Fréttir

Myndasaga frá veiðum til vöru

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís hefur fengið styrk frá Rannsóknarsjóði síldarútvegsins til að taka saman hagnýtar upplýsingar um vinnslu á ferskum bolfisk frá veiðum í vöru og birta á rafrænu formi.  Verkefnið ber heitið „Myndasaga frá veiðum til vöru“. 

Fræðsluefnið byggir á myndrænu og talsettu efni þar sem farið verður skipulega yfir einstaka þætti við vinnslu á ferskum fiski og mismunandi afurðum. Niðurstöður rannsóknarverkefna síðustu ára verða nýttar og þeirri þekkingu komið á framfæri.  Gerð fræðsluefnis um vinnslu á frystum bolfiski yrði á síðari stigum eðlilegt framhald ef vel til tekst með gerð fræðsluefnis um ferskan fisk.

Gott aðgengi að upplýsingum styrkir nýsköpun og leit að nýjum tækifærum í framleiðslu sjávarfangs, en rannsóknir og þekkingaröflun eru grunnurinn að auknum verðmætum. Þetta rafræna fræðsluefni mun að sjálfsögðu nýtast þeim sem í greininni starfa og vera gott innlegg í fræðslu um vinnslu íslenskra sjávarafurða.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson hjá Matís.

IS