Fréttir

Brjósksykrur og lífvirk efni úr sæbjúgum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á Matís er nú að hefjast vinna við verkefni sem ber heitið: ” Brjósksykrur og lífvirk efni úr sæbjúgum” og var ræsfundur í verkefninu haldinn í morgun. Verkefnið mun ganga út á þróun á vinnsluferli lífvirkra efna úr sæbjúgum, allt frá vinnslu chondroitin sulfats úr sæbjúgum til framleiðslu og hreinsunar á chondroitin sulfat fásykrum sem unnar eru með sérvirkum sykursundrandi ensímum.

Einnig verða vinnsluferlar þróaðir til að framleiða extrökt með viðtæka lífvirkni. Stefnt er að því að verkefnið leiði til þróunar framleiðsluafurða með stöðluðu innihaldi og virkni sem selja má á mörkuðum í Evrópu, Japan og Kóreu og víðar.

Rannsóknir hafa sýnt að chondroitin sulfat fásykrur hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting, ónæmiskerfi, meltingu, oxunarferla, bólguferla, gigt og fleiri þætti sem snúa að líkamsstarfsemi manna og dýra. Því má nota chondroitin sulfat fásykrur sem lyf, heilsu- eða fæðubótaefni. Unnt er að framleiða slíkar sykrur með sérvirku ensímniðurbroti á chondrotin sulfati fjölsykru. Chondrotin sulfati fjölsykrur er hægt að vinna í miklu magni úr sæbjúgum, sem er vannýtt tegund með mikla nýtingarmöguleika. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt að margar tegundir sæbjúga hafa mikið af lífvirkum efnum sem hægt er að einangra eða vinna áfram.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís og AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi og er unnið í samvinnu við IceProtein á Sauðárkróki, Reykofninn Grundarfirði og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.