nú eru spár Landsambands fiskeldisstöðva grundvallaðar á varfærnara mati þ.e. spá, háspá og lágspá. Þó Íslendingar ætli sér ekki að tvöhundraðfalda fiskeldisframleiðslu fram til 2030,  er ljóst að tækifæri eru til aukins eldis á Íslandi. Eldi á framandi tegundum kann að reynast tekjumyndandi fyrir samfélagið, einkum þar sem aldar tegundir gefa af sér afurðir sem seljast við hátt verð s.s. sæeyra eða Senegalflúra. Eins getur gæðalax skapað gjaldeyri, þó okkar sigur vinnist varla á magni geta gæði skilað verðmætum. Innkoma nýrra aðila í íslenskt fiskeldi, á borð við Fjarðarlax, Arnarlax og Stolt Sea Farm, gefur fyrirheit um að Íslendingar geti haslað sér völl í eldi fiska sem seljast á velborgandi mörkuðum.“

Að mati Arnljóts verða nýir og stórir sigrar vart unnir í fiskeldi nema með öflugu rannsókna- og þróunarstarfi. Hið sama gildir hvorttveggja um eldi og veiðar að meiru skiptir að sem hæst verð fáist fyrir allt það sem er framleitt fremur en að leggja ofurkapp á magn. Vert er að hafa það í huga þar sem útlit er fyrir að umfang fiskeldis á Vestfjörðum nái fyrr en seinna að jafna umfang veiða Vestfirðinga á villtum fiski.[1] „Með því að leggja fram fjármuni til að sinna rannsókna- og þróunarstarfi, má vinna markvisst að því að aðlaga fiskeldi að íslenskum aðstæðum sem eru ekki í einu og öllu sambærilegar við eldisaðstæður samkeppnislanda okkar.“

Rannsóknir og þróun lykilatriði

Menn leita stöðugt betri lausna og velta því steinum, stórum og smáum, innanlands sem utan til að auka, bæta og vanda fiskeldi. Við höfum mýmörg dæmi um rannsókna- og þróunarvinnu sem hefur t.a.m. birst sem niðurstöður í Matís skýrslum jafnt sem ritrýndum fræðigreinum, og eru hagnýttar við kennslu í fiskeldi hjá Hólaskóla, og verið innleiddar í starf Hafrannsóknarstofnunarinnar. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa þó ekki síst komið fiskeldisfyrirtækjum til góða og orðið til hagræðingar og virðisaukningar í starfsemi þeirra. Nýleg dæmi um vinnu af þessum toga má t.a.m. finna í sértækri ábendingu um hvar þörf sé á frekari rannsóknum hvað varðar fitusýrusamsetningu fóðurs fyrir feitari fiska.[2] Þá má einnig benda á greiningu SINTEF og fleiri á mögulegri þróun norræns fiskeldis til ársins 2030.[3]

 
 Úr skýrslu Trond Rosten ofl. Perspectives for sustainable development of Nordic aquaculture. [4] Matís var meðal þátttakenda í PABAN verkefninu. Myndin sýnir mikilvæg svæði fyrir vöxt norræns fiskeldis.

Fréttir

Af hverju er engin íslensk vara meðal þeirra bestu?

Viðtal við Pál Gunnar Pálsson sem fylgst hefur með þróun íslenskra neytendavara úr fiski. En fáar slíkar vörur eru á boðstólnum og enn færri í útflutningi. Hvers vegna hafa Íslendingar nær einungis markað sér stöðu sem hráefnisframleiðendur?

Í tengslum við sjávarútvegsýninguna í Brussel ár hvert, eru veittar viðurkenningar fyrir nýjungar í ýmsum flokkum sjávarafurða svo sem smásöluvörum, vörum fyrir stóreldhús og veitingastaði, þægindavörum, nýjungum í pökkun smásöluvöru, frumleika og fyrir heilsteypta vörulínu. Að vinna til verðlauna á þessari sýningu þykir eftirsóknarverð viðurkenning, sem vekur töluverða athygli og auðveldar markaðssetningu í framhaldinu. Páll Gunnar Pálsson hjá Matís hefur fylgst með þessari keppni í mörg ár. Hann segist ekki minnast þess að hafa séð íslenskt fyrirtæki staðsett á Íslandi tilnefnt til verðlauna, og má í ljósi þess velta því fyrir sér hvers vegna við komumst ekki á stall meðal þeirra bestu í nýsköpun og vöruþróun.

„Á Íslandi er reyndar fremur lítið unnið af afurðum sem kalla má „value added products“, við höfum einhverra hluta vegna fests í hráefnisvinnslu fyrir erlenda stórkaupendur, sem nýta okkar hráefni til að framleiða eftirsóknarverðar neytendavörur þar sem uppruni fisksins er ekki lengur sýnilegur,“ segir Páll Gunnar.

„Sumir halda því fram að íslenskar sjávarafurðir séu þær bestu í heimi og selji sig meira og minna sjálfar, en við sem höfum unnið í bransanum vitum að svo er ekki. Það eru stórir hópar manna sem leggja mikið á sig, allt frá veiðum og út á markað, til að tryggja að kaupendur og síðar neytendur fái fyrsta flokks vöru á diskinn sinn. Að baki árangri okkar í að selja og markaðssetja íslenskan fisk býr þrotlaus vinna, rannsóknir og vöruþróun. Við höfum náð gríðarlega góðum árangri í meðhöndlun afla og vinnslu hráefnis, þar sem megináherslan er lögð á gæði, afköst og nýtingu. Tæknivæðing veiða og vinnslu er einstök og í framhaldi af því má spyrja sig hvers vegna eru ekki til nein íslensk vörumerki á neytendavörumarkaði eða hvers vegna við erum ekki að framleiða neytendavörur í ríkari mæli hér á landi en raun ber vitni.“

Íslenskur fiskur seldur undir erlendum merkjum

En þrátt fyrir að fáar neytendavörur séu í framleiðslu hér á landi um þessar mundir þá var töluvert um framleiðslu smásölupakkninga hér á árum áður. Páll Gunnar segir að megnið af því hafi hinsvegar verið lítið unnar vörur, oftast nær einungis hreinn fiskur, í flökum eða bitum. ,,Því miður er staðan sú, að megnið af þessari pökkun er farin úr landi og fiskinum er að mestu pakkað í stærri einingar sem hráefni í verksmiðjur erlendis eða fyrir stórnotendur svo sem mötuneyti og veitingahús. Vafalítið má finna rök fyrir því að með þessu séum við að hámarka arðsemi sjávarútvegsins og hugsanlega er hagkvæmara að láta verksmiðjur erlendis um samsetningar og pökkun þar sem uppruni hráefnisins hverfur.“

Hvers vegna hafa Íslendingar ekki náð tökum á framleiðslu verðmætrar neytendavöru fyrir innlendan og erlendan markað? Er ekki áhugi á íslensku hráefni, erum við of langt frá mörkuðum eða höfum við sofnað á verðinum og þar af leiðandi orðið af talsverðri verðmætasköpun?

Vandamálið liggur hvorki í fjarlægð né tollum

„Það er oft nefnt að við séum of langt frá okkar helstu mörkuðum, en það stenst nú tæplega skoðun þegar sjá má fyrirtæki frá SA-Asíu og Ameríku komast í verðlaunasæti í tengslum við sýningarnar. Ein röksemd fyrir fátækt okkar í fullvinnslu sjávarafurða er sú að þegar samsettar vörur eru unnar hér á landi þá lendum við í tollum og stöndumst þar af leiðandi ekki verðsamkeppni. Tæplega eru Asíu- og Ameríkulönd með betri samninga en Ísland við Evrópusambandið, en ef svo er þá þarf virkilega að spýta í lófana og koma í veg fyrir að vera tolluð út af mörkuðum Evrópu,“ segir Páll Gunnar og bætir við: „Á þeim þremur áratugum sem ég hef unnið í íslenskum sjávarútvegi þá hef ég komið að mörgum verkefnum sem tengdust vinnslu á neytendavörum fyrir erlenda markaði, mörg þessara verkefna tókust með eindæmum vel og tókst okkur oft að byggja upp sterk og góð tengsl við kaupendur. Við náðum að uppfylla strangar kröfur markaðarins um gæði, en það sem reyndist erfiðara var að tryggja rétt magn á réttum tíma þar sem útgerðarmynstrið var ekki alltaf að passa við þarfir markaðarins, en alltaf hafðist þetta þó á endanum.“

„Stærsti óvinurinn í þessari viðleitni að framleiða neytendavörur reyndist vera verð og gengisþróun. Þegar verið er að framleiða neytendavörur sem eiga að vera í hillum verslana á réttum tíma og á sama verði til lengri tíma þá þarf að gera langtíma samninga. Verðum í verslunum erlendis er ekki breytt nema að eftir því verði tekið og útilokað er að flytja út íslenskar gengissveiflur. Kaupendur geta skilið að erfitt sé að hafa alltaf réttu tegundina í réttu magni á réttum tíma, því hér er verið að ná í hráefni úr villtum fiskistofnum, en þegar kemur að óskum um verðbreytingar vegna breytinga á gengi íslensku krónunnar þá mætum við ekki sama skilningi.“

Línuritið hér fyrir ofan sýnir verð á lausfrystum þorskflakabitum í 1 kg. pakkningu hjá stórfyrirtæki í Þýskalandi, en útsöluverð þessarar vöru hefur ekki breyst síðan í janúar 2009 til dagsins í dag og kostar 16,95 €/kg, en ef miðað er við íslenskar krónur þá hefur verðið sveiflast um tugi prósenta. Svo það gefur augaleið að framleiðsla hér á landi á svo breytilegu skilaverði er ekki einföld.

Íslensk hráefni hefur forskot

Er þá hægt að draga þá ályktun að gjaldmiðillinn sé okkar akkilesarhæll? ,,Það er að mörgu að hyggja þegar draga skal stórar ályktanir og alls ekki víst að allir séu sammála því að gjaldmiðillinn sé okkar helsti óvinur í þessum efnum, enda ber íslenska krónan örugglega ekki ein ábyrgð á þeirri staðreynd að íslenskar sjávarafurðir sjást ekki meðal þeirra bestu þegar kemur að vöruþróun og nýsköpun fyrir neytendavörumarkaðina. En í stað þess að skammast út í það hvers vegna við erum ekki með vörur og fyrirtæki meðal þeirra bestu á neytendavörumarkaði þá væri nær að spyrja hvað þurfum við að gera til að komast þangað. Og velta því jafnframt fyrir okkur hvort það sé áhugavert og hagkvæmt að framleiða vörur sem eru töluvert verðmætari en það sem erum að gera í dag. Vissulega er það ekki gert án viðbótarkostnaðar því með auknum verðmætum þarf að bæta við kostnaði, fjárfestingu, viðbótarhráefni, launum o.s.frv., en það þarf líka í verksmiðjunum erlendis svo hvers vegna ekki hér, þar sem ferska hráefnið er til staðar.“

En er þessi leiðangur einhvers virði, er sérstaða íslenskra sjávarafurða raunveruleg? „Að hafa aðgang að fersku hráefni ætti að geta skapað töluvert forskot á þá sem þurfa að reiða sig á fryst hráefni af misjöfnum gæðum, tenging við upprunann og þá jákvæðu þætti sem Ísland hefur upp á að bjóða ætti ekki heldur að skemma fyrir.“

Íslenskar vörur hafa sett svip sinn á erlenda markaði

Páll Gunnar segir verðmætaaukninguna eiga sér stað eftir því sem hlutur fisksins minnkar í endanlegri vöru og þægindi neytandans aukast. Hann segir að verðmætasköpunin verði ekki síst þegar talað er um störf í framleiðslu, vöruþróun og markaðssetningu. „Það er í raun mikil synd að ekki hafi tekist að halda úti og þróa áfram þá smápakkavinnslu sem var komin í gang hér á landi á níunda áratug síðustu aldar. Þá var verið að framleiða milljónir eininga af neytendapakkningum fyrir nokkur af þekktustu vörumerkjum Evrópu.“

„Á undanförnum árum og áratugum höfum við Íslendingar lagt mikið upp úr fjölbreyttum rannsóknum á meðhöndlun og frumvinnslu sjávarafurða, en við höfum sáralítið ef nokkuð fjárfest í rannsóknum á erlendum neytendavörumarkaði, við þurfum að þekkja væntingar neytenda sem á endanum borða okkar fisk, þá fyrst getum við stundað öfluga vöruþróun og nýsköpun. Við getum ekki endalaust bætt nýtingu eða aukið afköst og ekki verður magnið, sem við erum svo hrifin af að horfa á, orðið mikið meira, það þarf að auka veg fullvinnslu og þekkingu á þörfum og væntingum neytenda. Nú er mikið talað um matvælalandið Ísland og trúlega bíða okkar mörg tækifæri á þeim vettvangi, en hvernig ætlum við að láta þá sýn rætast?“

Það verður ekki nóg að horfa bara á hvað við getum gert til að framleiða meira, við verðum að fjárfesta í þekkingu, vöruþróun og markaðssetningu og síðast en ekki síst að tryggja íslenskum vörum aðgengi að erlendum mörkuðum, fjarlægðin frá fjölmennum neytendamörkuðum ein og sér er alveg nógu stór þröskuldur þó við smíðum ekki fleiri og stærri.

Fréttir

Heilsuspillandi bakteríur leynast víða

Vissir þú að í vatnsúða geta leynst Legionella bakteríur, sem eiga það til að valda Hermannaveiki? Slíkt er þó óalgengt hér á landi, en Matís hefur nú hafið mælingar fyrir Legionellu bakteríusmiti.

Á sviðinu Mælingar og miðlun hafa nýjar mælingar hafist á Legionellu bakteríu í vatni. Bakterían berst með örfínum svifúða frá vatnsleiðslum eða vatnstönkum í lungu fólks og getur valdið alvarlegum sjúkdómum á borð við Hermannaveiki.  Vitað er um tilfelli eftir svifúðamyndun út frá gufu-og rakagjafa í grænmetisborðum í matvöruverslunum eða út frá heitum nuddpottum, en smit eiga sér oftast stað í heitara loftslagi þar sem kæliturnar og loftkæling er víða.  Hér á landi hafa greinst eitt til tíu tilfelli Legionellusýkingar á ári, ýmist af innlendum uppruna eða eftir dvöl á hótelum erlendis en lögum samkvæmt er Legionellasýking tilkynningaskyldur sjúkdómur til Landslæknisembættisins og ef grunur leikur á smiti ber að rannsaka smithættu og uppruna með sýnitöku.

Hérlendis er almennt talin lítil hætta á að bakterían geri vart við sig, þar sem lítið eru um uppsöfnun á vatni í tönkum. Þar sem slíkt á sér stað er þó um að gera að passa upp á hreinlæti og þrífa tankana reglulega.

Fréttir

Útflutningsverðmæti grásleppuafurða aukast um 300 milljónir

Ný reglugerð um grásleppu kallaði á nýja markaði og vinnsluaðferðir sem hafa skilað talsverðum arði og verið atvinnuskapandi. Nýtingin hefur líka batnað til muna en hér á landi voru einungis hrognin nýtt sem nemur um 30% af heildarþyngd fisksins.

Árið 2010 gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð nr 1083/2010, en með henni var sjómönnum gert skylt að koma með allan grásleppuafla að landi eftir árið 2011. En fram að því höfðu öllu jafnan, einungis hrognin verið hirt og restinni fleygt í sjóinn. Áður en lögin tóku gildi var ljóst að ekki var stór markaður hérlendis fyrir grásleppu. En með miklu frumkvöðlaframtaki síðastliðna ára hafði tekist að byggja upp markað fyrir grásleppu í Kína þar sem Landssamband smábátaeigenda og útflutningsfyrirtækið Triton spiluðu lykilhlutverk.

Verð á grásleppu fer hækkandi

Til að bæta við þekkingu á þessari vannýttu tegund sótti Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði ásamt Matís um styrk til AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi fyrir verkefnið „Bætt nýting grásleppuafurða“. Í verkefninu voru tekin sýni frá veiðisvæðum frá Skjálfanda og vestur og suður úr alla leið í Faxaflóa. Þannig fékkst samanburður á grásleppu frá ólíkum veiðisvæðum og eins upplýsingar um efna- og næringarinnihald ásamt upplýsingum um aðskotaefni eins og þungmálma. Þetta eru grundvallarupplýsingar til að selja vöru og finna henni nýja og spennandi markaði. Rannsóknir voru unnar hjá rannsóknarstofum Matís við Vínlandsleið í Reykjavík.

Kína er góður markaður fyrir grásleppu, þar sem hún er flutt þangað með hvelju og öllu saman en í því samhengi er rétt að taka fram að hrognin eru um 30% af þyngd grásleppu en hveljan með haus og hala um 55% og þar af eru flökin aðeins 14% af heildarþyngd hennar. Slæging  fyrir Kínamarkað er þó ólík hefðbundinni slægingu og kallar á flóknari handbrögð og betri vinnuaðstæður en almennt eru fyrir hendi í litlum fiskibátum. Veiðar og vinnsla fyrir Kínamarkað hafa skilað verðmætum og ný tækifæri skapast í mörgum sjávarbyggðum við framleiðslu og útflutning auk þess sem að breyttar aðferðir við slægingu kalla á vinnslu í landi sem hefur verið atvinnuskapandi. Það er aðdáunarvert hvað sjómenn hafa tekið þessum breytingum vel með því að yfirfæra vinnubrögð til áratuga og aðlaga sig að breytingum. Verð fyrir grásleppuna hefur farið hækkandi og er góð búbót fyrir grásleppusjómenn og skapar verðmæti í sjávarbyggðum.

Önnum ekki eftirspurn

Landssamband smábátaeigenda hefur allt frá árinu 1989 verið í samstarfi við áhugasama útflytjendur, vinnsluaðila og síðast en ekki síst Matís við að þróa vinnsluaðferðir og leita markaða fyrir grásleppuafurðir. Grásleppukarlar hafa fylgst með á hliðarlínunni með jákvæðu viðmóti, m.a. greiðslu í þróunar- og markaðssjóð LS sem notaður var vegna þessara mála. Jarðvegur fyrir breytingum var því frjór og uppskeran ríkuleg eins og sjá má á yfirstandandi vertíð með 300 milljóna auknu aflaverðmæti af grásleppuveiðum, sem skýrist aðallega af útflutningi á söltuðum grásleppuhrognum. Útflutningsverðmæti ársins 2012 námu rúmlega 2.3 milljörðum, og má því gera ráð fyrir því að grásleppan skili rúmlega 2.6 milljörðum í þjóðarbúið 2013. Markaðsaðstæður eru ágætar og horfur góðar þar sem enn er ekki hægt að anna eftirspurn Kínamarkaðar.

Fréttir

Varnarefni í skólamáltíð drógu börn til dauða

Við matvælaframleiðslu eru gjarnan notuð varnarefni, sem eiga að stuðla að betri uppskeru og koma í veg fyrir skaða af völdum illgresis, sveppa og meindýra. Reglugerðir eiga að vernda neytendur fyrir því að neyta þessara efna, en þrátt fyrir það liggja nú 22 börn í valnum eftir neyslu mengaðrar fæðu.

Nýlega bárust sorglegar fregnir frá Indlandi. En þar í landi höfðu 22 börn látist eftir að hafa neytt skólamáltíðar. Í Indlandi er talið að um það bil 120 milljón barna séu vannærð, en reynt hefur verið að sporna við því með matarátaki sem kallast „India Mid-Day Meal programme“ eða miðdags mataráætlunin. Henni er ætlað að sjá til þess að börn vítt og breitt um landið fái að minnsta kosti eina heita máltíð á dag í skólum landsins.

Mataráætlunin á sér langar rætur en hún hófst árið 1925. Almennt hefur verið mikil ánægja með verkefnið, en í mörgum tilfellum er hún eina heita máltíð dagsins og er jafnvel það eina sem þau fá að borða dag hvern. Gæði fæðunnar eru þó misjöfn milli landshluta. Í fátækari héröðum landsins vantar oft mikið upp á að fæðan og aðbúnaður í kringum matargerðina sé í lagi. Hreinlæti er gjarnan ábótavant og geymsluaðstæður slæmar, sem veldur því að skordýr gera sig heimakomnar í matarbirgðunum. Lítið sem ekkert eftirlit er af hálfu stjórnvalda með matnum sem boðið er upp á. Enda hafa komið upp alvarleg tilfelli matareitrana í skólum landsins sem oftast hafa verið rakin til óþrifnaðar.

Menguð steikingarolía

Nú liggja 22 börn í valnum eftir að hafa neytt máltíðar í skóla í Bihar héraði og 28 börn eru alvarlega veik. Máltíðin sem samanstóð af hrísgrjónum, kartöflum og sojabaunum er talin hafa innihaldið skordýraeitur af tegundinni monocrotophos sem er almennt hættulegt mönnum og sérstaklega börnum og getur valdið alvarlegum veikindum eða jafnvel dauða, þó þess sé einungis neytt í litlu magni. Rannsókn á atvikinu hefur leitt í ljós að eitrið barst í matinn með steikingarolíu, sem notuð var til matreiðslunnar. Olían hafði verið geymd í brúsa sem áður innihélt skordýraeitur.

Varnarefni á borð við þetta tiltekna skordýraeitur eru efni sem notuð eru við ræktun og geymslu matvæla svo sem ávaxta, grænmetis og kornvara, til að draga úr eða koma í veg fyrir skaða af völdum illgresis, sveppa og meindýra. Varnarefnum er yfirleitt skipt í fjóra flokka eftir notkun þeirra þ.e.  skordýraeitur, illgresiseyðar, sveppalyf og stýriefni (stjórna vexti plantna). Ákveðnar reglur gilda um notkun varnarefna á vaxtartíma, t.d. hve langur tími þarf að líða frá notkun þar til kemur að uppskeru. Þá gilda ákveðnar reglur um hvaða varnarefnaleifar (þ.e. leifar af varnarefnum eða umbrots-, niðurbrots- eða myndefnum þeirra) mega mælast í mismunandi matvælum og í hvaða magni. Rétt notkun varnarefna við framleiðslu og geymslu matvæla á að tryggja að litlar sem engar leifar þeirra finnist í matvælum sem tilbúin eru til neyslu.

Matís skimar fyrir varnarefnum

Á Íslandi fylgjum við reglugerðum Evrópusambandsins um hámark leyfilegra efnaleifa í matvælum. Þá gilda einnig strangar reglur um notkun slíkra efna og mörg efni sem áður voru notuð eru nú bönnuð, þar með talið efnið monocrotophos, sem olli veikindum og dauða indversku barnanna. Hér á Íslandi eru ávextir og grænmeti skimað fyrir varnarefnum, Matís sér um það fyrir Matvælastofnun Íslands (MAST) sem er opinber eftirlitsaðili. Í dag skimar Matís fyrir 63 varnarefnum í innlendum og innfluttum ávöxtum og grænmeti, ef varnarefni greinast yfir leyfilegum hámörkum fer í gang ákveðið ferli, sem leiðir alltaf til aukins eftirlits og  getur leitt til innköllunar.

Um þessar mundir er í gangi verkefni hjá Matís sem kallast „Örugg matvæli“ sem miðar að því að byggja upp tækjabúnað okkar til þess að geta aukið við rannsóknir og eftirfylgni með matvælum sem eru í framleiðslu og sölu hér á landi. En eitt af lögbundum hlutverkum Matís er að bæta matvælaöryggi hérlendis en það eru grunnur allrar matvælaframleiðslu. Magn matvæla og fæðuöryggi er einskis vert ef matvælin sem á að neyta eru ekki örugg.

Minnkum áhættuna – þrífum ávextina

Þrátt fyrir að fá dæmi séu um hættuleg aukaefni í matvælum á markaði hérlendis, ættu allir að tileinka sér að þrífa ávexti og grænmeti vel fyrir notkun, auk þess sem gott getur verið að skola vel af þurrvöru á borð við hrísgrjón. Þannig minnkum við líkurnar á neyslu óhollra aukaefna, sem seint verður hægt að forðast algjörlega þar sem þau tryggja einnig að við fáum ferska vöru sem vex nægilega hratt til að geta svarað eftirspurn.

Fréttir

Viltu koma þinni vöru á framfæri erlendis?

Særimner hátíðin verður haldin dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Þemað í ár er norræn matvælasköpun og hefur verið opnað fyrir skráningar, fyrir þá sem vilja kynna vörur sínar og taka þátt í sænsku meistarakeppninni í matvælaframleiðslu.

Særimner er sannkölluð hátíð þeirra sem tengjast smáframleiðslu matvæla á einn eða annan hátt, hún verður haldin dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Í ár er þemað „Norræn matvælasköpun“ sem tengist verkefninu „Ný norræn matargerð“ (e. New Nordic Food). Þar munu hittast smáframleiðendur til að kynna sínar vörur, miðla reynslu sinni og kynnast öðrum vörum. Þar verður einnig hægt að smakka á framleiðslu annarra og bjóða upp á slíkt, vilji fólk koma sínum vörum á framfæri.

Á ráðstefnunni verða einnig fjölmargir fyrirlestrar og málstofur sem tengjast matvælaframleiðslu á einn eða annan hátt. Til dæmis verður framtíð norrænnar matvælasköpunar til umræðu, þar sem stjórnmálamönnum er boðið að tjá sig. Þá verður málstofa um fiskverkun áður fyrr, norræn ber og geymsluaðferðir, mat og viðskipti, auk þess sem Brynhildur Pálsdóttir mun segja frá verkefninu „Stefnumót bænda og hönnuða“, sem Matís tók þátt í. Þá verður í boði ráðgjöf til smáframleiðanda sem vilja þróa vörur sínar áfram. Það er því ljóst að allir áhugasamir um smáframleiðslu matvæla geta fundið eitthvað við sitt hæfi á ráðstefnunni.

Sænska meistarakeppnin í matvælaframleiðslu

Á Særimner verður sænska meistarakeppnin (SM) í matvælaframleiðslu haldin í 17. skipti og að þessu sinni verður hún opin fyrir keppendum frá Norðurlöndunum. Keppt verður í 5 aðalflokkum sem eru: kjötvörur, fiskvörur, mjólkurafurðir, bökunarvörur og vörur úr berjum, ávöxtum og grænmeti. Undir hverjum aðalflokki eru svo ýmsir vöruflokkar. Í ár verða nokkrir nýir og spennandi vöruflokkar eins og mjólkursýrt grænmeti,  sinnep, sætabrauð og nýsköpun í matvörum. Fjöldi dómara, sérfróðir á sínu matvælasviði, dæma keppnina, sem fer fram fyrir opnum tjöldum. Til mikils er að vinna því þær vörur sem hljóta verðlaun í keppninni fá góða athygli sem mun auðvelda markaðssetningu þeirra. Allir keppendur fá dóma um sínar vörur frá dómurum, sem hjálpar til við áframhaldandi þróun vörunnar. Fulltrúi Íslands í dómarahópnum verður Óli Þór Hilmarsson, kjötiðnaðarmeistari og sérfræðingur hjá Matís.

Hátíðin er ætluð öllum sem hafa áhuga á matvælasköpun. Hún er mikilvægur vettvangur tengslanets milli smáframleiðanda, hugmyndaauðgandi og spennandi auk þess sem hún styrkir án efa smáframleiðendur í framleiðslu sinni.

Skráning á Eldrimner hófst 6. maí en opið er fyrir skráningar til 13. september. Eftir það er hægt að skrá sig gegn hærra skráningargjaldi. Öllum er frjálst að vera með og hvetjum við alla sem starfa á þessum vettvangi eða eru áhugasamir að láta sjá sig.

Frekari upplýsingar um hátíðina veita: Gunnþórunn Einarsdóttir, gunnthorunn.einarsdottir@matis.is og Óli Þór Hilmarsson, oli.th.hilmarsson@matis.is

Heimasíða Særimner: http://www.eldrimner.com/

Fréttir

3X Technology semur við HB Granda

Samstarfsaðili Matís til langs tíma skrifaði á dögunum undir samning við HB Granda sem leggur þar með grunninn að fyrirkomulagi um borð í ísfisktogurum til framtíðar.

3X Technology hefur nú gengið frá samningi við HB Granda um hönnun, smíði og innleiðingu heildarlausnar á vinnsludekki um borð í Helgu Maríu AK, en sem kunnugt er hefur Helga María lokið sinni síðustu veiðiferð sem frystitogari og mun verða gerð út sem ísfisktogari að afloknum breytingum. Lausnin byggir á rannsóknum, mælingum og vöruþróun sem unnin hefur verið í samstarfi íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, Matís og 3X Technology á undanförnum árum.

Jóhann Jónasson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir samstarfið með Matís hafa skipt sköpum: „Samstarf okkar og sú staðfasta sannfæring starfsfólks Matís og 3X Technology um að framtíð og megin tækifæri íslensk sjávarútvegs felist í að byggja á gæða framleiðslu er að skila þessu í höfn, því að fyrirtæki á borð við HB Granda er sömu skoðunar og þeir horfa til framtíðar með það fyrir augum að skila framúrskarandi og stöðugum gæðum til sinna viðskiptavina.“

Samningur sem þessi skiptir máli

„HB Grandi er án efa eitt öflugasta félag landsins og því er þessi samningur mikil viðurkenning fyrir okkar ágæta samstarf. Það er ríflega eitt ár síðan að þetta verkefni með HB Granda hófst og þessi áfangi er okkur afar kær og hafa margir starfsmenn frá þessum þremur fyrirtækjum lagt hönd á plóginn og skapað þennan árangur“.

Jóhann þakkar Matís kærlega fyrir samstarfið og segist hlakka til áframhaldandi samstarfs, enda hafi það gefið fyrirtækinu byr undir báða vængi. „Vinnsludekkið um borð í Helgu Maríu er eitt það fullkomnasta sem við hjá 3X höfum komið að í ísfisktogara og mun leggja sterkan grunn að framtíðar fyrirkomulagi um borð í slíkum skipum“.

Munur á afurðum

„Fyrr í vetur seldum við í  3X Technology íslenskum saltfiskverkanda, Fiskkaupum ROTEX búnað um borð í línu- og netaskipið Kristrúnu RE-177, en Fiskkaup selur saltfisk m.a. til Ítalíu. Ítalskir viðskiptavinir þeirra voru sáttir við vörurnar áður en eru nú mjög ánægðir, þeir segja að fiskurinn hafi nú bjartari blæ en áður. Það styður allt hvort annað, þó við sáum ekki auðveldlega mun á fisknum þegar hann var tekinn í hús þá er hann hvítari þegar hann er kominn á markað, það er eins og kom í ljós þegar fiskurinn, hráefnið, var mælt hjá Matís og niðurstöður þeirra mælinga bentu til að munur væri á fiski sem væri meðhöndlaður á hefðbundinn hátt og fiski sem fór í gegnum okkar ROTEX skipalausnir“.

Matís óskar 3X Technology innilega til hamingju með áfangann!

 
 Tölvuteikning af Rótex vinnsludekki

Fréttir

„Það gerir enginn gull úr skít“

Í dag afhenti Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðstjóri hjá Matís, Einari Kristni Guðfinnssyni forseta Alþingis 63 eintök af bæklingnum „Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski“, sem Matís lét endurprenta nú fyrir skemmstu.

Sjávarútvegsmál standa Íslendingum nærri, enda hefur sjávarútvegurinn verið ein af undirstöðu atvinnugreinum landsins og gjöful tekjulind. Því er ekki að undra að flestir hafi skoðun á sjávarútveginum og sérstaklega þingmenn. Í umræðu um sjávarútveg er þó sjaldan rætt um það sem öllu máli skiptir ef verðmæti á að vinna úr afurðunum, það er að segja, mikilvægi góðrar meðhöndlunar fisks frá því að hann er dreginn úr sjó, svo varðveita megi þau gæði sem fiskurinn býr yfir. Gæði eru grunnur verðmæta.

Því þótti við hæfi að afhenda alþingismönnum bæklinginn: „Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski“, sem var endurprentaður í sumar af Matís. Bæklingurinn tekur einkum á þeim fimm þáttum sem mestu skipta við meðhöndlun á fiski, nýdregnum úr sjó; blóðgun, slægingu, þvott, hreinlæti og kælingu. Víðtæk þekking á mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski á erindi við alla, ekki síður við þá sem ræða um stjórn veiða en þá sem veiðarnar stunda.

Forseti Alþingis ánægður með gjöfina

Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis og fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, tók við bæklingnum fyrir hönd alþingismanna. Hann var mjög ánægður með framtakið og sagði: „Þetta er mjög þarft og gott frumkvæði af hálfu Matís. Góð hráefnismeðhöndlun felur í sér enn frekari tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg og getur stuðlað að stóraukinni  verðmætasköpun. Fiskveiðistjórnarkerfi okkar hvetur til góðrar nýtingar á hráefninu. Þeir sem nýta fiskveiðiauðlindina hafa til ráðstöfunar tiltekið magn og  fyrir vikið skapast hvati til  sjómanna, útgerða og fiskvinnslu að búa til sem mest verðmæti  úr takmörkuðum aflaheimildum. Þeirra hagsmunir eru þess vegna í því fólgnir að fara vel með auðlindina hámarka afraksturinn.  Við höfum líka séð að verðmætasköpun á hvert veitt kíló hefur aukist ótrúlega mikið á síðustu árum. Það breytir því þó ekki að það er hægt að gera enn betur.“

„Við erum fjarri því að vera komin að einhverjum endimörkum. Tækifærin liggja víða, svo sem í bættri aflameðferð allt frá veiðum og þar til fiskurinn er orðinn að fullunninni vöru sem seld er á kröfuharða markaði, en einnig í alls konar aukaafurðum sem ekki voru nýttar en eru núna orðnar að miklum verðmætum. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróuninni á þessu sviði sem og samstarfi vísindamanna og þeirra sem í greininni starfa. Höfum það ávallt í huga að góðar auðlindir eru ekki  ávísun á verðmætasköpun, heldur það hvernig þær eru nýttar.“

Matvælaöryggi er grunnur fæðuöryggis

Hjá Matís er mikil áhersla lögð á nýsköpun og verðmæta aukningu sjávarafurða, en ljóst er að grunnur allrar matvælaframleiðslu er gott hráefni og sé ætlunin að hámarka verð afurðanna er ljóst að meðhöndlun hráefnisins þarf að vera eins og best verður á kosið, eða eins og Sigurjón Arason yfirverkfræðingur  Matís, hefur sagt: „það gerir enginn gull úr skít“, sem eru sannarlega orð að sönnu. Því lítilsvert er, að hafa nóg af fæðu, ef hún er ekki hæf til mannelds.

Fréttir

Fagur er kældur fiskur

Í Morgunblaðinu í dag birtist frétt um endurprentun Matís á bæklingi sem fjallar mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski. Bæklingurinn er ætlaður öllum þeim sem starfa á sjó við meðhöndlun fisks. Hægt er að nálgast hann hér á heimasíðunni.

Fyrir stuttu var bæklingur um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski endurprentaður af Matís. Bæklingurinn er tekur einkum á þeim fimm þáttum sem mestu skipta og er ætlaður nýliðum og þrautreyndum sjómönnum. Fyrri útgáfu var vel tekið, upplagið var uppurið, því var bæklingurinn endurprentaður. Morgunblaðið hafði samband við Arnljót Bjarka þar sem Vinnslu, virðisaukningar og eldissvið Matís stóð fyrir útgáfu og prentun bæklingsins.

Hér má lesa greinina eins og hún birtist í Morgunblaðinu:

Matís hefur endurprentað bæklinga um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski, nýdregnum úr sjó. Þar er einkum minnt á þá fimm þætti sem skipta mestu; blóðgun, slægingu, þvott, hreinlæti og kælingu.

Nýliðun hefur verið töluverð í útgerð smábáta en talsmaður Matís bendir þó á að leiðbeiningunum sé beint til allra sjómanna, hvort sem þeir starfa á smábátum eða stærri fiskiskipum. Vísbendingar séu þó um að sjómenn meðhöndli aflann með mismunandi hætti.

Starfsmenn Matvælastofnunar; MAST, og Fiskistofu framkvæmdu hitastigsmælingar í júnímánuði á lönduðum afla 240 báta. Mælingarnar voru alls 548 og fóru fram víðs vegar um landið. Þar reyndist hitastig aflans að jafnaði vera 3,2 gráður en samkvæmt gildandi reglugerð skal hitastigið vera undir 4 gráðum, fjórum klukkustundum eftir að aflinn er tekinn um borð. Um 70% aflans voru undir tilskildum mörkum. Um þriðjungur var því ekki með rétt hitastig. Um 7% bátanna komu með ókældan fisk að landi.

Lengi býr að fyrstu gerð

Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri vinnslu, virðisaukningar og eldis hjá Matís, segir aldrei of oft minnt á mikilvægi þess að meðhöndla fiskinn rétt, þannig að gæði hans séu tryggð til áframhaldandi vinnslu. Mælingar MAST og Fiskistofu bendi til að menn þurfi að taka sig á.

„Lengi býr að fyrstu gerð. Það skiptir máli að fiskur sé fagmannlega höndlaður frá því að hann er fangaður svo gera megi sem mest verðmæti úr aflanum. Gæðin eru grunnur allra verðmæta,“ segir Arnljótur.

„Blóðgun, blæðing og kæling eru lykilatriði um borð í þeim bátum sem rúma ekki slægingu, en þar sem því verður við komið eru blóðgun, blæðing, slæging og kæling lykilatriðin,“ segir hann ennfremur.

Arnljótur bendir á að sumarþingið hafi breytt stærðarmörkum krókaaflamarksbáta og heimili nú stærri báta. Í stærri bátum sé mikilvægt að hafa góða aðstöðu um borð fyrir slægingu. Kæling sé mjög mikilvægt atriði og nauðsynlegt að halda lágu hitastigi á aflanum alla leiðina í land. „Aflinn þarf að standast þær kröfur sem fiskvinnslan gerir til hans. Vinnsla og sala á fiski snýst um traust. Menn þurfa að tryggja að geta selt fisk aftur. Fæstir leggja upp með að þetta séu einskiptis-viðskipti, menn vilja væntanlega geta endurtekið leikinn. Þetta snýst alltaf um virðingu fyrir umhverfi, hráefni og neytendum,“ segir Arnljótur Bjarki.

Matís hefur búið til ísreikni sem gefur upplýsingar um áætlaða ísþörf miðið við aðstæður hverju sinni. Reiknivélina má nálgast á fræðsluvef Matís: Ísþörf (ísreiknir)

Bæklingurinn: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/Mikilvaegi-godrar-medhondlunar-a-fiski.pdf 

Einblöðungur: http://www.matis.is/media/einblodungar/a4_medhondlun_fisks.pdf   

Frétt MAST. https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/afli-skal-vera-undir-4c-egar-honum-er-landa

IS