Fréttir

Lausfrysting á grænmeti gefur góða raun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Lausfryst grænmeti, blómkál og spergilkál, var verkefni sem unnið var haustið 2012 af Matís og Sölufélagi garðyrkjumanna. Nú um ári síðar eru komnar allar niðurstöður um viðbrögð markaðarins.

Í byrjun verð gerð neytendakönnun hjá um 120 fjölskyldum sem gáfu mat á íslensku og innfluttu grænmeti í blindprófi. Einnig var grænmetið prófað í matvælavinnslu þar sem það var notað í samsetta rétti þar sem venjulega er notast við innflutt grænmeti og núna síðast var grænmetið boðið til sölu í völdum verslunum.

Það er samdóma álit allra sem reynt hafa þetta íslenska lausfrysta grænmeti, að það er mun betra en það innflutta, fyrst og fremst er það ferskleikinn og það er einnig mun léttara í sér en það innflutta þ.e. að það inniheldur mun minna vatn.

Í Vestmannaeyjum var það Grímur kokkur sem prófaði að setja grænmetið saman við fiskinnn í sínum frábæru fiskréttum, hann segir „að grænmetið hafi reynst gríðarlega vel“ fyrst og fremst vegna þess hve vatnsinnihaldið var lágt en þess má geta að engu vatni er bætt í grænmetið í vinnslunni né notuð efni sem binda það vatn sem í grænmetinu er.

Gunnlaugur Karlson hjá Sölufélagi garðyrkjumanna segir að viðbrögð markaðarins hafi verið mjög góð í þeim verslunum sem varan var boðin og er nokkuð ljóst að um samkeppnishæfa vöru er að ræða og ekki spurning um að gæði vörunnar og ferskleiki er mun meiri en í því innflutta.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

IS