Fréttir

Miklum verðmætum skolað burt með frárennslisvatni í fiskvinnslu

Í Viðskiptablaðinu í dag er sagt frá aðferð sem Matís, í samvinnu við Brim hf., hefur þróað til að safna fiskholdi sem kemur frá vinnslulínum í bolfiski. Aðferðin er afrakstur þriggja ára verkefnis á Matís sem nefnist “Fiskprótein í frárennsli.”

Eitt af meginmarkmiðum í verkefninu var að vinna að aukinni nýtingu og auknu verðmæti afla sem unninn er í landvinnslu með því að finna leiðir til einangrunar fiskvöðva úr vatni sem kemur frá vinnslulínum og leggja mat á notkunarmöguleika þeirra til manneldis. Afskurður, hryggir og hausar eru aukahráefni sem fellur til við fiskvinnslu. Þessu var áður fyrr hent en á seinni árum er farið að reyna að nýta þetta til manneldis, t.d. eru hausar og hryggir þurrkaðir og fluttir út.

Má í þessu sambandi geta þess að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hirtu sjómenn og fiskverkendur árið 2006 aukaafurðir sem námu 27.800 tonnum. Hafa ber í huga að hér er átt við þyngd afurðanna sjálfra en ekki kíló af fiski upp úr sjó. Mest féll til af afskurði eða 17.800 tonn, 2.700 tonn af hausum voru hirt og 2.300 tonn af hrognum. Meðal fleiri aukafurða má nefna að hirt voru 1.800 tonn af lifur og unnin 2.400 tonn af mjöli á sjó. Stærsti hluti þessara afurða fellur til vegna bræðslu eða tæp 17.800 tonn, aðallega afskurður, 14.800 tonn. Einnig bárust tæp 6.500 tonn af aukaafurðum á land af frystiskipum þetta ár, aðallega fiskhausar, 2700 tonn og afskurður, 2.900 tonn.

Hins vegar hefur sá hluti próteina sem tapast í frárennslisvatni frá vinnsluvélum, þ.e. flökunar- og roðflettivélum varla verið nýttur hingað til sem nokkru nemur. Ef magn bolfiskafurða allra vinnslustöðva er um 60 þús. tonn á ári, má gróflega áætla að um 1.200 tonn af þurrefni tapist árlega með frárennsli.

Afrakstur verkefnisins“Fiskprótein í frárennsli”  fólst í frumgerð að feril til söfnunar á massanum úr frárennslisvatni við fiskvinnslu og mati á eiginleikum og magni hans.  Með einfaldari stærðarflokkun (síun) má skilja að grófari fiskhluta sem nýst geta t.a.m.í unnar afurðir eins og marning. Fínni massa er hægt að nýta beint sem tæknileg íblöndunarefni, beint úr einangrunarferlinu eða eftir frekari vinnslu sem getur tryggt frekar heilnæmi þeirra og/eða bætt tæknilega eiginleika, t.d. til að auka nýtingu í fiskflökum með innsprautun eða annari íblöndun í fiskafurðir.

Með því ferli sem þróað var í verkefninu tókst að ná um 25% af öllu þurrefni úr frárennsli frá flökunarvél. Með notkun á hristisigtum við síun tókst að ná fínum hvítum massa úr frárennslinu með kornastærð 250-710 µm, sem hentar vel í framleiðslu hágæðapróteina. Massi sem hafði kornastærð stærri en 850 µm, var mjög grófur og blóðlitaður og hentar því frekar í marning ef hægt er að draga úr neikvæðum áhrifum blóðmengunar. Við söfnun á massa undir 250 µm þarf annan búnað, svo sem himnusíun, þar sem þurrefnin fara í gegnum 250 µm sigti.

Annar afrakstur verkefnisins er umhverfisvænni framleiðsluhættir þar sem minna af lífrænu efni er skilað út í umhverfið sem er í samræmi við auknar kröfur um hreinni framleiðslutækni. Prótein úr frárennslisvatni er hægt að nýta á öruggan hátt til manneldis með litlum tilkostnaði sem mun skapa aukin virðisauka við fiskvinnslu, ásamt því að hreinsa frárennslisvatn í leiðinni sem hægt er að endurnýta í vinnsluferlinu. 

Þátttakendur í verkefninu voru Brim hf., FISK Seafood á Sauðárkróki og Matís ohf. ásamt Iceprotein ehf.
Það voru Tækniþróunarsjóður Rannís og AVS sem styrktu verkefnið.

Frétt Viðskiptablaðsins

Fréttir

Meistaravörn við HA í dag

Mánudaginn 2. júní heldur Bjarni Jónasson meistaravörn sína á sviði fiskeldis. Vörnin fer fram kl. 10:00 og verður í stofu K109 á Sólborg. Verkefni Bjarna heitir “Replacing fish oil in Arctic charr diets. Effect on growth, feed
utilization and product quality” og var hluti af stærra verkefni, “Plöntuhráefni í
bleikjufóðri í stað fiskimjöls og lýsis” sem styrkt var af AVS sjóðnum.

Smellið hér til að lesa nánar um verkefnið og meistaravörnina.

Fréttir

Akureyri: B.Sc. verkefni við HA flýtir fyrir mælingum á PCB efnum í fiski hjá Matís

Fyrir skömmu varði Vordís Baldursdóttir lokaverkefni sitt til B.Sc. gráðu við Háskólann á Akureyri „Þróun aðferðar til mælinga PCB efna í fiski með ASE útdrætti“. Verkefnið vann hún undir leiðsögn Ástu M. Ásmundsdóttur sérfræðings hjá Matís.

Nýlega var nýtt tæki tekið í notkun á rannsóknarstofu Matís á Akureyri til að undirbúa sýni til mælinga á þrávirkum lífrænum efnum í matvælum ASE 300 (Accelerated Solvent Extraction). Tækið byggir á því að draga efnin úr sýninu undir hita og þrýstingi. Með nýja tækinu er hægt að undirbúa sýni til greiningar á mun skemmri tíma heldur en með eldri búnaði.

Þegar búið er að draga PCB efnin úr sýninu með þessum hætti er magn þeirra greint með GC-ECD tækni. Verkefni Vordísar var að öllu leyti unnið í rannsóknaraðstöðu Matís á Akureyri og snerist fyrst og fremst um þróun nýrra mæliaðferða með því að nýta ASE tækið auk þess sem hún endurbætti eldri aðferðir fyrir GC-ECD í þeim tilgangi að stytta greiningartímann.

Verkefnið leiddi til þess að nú er unnt að framkvæma mælingar á PCB efnum í 12 sýnum þannig að niðurstöður liggi fyrir u.þ.b. 2 sólahringum eftir að útdráttur hefst, en sami sýnafjöldi með eldri aðferð tók u.þ.b. 5 sólahringa oghefur þessi aðferðaþróun því leitt til verulegs tímasparnaðar.

Búnaðurinn mun verða notaður bæði fyrir sýni frá viðskiptavinum og fyrir rannsóknaverkefni Matís. Vordís verður sumarstarfsmaður á Efnarannsóknardeild Matís á Akureyr og mun m.a. vinna við PCB mælingar.

Fréttir

Matís í Neskaupstað tekur í notkun próteingreiningartæki

Nýlega tók Matís í Neskaupstað í notkun fullkomið tæki til mælinga- og greiningar á fiskpróteinum. Tækið, sem er frá fyrirtækinu Elementar í Þýskalandi, er af gerðinni Fast N/Protein Analyzer rapid N cube.

Tækið byggir á s.k. Dumas aðferð, en mælingar skv. þeirri aðferð byggja á þurrbrennslu og mælingu á nitri í formi lofttegundar (N2). Aðferðin er margfalt hraðvirkari og umhverfisvænni heldur en Kjeldahl aðferðin sem mikið er notuð til mælinga á próteini í matvæla- og fóðursýnum.

Að sögn Þorsteins Ingvarssonar, stöðvarstjóra Matís í Neskaupstað, er tækið mjög hraðvirkt og nákvæmt og auðveldar því mjög mælingar á köfnunarefni og próteinum í fiskimjöli.

Starfstöð Matís í Neskaupstað annast einkum örveru- og efnamælingar fyrir fiskimjölsiðnaðinum á Austfjörðum, en þungamiðja fiskimjölsiðnaðar á Íslandi er á því svæði.

Á myndinni má sjá Karl Rúnar Róbertsson, sérfræðing hjá Matís í Neskaupstað við próteingreiningartækið.

Fréttir

Ný skýrsla um vinnslu fiskpróteina í fæðubótarefni

Eitt helsta sóknarfæri íslensks sjávarútvegs felst í að auka verðmæti úr því hráefni sem kemur úr sjó. Með því að vinna fæðubótarefni úr fiski er hægt að auka verðmæti hráefnisins verulega, ekki síst úr vannýttum tegundum sem núna eru alla jafnan ekki nýttar til manneldis eða aukaafurðum og tilfallandi hráefni við hefðbundna vinnslu á matvælum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Matís.

Í skýrslunni Fiskprótein sem fæðubótarefni, er fjallað um þá möguleika sem hugsanlega felast í því að vinna stærri hluta sjávarfangs í verðmætar afurðir, sérstaklega vinnslu fiskpróteina til notkunar í hinum ört vaxandi fæðubótar- og heilsuvörumarkaði.

Markaður fyrir fæðubótarefni og heilsuvörur hefur vaxið gríðarlega á sl. árum og slíkar vörur eru nú stærri hluti af næringu fólks en áður. Fæðubótarefni eru matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði. Prótein í fæðubótaefnum og heilsuvörum eru aðallega unnin úr mjólkur- og jurtapróteinum.

Í skýrslu Matís er komist að þeirri niðurstöðu að næringarsamsetning fiskpróteina sé ákjósanleg sem fæðubótarefni, en þróun og rannsóknir til að framleiða þau með þeim eiginleikum sem þykja hvað ákjósanlegastir fyrir fæðubótarefni hafi verið ábótavant hingað til.  Með því að vinna fæðubótarefni úr fiski væri hægt að auka verðmæti hráefnisins. Markmið verkefnisins var að þróa fiskprótein sem nýttust sem fæðubótarefni.

Vinnsla próteina í verðmætari afurðir

Eins og sést á myndinni skila sérhæfðar og þróaðar afurðir meiri hagnaði en almennar og minna unnar vörur. Líkur benda til þess að hagnaður aukist eftir því sem afurðirnar eru meira unnar. Þeim mun þróaðri sem vörurnar eru, þeim mun verðmætari verða þær og með hverju skrefi sem vörurnar nálgast lyfjamarkað, eykst verðmæti þeirra.

Fréttir

Opinn fundur Matís í Neskaupstað mán. 26.

Mánudaginn 26. maí heldur Matís opinn kynningarfund í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað undir yfirskriftinni Sóknarfæri í sjávarútvegi og matvælaiðnaði á Austurlandi.

Meðal þeirra sem flytja erindi á fundinum eru Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, Helga Jónsdóttir bæjarstjóri Fjarðarbyggðar, ásamt nokkrum sérfræðingum frá Matís. Björk Sigurgeirsdóttir sem er verkefnastjóri Þróunarfélags Austurlands og ennfremur framkvæmdastjóri Vaxtarsamnings Austurlands mun einnig flytja erindi á fundinum.

Fundurinn verður, sem fyrr segir, haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands að Mýrargötu 10, Neskaupstað, í stofu 1. Fundurinn er öllum opinn og áhugasamir hvattir til að mæta.

Anna K. Daníelsdóttir og Kristinn Ólafsson: Glærur – Arfgerðargreiningar

Fréttir

Matís heldur námskeið í Kenía

Tveir starfsmenn Matís eru á förum til Kenía til að halda þar námskeið fyrir fiskeftirlitsmenn. Námskeiðið er haldið á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og er hugsað sem framhaldsnám fyrir starfandi fiskeftirlitsmenn þar í landi.

Um er að ræða nýja nálgun við menntun í þróunarríkjum þar sem tilgangurinn er ekki eingöngu að halda námsskeið heldur einnig að koma á fót sjálfbæru námskeiði, sem heimamenn taka yfir í framhaldi af dvöl starfsmanna Matís.


Upphaflega stóð til að halda námskeiðið í Kisumu, við Viktoríuvatn, en að sögn Margeirs Gissurarsonar, annars sérfræðinga Matís sem mun halda námskeiðið, er ástandið í Kisumu enn ótryggt eftir óeirðirnar sem urðu eftir kosningar í landinu í lok síðasta árs.

Námskeiðið verður í staðinn haldið í hafnarborginni Mombasa, sem er næststærsta borg Kenía. Margeir heldur utan 24. maí og mun Franklín Georgsson svo bætast í hópinn 31. maí. Báðir eru vanir Afríkufarar og vel kunnir frumskógum Afríku, en þeir hafa t.a.m. haldið námskeið í Mósambik á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞÞSÍ) og fóru til Kenía árið 2007 til að undirbúa fyrirhugað námskeið.

Á myndinni má sjá Franklín Georgsson (2. fv; Margeir Gissurarson (f. miðju) og Sigríði Ingvarsdóttur, starfsmann Sjávarútvegsskóla Háskóla S.þ., á spjalli við heimamenn í Kisumu í fyrra.

Fréttir

CHILL ON fundur í Reykjavík

Dagana 13. og 14. maí sl. var í Reykjavík haldinn vinnufundur í Evrópuverkefninu CHILL ON. Um var að ræða fyrsta fund verkþáttar 5 (“Integration and validation – field trials”). Sex starfsmenn frá Matís sátu fundinn enda kemur Matís til með að gegna veigamiklu hlutverki í verkþættinum, sem snýst í stuttu máli um prófun og aðlögun á tækninýjungum og lausnum sem þróaðar eru í verkefninu.

Markaðssvæði ESB er annar stærsti markaður í heimi fyrir fersk og frosin matvæli og viðskipti með kæld og frosin matvæli hafa aukist um meira en 10% á ári á undanförnum árum. Fiskur er í þriðja sæti af þeim matvælum sem mest er neytt af í Evrópu og vegna þess hve ferskur fiskur er viðkvæm vörutegund var ákveðið að rannsaka allt sem viðkemur gæðamálum og rekjanleika í birgðakeðju og flutningum með kældan og frystan fisk í verkefninu.

Í CHILL ON verkefninu verður jafnframt unnið að þróun sömu þátta fyrir kjúklingaafurðir og birgðaleiðir slíkra afurða til Evrópu. Má í þessu sambandi geta þess að frá Brasilíu eru t.d. flutt um 250 þús tonn árlega af kjúklingabringum til markaða í Evrópu. Þátttakendur í verkefninu koma bæði víða að frá Evrópu en einnig utan álfunnar, s.s. frá Kína og S-Ameríku.

Þetta fjögurra ára verkefnið er nú hálfnað og lýkur árið 2010.  Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu verkefnisins.

Verkefnisstjóri í CHILL ON af hálfu Matís er María Guðjónsdóttir.

Fréttir

Matís í 12. sæti yfir fyrirmyndarstofnanir í könnun SFR

SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu stóð nýlega í þriðja sinn að vali á stofnun ársins. Könnunin átti sér stað meðal félagsmanna SFR á starfsskilyrðum þeirra og líðan á vinnustað. Ennfremur var öllum stofnunum ríkisins gefinn kostur á því að allir starfsmenn, óháð því í hvað stéttarfélögum þeir eru, gætu tekið þátt.

Í könnun SFR er Matís flokkuð í hópi stærri opinberra stofnanna og lendir þar í 12. sæti. Reyndar lendir Matís þarna á gráu svæði því strangt til tekið er Matís ekki opinber stofnun, þó svo það sé alfarið í eigu ríkisins, heldur opinbert hlutafélag (ohf) eins og lesa má hér.

Frá þessu er sagt á vefsíðu SFR og í Morgunblaðinu. Á vef SFR er að finna ýtarlegar upplýsingar um hvað liggur að baki könnuninni.

Fréttir

Málþing um lífrænan landbúnað í Norræna húsinu föstudaginn 16. maí

Á fundinum verður m.a. fjallað um hvort lífrænn landbúnaður sé valkostur á Íslandi. Fundurinn hefst kl. 12:45 og stendur til kl. 17:00.

Á fundinum verður reynt að varpa ljósi á ýmsar hliðar lífræns landbúnaðar. Eru lífrænar afurðir hollari en aðrar? Valda framleiðsluaðferðirnar minni skaða á umhverfinu en ef um hefðbundinn landbúnað væri að ræða? Nær lífrænn landbúnaður betur að uppfylla óskir neytenda hvað varðar dýravelferð? Á málþinginu verður reynt að leita svara við þessum spurningum og ótal öðrum.

Dr. Áslaug Helgadóttir, aðstoðarrektor rannsóknamála, Landbúnaðarháskóla Íslands setur fundinn og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpar fundarmenn. Fundarstjóri verður Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Kristján Oddsson, bóndi á Neðra- Hálsi í Kjós flytur erindi sem hann nefnir Lífræn framleiðsla: Fyrir hvern og hvers vegna? Kristján fjallar fyrst og fremst um lífræna mjólkurframleiðslu sem viðskiptahugmynd – kosti þess og galla að stunda lífræna mjólkurframleiðslu. Þá mun dr. Guðni Þorvaldsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands gera grein fyrir upphafi og tilurð lífræns landbúnaðar ásamt þeirri hugmyndafræði sem þar liggur að baki. Hann ætlar að skoða hvort lífræn ræktun, eins og hún er kynnt nú um stundir, byggi á öðrum grunni en hugmyndafræði frumkvöðlanna. 

Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands fjallar um reglugerð um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar og dr. Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands flytur erindi sem hann nefnir Skilyrði  fyrir lífrænan landbúnað á Íslandi en þar verður einkum fjallað um líffræðileg skilyrði til slíks búskapar hér á landi með hliðsjón af frjósemi jarðvegs, loftslagi, velferð búfjár og búgreinum svo dæmi séu nefnd. Jafnframt  mun Ólafur víkja stuttlega að stuðningi sem bændur eiga kost á til aðlögunar að lífrænum búskap. 

Dr. Holger Kirchmann, prófessor við landbúnaðarháskólann, Uppsölum flytur erindi þar sem hann ber saman uppskeru, kolefnisbindingu, útskolun næringarefna og orkunotkun í lífrænum og hefðbundunum landbúnaði. 

Grétar Hrafn Harðarson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands flytur erindi sem hann nefndir  Samanburður  á heilsufari og velferð búfjár og öryggi afurða í lífrænum og hefðbundnum landbúnaði.  Í erindinu ætlar Grétar Hrafn  að fjalla um hugsanlegar breytingar á tíðni framleiðslusjúkdóma þegar breytt er yfir í lífrænan landbúnað og hvernig bregðast megi við með fyrirbyggjandi aðgerðum.  Þá ræðir Grétar Hrafn um hugsanlegan mun á hollustu afurða búfjár við lífrænar aðstæður. 

Að lokum mun dr. Daði Már Kristófersson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun H.Í. flytja erindi sem hann nefnir Hagfræði lífræns landbúnaðar.

 Þegar flutningi erinda lýkur verða fyrirspurnir og pallborðsumræður.

IS