Fréttir

Markáætlun um öndvegissetur og rannsóknarklasa – Matís þátttakandi í 5 hugmyndum af 10

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Þann 24. júní sl. tilkynnti Rannís (Rannsóknamiðstöð Íslands) um þær tíu hugmyndir sem fá styrk úr markáætlun um öndvegssetur og rannsóknaklasa til að skila fullbúinni umsókn í október næstkomandi, og er Matís ohf. þátttakandi í fimm þeirra.

Hugmyndirnar fimm sem um ræðir eru eftirfarandi:

#5 Rannsóknasetur vitvéla

#7 Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og samfélag

#21 Næring í nýsköpun

#29 Lífvirk efni frá láði og legi

#73 Öndvegissetur í fiskeldi 2009-2015 – sjálfbær nýting auðlinda lands og sjávar

Markáætlunin var auglýst í apríl síðastliðnum og var beðið um hugmyndir að öndvegissetrum og rannsóknaklösum á þeim sviðum sem fjallað er um í ályktun Vísinda- og tækniráðs frá því í desember 2007. Alls bárust 82 hugmyndir.

Starfshópur á vegum Vísinda- og tækniráðs valdi tíu hugmyndir og tók mið af stefnu ráðsins og þeim viðmiðunum sem nefnd eru í lýsingu á markáætluninni. Lokaniðurstaða var samþykkt á fundi vísindanefndar og tækninefndar 24. júní síðastliðinn.

Eins og fram kemur í lýsingu á markáætluninni er eitt aðalmarkmið hennar að styrkja tengsl milli háskóla, stofnana, fyrirtækja og stjórnvalda á viðkomandi sviði, innanlands sem utan.

Alls tók Matís ohf. þátt í 16 af þeim 82 hugmyndum sem bárust Rannís í vor, eða 20%. Nú þegar Matís tekur þátt í fimm af þeim tíu hugmyndum sem fá framgang hefur hlutfallið hækkað í 50%.