Fréttir

Rekjanleiki afurða í íslenskum sjávarútvegi

EPCIS staðall notaður við að sýna fram á rekjanleika afurða í íslenskum sjávarútvegi.

Fyrir stuttu fór fram tilraunakeyrsla í karfavinnslu HB Granda í Reykjavík þar sem notast var við EPCIS staðalinn við að sýna fram á rekjanleika afurða með þeim tilgangi að auka öryggi afurða og upplýsingaflæði innan virðiskeðjunnar. Tilraunakeyrslan gekk vel og munu helstu niðurstöður verða kynntar á ráðstefnum beggja vegna Atlandsála á næstu misserum.

Í verkefninu „eTrace“ er verið að skilgreina, þróa og innleiða rekjanleikakerfi sem byggir á EPCIS staðli frá EPCGlobal (www.epcglobalinc.org) sem byggir að hluta til á RFID (Radio Frequency IDentificaton) tækni. EPCIS staðallinn gerir það kleyft að skiptast á upplýsingum um EPC-merktar vörur, innan og á milli fyrirtækja. Í verkefni þessu eru upplýsingar um öryggi matvæla samþáttaðar við aðrar rekjanleikaupplýsingar í rauntíma. Megin tilgangur með svona kerfi er að tryggja fullkominn rekjanleika og auka um leið öryggi afurða og upplýsingastreymi.

Auk Matís eru meðal annars norsku fyrirtækin SINTEF og TraceTracker, háskólinn í Lundi, tæknifyrirtækið Roi4u og sænska fiskveiðieftirlitið þátttakendur í verkefninu, sem styrkt af SafeFoodEra áætluninni.

Tilraunin fór þannig fram að fiskiker HB Granda voru merkt með rafrænu auðkenni (RFID) sem sendir frá sér útvarpsbylgjur. Merkin samanstanda af rafrás (circuit) sem geymir og vinnur úr upplýsingum og loftneti til að senda og taka á móti upplýsingum. Hröð þróun hefur verið í gerð svona merkja á undanförnum árum og er nú svo komið að svona merki rúmast í litlum límmiða. Notast var við handlesara frá Nordic (ID PL3000), og var gögnum hlaðið þráðlaust með Wi-Fi tengingu þar sem veflægt EPCIS kerfi frá TraceTracker tók á móti gögnum.

Þessi rafrænu merki voru svo lesin af fiskikerum, vinnslukerum, frauðplastkössum og vörubrettum í gegnum ferlið til að fá rekjanleika afurða í gegnum vinnsluferlið. Þessi tilraun fór aðeins fram innan veggja HB Granda en ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að fylgja vöru alla leið til neytenda. Með þessum reglulega aflestri næst tenging frá veiðum og vinnslu til endanlegrar vöru. Þetta opnar möguleika á stórbættri upplýsingagjöf milli aðila innan virðiskeðjunnar og til neytenda.

Trace_tracker_yfirlitsmynd
Mynd 1. Yfirlitsskjámynd frá karfavinnslunni hjá HB Granda úr hugbúnaði TraceTracker sem þróaður hefur verið í verkefninu.

Á mynd 1 hér að ofan sést einn veiðidagur, sem skilaði 38 kerum af ísuðum karfa. Þessi ker fara í gegnum vinnsluna í Reykjavík þar sem þau verða að 12 kerum af flökuðum karfa. Í þessu verkefni var 7 kerum fylgt í gegnum pökkunina þar sem þau enduðu í 329 frauðplastkössum sem staflað var á 5 bretti. Á bak við hvern lið á þessar mynd eru víðtækar upplýsingar um hvern einasta hlut með rekjanlegt auðkenni.

Þetta kerfi gerir það mögulegt að tengja aðrar upplýsingar við tilkomandi rekjanlegan hlut eða atburð í vinnslunni sjálfri. Þannig var til að mynda lesið af hitastigssíritum með sömu handlesurum og rafrænu auðkennin og þannig hægt að tengja hitastigsniðurstöður beint við ákveðin ker eða kassa í ferlinu, eða jafnvel heilar lotur af afurðum ef svo ber undir. Einnig gefst kostur á að tengja upplýsingar frá gæðakerfum, eftirlitsaðilum og vottunaraðilum beint við viðkomandi hóp auðkenna og þannig er hægt að sýna öðrum aðilum í virðiskeðjunni fram á mæliniðurstöður fyrir óæskileg efni, hitastigsferil, tengingu afurða við kvóta eða vottunarupplýsingar.

Með svona kerfi næst „fínni“ rekjanleiki en nú er fyrir hendi. Með núverandi rekjanleikakerfum er yfirleitt hægt að rekja vörur niður á skip og veiðidag, en svona kerfi gæti rekið vörur jafnvel niður á ákveðin veiðihol. Með auknum upplýsingum ætti að vera hægt að stjórna vinnslu afurða betur og ná fram enn betri nýtingu, einnig opnar svona kerfi möguleika á aukinni sjálfvirkni í framleiðslu og aukinni upplýsingagjöf til kaupenda.

Með stöðlun upplýsinga næst að samkeyra upplýsingar úr mismunandi kerfum, en eins og staðan er í dag eru yfirleitt mörg kerfi í notkun við veiðar, vinnslu og sölu afurða. Hugmyndin er að þau kerfi sem eru fyrir hendi sendi frá sér upplýsingar á stöðluðu formi til EPCIS kerfis, þannig stjórnar hver aðili fyrir sig í virðiskeðjunni hvaða upplýsingar hann vill sýna öðrum aðilum eins og sýnt er á mynd 2. Þannig opnast möguleikar fyrir að stórauka upplýsingagjöf milli aðila í virðiskeðjunni og til neytenda.

Trace_tracker_rekjanleiki
Mynd 2. Yfirlit fyrir ætlaða virkni EPCIS rekjanleikakerfis. Við flæði afurða í virðiskeðjunni verða til margþættar upplýsingar sem geta nýst við upplýsingagjöf til viðskiptavina en eru líka nauðsynlegar til að uppfylla reglugerðir. Upplýsingar á stöðluðu formi eru settar í EPCIS gagnagrunn af hverjum aðila fyrir sig í virðiskeðjunni, sá aðili stjórnar svo hvaða upplýsingum hann vill deila með öðrum aðilum í keðjunni, sem og neytendum.

Ljóst er að kröfur um rekjanleika afurða eru alltaf að aukast. Notkun rafrænna auðkenna og sjálfvirk gagnatekja er góð aðferð tryggja rekjanleika þeirra. Ætla má að íslensk fiskveiðifyrirtæki og vinnsluaðilar fari meira útí sjálfvirka gagnasöfnun um leið og fiskiker verða merkt með rafrænu auðkenni. Þá munu sjálfvirkar aflestrarstöðvar leysa af handlesara eins og notaðir voru í þessari tilraun.

Slík virkni eins og EPCIS staðallinn bíður uppá, þar sem upplýsingar frá mismunandi stöðum eru samþættar og tengdar við viðkomandi auðkenndan hlut eða vinnslu getur nýst matvælaframleiðendum, söluaðilum sem og neytendum á margvíslegan hátt. En eins og staðan er í dag tapast oft mikilvægar upplýsingar í virðiskeðjunni eða aðgengi að þeim er torveldað með ósamþættum kerfum og þar að leiðandi mjög tímafrekt að finna réttar upplýsingar fyrir viðkomandi auðkennisnúmer.

Gott rekjanleikakerfi veitir einnig möguleika að fræða neytendur enn frekar um vöru, sýna fram á sótspor hennar, fæðumílur auk atriða eins og hvernig varan var unnin og að hún sé veidd úr sjálfbærum fiskistofni. Aðrir þættir geta einnig verið mikilvægir neytendum, eins og hvort varan sé holl, hvort hún innihaldi þekkta ofnæmisvalda, eru umbúðirnar endurnýtanlegar, hvort starfsmönnum hafi verið umbunað með réttlátum hætti og hvort varan sé örugg og lögleg. Með því að geta svarað spurningum sem þessum á auðveldan hátt myndast traust á viðkomandi vörumerki.

Nýjungar eins og tvívíddar strikamerki ásamt nýlegum farsíma gera það mögulegt að neytendur geta fengið upplýsingar um vöru strax við búðarhilluna. En með því að taka mynd af tvívíðu strikamerki (eða hefðbundnu strikamerki) á afurðum detta þeir inná heimasíðu afurðar þar sem hægt er að fræða þá um viðkomandi þætti. Mikilvægt er að þær upplýsingar sem standa neytendum til boða séu tengdar rekjanleikakerfinu, til að sýna fram á mest viðeigandi upplýsingar fyrir tiltekna afurð fyrir sig.Auknar kröfur eftirlitsaðila, upplýstari neytendur og hröð farsímaþróun gerir það að verkum að ör þróun er um þessar mundir í öllu því sem snýr að rekjanleika afurða og framsetningu upplýsinga. Því er mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að taka þátt í svona tilraunum til að sjá hvaða tæknimöguleikar eru handan við hornið.

Nánari upplýsingar veitir Valur Norðri Gunnlaugsson.

Fréttir

Matís með erindi á fræðslufundi MAST um transfitusýrur

Matvælastofnun heldur fræðslufund um transfitusýrur þriðjudaginn 30. nóvember 2010 kl. 15:00 – 16:00. 

Á fundinum verður fjallað um áhrif transfitusýra á lýðheilsu, greiningu transfitusýra í íslenskum matvælum og væntanlega reglugerð um takmörkun á magni transfitusýra í matvörum hérlendis.

Hvað er transfitusýrur, hvers vegna finnast þær í matvælum og í hvaða matvælum eru meðal þeirra spurninga sem teknar verða fyrir á fundinum. Fjallað verður um greiningar á transfitusýrum í íslenskum matvælum og þróunina í transfitusýruneyslu. Heilsufarsleg áhrif af neyslu transfitusýra verða skoðuð og fyrirhuguð reglugerð um transfitusýrur kynnt, ásamt framkvæmd eftirlits.

Gestafyrirlesarar verða Hólmfríður Þorgeirsdóttir frá Lýðheilsustöð, verkefnisstjóri nýrrar landskönnunar á mataræði sem nú stendur yfir, og Ólafur Reykdal frá Matís, sem nýverið hlaut Fjöregg MNÍ 2010 fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði.

Fyrirlesarar:
    Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá Lýðheilsustöð
    Ólafur Reykdal, matvælafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís
    Zulema Sullca Porta, sérfræðingur hjá Matvælastofnun

Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa – Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin).

Allir velkomnir!

Nánari upplýsingar á www.mast.is.

Fréttir

Vottun íslenska þorskstofnsins

Vottun í framkvæmd – kynningarfundur 19. nóvember. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 19. nóvember frá kl. 14-16 í Víkinni sjóminjasafni, Grandagarði 8, Reykjavík.

Tilgangur fundarins er að kynna stöðu í verkefninu um vottun ábyrgra veiða Íslendinga, hagnýtar upplýsingar sem tengjast vottuninni og nýtingu hennar í markaðslegum tilgangi. 

Dagskrá:
14.00 Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda og formaður fagráðs sjávarútvegs hjá Íslandsstofu
Félag um merki og vottun
Gjald og innheimta

14.10  Kristján Þórarinsson, varaformaður Fiskifélags Íslands og formaður tækninefndar um ábyrgar veiðar
Bakgrunnur og staða vottunar
Tæknileg framkvæmd verkefnisins

14.30  Mike Platt, Global Trust
Hagnýtar upplýsingar um framkvæmd vottunar og umsóknarferli í vottun
Umsóknarferlið fyrir rekjanleikavottun (Chain of Custody)

14.50
  Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu
Hagnýtar leiðbeiningar um notkun upprunamerkisins, með og án vottunar
Kynning og markaðssetning

15.10  Fyrirspurnir og umræður


Pallborð: Eggert B. Guðmundsson, Kristján Þórarinsson, Finnur Garðarsson, Guðný Káradóttir og Mike Platt
 Boðið verður upp á léttar veitingar í lok fundarins.Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að senda póst á islandsstofa@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.

www.responsiblefisheries.is

Fréttir

Málþing Erfðanefndar landbúnaðarins – Matís með erindi

Erfðaauðlindir íslenskra ferskvatnsfiska – verðmæti og hættur. Málþing Erfðanefndar landbúnaðarins í tilefni af ári líffræðilegrar fjölbreytni fer fram í Þjóðminjasafni Íslands frá kl. 13-16, föstudaginn 26. nóv. nk.

Fundarstjóri:  Skúli Skúlason Rektor Háskólans á Hólum

Dagskrá

13:00-13:05   Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum,  Setning málþings

13:05-13:25 Áslaug Helgadóttir, prófessor við LbhÍ     Gildi erfðaauðlinda í landbúnaði  nýting þeirra og varðveisla.

13:25-13:45 Kristinn Ólafsson, MATÍS/Veiðimálastofnun    Stofngerðir íslenska laxins.

13:45-14:05   Leó Alexander Guðmundsson, Veiðimálastofnun    Erfðabreytileiki laxins í Elliðaánum í tíma og rúmi.

14:05-14:25   Bjarni Kr. Kristjánsson, Háskólinn á Hólum   Fjölbreytileiki bleikju.

14:30-16:00   Pallborðs umræður

Markmið málþingsins er að kynna nýjustu þekkingu á erfðum íslenskra laxfiska með hliðsjón af veiðinýtingu og umgengni við auðlindina. 

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis.

Fréttir

Starfandi forstjóri Matís með erindi á málstofu í efna- og lífefnafræði við Háskóla Íslands

Hörður G. Kristinsson, starfandi forstjóri Matís, mun halda fyrirlestur á morgun, föstudag 19. nóvember kl. 12:30 í stofu 158, VR-II í HÍ. Umfjöllunarefnið er „Marine bioactive ingredients“ sem útleggja má á íslensku „Lífvirk efni úr sjó“.

MÁLSTOFA í efna- og lífefnafræði

Seminar – Department of Chemistry

Marine bioactive ingredients

Dr. Hörður G. Kristinsson
Starfandi forstjóri, Matís ohf

Staður (Place)                  Stofa 158, VR-II, náskóli Íslands
Dagsetning (Date)           Föstudagur 19. Nóvember, 2010
Tími (Time)                       12:30

Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku  (The talk will be given in English)

Abstract.Vast amounts of marine based raw materials are still in large part underutlized. Major opportunities exist with these raw material sources as they are rich in various natural and highly functional compounds, which with proper extraction, isolation and processing techniques can find use in various foods, specialty feeds, neutraceuticals, cosmeceuticals and even medical products. The market for natural products is growing very rapidly, particularly products which possess bioactive properties which can have positive effects on health and performance.  The past few years have seen significant advances in the isolation and production of novel ingredients from underutilized raw materials. This includes the production of enzymes, cartilage compounds such as chondroitin sulfate, glucosamine, bioactive fish peptides, protamine and various seaweed based compounds, to name a few.  Some of these ingredients have very unique functions compared to their non-marine counterparts, and display very high activity.  This includes the ability to inhibit the angiotensin I converting enzyme, strong free radical scavenging ability as well as good ability to chelate metals and high reducing power.  In addition, the peptides have been shown to inhibit lipid oxidation in food systems, thus showing good potential as natural food antioxidants.  Human and animal clinical trials are also ongoing with select peptide products.The industry is realizing that very significant value addition can be realized with underutlized raw materials. Currently many of these ingredients are being moved from pilot to commercial stage and represents a promising way to utilized previously poorly or unutilized raw materials.

Nánari upplýsingar veitir Hörður í síma 422-5000.

Fréttir

Rannsóknir á humri leiða í ljós að enginn stofnerðafræðilegur munur virðist vera á milli veiðisvæða við Ísland

Nýlega birtust í vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins niðurstöður erfðarannsókna á humri sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar unnu að í samstarfi við Matís og styrktar af verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Erfðasýni sem tekin voru af humri (Nephrops norvegicus) frá aðskildum veiðisvæðum við Suðvestur- og Suðausturland hafa sýnt að enginn afgerandi munur virðist vera í erfðabyggingu tegundarinnar frá einu svæði til annars þó að allt upp í 300 sjómílna fjarlægð sé á milli svæða (sjá mynd með frétt). Merkingar hafa fyrir löngu sýnt fram á að humar er mjög staðbundin tegund sem gengur ekki frá einu veiðisvæði/hrygningarsvæði til annars. Einnig hafa sveiflur í aflabrögðum, humarstærð og nýliðun verið ólíkar í gegnum tíðina, t.d. á vestustu og austustu veiðisvæðum og var það hvatinn að þessari rannsókn.

Niðurstöður erfðafræðirannsóknanna gefa því eindregið til kynna að á 4-8 vikna lirfustigi berist humarlirfur milli svæða með straumum í efri lögum sjávar og taki sér síðan bólfestu í holum á leirbotni þegar lirfustigi lýkur. Ennfremur er ljóst að líffræðilegir þættir svo sem nýliðun, humarstærð og afli á sóknareiningu munu áfram skipa þýðingarmikinn sess við stjórnun veiðanna. Greinina má lesa hér.

1. mynd. Sýnatökustaðir 1-5. Veiðisvæði humars 2005-2009. Dekkstu svæðin sýna mestan afla (tonn/sjm2). Rauðar örvar tákna Norður-Atlantshafsstrauminn og bláar strandstrauminn. Sjá mynd.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson, gudjon.thorkelsson@matis.is.

Fréttir

Málþing á vegum Samtaka Iðnaðarins 23. nóv. – Matís tekur þátt

Mikil nýsköpun hefur átt sér stað við framleiðslu skólamáltíða á undanförnum árum en enn eru mikil sóknarfæri til úrbóta.

Samstarf milli ólíkra fagsviða, sem koma að framkvæmd skólamáltíða með einum eða öðrum hætti, getur leitt af sér ýmsar framfarir.

Á málþinginu verður gerð grein fyrir lagaákvæðum og opinberum leiðbeiningum um skólamáltíðir, kynntar niðurstöður  verkefnis um skólamáltíðir á Norðurlöndum, stefna sveitarfélaga, reglur um innkaup á matvælum og sjónarmið foreldra. Í pallborðsumræðum verður rætt um aðstöðu í skólaeldhúsum, framleiðslu máltíða í miðlægum eldhúsum og fræðslu og ráðgjöf til sveitarfélaga og starfsfólks í mötuneytum. Til málþingsins er boðið starfsfólki sveitarfélaga sem er ábyrgt fyrir skólamötuneytum, skólastjórnendum, starfsfólki skólaeldhúsa, framleiðslueldhúsa og birgja, foreldrum og öðru áhugafólki um skólamáltíðir.

Staður: Hvammur, Grand Hótel Reykjavík
Tími: 23. nóvember kl. 15-17

Dagskrá:
15.00 –  Setning – Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá Lýðheilsustöð
15.15 – Reynsla af skólamáltíðum á Norðurlöndum – Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs Samtaka iðnaðarins
15.30 – Innkaupastefna Reykjavíkur og tilraunverkefni um hverfainnkaup – Ingibjörg H. Halldórsdóttir, verkefnisstjóri um samræmda matseðla hjá Reykjavíkurborg
15.40 – Útboð skólamáltíða og þjónustusamningar, kröfur til gæða og eftirfylgni – Guðmundur Ragnar Ólafsson, innkaupastjóri Hafnarfjarðarbæjar
15.50 – Sjónarmið foreldra – Bryndís Haraldsdóttir, Heimili og skóli
16.00 – Pallborðsumræður

Auk fyrirlesara:
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar
Unnsteinn Ó. Hjörleifsson, matreiðslumaður, Árbæjarskóla
Guðrún Adolfsdóttir, ráðgjafi, Rannsóknarþjónustunni Sýni
Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri nýsköpunar og neytenda, Matís
Herdís Guðjónsdóttir, formaður Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands
Fundarstjóri, Atli Rúnar Halldórsson, ráðgjafi

17.00 – Fundarlok

Aðgangur er ókeypis en tilkynna þarf þátttöku í síma 591-0100 eða á netfangið mottaka@si.is.

Fréttir

Ensím klippir fjölsykrur frá nýjum enda

Mánudaginn 15. nóvember nk. mun Jón Óskar Jónsson, starfsmaður Matís, halda fyrirlestur um meistaraverkefni sitt hjá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Verkefnið ber heitið „β-Glucan Transferases of Family GH17 from Proteobacteria“ og fólst í rannsóknum á sérstakri gerð ensíma sem ummynda glúkan fjölsykrur með rofi samfara sykruflutningi.

Prófdómari er Dr. Jón M. Einarsson, rannsókna- og þróunarstjóri hjá Genis ehf. Umsjónkennari og leiðbeinandi var Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ og sviðsstjóri hjá Matís ohf. Meðleiðbeinandi var Dr. Ólafur H. Friðjónsson verkefnastjóri hjá Matís ohf.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 130 í Öskju og hefst klukkan 16.00.

Útdráttur
Ensím sem tilheyra fjölskyldu GH17 í flokkunarkerfi sykrurofsensíma voru rannsökuð úr þremur tegundum baktería: Methylobacillus flagellatus KT, Rhodopseudomonas palustris og Bradyrhizobium japonicum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að slík ensím úr Proteobakteríum sýna transferasa virkni, þ.e. þau klippa β-glúkan fjölsykrur og skeyta bútum á enda þega-sykra með myndun nýrra 1,3 tengja eða mynda greinar með β1,4 eða β1,6 tengjum. Gen ensímanna voru klónuð og tjáð í E. coli. Ensímin voru tjáð sem MalE samruna prótein, en eftir framleiðslu og hreinsun var MalE hlutinn klipptur af með sérvirkum Ulp1 proteasa. Ensímin voru skilgreind með tilliti til virkni þeirra á laminarin fásykrur. Myndefni voru skilgreind með tilliti til stærðar og tengjagerðar með fjölbreyttri aðferðafræði, TLC, Maldi-TOF, electrospray og NMR.  Niðurstöður rannsóknanna leiddu í ljós að tvö þessara ensíma, úr Rhodopseudomonas palustris og Methylobacillus flagellatus KT mynda β(1-3) tengi og eru því lengingarensím. Ensímið úr Bradyrhizobium japonicum sýndi β(1-6) transferasa virkni og er því greinamyndunar-ensím (branching). Unnt var að sýna fram á að ensímið klippir fjölsykrur frá afoxandi enda (reducing end) fjölsykruhvarfefnanna, öfugt við þau bakteríuensím sem hingað til hafa verið rannsökuð. Sá eiginleiki ætti að gera ensíminu úr Bradyrhizobium japonicumkleift að búa til fásykruhringi úr β-glúkan fjölsykrum.

Nánari upplýsingar veitir Jón Óskar, jon.o.jonsson@matis.is.

Fréttir

Hámark sett á magn transfitusýra í matvæli

Undanfarið hefur átt sér stað tímabær umræða um magn transfitusýra í matvælum. Hjá Matís eru framkvæmdar magnmælingar á transfitusýrum sem og á öðrum fitusýrum og innihaldsefnum í matvælum.

Stjórnvöld hafa ákveðið að settar verði reglur um hámarksmagn transfitusýra í matvælum að danskri fyrirmynd.

Rannsóknir sýna að neysla  á transfitusýrurm eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og því eru þessar reglur settar.  Nokkur lönd hafa sett strangar reglur eða viðmið varðandi transfitusýrur í matvælum til að draga úr magni þeirra og sett merkingarskyldu á umbúðir, eins og t.d. Danmörk, Bandaríkin, Brasilía, Sviss og Kanada.

Hvað eru transfitusýrur?
Framleiðsla og notkun á transfitusýrum í matvælum á sér yfir 100 ára sögu, en ferilinn var hannaður af Þjóðverjanum Wilhelm Normann 1901 sem jafnramt var fyrsti framleiðandi slíkra fita á iðnaðarskala.  Transfitusýrur myndast þegar fljótandi fita (aðallega jurtafita) er hert að hluta með því að blanda henni saman við vetnisgas og nikkel undir miklum hita og þrýstingi.  Slík fita hefur mun lengra geymsluþol en fljótandi fita og hefur verið notuð í margar mismunandi afurðir og til steikingar og baksturs í marga áratugi.  Transfitusýrur má einnig finna í fitu jórturdýra frá náttúrunnar hendi. Nýju reglurnar á Íslandi taka aðeins til transfitusýra í iðnaðarhráefni. Hlutfall transfitusýra í fitu jórturdýra er aldrei hátt og þessi fita hefur verið í fæði mannsins um aldir.  

Áhrif transfitusýra á heilsu
Mettaðar fitusýrur auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eins og transfitusýrur en þær síðarnefndu eru álitnar verri.  Rannsókn frá 2006 benti til þess að rekja mætti 30.000 til 100.000 dauðsföll í Bandaríkjunum til neyslu transfitusýra.  Þegar transfitusýrurnar eru teknar út úr matvælum eða hlutfall þeirra lækkað þarf að passa uppá að auka sem minnst hlut mettaðra fitusýra.  Á vef Lýðheilsustöðvar eru birtar ráðleggingar um mataræði.

Mælt er með því að fólk velji sem oftast olíu eða mjúka fitu í stað harðrar fitu sem nær bæði yfir  mettaðar fitusýrur og transfitusýrur. Umræða um neikvæð heilsufarsleg áhrif transfitusýra hefur farið mjög vaxandi á síðustu 10 árum og hafa bæði framleiðendur hertra jurtaolía og matvælaframleiðendur lagt sitt af mörkunum að draga úr magni transfitusýra í matvælum.  Það má þó enn bæta stöðuna töluvert og upplýsa neytendur betur.

Magn transfitusýra í íslenskum matvælum
Matís ohf býður upp á mælingar á fjölmörgum fitusýrum í matvælum og eru transfitusýrurnar þar á meðal. Mælingar eru gerðar fyrir fyrirtæki, eftirlitsaðila og einstaklinga. Á árunum 2008 og 2009 var gerð hjá Matís úttekt á fitusýrum í matvælum á íslenskum markaði.  Úttektin náði til 51 sýnis og  var gerð í samstarfi við Lýðheilsustöð og Matvælastofnun og var meðal annars ætlað að afla upplýsinga fyrir íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) sem Matís rekur. Í ljós kom að transfitusýrumagn í matvælum var mjög breytilegt. Transfitusýrur mældist í borðsmjörlíki, bökunarsmjörlíki, steiktum bökunarvörum, jurtaís og örbygjupoppkorni. Aðeins sum vörumerki þessara vara innihéldu transfitusýrur en önnur voru alveg laus við þessar fitusýrur. Þetta sýnir að hægt er að losna við transfitusýrurnar úr þessum vörum og matvælaiðnaðurinn er kominn vel á veg í þessum efnum.

Í úttektinni var kex, sælgæti og matur frá skyndibitastöðum án transfitusýra. Þetta er mikil breyting frá því sem var fyrir um 15 árum. Í rannsókn sem var unnin árið 1995 reynsist vera mikið af transfitusýrum í mörgum matvælum á íslenskum markaði. Niðurstöður rannsóknarinnar frá 1995 má sjá hér:

www.matis.is/media/utgafa/matra/Matra_-02-09_-Fitusyrur.pdf

Hvernig má draga úr magni transfitusýra?
Matvælaiðnaðurinn þarf nú að bregðast við og sjá til þess að transfitusýrur fari ekki yfir 2 g í 100 g af þeim vörum sem eftir er að fást við. Það er mjög misjafnt eftir gerð matvæla hvernig unnið verður að breyttri samsetningu. Í sumar vörur er hægt að nota fljótandi olíur og er það besta lausnin frá næringarsjónarmiði. Í öðrum tilfellum þarf að nota fitu á föstu formi en hún getur verið mikið mettuð. Hálfhert fita inniheldur transfitusýrur en fullhert fita inniheldur ekki transfitusýrur en mikið af mettuðum fitusýrum.  Ein leið matvælaframleiðenda er því að blanda saman fullhertri fitu með olíu til að fá transfitusýrufría fitu með sambærilega eiginleika hálfhertrar fitu. Ætla má að almenningur verði ekki var við breytingar á framboði matvæla þar sem matvælaiðnaðurinn mun einfaldlega velja önnur hráefni til framleiðslunnar.

Almenningur hefur vaxandi áhuga á gerð fitunnar í matvælum. Mikið er spurt um transfitusýrur og hvernig hægt sé að finna út hvort matvæli innihaldi þessar fitusýrur. Mælingar á fitusýrum gefa alltaf öruggasta svarið en hægt er að styðjast við upplýsingar á umbúðum. Ef innihaldslýsingin tilgreinir aðeins olíur sem fituhráefni er ekki um transfitusýrur að ræða.

Hjá Matís starfar Ólafur Reykdal sem er einn sérfræðinga okkar Íslendinga um transfitusýrur. Nánari upplýsingar veitir Ólafur, olafur.reykdal@matis.is.

Fréttir

Iðnaðarverkfræði og mjólkurvinnsla – Hvað á þetta tvennt sameiginlegt?

Miðvikudaginn 10. nóvember nk. heldur Sigríður Sigurðardóttir fyrirlestur meistaraverkefni sitt í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Verkefnið heitir Iðnaðarverkfræði og mjólkurvinnsla.  Fyrirlesturinn verður fluttur í Verinu Vísindagörðum miðvikudaginn 10. nóvember kl. 14:00.

Markmið þessa verkefnis er að kanna með hvaða hætti megi beita aðferðum iðnaðarverkfræðinnar til hagræðingar við mjólkurvinnslu. Verkefnið var unnið fyrir Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga (MKS) og í samstarfi við Matís ohf en samstarf fyrirtækjanna tveggja hafði reynst ákaflega vel í rannsóknarverkefni um vinnslu á mjólkurpróteinum sem fæst úr mysu sem fellur til við ostaframleiðslu. Því var áhugi innan samlagsins á áframhaldandi samstarfi við Matís. Í upphafi voru margar hugmyndir um möguleg verkefni kynntar fyrir forsvarsmönnum MKS enda er ýmsum gögnum safnað við framleiðsluna og því gætu víða leynst tækifæri til hagræðingar. Hugmyndirnar voru meðal annars skoðun á lagerhaldi til hagræðingar í rekstri, skoðun á árstíðarsveiflum í mjólk með það að markmiði að auka arðsemi og nýtingu og úttekt á því hvaða tækjabúnaður og breytingar eru nauðsynlegar í framleiðsluferlinu til þess að framleiða mysuprótein úr þeirri mysu sem fellur til við ostagerðina. Lausnir á öllum þessum verkefnum má fá með aðferðum iðnaðarverkfræðinnar. En þau verkefni sem á endanum var ákveðið að ráðast í voru eftirfarandi:

  1. Athugun á vaktaskipulagi Samlagsins
  2. Hermun á ostaframleiðslunni til að staðfesta flöskuháls
  3. Gerð stýririta til þess að draga úr sveiflum í þyngd lokaafurðar

Fyrirlesturinn verður fluttur í Verinu Vísindagörðum, á Sauðárkróki, og er öllum heimill aðgangur. Verkefnið vann Sigríður fyrir mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga innan Líftæknismiðju Matís í Verinu vísindagörðum á Sauðárkróki sumarið 2008.

Leiðbeinendur Sigríðar voru þeir Páll Jensson PhD, prófessor í iðnaðarverkfræði við HÍ og Sveinn Margeirsson PhD, sviðsstjóri hjá Matís.

Fulltrúi deildar er Gunnar Stefánsson, dósent í iðnaðarverkfræði við HÍ.

IS