Fréttir

Aukin sala sjávarafurða sem eru rekjanlegar með EPCIS staðli

Verkefnið eTrace (eRek) er nú á öðru ári og eru niðurstöður þess þegar farnar að vekja töluverða athygli. Tilgangur verkefnisins er að skilgreina, þróa og innleiða rekjanleikakerfi sem byggist á EPCIS staðlinum og kanna hvort hann sé hentugur við rekjanleika matvæla.

Með því að samþætta upplýsingar um öryggi matvæla við aðrar rekjanleikaupplýsingar í rauntíma opnast möguleikar á að auka um leið öryggi afurða. 

Nú í vor fór fram tilraunakeyrsla í Svíþjóð á þeim hugbúnaði sem þróaður hefur verið í verkefninu, þar sem fiskiker voru merkt með RFID merkjum um leið og þeim var landað. RFID merki senda frá sér útvarpsbylgjur, sem lesa má með auðveldum hætti og voru merkin límd utan á ker, kassa og umbúðir. Þannig var hægt að fylgjast með ferð þorsks frá veiðum, í gegnum vinnslu og alla leið til neytenda með sjálfvirkum hætti. Notast var við handskanna til að fá upplýsingar um stað- og tímasetningar RFID merkja, í gegnum löndun og vinnslu í Simrishavn og til neytenda í Gautaborg.

etrace1

Upplýsingar gerðar sýnilegar fyrir neytendur.

Þær útfærslur sem þróaðar hafa verið í verkefninu lofa góðu og kunnu sænskir frændur vorir vel að meta frekari upplýsingar um fiskinn á myndrænu formi. Jókst salan umtalsvert á þeim afurðum þar sem upplýsingar um rekjanleika voru fyrir hendi og voru verslunareigendur afar ánægðir með að geta sýnt neytendum fram á leið vörunnar frá veiðum og inn í fiskborð. Þau RFID merki sem notuð voru í tilraunakeyrslunni sönnuðu gildi sitt, en hingað til hafa oft komið upp vandamál við notkun RFID merkja við þær blautu og köldu aðstæður sem eru í fiskvinnslum.

etrace2

Fiskikassar sem merktir hafa verið með RFID merkjum skannaðir við löndun.

Eins og fyrr segir er markmið verkefnisins að þróa og innleiða rekjanleikakerfi sem byggist á EPCIS staðlinum. Kerfið kemur í staðinn fyrir að upplýsingum sé safnað handvirkt og eykur þannig sjálfvirkni og minnkar möguleika á mistökum. Sænska fiskveiðieftirlitið (Fiskeriverket) sem er þátttakandi í verkefninu, sér mikla möguleika fyrir EPCIS staðalinn og RFID merki til að mæta nýlegri reglugerð Evrópusambandsins nr. 1224/2009, en þar segir að aðildarríki verði að sýna fram á fullkominn rekjanleika fiskafurða. Áhugi þeirra er einnig tilkominn vegna þess að þeir álíta að kerfið gæti nýst við fiskveiðistjórnun.

etrace3

Skjámynd af hugbúnaðinum sem sýnir vinnsluferil fisks, þar sem fiskur kemur bæði frá skipi og af markaði. Eftir vinnslu á þessum 6 kössum af fiski verða til 6 pakkningar af fiski sem staflað er á eitt vörubretti. Bakvið þessa mynd liggja svo frekari upplýsingar sem nýtast við rekjanleika afurða.

Til stendur að gera svipaða tilraunakeyrslu á Íslandi núna í haust þar sem þessi tækni verður notuð til að fylgja fiski allt frá veiðum, í gegnum vinnslu og alla leið til neytenda í Evrópu.

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir standa að verkefninu og hefur Matís umsjón með ákveðnum verkþáttum þess en Valur Gunnlaugsson og Sveinn Margeirsson hafa átt veg og vanda að vinnu Matís í verkefninu. Auk Matís eru meðal annars norsku fyrirtækin SINTEF og TraceTracker, Háskólinn í Lundi, tæknifyrirtækið Roi4u og sænska fiskveiðieftirlitið þáttakendur í verkefninu, sem styrkt er af SafeFoodEra áætluninni.

Fréttir

Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski

Bæklingur sem lýsir á einfaldan hátt í máli og myndum meðhöndlun á fiski nýdregnum úr sjó

Sé þessum leiðbeiningum fylgt er hægt að tryggja hámarksverðmæti þeirra afurða sem unnar eru úr ferskum fiski.

Bæklingnum verður dreift víða um land í samvinnu við m.a. Landsamband smábátaeigenda,einnig er hægt að óska eftir eintaki með að senda tölvupóst til matis@matis.is eða hringja í 422 5000.

Bæklinginn er hægt að sækja hér.

Fréttir

Matís með forystuhlutverk í nýjum fjölþjóðaverkefnum sem ESB styrkir með jafnvirði 860 milljóna króna

Matís gegnir forystuhlutverki  í tveimur nýjum og umfangsmiklum fjölþjóðaverkefnum sem Evrópusambandið hefur ákveðið að styrkja til þriggja ára, EcoFishMan og AMYLOMICS.

Styrkir ESB hljóða upp á alls 5,5 milljónir evra, jafnvirði um 860 milljóna króna. Þar af er hlutur Matís alls 950.000 evrur til beggja verkefna, jafnvirði um 150 milljóna króna. Matís stjórnar báðum verkefnum

Í því felst að ESB lætur allt styrktarféð renna til Matís sem síðan greiðir innlendum og erlendum samstarfsaðilum sínum. Talsverður hluti verkefnanna verður unninn á starfsstöðvum Matís á landsbyggðinni, enda byggjast þau meðal annars á góðu  samstarfi Matís við fyrirtæki um allt land. Meistara- og doktorsnemendur munu starfa að verkefnunum.  

Evrópusambandið væntir þess að í EcoFishMan verkefninu verði þróuð ný aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi sambandsins. Lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.

Að EcoFishMan verkefninu koma alls 13 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, þar á meðal Háskóli Íslands og háskólinn í Tromsö í Noregi. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 3,7 milljónir evra á þremur árum og nemur styrkur ESB 3,0 milljónum evra.

  • Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, verður verkefnisstjóri og dr. Sveinn Margeirsson, sviðsstjóri hjá Matís, verður með henni í vísindanefnd verkefnisins.

AMYLOMICS verkefnið mun hagnýta fjölbreytt lífríki jarðhitasvæða á Íslandi við að þróa hitaþolin ensím til notkunar í sterkju- og sykruiðnaði. Hita- og sýruþol eru nauðsynlegir eiginleikar í slíkum iðnaðarferlum en þá má finna í ensímum lífvera á hverasvæðum.

Meðal þátttakenda í AMYLOMICS er franska fyrirtækið Roquette Frères, sem er eitt hið stærsta í Evrópu í framleiðslu sterkju og afleiddra afurða, með ársveltu upp á um 7 milljarða evra. Roquette Frères fær ensím, sem þróuð verða í verkefninu, til prófunar og nýsköpunar í framleiðslu sinni.

  • Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri hjá Matís, verður  verkefnisstjóri. Tvö önnur íslensk fyrirtæki, taka beinan þátt í verkefninu, Roche Nimblegen og Prokazyme.

14 stig af 15 mögulegum í faglegu mati!

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, segir að verkefnin tvö og stuðningur ESB við þau séu góð tíðindi fyrir íslenskt vísindasamfélag og viðurkenning fyrir Matís:

„Rannsóknarstyrkir ESB eru afar eftirsóttir og mikil samkeppni er um þá. EcoFishMan hlaut 14 stig af 15 mögulegum í mati fagnefndar ESB, sem er frábær árangur og skilaði verkefninu í hús hjá Matís og samstarfsaðilum. Með þessu festum við okkur enn frekar í sessi í alþjóðlegu vísindasamstarfi og svo er auðvitað sérstakur fengur að því fyrir Íslendinga að fá nú verulega fjármuni inn í samfélagið erlendis frá á þessum samdráttar- og niðurskurðartímum.“

Nánar um EcoFishMan
Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins skilar ekki þeim árangri sem til er ætlast af henni. Nægir að nefna að hátt í 90% fiskistofna í lögsögu ESB-ríkja eru ofveiddir og þriðjungur stofnanna er í útrýmingarhættu vegna þess að þeir ná ekki að endurnýjast. Brottkast er stórfellt vandamál, til dæmis er áætlað að 30-55% þorskafla úr Norðursjó sé fleygt fyrir borð.

Eitt af markmiðum EcoFishMan verkefnisins er að greina það sem vel hefur tekist í íslenskri fiskveiðistjórnun og „flytja úr landi“. Jafnframt því er horft til meira samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum.

Meðal íslenskra aðila, sem leitað verður til vegna faglegrar þekkingar eru  Fiskistofa, Samtök fiskvinnslustöðva, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnunin, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Landssamband smábátaeigenda og nokkur íslensk fyrirtæki sem framleiða tæknibúnað fyrir sjávarútveginn, svo sem TrackwellVaki og Marel.

Nánar um AMYLOMICS
Líftækniverkefnið AMYLOMICS er hugmynd sérfræðinga Matís og Ísland verður að miklu leyti vettvangur þess. Fjölbreytileiki jarðhitasvæða á Íslandi er einstakur og mikil sérfræðiþekking á lífríki þeirra er til staðar hjá Matís. Verkefnið byggist á því að þróa tækni til að nýta þessa sérstöku  íslensku erfðauppsprettu, framleiða ensím með ákveðna, mikilvæga eiginleika og kanna möguleika til að nýta þau á ýmsum sviðum efna- og matvælaiðnaðar.

Meðal þátttakenda í AMYLOMICS er franska fyrirtækið Roquette Frères, sem er eitt hið stærsta í Evrópu í framleiðslu sterkju og afleiddra afurða, með ársveltu upp á um 7 milljarða evra. Roquette Frères fær ensím, sem þróuð verða í verkefninu, til prófunar og nýsköpunar í framleiðslu sinni.

Fyrirtækið Roche Nimblegen tekur einnig þátt í verkefninu og mun í samvinnu við Matís þróa og endurbæta aðferðir til að ná erfðavísum úr lífríki hvera.      

Nánari upplýsingar: Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri, sími 858 5119.

Fréttir

Doktorsvörn frá Matvæla- og næringarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 30. júní kl. 15.00 fer fram doktorsvörn frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.  Þá ver Mai Thi Tuyet Nga matvælafræðingur doktorsritgerð sína. Vegna breytinga á hátíðasalnum fer vörnin frami í sal 105 á Háskólatorgi. 

Yfirlit

„Efld gæðastjórnun á ferskum fiski með bættri vörustjórnun og rekjanleika frá veiðum og til neytenda.“ (Enhancing quality management of fresh fish supply chains through improved logistics and ensured traceability) er heiti doktorsritgerðarinnar.

Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í sal 105 á Háskólatorgi og hefst kl. 15:00.

Andmælendur eru Dr. Morten Sivertsvik , “Forskningsleder” við Nofima í Stavanger og Dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Leiðbeinendur og í doktorsnefnd voru eftirfarandi Sigurjón Arason dósent við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís ohf, Dr. Gunnar Stefánsson dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild við Háskóla Íslands, Dr. Sigurður G. Bogason sérfræðingur við Háskóla Íslands og Dr. Sveinn Margeirsson sviðstjóri hjá Matís ohf.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna veitti Mai Thi Tuyet Nga námsstyrk og Matís ohf. veitti rannsókn hennar aðstöðu. Rannsóknin tilheyrði verkefnunum CHILL-ON (project no. FP6-016333-2) styrkt af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins og Hermun kæliferla sem er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.  

Ágrip úr rannsókn: „Efld gæðastjórnun á ferskum fiski með betri skipulagningu og rekjanleika frá veiðum og til neytenda.“

Markmið verkefnisins var að: Efla gæðastjórnun á ferskum fiski með betri skipulagningu og endurbættum rekjanleika frá veiðum og til neytenda.  Hluti af rannsóknunum var að fá yfirlit yfir þekkingu forstöðumanna fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi á rekjanleika og kostnaðarmeðvitund þeirra á vali flutningaleiða og umbúða við ákvörðunartöku um val  á flutningaferlum fyrir sjávarafurðir.  Greining flutningaferla var nauðsynlegur hluti verkefnisins til þess að fá heildaryfirlit yfir stöðu greinarinnar  og flutningaferlanna. Niðurstaða greiningarinnar leiddi í ljós hvaða hlekki aðfangakeðjunnar væri hægt að bæta m.t.t. geymsluþols, verklags, búnaðar, umhverfisáhrifa o.fl.  Í verkefninu var rannsakað hvernig hitastig þróast í gegnum flutningakeðjuna bæði fyrir flug og sjó; flakavinnslu, forkælingu, áhrif mismunandi umbúða, – virkni geymslna og gáma og einnig við tilfærslur vöru í keðjunni.  Niðurstöður þessara verkþátta verkefnisins voru notuð til að meta hitaálag, sem afurðirnar urðu fyrir í ferlunum og notaðar til að spá fyrir um geymsluþol.  Afrakstur verkefnisins verður notaður við að taka ákvarðanir um hvaða ferla eigi að lagfæra í aðfangakeðjunni svo að það komi að mestu gagni við bestun á heildarferlinu. 

Kostir og gallar flug- og sjóflutnings fyrir ferskan fisk voru greindir.  Niðurstöður hitakortlagningar sýndu fram á mun stöðugra hitastig í gámaflutningi með skipum en með flugflutningi.  Einkum er hætta á hitaálagi í flugflutningskeðjum þegar vara flyst milli ólíkra hlekkja kælikeðjunnar.  Aðrir þættir aðfangakeðjunnar, sem geta haft áhrif á gæði og geymsluþol ferskfisks er forkæling fyrir pökkun, staðsetning kassa á bretti í tilfelli illa hitastýrðra kælikeðja og lengd keðjanna. 

TTI (Time Temperature Indicators) var einnig greint í verkefninu þar sem búnaður var prófaður fyrir ferskar fiskafurðir og notkun hans til að meta gæðamörk afurða. Gerðar voru prófanir á TTI í geymslutilraunum til að sannreyna hvort hraði gæðabreytinga afurða væru í samræmi við virkni TTI búnaðarins.

Doktorsritgerðin er byggð á sex vísindagreinum, þar af er ein grein nú þegar birtar í alþjóðlegu vísindariti og þrár aðrar samþykktar.

Mai Thi Tuyet Nga er fædd 23. desember 1971 í Víetnam. Hún lauk B.Sc. gráðu við  Department of Aquatic Products Processing Technology at Kaliningrad State Technical University (KGTU), Kaliningrad, Russian Federation árið 1995 og M.Sc. gráðu við „Faculty of Aquatic Products Processing”, Nha Trang University (NTU), Nha Trang, Vietnam árið 2000.  Mai Thi Tuyet Nga hefur verið kennari í matvælafræði síðan 1996 við Nha Trang University (NTU).  Mai Thi Tuyet Nga er gift Tran Quang Hung og þau eiga tvær dætur Tran Mai Linh og Tran Mai Khanh Huyen.

Mai Thi Tuyet Nga, sími: 00-354-8987821; 00-84-914074318   tölvupóstfang: maiceland@yahoo.com

Sigurjón Arason, aðalleiðbeinandi,  mailto:go@hi.is sigurjar@hi.is  (sími: 8585117)

Fréttir

Nýtt verkefni – Nýting á slógi frá fiskvinnslum

Meginmarkmið verkefnisins er að nýta á arðbæran hátt það slóg sem berst að landi í Þorlákshöfn með afla sem ekki er slægður úti á sjó.

Verkefnisstjóri í verkefninu er Þorbjörn Jónsson hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og samstarfsaðilar eru:  Matís ehf., Auðbjörg ehf, Atlantshumar ehf., Hafnarnes Ver hf., Frostfiskur ehf., Lýsi hf., Landgræðsla ríkisins, Búnaðarsamband Suðurlands og
MS Selfoss.

Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi.

Stefnt er að stofnun sprotafyrirtækis í lok verkefnisins og mun fyrirtækið leggja áherslu á nýtingu slógsins til áburðarframleiðslu.  Væntanleg hliðarafurð framleiðsluferilsins er hrálýsi

Notkun slógs til áburðargjafar á sér langa sögu um allan heim. Hér á landi var algengt á fyrri hluta síðustu aldar að bera slóg á tún. Slóg hentar vel sem lífrænn áburður jafnt fyrir matjurtir sem og aðrar plöntur og grös. Rannsóknir hafa sýnt að köfnunarefnisinnihald í fiskslógi nýtist betur en köfnunarefni úr tilbúnum áburði, þar sem stór hluti tapast við uppgufun. Slógið hefur mun lengri virkni í áburðargildi þar sem frumefnin eru á lífrænu formi og losna hægar út í jarðveginn.

Nánari upplýsingar um verkefnið eru hér.

Fréttir

Matís skipuleggur vísindaheimsókn til Íslands í kringum CAREX verkefni ESB

CAREX verkefnið hefur boðið 20 vísindamönnum að heimsækja Ísland til þess að skiptast á skoðunum og læra meira um hverasvæði og líf við erfiðar aðstæður, heitar jafnt sem kaldar. Hvaða staður er betri til þess en Ísland?

Hópurinn mun m.a. heimsækja Hveragerði og Sólheimajökull og er ætlunin að prófa ýmis tæki sem nota á við sýnatöku og mælingar á lífi á jaðarsvæðum, s.s. á mjög heitu eða mjög köldu svæði.

Tengiliður Matís er Viggo Marteinsson, viggo.marteinsson@matis.is, og veitir hann nánari upplýsingar um þessa ferð/heimsókn.

Fréttir

Nýtt verkefni hjá Matís – Lífvirkt surimi þróað úr aukaafurðum

Mikill skortur er á hágæða surimi í heiminum og einnig mjög vaxandi eftirspurn eftir afurðum með lífvirkni og heilsubætandi áhrif.

Markmið verkefnisins er að þróa og setja upp nýjan vinnsluferil til að framleiða hágæða lífvirkar surimi afurðir úr vannýttu og ódýru hráefni.

Það er mikill skortur á hágæða surimi í heiminum og einnig mjög vaxandi eftirspurn eftir afurðum með lífvirkni og heilsubætandi áhrif. Því er mikið tækifæri núna fyrir Ísland að hasla sér völl á þessum markaði. Í verkefninu verður ferillinn hámarkaður og eiginleikar afurðarinnar mældar og staðfestar af kúnnum. Nýjar aðferðir og blöndur verða þróaðar til að framleiða nýja afurð, lífvirkt surimi, með áherslu á vörur sem geta stuðlað að bættri heilsu neytenda. Surimi afurðir verða svo framleiddar á stórum skala og settar í umfangsmikil markaðs- og neytendapróf erlendis.

Undir lok verkefnisins er ætlunin að á Íslandi verði komin í gang arðbær surimi framleiðsla sem mun leiða af sér fleiri störf, aukinn fjölbreytileika framleiðslu sjávarafurða á Íslandi og aukinna gjaldeyristekna.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Fréttir

Matís tekur þátt í og skipuleggur ásamt fleirum á 12. alþjóðlegu djúpsjávarráðstefnuna sem haldin er á Íslandi 8.-11. júní

Djúpsjávarráðstefnurnar eru meðal helstu viðburða á sviði djúpsjávarrannsókna. Viggó Marteinsson, fagstjóri hjá Matís, tekur þátt í skipulagningu þessarar ráðstefnu fyrir hönd Matís. 

Á ráðstefnunni er fjallað um það nýjasta sem er að gerast á þessu sviði og þangað mæta fremstu sérfræðingar á þessu sviði. Fjallað verður um margvísleg þemu, svo sem fjölbreytileika í djúphöfunum, tímgunarhætti, áhrif mannsins, o.fl.

Nánari upplýsingar, má nálgast hjá Viggó Marteinsson, viggo.marteinsson@matis.is.

Fréttir

Fiskmarkaður fyrir almenning hefur opnað í Reykjavík

Langar þig í ferskan fisk og annað sjávarfang? Fiskmarkaðurinn við gömlu höfnina opnaði á Hátíð hafsins, sl. laugardag 5. júní.

Félag um umsjón fiskmarkaðar við Suðurbugt, í samstarfi við Faxaflóahafnir og Matís, stendur að fiskmarkaðnum. Fiskmarkaðurinn  verður opinn frá 10-17 og er stefnt að því að hann verði haldinn á hverjum laugardegi fram á haust.

Verkefnið fór upphaflega af stað árið 2009 þegar AVS-sjóðurinn styrkti gerð rannsóknarskýrslu og tillögu að útliti og uppsetningu á fiskmarkaði fyrir almenning (sjá skýrsluna hér). Hluti skýrslunnar var svo sendur inn í hugmyndasamkeppni um nýsköpun í ferðaþjónustu sem Höfuðborgarstofa stóð fyrir árið 2009. Verkefnið fékk vilyrði fyrir styrk og í kjölfarið var stofnað félag til að koma fiskmarkaðinum á laggirnar.

Á Fiskmarkaðnum við gömlu höfnina er lagt upp úr að selt sé ferskt sjávarfang og að þeir sem selji það geti upplýst kaupendur um gæði, uppruna og notkun þess. En hvernig á að meta ferskleika fisks og annars sjávarfangs?

Hjá Matís hafa verið gerðar rannsóknir á ferskleika sjávarafurða um árabil. Ein afurð þessara rannsókna er svokölluð gæðastuðulsaðferð til að meta ferskleika.

Aðferð þessi hefur verið aðlöguð að ferskleikamati fyrir ýmsar algengar fisktegundir:

Nánari upplýsingar veita Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is, og Kolbrún Sveinsdóttir, kolbrun.sveinsdottir@matis.is.

Fréttir

Verkefni sem Matís tekur þátt í í fréttum um alla Evrópu

Chill on verkefnið er til umfjöllunar á Euronews fréttastöðinni frá 3. til 9. júní.

Chill-on verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og miðar að því að bæta gæði og öryggi, gagnsæi og rekjanleika í birgðakeðju á kældum / frystum fiskafurðum með því að þróa hagkvæma tækni, tæki og leiðir til áframhaldandi eftirlits og skráningu á viðeigandi gögnum og úrvinnslu gagna.

Hér má finna tengil á myndbrot um Matís á sjónvarpsstöðinni.

Á vefsíðu verkefnisins kemur m.a. fram að markaðssvæði Evrópusambandsins sé annar stærsti markaður í heimi fyrir fersk og frosin matvæli og að viðskipti með kæld og frosin matvæli aukist ár frá ári. Þar segir einnig að fiskur sé í þriðja sæti af þeim matvælum sem mest sé neytt af í Evrópu og vegna þess hve ferskur fiskur sé viðkvæm vörutegund hafi verið ákveðið að rannsaka allt sem viðkemur gæðamálum og rekjanleika í birgðakeðju og flutningum með kældan og frystan fisk í verkefninu.

Rannsóknir Matís í verkefninu snúa að mestu að fiskafurðunum og aðferðum til að auka geymsluþol og öryggi þeirra, en samstarfsverkefni af þessari stærð opnar fyrir ýmsa nýja möguleika og þekkingarflæði hingað heim.

Þættirnir um Chill on eru á dagskrá á eftirtöldum tímum:

Fim. 3. júní kl.            17:45
Fös. 4. júní kl.            00:45      08:45      12:45
Lau. 5. júní kl.            05:45      11:15      16:45     21:45
Sun. 6. júní kl.            09:45      13:45      19:45
Mán. 7. júní kl.            08:15      17:45     
Þri. 8. júní kl.              00:45       12:15     17:15
Mið. 9. júní kl.             00:45       09:15     15:45

IS