Fréttir

Fyrirferðarlítil en framsækin verðmætasköpun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Héðinn, þekkingarfyrirtæki í málmiðnaði og véltækni, hefur þróað tiltölulega fyrirferðarlitla próteinverksmiðju (e. Hedinn Protein Plant – HPP) í samstarfi við Matís og sjávarútvegsfyrirtæki, sem er tilbúin til notkunar en verksmiðjan framleiðir próteinmjöl og fiskolíur úr aukahráefni sem fellur til við fiskvinnslu. Verksmiðjan var þróuð með stuðningi frá AVS rannsóknasjóðnum.

Þróunarvinna vegna próteinverksmiðjunnar hófst fyrir um fimm árum. Á þessum tíma voru margar hindranir sem þurfti að ryðja úr vegi og þá sérstaklega er snéru að ferli hráefnisins í gegnum verksmiðjuna en þar kom til góða þekking og hugvit starfsmanna Matís, þá sérstaklega Sigurjóns Arasonar, yfirverkfræðings Matís.

Tilraunir með HPP skiptust í tvo megin þætti: 1) prófanir nýjum búnaði og framleiðsluferli og 2) úttekt á efnis- og orkuflæði í framleiðsluferlinu. Megin áherslan er á aukahráefni sem verður til við fiskvinnslu til manneldis, s.s. slóg og bein af hvítfiskum. Einnig hafa prófanir sýnt frá á ágæti verksmiðjunnar til þess að vinna mjöl og lýsi úr aukahráefnum frá rækjuvinnslu, laxfiskavinnslu og uppsjávarfiskvinnslu, en þessi hráefni hafa verið notuð í framleiðslu á fiskmjöli og lýsi í áratugi og eiginleikar þeirra þekktir.

Mikilvægt er að grípa öll tækifæri til verðmætasköpunar þar sem íslenskt hugvit og tækniþekking er í hávegum höfð. Útflutningur á tækniþekkingu og að hér skuli vera þróuð og smíðuð ný verksmiðja sem verður seld að stóru leyti á erlenda markaði er dæmi um mikilvæga og varanlega verðmætasköpun.  Einmitt slíkir þættir, sem byggja á rannsóknum og þróun, munu að flestra mati vega þungt í viðsnúningi íslensks samfélags.

Matís er stoltur samstarfsaðili Héðins, þekkingarfyrirtækis í málmiðnaði og véltækni, og óskar eigendum og starfsmönnum innilega til hamingju með nýju verksmiðjuna.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.