Fréttir

Matís og Veiðimálastofnun í samstarf: rannsóknir á erfðafræði íslenskra laxfiska

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís Ohf og Veiðimálastofnun undirrituðu í gær, fimmtudaginn 3. júlí, rammasamning um eflingu samstarfs milli fyrirtækjanna. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfesti samninginn af því tilefni. Undirritunin fór fram í húsnæði Matís-Prokaria, líftæknisviðs Matís, að Gylfaflöt 5 í Grafarvogi. Samstarf Matís og Veiðimálastofnunar verður einkum á sviði erfðarannsókna og í fiskeldi.

Matís–Prokaria sýndi við sama tækifæri nýja raðgreiningarvél en tækið getur raðgreint mikið magn erfðaefnis, t.d. fyrir stofnerfðagreiningar og við leit að áhugaverðum genum fyrir ný ensím sem meðal annars má nota í lyfja-, matvæla- og orkuiðnaði.

Samvinnan er þegar hafin og í gangi er viðamikil rannsókn á stofnbreytileika íslenskra laxa og ferðir þeirra í hafinu umhverfis Ísland. Þetta er hluti af alþjóðlegu rannsóknaverkefni á Atlantshafslaxi. Fyrstu niðurstöður benda til mikils breytileika á laxastofnum í ánum í kringum landið. Markmið vísindamanna er að geta svarað ýmsum spurningum með því að geta rakið uppruna laxa í Atlantshafinu til upprunaár eða árkefis. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið þar sem hvert land þarf að vinna mikla vinnu bæði í sýnasöfnun og erfðagreiningum. Íslendingar virðast komnir einna lengst með vinnu á þessu sviði og er nú stefnt að næsta skrefi rannsóknarinnar sem tengist sjógöngulaxinum. Þar er stefnt að samvinnu við fiskveiðiflotann um að safna sýnum úr laxi sem slæðist með í veiðiafla skipanna..

Mikil hnignun hefur átt sér stað í flestum stofnum Atlantshafslaxins og er hann víða á válista yfir tegund í útrýmingarhættu. Mjög lítið er vitað um sjógöngur laxa og hafa rannsóknir byggt annars vegar á hefðbundnum merkingum og rannsóknum á skipum á hafi úti. Auk þess hafa nýlegar verið hafnar rannsóknir með rafeindamerkjum hér á landi. Þessar rannsóknir sem nú er verið að kynna renna sterkari stoðum undir þekkingu manna á þessu sviði. Samvinna fyrirtækjanna kemur til með að auka þekkingu á erfða- og vistfræði laxfiska. Sú þekking nýtist síðan í frekari rannsóknum á nýtingu og verndun stofnanna landi og þjóð til hagsbóta.

Veiðimálastofnun hefur stundað stofnerfðarannsóknir á ferskvatnsfiskum og Matís stundað rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar og hefur byggt upp mikla þekkingu og færni í erfðagreiningu á alls kyns lífverum úr umhverfinu. Veiðimálastofnun og Matís munu standa að nánu samstarfi um rannsóknir. Þessar rannsóknir spanna grunn- og hagnýtar rannsóknir í náttúru- og erfðafræði með sérstaka áherslu á stofnerfðafræði lax, urriða og bleikju. Slíkar rannsóknir nýtast við veiðistjórnun og við uppbyggingu í fiskrækt og fiskeldi.

Matís ohf er hlutafélag í eigu ríkisins, sem hefur það markmið að efla alþjóðlega samkeppnishæfni og þróun íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að hollustu og öryggi matvæla og styðja við vísindastarfsemi háskólastofnana, nýsköpun og sprotafyrirtæki, auk þess að sinna samfélagslegum skyldum gagnvart einstökum atvinnugreinum.
 
Veiðimálastofnun er rannsókna- og þjónustustofnun. Hlutverk Veiðimálastofnunar er að rannsaka lífríki í ám og vötnum, rannsaka fiskistofna í ferskvatni, veita ráðgjöf um veiðinýtingu og um lífríki og umhverfi áa og vatna t.d. í tengslum við mannvirkjagerð og halda gagnagrunn um náttúrufar í fersku vatni.

Myndin var tekin við undirritun samningsins.