Fréttir

Nýr vefur helgaður neytendum opnaður

Á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í morgun, 14. mars, opnaði Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra vefgáttina Leiðakerfi neytenda, en það er sameiginleg vefgátt fyrir allar tegundir neytendamála, óháð því hvaða aðili fer með málin. Vefgáttin var opnuð í tilefni af því að laugardagurinn 15. mars er alþjóðlegur dagur neytenda.

Á nýja vefnum (www.neytandi.is) geta neytendur nálgast upplýsingar og kannað rétt sinn, fengið aðstoð við að bera fram kvartanir og að skjóta málum, þegar við á, til úrlausnar hjá kvörtunarnefndum eða öðrum úrlausnaraðilum – óháð tíma sólarhrings! Þess má geta að á vefgáttinni er sérstakur flokkur helgaður matvælum og þar kemur Matís þó nokkuð við sögu.

Á fundinum ræddi Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einnig um norrænt hollustumerki fyrir matvæli og talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, kynnti möguleikann á og kostina við að nýta lagaheimild til þess að sýslumenn leiti sátta í ágreiningsmálum neytenda við seljendur vöru og þjónustu.

Eitt af megináherslusviðum Matís er að sinna málum sem snúa að lýðheilsu og matvælaöryggi. Eitt af fjórum sviðum Matís er helgað matvælaöryggi. Sviðinu er skipt upp í þrjár deildir:
Efnarannsóknir, örverurannsóknir og loks ráðgjöf og gagnagrunna.

Matís býður upp á fjölbreyttar örveru- og efnamælingar fyrir viðskiptavini og eigin rannsóknaverkefni.

Matís veitir upplýsingar um öryggi matvæla á vefsíðu sinni. Niðurstöður rannsóknaverkefna um öryggi matvæla eru kynntar í skýrslum og greinum á vefsíðunni. Nýlegar skýrslur sem fjalla um öryggi sjávarafurða (númer 08-07, 44-07, 52-07), áhættumat (17-7) og akrýlamíð (01-08).

Einnig er hægt er að leita að upplýsingum um næringarefni og þungmálma í ÍSGEM gagnagrunninum á vefsíðu Matís. Við áhættumat er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um bæði næringarefni og aðskotaefni eins og þungmálma og vega saman áhrif þessara efna.

Matís rekur vefinn Seafoodnet á ensku um öryggi sjávarafurða. Á vefnum eru upplýsingar um aðskotaefni í sjávarafurðum, skýrslur, kynningarefni og tenglar á upplýsingar í öðrum löndum, einkum Norðurlöndum.

Fréttir

Grein um FISHNOSE-verkefnið í Food Chemistry

Nýlega birtist grein í tímaritinu Food Chemistry um niðurstöður úr ESB-verkefninu “Fishnose”. Höfundar greinarinnar eru Rósa Jónsdóttir, starfsmaður Matís, Guðrún Ólafsdóttir, Erik Chanie og John-Erik Haugen.

Fishnose verkefnið fjallaði um notkun rafnefs til að meta gæði á reyktum laxi og fólst í því að þróa/aðlaga rafnef frá fyrirtækinu AlphaMOS í Frakklandi til að meta reyktan lax, þ.e. hvort hann væri farinn að skemmast. Skynjarar í rafnefinu greina efni í lofti, sem myndast í fiski við geymslu og valda skemmdarlykt. Þátttaka Matís (áður Rf) í verkefninu fólst m.a. í því að skilgreina gæði vörunnar m.t.t. efnainnihalds og stöðugleika, þar sem mældar voru örverur og efnaniðurbrot. Skynmatsrannsóknir fóru fram samhliða.


Nauðsynlegt er að þekkja vel samsetningu á rokgjörnum efnum við geymslu á laxi, en Matís (áður Rf) hefur einmitt sérhæft sig í gasgreinimælingum á rokgjörnum lyktarefnum. Rokgjörn efni myndast m.a. við niðurbrot og skemmd í matvælum. Þau valda einkennandi ferskleikalykt (ilm) á meðan hráefnið er nýtt, en seinna skemmdar- eða ýldulykt er líða tekur á geymslutímann. Rafnefið getur greint þessi efni á fljótvirkan hátt og metið þannig gæði vörunnar.


Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að mest einkennandi lykt af reyktum laxi eru af völdum efnisins guaiacol úr reyknum auk rokgjarnra efna sem myndast við niðurbrot á fitu. Einnig voru einkennandi efnin 3-methyl-butanal og 3-hydroxybutanone en þau valda sætri lykt og myndast vegna örveruniðurbrots við geymslu. Önnur einkennandi efni eins og furan efni úr reyk, skemmdarefni (t.d. etanól, 3- methyl-1-butanól, 2-butanone og ediksýra) og niðurbrotsefni fitu ( t.d. 1-penten-3-ól, hexanal, nonanal and decanal) voru í þó nokkru magni en höfðu ekki eins mikil áhrif á lyktina. Þessi helstu lyktarefni reyndust betri til að útskýra gæðaeiginleika reykts lax en hefðbundnar efnamælingar og örverumælingar og fjallar greinin í Food Chemistry um það.


Verkefnið var CRAFT-verkefni á vegum Evrópusambandsins, en það eru verkefni sem miða að því að hvetja lítil fyrirtæki til þátttöku í rannsóknar- og þróunarstarfi. Íslenska fyrirtækið Reykofninn tók þátt í Fishnose-verkefninu og sá um að útvega hráefni í rannsóknir og aðstoða við að skilgreina gæði vörunnar. Guðrún Ólafsdóttir, fyrrum starfsmaður Rf, var verkefnisstjóri í verkefninu, en auk hennar vann Rósa Jónsdóttir í verkefninu.

Þess má geta að kynning á niðurstöðum verkefnisins fékk Göpel verðlaunin á  alþjóðlegri ráðstefnu ISOEN2005 í Barcelona.


Eftirfarandi greinar hafa verið birtar úr verkefninu:

Rósa Jónsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir, Erik Chanie, John-Erik Haugen. Volatile Compounds Suitable for Rapid Detection as Quality Indicators of Cold Smoked Salmon (Salmo salar). Food Chemistry 109 (2008) 184–195. Lesa grein


Haugen J., Chanie E, Westad F, Jonsdottir R, Bazzo S, Labreche S, Marcq P, Lundby F., Olafsdottir G. 2006. Rapid control of smoked Atlantic salmon quality by electronic nose: correlation with classical evaluation methods. Sensors and Actuators B, 116, 72–77.

Guðrún Ólafsdóttir, Eric Chanie, Frank Westad, Rósa Jónsdóttir, Claudia R. Thalmann, Sandrine Bazzo, Saïd Labreche, Pauline Marcq, Frank Lundby, John-Erik Haugen, 2005. Prediction of Microbial and Sensory Quality of Cold Smoked Atlantic Salmon (Salmo salar) by Electronic Nose. J Food Sci 70(9):S563-574.

Olafsdottir G, Chanie E, Westad F, Jonsdottir R, Bazzo S, Labreche S, Marcq P, Lundby F, Haugen JE. 2005. Rapid Control of Smoked Atlantic Salmon Quality by Electronic Nose: Correlation with Classical Evaluation Methods. In: Marco S, Montoliu I, editors. Proceedings of the 11th International Symposium on Olfaction and Electronic Nose, ISOEN2005, Electronic Department, Physics Faculty, Barcelona University, Barcelona, Spain. p 110-114.

Þá hefur verkefnið einnig verið kynnt á veggspjaldi á ráðstefnum.

Fréttir

Matís og H.Í. auglýsa námskeið fyrir doktorsnemendur í ágúst

Dagana 17. til 24. ágúst 2008 verður haldið námskeið sem nefnist Samspil skynmats, neytenda- og markaðsþátta í vöruþróun (Integrating sensory, consumer and marketing factors in product design). Námskeiðið verður haldið í Reykjavík.

Markmiðið er að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun.

Að sögn Emilíu Martinsdóttur, deildarstjóra á Vinnslusviði Matís, og eins af skipuleggjendum námskeiðsins, er tilgangur þess að þjálfa doktorsnema í að nota skynmatsaðferðir og neytendakannanir í vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu. Verkefni námskeiðsins mun felast í að framleiða heilsusamlegri útgáfu af vöru sem þegar er á markaði. Heilsusamlegri vara getur t.d. verið vara með minna innihald af mettaðri fitu eða salti.


Fyrrlesarar verða alþjóðlegir sérfræðingar og á hverjum degi verða fyrirlestrar með verklegum æfingum til að varpa ljósi á efnið. Emilía segir að námskeiðið sé
kjörið tækifæri fyrir norræna doktorsnema og aðra nemendur á þessu sviði.

Sjá auglýsingu um námskeiðið á íslensku

Course description in English

Einnig má finna upplýsingar á vef NordForsk

Fréttir

ÍSGEM í endurnýjun lífdaga

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) er gagnagrunnur sem geymir bæði upplýsingar um efnainnihald matvæla á íslenskum markaði og útflutt matvæli og hráefni. Gagnagrunnurinn er vistaður á vef Matís og nú stendur til að betrumbæta hann.

Ástæðan er sú að forrit gagnagrunnsins er orðið gamalt og tímabært að smíða nýtt forrit og endurskipuleggja framsetningu gagnanna í samræmi við alþjóðlega þróun. Þetta verður til mikilla bóta fyrir alla vinnu með gögnin og hagnýtingu þeirra. Birting gagnanna á vefsíðu Matís verður auðveldari en áður og sparar tíma. Notendur gagnanna munu njóta góðs af bættu aðgengi að þeim.

Fundur um ÍSGEM 7. mars 2008Dagana 6-7 mars fundaði Anders Møller frá Danish Food Information með starfsmönnum Matís til að leggja á ráðin um endurbætur á forriti ÍSGEM gagnagrunnsins. Anders hefur um árbil verið meðal fremstu sérfræðinga í Evrópu um þróun matvælagagnagrunna. Ívar Gunnarsson tölvufræðingur hjá Hugsjá tók þátt í fundunum en hann hefur unnið við ÍSGEM forritið.


Í ÍSGEM er hægt að leita eftir um það bil 900 fæðutegundum og finna upplýsingar um hverja og eina tegund. Þar er t.d. að finna upplýsingar um orkugildi hverrar fæðutegundar eða nánar tiltekið kílókalóríur, fitu í matvælum, prótein, kolvetni og viðbættan sykur. Ennfremur upplýsingar um bætiefni, eins og vítamín og steinefni. ÍSGEM er þ.a.l. hentugur fyrir þá sem vilja halda í við sig eða forðast ákveðin efni, svo sem salt- eða sykurmagn í matnum hjá sér.


Grunnurinn veitir almenningi jafnt sem atvinnulífi upplýsingar um samsetningu matvæla og er nauðsynlegt tæki fyrir matvælaiðnað og matvælaeftirlit, við næringarrannsóknir, kennslu, áætlanagerð stóreldhúsa og ráðgjöf um heilsusamlegt mataræði. Gögnin eru nýtt í forritum sem reikna út hve mikið fólk fær af hinum ýmsu næringarefnum. Matís býður upp á reikniforritið Matarvefinn á vefsíðu sinni.

Hjá Matís eru gerðar mælingar á efnainnihaldi matvæla fyrir ÍSGEM grunninn og gagna er einnig aflað frá innlendum og erlendum aðilum. ÍSGEM var forsenda fyrir þátttöku í evrópska öndvegisnetinu EuroFIR (European Food Information Resource) (network of excellence) um efnainnihald matvæla og leiðir til að miðla upplýsingunum með gagnagrunn-um og á netinu.

Á myndinni eru frá vinstri: Björn Þorgilsson, Matís, Ívar Gunnarsson tölvufræðingur, Anders Møller frá Danish Food Information, Ólafur Reykdal og Cecilia Garate, frá Matís.

Fréttir

DNA örflögutækni notuð við tegundagreiningu á fiski

Niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar á því hvort nota megi DNA örflögutækni við tegundagreiningu á fiski hafa nú verið birtar í tímaritinu Marine Biotechnology. Höfundar greinarinnar eru m.a. Dr. Sigríður Hjörleifsdóttir, Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson og Dr. Viggó Marteinsson, sem öll eru starfsmenn Matís.

Rannsóknahópar frá átta Evrópulöndum unnu að rannsókn sem var styrkt af ESB og lauk árið 2006. Fremur lítið er vitað um tegundabreytileika, breytingar á hlutföllum einstakra tegunda og starfsemi vistkerfa í sjó. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að sýnataka og greining er oft vandkvæðum bundin. Erfitt er að tegundagreina margar sjávarlífverur á egg- og lirfustigi, dýra- og plöntusvif og smásæ botndýr. Smásjárgreining er afar tímafrek og krefst mikillar sérþekkingar. Tegundagreiningar sem byggja á DNA greiningum eru stöðugt að festa sig í sessi og henta vel til slíkra greininga, enda hefur komið í ljós að þær geta verið afar öflugar.

Sem fyrr segir var viðfangsefni rannsóknarinnar að athuga hvort þróa mætti DNA örflögutækni við að greina fiskitegundir. Tegundagreinandi gen (16S rRNA) úr hvatberum úr fiski af evrópskum hafsvæðum var notað. Ellefu mikilvægar fiskitegundir voru valdar í frumgerð örflögunnar. Stuttir þreifarar voru hannaðir út frá 16S rDNA röðum úr 230 einstaklingum af 27 fiskitegundum. Pörun 16S rDNA búta úr tegundunum ellefu við blöndu mótsvarandi þreifara á örflögu leiddi í ljós að þessi tækni hentar einkar vel og er nægilega sérvirk. Ennfremur var staðfest að 16S rRNA genið hentar vel til að hanna stutta þreifara sem nota má til að greina á milli fiskitegunda.

Þetta gefur góðar vonir um að í framtíðinn verði hægt að þróa fiskiflögu (“Fish Chip”) með þreifurum fyrir u.þ.b. 50 mikilvægar fiskitegundir, sem gæti flýtt fyrir og aukið áreiðanleika tegundagreininga á fiski og fiskafurðum. Slíka flögu mætti einnig nýta í rannsóknir á vistfræði hafsins, í fiskveiðistjórnun og til að rekja og tegundagreina fiskafurðir.

Lesa greinina

Fréttir

Útskrift Sjávarútvegsskóla Háskóla S.þ.

Föstudaginn 29. febrúar luku 23 nemendur námi sínu frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og er þetta 9. árgangurinn sem hefur lokið sex mánaða námi við skólann.

Skólinn er samstarfsverkefni fjögurra stofnana/fyrirtækja: Hafrannsóknastofnunar, Matís, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, en auk þess koma Hólaskóli og Háskólasetur Vestfjarða að þessu samstarfi. Daglegur rekstur skólans heyrir undir Hafrannsóknastofnun og er forstöðumaður skólans Tumi Tómasson.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tók til starfa á árinu 1998, en í ágúst það ár hófu fyrstu 6 nemendurnir nám hér, en síðan þá hefur fjöldi nemenda margfaldast og koma þeir nú víðsvegar að úr heiminum. Í náminu er lögð áhersla á hagnýta þekkingu og reynslu, og nemendur vinna náið með íslenskum leiðbeinendum í verkefnavinnu og starfskynningum sem taka rúman helming þeirra sex mánaða sem námið varir. Á hverju ári er boðið upp á sérnám á 3-4 brautum, en sérnámið tekur á bilinu 4-5 mánuði.

Skólinn er að mestu leyti fjármagnaður með hluta af framlagi Íslands til þróunarmála og með framlögum frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Að auki hafa nokkrir nemendur stundað nám með styrk frá öðrum aðilum. Skólinn hefur sérstaka stjórn og er samstarfsverkefni fjögurra stofnana undir forystu Hafrannsóknastofnunarinnar.

Hjá Matís hafa allir nemendur skólans fengið kennslu í grunnáfanga um gæði og vinnslu fisks og í beinu framhaldi hafa nemendur á gæðalínu skólans, sem í ár voru sjö, fengið kennslu og verklega þjálfun. Fimm af þessum sjö nemendum hafa unnið lokaverkefni sín hjá Matís í Reykjavík. Að auki luku tveir nemendur verkefni frá Hólaskóla undir handleiðslu starfsmanns Matís. Þetta eru m.a. verkefni sem fjalla um rekjanleika, kælingu, þurrkun, gæði og geymsluþol ásamt samningu námsefnis með nemendurnir vinna með þarfir í eigin heimalandi í huga.

Hér að neðan eru talin upp þessi verkefni, höfundar og leiðbeinendur.

Gæðastjórnum við meðferð fisks og fiskvinnslu:

Juliana A Galvao frá Brasilíu Heiti verkefnis: Quality control in cod fishing using traceability system. Leiðbeinendur: Sveinn Margeirsson, Cecilia Garate og Jónas Rúnar Viðarsson, MATÍS.

Hong Yan Gao frá Kína Heiti verkefnis: Methods of pre-cooling and chilling for fresh cod fish and influences on qulity during storage at -1,5°C Leiðbeinendur: Bjorn Margeirsson, Kristín Þórarinsdóttir og Sigurjón Arason, MATIS

Gisella Cruz Nunez frá Kúbu Heiti verkefnis: Quality and stability of crude oil extracted from Cuban shark livers: Comparison with cod liver oil and capelin oil from Iceland Leiðbeinendur: Heiða Pálmadóttir og Rósa Jónsdóttir, MATÍS

Dedan Mwangi Mungai frá Kenía Heiti verkefnis: Identification of the contents for an advanced training course for fish inspectors in Kenya Leiðbeinendur: Franklín Georgsson og Margeir Gissurarson, MATÍS

Van Minh Nguyen frá Víetnam Heiti verkefnis: The effects of storing and drying on quality of cured, salted cod Leiðbeinendur: Sigurjón Arason og Ásbjörn Jónsson, MATIS

Sjálfbært fiskeldi:

Pada Anak Bijo frá Malaysíu Heiti verkefnis: Feasibility Study of a Recirculation Aquaculture System Leiðbeinendur: Helgi Thorarensen, Hólaskóla, Ragnar Jóhannsson, Hólaskóla og MATIS og Páll Jensson, Háskóla Íslands.

Mercedes Isla Molleda frá Kúbu Heiti verkefnis: Water Quality in Recirculating Aquaculture Systems (RAS) for Arctic Charr (Salvelinus alpinus L.) culture. Leiðbeinendur: Helgi Thorarensen, Holar Univerity College og Ragnar Jóhannsson; MATIS.

Heiða,Gisella Cruz Nunez  og Rósa
Heiða, Emilía og tveir nemendur UNFTP
Juliana
Ingibjörg Sólrún

Myndin var tekin þegar hópurinn heimsótti fiskvinnslufyrirtæki á Akureyri.

Fréttir

Fljótlegar gæðamælingar við matvælavinnslu

Á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís er unnið að verkefni sem hefur það að markmiði að bæta ferlastýringu í matvælum. Því verður náð með því að rannsaka nýjar fljótlegar mæliaðferðir á gæðavísum matvæla og hanna matvinnsluferla sem notfæra sér þessar aðferðir.

Í verkefninu, sem Tækniþróunarsjóður Rannís styrkir, verða möguleikar nærinnrauðra mæliaðferða (Near Infra Red, NIR), kjarnarófsmælinga (Nuclear Magnetic Resonance, NMR) og röntgengegnumlýsingatækni metnir til að mæla efnainnihald matvæla (NIR), vatnseiginleika (NMR) og staðsetningu beina og annarra aðskotahluta (röntgen).

Hefðbundnar mælingar til að meta þessa gæðaþætti eru yfirleitt tímafrekar og krefjast notkunar lífrænna eða hættulegra leysa, en engin slík efni koma við sögu við mælingar með þessum fljótlegu aðferðum sem verkefnið byggir á. Aðferðirnar hafa það einnig allar sameiginlegt að þær valda engum breytingum á gæðum matvæla við mælingar, sem gerir mögulegt að þær séu notaðar á rauntíma í vinnslulínum matvæla.

Með þessum fljótlegu aðferðum má því stjórna framleiðslunni betur og tryggja að hver hluti hráefnisins nýtist sem best og að aðskotahlutir finnist og verði fjarlægðir á fljótlegan og öruggan máta. Þannig má bæta stýringu vinnsluferlanna og í kjölfarið bæta gæði, öryggi, nýtingu og verðmæti matvæla. Í verkefninu felst einnig hönnun vinnslulínu sem nýtir sér þessar mæliaðferðir á markvissan hátt.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Marel, sem skipar mikilvægan þátt í hönnun vinnslulínunnar, auk samstarfs við Vísi hf, Reykjagarð hf. og Síld og fisk. Mæliaðferðirnar verða notaðar til rannsókna á vinnsluferlum fersk fisks, kjöts og kjúklings.

Nærinnfrarautt (NIR) mælitæki (t.v) og lágsviðs kjarnaspunatæki (Low field NMR) (t.h)

Verkefnið er liður í doktorsnámi Maríu Guðjónsdóttur, efnaverkfræðings og verkefnastjóra á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís.

Fréttir

Áhugaverð ráðstefna: The Nordic Sensory Identity

Dagana 28.-30. maí verður haldin ráðstefna í Gautaborg um það helsta sem er á baugi í skynmati og um hvernig rannsóknir og tækni á þessu sviði geti gagnast matvælaiðnaði. Ráðstefnan er ætluð bæði þeim sem stunda rannsóknir sem og þeim sem starfa í iðnaðinum. Vakin er athygli á að þeir sem vilja nýta sér afsláttarkjör þurfa að skrá sig fyrir 3. mars, en þá hækkar skráningargjaldið.

Eins og við sögðum frá fyrir stuttu á vef Matís, tók Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís í byrjun árs við formennsku í European Sensory Network (ESN) sem eru alþjóðleg samtók rannsóknastofnana og fyrirtækja á sviði skynmats og neytendarannsókna, en hún er einmitt á meðal fyrirlesara á fyrrnefndri ráðstefnu.


Emilía segir að skynmat verði sífellt mikilvægari þáttur í vöruþróunarferli matvælafyrirtækja og ef vel er staðið að slíku geti það sparað fyrirtækjum ómælda vinnu og fjármuni. Hún segir að Matís hafi yfir að ráða mikilli reynslu á þessu sviði og geti boðið matvælafyrirtækjum hér á landi ýmsa þjónustu, t.a.m. við nýsköpun matvæla.


Norrænn matvælaiðnaður hefur verið töluvert í sviðsljósinu upp á síðkastið og má þar t.d. nefna samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, sem ætlað er að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda og hleypti var af stokkunum á síðasta ári. Ljóst er að áhugi fólks á norrænni matvælaframleiðslu, bæði innan og utan Norðurlandanna, fer vaxandi og því nauðsynlegt fyrir alla sem starfa á þessum vettvangi að fylgjast vel með nýjungum á þessu sviði.


Emilía hvetur þá sem áhuga hafa á skynmati og nýsköpun í matvælaiðnaði að kynna sér dagskrá ráðstefnunnar og skrá sig sem fyrst.

Dagskrá og skráningarblað

Fréttir

Nýr búnaður hraðar greiningum á ólífrænum snefilefnum

Efnarannsóknadeild Matís hefur tekið í notkun nýtt tæki til að undirbúa sýni til mælinga á ólífrænum snefilefnum eins og blýi, kvikasilfri, járni og kopar. Í tækinu er örbylgjum og þrýstingi beitt til að leysa sýnin fullkomlega upp í sýru. Með þessu móti er hægt að undirbúa sýnin á fáeinum mínútum í stað 12 klukkustunda í eldri búnaði Matís. Búnaðurinn er notaður bæði fyrir sýni frá viðskiptavinum og fyrir rannsóknaverkefni Matís.

Nýja tækið auðveldar undirbúningsvinnu þegar greina þarf form ólífrænna efna eins og arsens. Slíkar greiningar eru nýtt rannsóknasvið hjá Matís og kallast á ensku „elemental speciation.“ Mjög mikilvægt er að form efnanna breytist ekki fyrir mælingu og þá kemur sér vel að hægt er að stýra hitastiginu í nýja tækinu mjög nákvæmlega.

Matís hefur yfir að ráða fullkomnum massagreini (ICP-MS) til mælinga á ólífrænum snefilefnum og með tilkomu nýja tækisins er tækjabúnaðurinn orðinn eins og best verður á kosið. Matís getur boðið viðskiptavinum upp á mælingar á öllum helstu snefilefnum í matvælum og fóðri s.s. blýi, kvikasilfri, arseni, seleni, kadmíni, járni og kopar. Auk þess er búnaðurinn mikilvægur fyrir rannsóknaverkefni, vöktun á aðskotaefnum í afurðum og önnur verkefni um efnainnihald matvæla.

Mynd: Dr Sasan Rabieh, sérfræðingur Matís í greiningum á ólífrænum snefilefnum, við nýja búnaðinn.

Fréttir

Andoxunarefni í þörungum

Á Líftæknisviði Matís eru vísindamenn m.a. að rannsaka hvort nýta megi þráahindrandi efni úr þörungum sem íböndunarefni í ýmsar heilsuvörur og markfæði sem er ört stækkandi markaður.

Einn þessara vísindamanna er Wang Tao, sem stundar doktorsnám við Matvæla- og næringarfræðiskor við HÍ með aðstöðu til rannsókna hjá Matís ohf. Hún hefur síðastliðið ár verið að skima fyrir þráahindrandi efnum í þörungum við Íslandsstrendur, en verkefnið er hluti af Gull í greipar Ægis (Novel antioxidants from Icelandic marine sources) sem AVS sjóðurinn styrkir.

Vorið 2007 var mörgum þörungategundum safnað, heildarmagn fjölfenóla ákvarðað og þráahindrandi virkni eða andoxunarvirkni metin með nokkrum andoxunarprófum (antioxidant assays). Þörungar innihalda m.a. fjölfenól sem hafa mikla lífvirkni, m.a. þráahindravirkni. Brúnþörungunum bóluþangi, hrossaþara, marinkjarna, sagþangi og stórþara var safnað, einnig sölvum og fjörugrösum sem eru rauðþörungar og maríusvuntu sem er grænþörungur.

Í ljós kom að mesta magn fjölfenóla fannst í brúnþörungunum, sérstaklega í bóluþangi og mikil fylgni var á milli magns fjölfenóla og andoxunarvirkni þörunganna. Fyrstu vísbendingar sýna einnig að bóluþang hafi blóðþrýstingslækkandi áhrif (ACE-hindravirkni) en þetta þarf að skoða nánar.

 Út frá þessum niðurstöðum var ákveðið að safna meiru af bóluþangi og sölvum síðastliðið haust og rannsaka enn frekar. Ýmsar leiðir hafa verið prófaðar til að einangra þráahindrandi efnin úr þörungunum, m.a. notaðar nokkrar tegundir ensíma. Næstu skref eru að hreinsa enn betur fjölfenólin úr þörungunum og skoða hvaða fjölfenól það eru sem hafa þráahindrandi eiginleika. Síðar verður kannað hvernig hægt er að bæta þeim í matvæli til að auka stöðugleika, bragðgæði og næringargildi.

 Wang Tao, sem er Associate Professor við Dalaian háskólann í Kína, var í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna haustið 2005 og er núna á styrk frá þeim.  Hún hefur mikla reynslu af rannsóknum á fiskprótein hydrolysötum og þörungum, sem nýtist vel í þessu verkefni.  Leiðbeinendur hennar eru Dr. Guðrún Ólafsdóttir Rannsóknaþjónustunni Sýni og Guðjón Þorkelsson dósent við HÍ og sviðsstjóri á Matís, Guðmundur Óli Hreggviðsson HÍ/Matís og Charlotte Jacobsen DIFRES-DTU Danmörku .

 Fyrstu niðurstöður verkefnisins voru kynntar á The 5th Euro Fed Lipid Congress and 24th Symposium of the Nordic Lipidforum, í Gautaborg í Svíþjóð í september 2007. Veggspjald

IS