Fréttir

Starfsmenn Matís vinna verkefni á Sri Lanka

Starfsmenn Matís hafa lokið við gerð skýrslu um vatn og ís í fiskvinnslu á Sri Lanka. Þeir hafa haft umsjón með rannsóknum á þessu sviði undanfarin eitt og hálft ár og önnuðust lokaniðurstöður skýrslurnnar.

Um er að ræða samvinnuverkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sjávarútvegsráðuneytis Sri Lanka og NARA, sjávarútvegsstofnunar Sri Lanka. Starfsmenn Matís voru fengnir til að vinna að þessu verkefni frá árinu 2006 og túlka gögn í lokaniðurstöður skýrslunnar. Viggó Marteinsson og Hrólfur Sigurðsson, starfsmenn á örverudeild Matís, kynntu niðurstöðurnar á fundi í sjávarútvegsráðuneyti Sri Lanka í síðustu viku.

Jafnhliða því voru tveimur starfsmönnum NARA afhent viðurkenningarskjöl fyrir tveggja vikna námskeið sem þær sóttu hjá Matís á Íslandi í nóvember.


Á myndinni eru Viggó Marteinsson, Tharangika Suvinie Dahanayake, Kumudini Sriyalatha Hettiarachchi og Hrólfur Sigurðsson.

Fréttir

Vill fólk borða stressaðan eldisfisk?

Neytendum finnst stressaður eldisfiskur álíka góður og óstressaður. Þó virðist ábatasamt fyrir framleiðendur að mæta auknum kröfum um velferð dýra, segir í umfjöllun Morgunblaðsins um erindi Emilíu Martinsdóttur á haustráðstefnu Matís. Þar segir að velferð dýra og umhverfisvæn matvælaframleiðsla hafi í auknum mæli vakið áhuga almennings á sama tíma og áhersla hafi verið lögð á að koma á reglugerðum um fiskeldi.

“Eitt af þeim sjónarmiðum, sem hafa verið í umræðunni, er einmitt velferð dýra í eldisframleiðslu. Mikilvægt er því að kanna hvort mismunandi meðferð á fiski í tengslum við dýravelferð hefur í raun áhrif á bragð og eiginleika afurðarinnar. Ef sú er raunin gæti það haft á hrif á neytendur,” segir í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. desember.

Segir að haustið 2006 hafi verið framkvæmd viðamikil samevrópsk rannsókn sem var hluti af þátttöku Matís í svonefndu SEAFOOD plus-verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. “Markmiðið var að kanna hvort eldisþorskur, sem framleiddur var með sérstöku tilliti til dýravelferðar annars vegar og hins vegar framleiddur á hefðbundinn hátt, hefði mismunandi gæðaeinkenni. Einnig var gerð neytendakönnun til að kanna hvort neytendur hefðu mismunandi smekk fyrir þessum afurðum og hvort mismunandi upplýsingar um eldið hefðu áhrif á hvernig neytendum geðjast að afurðum. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir þá sem stunda fiskeldi, vinna vörur úr eldisfiski sem og seljendur, “ segir í grein Morgunblaðsins

Þá segir að á Íslandi hafi könnunin verið tvískipt. “Annars vegar komu rúmlega eitt hundrað manns til Matís og smökkuðu á norskum eldisþorski og hins vegar fengu um sjötíu fjölskyldur fisk með sér heim til að elda og smakka. Sambærileg könnun var gerð meðal neytenda í Hollandi og á Spáni á sama tíma,” segir í Morgunblaðinu.

Eldisþorskur, sem var með hefðbundnum aðferðum, reyndist hafa flögukenndari og mýkri áferð og minnti meira á villtan fisk, en eldisþorskur, sem var framleiddur með sérstöku tilliti til velferðar dýra, reyndist hafa kjötkenndari og seigari áferð. Þeir neytendur sem komu til Matís til að smakka fisk, fengu að vita að fiskurinn, sem þeir smökkuðu, væri norskur eldisþorskur, en engar upplýsingar voru veittar um framleiðsluaðferðina. “Þessum hópi neytenda fannst eldisþorskur framleiddur með hefðbundnum aðferðum ívið betri en þorskur, sem framleiddur var með sérstöku tilliti til velferðar dýra. Helst var það áferðin og lyktin, sem þeim fannst betri af hinum hefðbundna eldisþorski,” kemur fram í Morgunblaðinu.

Fréttir

Myndir frá undirritun samkomulags Matís og HÍ

Matís og Háskóli Íslands skrifuðu undir samkomulag á dögunum um að vinna náið að því að stórefla rannsóknir og menntun í matvælafræðum, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggi. Í samkomulaginu er ennfremur stefnt að því að fjölga verulega nemendum í grunn- og framhaldsnámi í þessum greinum við Háskóla Íslands.

HELSTU ATRIÐI SAMKOMULAGS HÁSKÓLA ÍSLANDS OG MATÍS:

  • Að auka rannsóknir í matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggi.
  • Að efla fræðilega og verklega menntun háskólanema í matvælafræðum og skyldum greinum.
  • Að Háskóli Íslands sé leiðandi á völdum sérfræðasviðum og laði að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Að Háskóli Íslands og Matís nýti möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna.
  • Að fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi í matvælafræði og skyldum greinum til hagsbóta fyrir almenning og fyrirtæki.
  • Að Háskóli Íslands verði í fararbroddi í nýsköpun á þessum fræðasviðum.
matis_hi_231107_03
matis_hi_231107_01
matis_hi_231107_09
matis_hi_231107_02

Fréttir

Matís og SINTEF: Aukið alþjóðlegt samstarf: Eflir rannsóknir og þróun í matvælaiðnaði á Íslandi

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og norska rannsóknafyrirtækið SINTEF hafa gert með sér samkomulag sem hefur það að markmiði að efla rannsóknir, þróun og virði í sjávarútvegi og matvælaiðnaði á Íslandi og í Noregi. Samkomulagið gerir Matís kleift að taka þátt í rannsóknaverkefnum í samstarfi við SINTEF og norsk fyrirtæki í fiskeldi og matvælarannsóknum. Þá mun samkomulagið auka möguleika Matís á því að kynna starfsemi sína á erlendum vettvangi og taka þátt í fleiri alþjóðlegum og samevrópskum rannsóknaverkefnum.

Náið samstarf við Tækniháskólann í Þrándheimi

Samkomulagið mun einnig gera íslenskum fyrirtækjum og stofnunum mögulegt að þróa samstarf með SINTEF og fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum erlendis.

 Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, og Karl Almås forstjóri sjávarútvegs- og fiskeldisdeildar SINTEF, handsala samninginn í Noregi.

Helstu styrkleikar SINTEF fyrir íslenskan sjávarútveg og matvælaiðnað eru þekking í sjávarútvegi, svo sem í fiskeldi. SINTEF getur boðið fram aðstoð í rannsóknum og þróun á þorskeldi og vinnslutækni í sjávarútvegi, þ.m.t. veiðum. SINTEF er í nánu samstarfi við NTNU (Tækniháskólann í Þrándheimi) sem eykur möguleika íslenskra menntastofnana á alþjóðlegu samstarfi.

Að sama skapi getur Matís lagt að mörkum sérþekkingu til fyrirtækja í Noregi í vinnslutækni í sjávarútvegi, fiskeldi og líftæknirannsóknum fyrir sjávarútveg.

Stuðlar að aukinni þekkingu í íslenskum matvælaiðnaði

“Framtíðarsýn Matís er að efla samkeppnishæfni íslensks matvælaiðnaðar. Við teljum að með samkomulagi okkar við SINTEF hafi Matís stigið mikilvægt skref í þá átt. SINTEF er virt þekkingar- og rannsóknafyrirtæki á alþjóðlegum vettvangi, sem hefur afar dýrmæta þekkingu á þeim úrlausnarefnum sem snúa að Íslendingum, svo sem í fiskeldi og vinnslutækni í sjávarútvegi. SINTEF getur því stuðlað að aukinni þekkingu í íslenskum matvælaiðnaði og eflt möguleika íslenskra fyrirtækja og háskóla á erlendum vettvangi. Þá opnar samstarfið nýja möguleika í rannsóknaverkefnum á vegum Evrópusambandsins. Við væntum því mikils af samstarfi okkar við SINTEF á komandi árum og gerum okkur vonir um að það komi til með að auka enn frekar virði í íslenskum matvælaiðnaði,” segir Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.

Um SINTEF: Sjálfseignarstofnun í rannsóknum og þróun við tækniháskólann í Þrándheimi í Noregi. Það starfar meðal annars í sjávarútvegi og fiskeldi. Einnig í byggingariðnaði, byggingaverkfræði, upplýsingatækni, efnafræði, olíuiðnaði og orkuiðnaði.

Helstu markmið samkomulags Matís og SINTEF

  • Vinna við sameiginleg rannsóknaverkefni með fyrirtækjum á Íslandi og í Noregi.
  • Samvinna um að treysta fjármögnun rannsóknaverkefna, ekki síst í stórum Evrópuverkefnum.
  • Gagnkvæm kynning á samstarfsfyrirtækjum og rannsóknaverkefnum.

Fréttir

Nýr starfsmaður á Ísafirði

Cecilia Elizabeth Garate Ojeda hefur tekið við starfi sérfræðings hjá Matís á Ísafirði. Ceclia, sem er frá Perú, lauk BCs í iðnarverkfræði frá Universidad Nacional de San Agustin Arequipa í Perú árið 2000 og svo MBA námi frá Industrial Business School í Madríd á Spáni árið 2006.

Með tilkomu Cecilu eru nú fjögur stöðugildi hjá Matís á Ísafirði.

Fréttir

Stórefldar rannsóknir og aukin menntun í matvælafræðum: Stefnt að fjölgun nemenda

Háskóli Íslands og Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hafa ákveðið að vinna náið að því að stórefla rannsóknir og menntun í matvælafræðum, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggi. Stefnt er að því að fjölga verulega nemendum í grunn- og framhaldsnámi í þessum greinum við Háskóla Íslands samkvæmt samstarfssamningi sem HÍ og Matís hafa undirritað.

Hlutverk Háskóla Íslands felst í rannsóknum á fræðasviðinu innan viðkomandi deilda skólans og leiðbeiningu nemenda í meistara- og doktorsnámi, auk þess að bera ábyrgð á kennslu í viðkomandi greinum. Hlutverk Matís er að bera faglega ábyrg á völdum fræðasviðum ásamt því að tryggja aðstöðu fyrir verklegt nám, kennslu og rannsóknir. Þá mun Matís stýra verklegri kennslu og þjálfun nemenda í BS námi í matvælafræði en þetta miðar m.a. að því að fjölga nememendum sem útskrifast á fræðasviðinu.

Markmið samningsins er meðal annars að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, að bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu.

Frá undirritun samningsins 23. nóvember 2007.

„Matís er leiðandi rannsóknastofnun á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis. Matís hefur um árabil verið einn mikilvægasti samstarfsaðili Háskóla Íslands. Háskólinn hyggst efla rannsóknir og kennslu á þessum sviðum í Vísindagörðum, sem reistir verða á háskólalóðinni á næstunni. Samkomulag þetta er mikilvægur liður í þeim ásetningi Háskólans að efla formlegt samstarf við Matís á sviði verk- og raunvísinda og á heilbrigðisvísindasviði, ekki síst í næringarfræði og lýðheilsu. Háskóli Íslands hefur sett sér metnaðarfull markmið um árangur í rannsóknum á næstu árum, en náið samstarf við öflugar rannsóknastofnanir á borð við Matís er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

„Samkomulagið við HÍ felur í sér nýja og spennandi möguleika fyrir Matís og við erum sannfærð um að það komi til með að styrkja enn frekar rannsóknastarf í matvælafræðum og laða að fleiri nemendur að slíkum fræðigreinum innan veggja háskólans. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins. Til þess að fyrirtækið nái settum markmiðum sínum er mikilvægt að það eigi náið samstarf við Háskóla Íslands, sem er stærsta menntastofnun landsins,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.

Fréttir

Enn meira af Matís ráðstefnunni

Rúmlega 160 manns fylltu Gullteig salinn á Grand Hótel á fimmtudaginn var þegar ráðstefna Matís, Matur og framtíð, var haldin, í fyrsta skipti. Í sal fyrir utan ráðstefnuna var svo hægt að kynnast matarhönnun og nýsköpun í matvælaiðnaði, eins og fjallakonfekti, blóðbergsdrykkjum og eldisfiskum. Ennfremur gafst gestum tækifæri á því að bragða á harðfiski frá Gullfiski.

Mikill áhugi á ráðstefnunni nú er hvatning fyrir fyrirtækið að halda áfram á næsta ári með samskonar ráðstefnu og sýningu og gera enn betur þá.

matis_grandhotel_151107_05
matis_grandhotel_151107_11
matis_grandhotel_151107_23
matis_grandhotel_151107_24
matis_grandhotel_151107_73
matis_grandhotel_151107_34
matis_grandhotel_151107_53
matis_grandhotel_151107_72
matis_grandhotel_151107_78
matis_grandhotel_151107_87

Fréttir

Heilsufullyrðingar: Númer vinninga

Búið er að draga út vinningsnúmer úr hópi þeirra sem tóku þátt í heilsufullyrðingakönnun Matís. Glæsilegir vinningar eru í boði frá Mjólkursamsölunni. Sjá númer vinningshafa hér.

Númer vinningshafa:

Númer          Vinningar

3032      1. vinningur – 30.000 kr.

4363      2. vinningur – 15.000 kr.

3349      3. vinningur – ostakarfa.

3599      4. vinningur – ostakarfa.

3229      5. vinningur – ostakarfa.

Fréttir

Ráðherra skálar í blóðbergsdrykk og smakkar á fjallakonfekti

Einar K. Guðfinnsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skálaði í bóðbergsdrykk og gæddi sér á fjallakonfekti, sem var í boði í upphafi ráðstefnu Matís, Matur og framtíð, í dag. Á ráðstefnunni er leitast við að svara spurningum á borð við hvers vegna grænmeti sé hollt, hvort þorskeldi eigi framtíð fyrir sér á Íslandi, hvers vegna fólk vill ekki stressaðan eldisfisk og hvort fólk viti yfirhöfuð hvaðan maturinn þeirra kemur.

Þróttur og athafnagleði

Ráðherra sagði meðal annars í ræðu sinni á ráðstefnunni að það væri mjög
ánægjulegt að hafa orðið vitni að þeim þrótti og athafnagleði sem einkennt hefur starfsemi Matís frá fyrsta degi. “Ekki svo að skilja að það hafi á nokkurn hátt komið á óvart. Síður en svo. Vitað var að þarna væri saman komið dugmikið fólk með yfirburða þekkingu á sínu sviði og því voru auðvitað bundnar miklar vonir við afraksturinn. Þær væntingar hafa ekki brugðist. Hvert verkefnið á fætur öðru hefur líka skilað áhugaverðum niðurstöðum sem oft og tíðum vekja athygli,” sagði ráðherra.

Öflugt bakland innlendrar matvælaframleiðslu

Þá kom fram í máli ráðherra að það væri afar mikilvægt að á Íslandi starfi öflugt fyrirtæki á sviði matvælarannsókna, sem væri í stakk búið til að takast á við auknar kröfur um öryggi og heilnæmi og væri um leið í forystuhlutverki við að styðja við og ýta undir nýsköpun í matvælaframleiðslu landsmanna.

“Það var von okkar með stofnun fyrirtækisins að það gæti orðið öflugt bakland innlendrar matvælaframleiðslu og tryggt aðgengi afurða okkar að verðmætustu matvælamörkuðum heims. Matís vinnur jafnframt markvisst að því að byggja upp öfluga starfsemi víðs vegar um landið um leið og gengið er til samstarfs við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Það hefur því mikið gerst á þessum tíu mánuðum sem Matís hefur starfað og lofar góðu um framhaldið.”

Fréttir

Innlent grænmeti yfirleitt ferskara og af meiri gæðum

Innlent grænmeti er yfirleitt ferskara og af meiri gæðum en það innflutta. Næringargildið er svipað en minna er um varnarefni í því innlenda, segir Ólafur Reykdal verkefnastjóri hjá Matís í samtali við 24 stundir. “Það er mjög stutt frá haga til maga,” segir Ólafur

“Það er mjög stutt frá haga til maga. Það eru stuttar vegalengdir frá framleiðanda til neytanda sem býður upp á að innlent grænmeti sé af meiri gæðum og ferskleika en grænmeti sem flutt er um langan veg,” segir Ólafur og bendir á að stuttum vegalengdum fylgi fleiri kostir. “Styttri flutningar þýða einfaldlega minni mengun. Innlenda framleiðslan leiðir þvi til minni mengunar og það er nokkuð sem fleiri eru farnir að velta fyrir sér.”

Minna um varnarefni

Aðstæður til ræktunar grænmetis eru aðrar hér á landi en víða erlendis. Ólafur bendir á að hér sé loftslag svalt og nýta megi jarðhitann en á móti komi erfið
birtuskilyrði sem þurfi að bregðast við með mikilli raflýsingu.

“Svala loftslagið þýðir líka að hér er minna af skordýrum og öðru sem þarf að nota varnarefni gegn. Íslenska grænmetið kemur almennt betur út en það innflutta hvað varðar þessi varnarefni,” segir Ólafur í samtali við 24 stundir.

Ólafur Reykdal, Matís.

IS