Fréttir

Ársskýrsla Matís 2020 er komin á vefinn

Ársskýrsla Matís fyrir árið 2020 er nú aðgengileg.

Árið 2020 var fullt af áskorunum í starfsemi Matís eins og annarra fyrirtækja en þó er óhætt að segja að ýmsum stórum og mikilvægum áföngum hafi veirð náð.

Í ársskýrlunni er dregin upp mynd af starfseminni sem auk hefð- og lögbundins reksturs fólst í því að finna leiðir til að viðhalda og víkka út starf fyrirtækisins við nýjar og krefjandi aðstæður.

Skýrslunni er skipt upp í eftirfarandi kafla og hana má skoða í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Ársfundur Matís 2021

Ársfundur Matís fer fram fimmtudaginn 6. maí kl. 9-10:30 í streymi hér á vefsíðu Matís og í gegnum Facebook síðu Matís.

Dagskrá fundarins:

Ávarp

  • Kristján Þór Júlíusson, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnar fundinn

Erindi

  • Starfsfólk Matís ræðir áherslur fyrirtækisins og ávinning fyrir íslenskt atvinnulíf
  • Samstarfsaðilar segja frá reynslu sinni af samstarfinu

Umræður: framtíð rannsókna og nýsköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu

  • Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís
  • Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands
  • Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Sjávarklasans

Fundarstjórn

Brynja Þorgeirsdóttir

Smellið hér til að fara á Facebook-viðburðinn.

Fréttir

Spennandi dagskrá á North Atlantic Seafood Forum

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Dagskrá North Atlantic Seafood Forum hefur nú verið birt og er ljóst að ráðstefnan verður einn merkilegasti netviðburður í sjávarútvegi og fiskeldi ársins 2021. Alls verða fluttir yfir 160 fyrirlestrar í 18 málstofum, og er búist við yfir 2500 þátttakendum víðsvegar að úr heiminum og úr hinum ýmsu hlekkjum í virðiskeðju sjávarafurða. Láttu ekki þennan viðburð fram hjá þér fara!

Í mars ár hvert, síðastliðin 15 ár, hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst til Bergen til að sitja ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum (NASF). Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Sökum COVID hefur nú verið ákveðið að NASF21 verði netviðburður, sem gefur tækifæri til að auka fjölda þátttakenda og lækka ráðstefnugjaldið verulega.

Ráðstefnan fer fram dagana 8-10 júní og er búist við að þátttakendur verði a.m.k. 2.500 talsins. Dagskrá ráðstefnunnar hefur nú verið birt og er hún sérlega spennandi að þessu sinni, en sjá má dagskrána á https://nor-seafood.com/program/.

Ef stiklað er á stóru yfir dagskrána, þá vekja eftirfarandi málstofur sérstaka athygli:

  • Áhrif laxalúsar á fiskeldi
  • Fiskeldisfóður og þróun þess
  • Framboð og eftirspurn í fiskeldi
  • Nýjar framleiðsluaðferðir í fiskeldi
  • Framboð og markaðir fyrir hvítfisk
  • Konur í sjávarútvegi
  • Framboð og eftirspurn í rækju
  • Fjárfestingar í sjávarútvegi
  • Framboð og markaðir uppsjávartegunda
  • Umfjöllun um lykilmarkaði fyrir sjávarafurðir í umsjón Norwegian Seafood Council
  • Sjálfbærni og sjávarafurðir

Íslensk fyrirtæki og einstaklingar skipa nokkuð stóran sess í dagskránni. Þar er fyrst að nefna að Valka og Marel eru meðal helstu styrktaraðila ráðstefnunnar. Þá verða eftirtaldir Íslendingar eða aðilar tengdir Íslandi með á mælendaskrá:

  • Jón Birgir Gunnarson hjá Völku mun fjalla um flökun fyrir dauðastirðnun
  • Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir hjá Marel mun fjalla um stafræna byltingu í virðiskeðju fiskeldis
  • Bjorn Hembre hjá Arnarlax mun fjalla um laxeldi á Íslandi
  • Sturlaugur Haraldsson hjá Norebo mun fjalla um framboð á hvítfiski frá Rússlandi
  • Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum mun fjalla um nýtingu aukahráefna og velta upp spurningunni hvort 100% nýting sé möguleg
  • Guðmundur Gíslason mun koma fram fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða (Ice Fish Farm), Bjorn Hamre fyrir hönd Arnarlax (Icelandic Salmon) og Stein Ove Tveiten fyrir hönd Arctic Fish í málstofu fjárfesta.
  • Jóhannes Pálsson mun fjalla um áhrif Brexit á uppsjávargeirann
  • Ólafur Ragnar Grímsson eða Guðlaugur Þór Þórðarson munu fjalla um sjálfbærni í sjávarútvegi

Þátttaka á NASF síðustu ára hefur ekki verið á allra færi þar sem skráningargjaldið eitt og sér hefur verið nálægt 200 þús. kr. auk þess sem ferðir og uppihald í Bergen kostar sitt. Engu að síður hafa yfir 800 manns séð ástæðu til að sækja ráðstefnuna síðustu ár. Þar sem nú verður um netviðburð að ræða er unnt að upplifa NASF fyrir umtalsvert lægri kostnað. Ráðstefnugjaldið er um 43.000 ISK (290 EUR) á þátttakanda, en svo er magnafsláttur í boði fyrir fyrirtæki sem skrá fleiri þátttakendur.

Einn mikilvægasti hluti þess að taka þátt í NASF hefur ávallt verið það tækifæri sem felst í því að safna saman helstu áhrifavöldum í sjávarútvegi á einn stað til að stofna til og viðhalda samstarfi. Góð og trygg viðskiptasambönd byggja jafnan á persónulegum samskiptum og þar hefur NASF gengt mikilvægu hlutverki. Í þetta sinn verður leitast við að mæta þeim þörfum með því að bjóða upp á að tengja aðila saman á örfundum. Mismunandi „pakkar“ eru í boði þegar kemur að slíkum tengingum, en sá „pakki“ sem líklegast er að flestir velji sem áhuga hafa á að nýta þetta tækifæri kostar 500 EUR. Fyrir þann „pakka“ fá fyrirtæki sitt nafn og kynningu upp á „vegginn“ og þá geta allir almennir þátttakendur bókað fund með því fyrirtæki.

Þeir sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar um NASF21 er bent á að hafa samband við Jónas R. Viðarsson í jonas@matis.is eða í síma 4225107.

Fréttir

Örplast finnst í Vatnajökli

Umfjallanir um örplast hafa verið áberandi í fjölmiðlum og samfélagsumræðu undanfarin ár. Fyrr í mánuðinum birtist vísindagrein í tímaritinu Sustainability sem sýnir að örplast er að finna í Vatnajökli og vísindafólk leiðir að því líkur að örplastið megi einnig finna í öllum öðrum jöklum landsins.

Örplast er samheiti yfir örsmáar plastagnir af ýmsum toga. Agnirnar eru minni en 5 mm í þvermál og margar hverjar svo smáar að þær sjást ekki með berum augum. Plast getur verið framleitt sérstaklega í þessum smáu ögnum til þess að setja í ýmsar snyrtivörur til að ná fram hrjúfri áferð, til dæmis í kremi eða sápum. Öllu algengara er þó að örplast verði til þegar stærri plast einingar brotna niður í náttúrunni. Rannsóknir hafa sýnt að örplast finnst í öllum krókum og kimum heimsins. Í hafinu, í andrúmsloftinu, í heimsskauta ís og í líkömum manna og dýra.  

Örplast-agnir á fingri

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á örplasti  og tilveru þess í heiminum undanfarin ár en í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Sustainability birtist grein eftir vísindafólk við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Gautaborg og Veðurstofu Íslands sem sýnir fram á að örplast má finna í snjóalögum Vatnajökuls.

Sýnin sem voru rannsökuð voru þriggja metra langir borkjarnar af miðjum jökli svo líklegt þykir að plastagnirnar hafi borist á jökulinn með vindi eða úrkomu. Örplastið var af ýmsum stærðum og gerðum og þessar niðurstöður gefa til kynna að ríkt tilefni er til þess að rannsaka örplast í heiminum, jafnvel á afskekktustu stöðum, og flutningsleiðir þess frekar.

Matís leiðir nú þegar samnorrænt verkefni sem ber heitið NordMar Plastic þar sem helstu rannsóknarefnin eru plast og áhrif þess á norðurslóðum. Í verkefninu hefur öflugur, þverfaglegur hópur sérfræðinga verið myndaður og markmiðið er að safna og skoða fyrirliggjandi gögn um aðferðir, niðurstöður rannsókna og eftirlit með plastnotkun og -mengun.

Markmiðið er jafnframt að skapa sterkt, alþjóðlegt tengslanet aðila sem tengjast málaflokknum til þess að ná fram samhæfingu, samvinnu samlegðaráhrifum.

NordMar Plastic leggur áherslu á að skoða aðstæður á norðurslóðum og leggja mat á hvort tilefni sé til að marka sérstaka stefnu á þessu svæði. Í verkefninu er einnig lögð áhersla á það að vekja athygli almennings á málefninu og búa til fræðsluefni og verkleg verkefni fyrir börn í grunnskólum um að draga úr plastnotkun og endurvinna plast.

Nánari upplýsingar um NordMar Plastic má finna á vefsíðu verkefnisins með því að smella hér.

Fréttir

Orkídea og Matís undirrita samstarfssamning

Orkídea og Matís ohf. undirrituðu nýlega samstarfssamning sem hefur það að markmiði að vinna saman að aukinni verðmæta- og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni á Suðurlandi.

Samstarfinu er einnig ætlað að vekja áhuga sunnlenskra hagaðila á að tengjast verðmæta- og nýsköpun á sviðinu og fá þá til samstarfs. Í þessu skyni hafa Orkídea og Matís hug á að skoða sameiginleg verkefni og sameiginlega sókn í sjóði þegar kostur gefst. Samstarfið felur ekki í sér sameiginlega fjármögnun nema í gegnum verkefni sem sjóðir styrkja.

Fréttir

Lagarlíf – ráðstefna um eldi og ræktun

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Mikill uppgangur er í íslensku fiskeldi og var útflutningsverðmæti greinarinnar í fyrra yfir 30 milljarðar króna, og um 11,5  milljarðar króna á fyrsta ársfjórðung þessa árs, eða um 9% af heildarútflutningi landsmanna. Ljóst er að mikill vöxtur er í fiskeldi sem þegar er orðin ein af stoðgreinum útflutnings og má búast við innan fárra ára að greinin skili álíka verðmætum og þorskurinn gerir í dag . En bak við þessa velgengni eru mörg  vel borguð störf og umtalsverð afleidd verðmætasköpun. Fiskeldi er mikilvægt fyrir mörg þjónustufyrirtæki sem nú blómstra sem aldrei fyrr. Til viðbótar má bæta því við að fiskeldið hefur byggst upp á stöðum þar sem stöðnun og samdráttur hafði verið um áratuga skeið, og snúið byggðaþróun rækilega við á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ræktun í legi er talin lausn framtíðar fyrir matvælabúskap jarðarbúa og mikil tækifæri í áframhaldandi þróun atvinnugreinarinnar.

Við slíkar aðstæður er spennandi að reka ráðstefnu eldis- og ræktunargreina „Strandbúnað“ sem vonandi mun blómstra og dafna við vaxandi velgengni greinarinnar. Það er einmitt við slíkar aðstæður að ráðstefnan hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, orðin fimm ára gömul, og hafa eigendur og stjórn verið samstíga í þeirri þróun. Nýtt nafn hefur verið tekið upp fyrir Strandbúnað, sem nú heitir Lagarlíf og jafnframt skipt um vörumerki og útlit kynningarefnis. Lögur er gamalt og gott íslenskt orð  og nær utan um hvortveggja eldi og ræktun. Enska heiti ráðstefnunnar er Aqua-Ice, en aqua er einmitt enska orðið yfir lögur. Við höfum skilgreint eldi þar sem fiskar eru fóðraðir en ræktun er þar sem sjávardýr eru fóðruð af næringarefnum sem þegar eru fyrir hendi í sjónum. Lagarlíf er fallegt íslenskt nafn og lýsir því vel þeirri starfsemi sem atvinnugreinarnar á bak við ráðstefnuna standa fyrir. Enska heiti ráðstefnunnar er og hefur verið Aqua-Ice.

Ráðstefnan féll niður í fyrra vegna Covid 19 en var frestað til 28 – 29 október í ár. Með því var vonast til að Íslendingar hefðu náð þannig tökum á kórónaveirunni að mögulegt væri að halda fjölmenna ráðstefnu. Lagarlíf verður haldin á Grand Hótel í Reykjavík.

Á Lagarlífi verður boðið upp á fyrirlestra um eldi og ræktun, sagt frá því nýjasta sem er að gerast ásamt því að kynna atvinnugreinina út á við. Slík ráðstefna er jafnframt mikilvæg fyrir starfsmenn og stjórnendur að hittast, bera saman bækur sínar og afla sér nýrrar þekkingar. Ráðstefnan er ekki síður mikilvæg fyrir atvinnugreinar sem þjóna eldis- og ræktunargreinum, kynna þjónustu sína, hitta framleiðendur og mynda tengslabönd. Eitt af markmiðum ráðstefnunnar er að hún komist á dagatöl framleiðanda og þjónustuaðila og verði þannig tilefni til að hittast, skiptast á skoðunum og kynna þarfir og lausnir til að auka veg vaxandi útflutningsgreinar.

Í tengslum við Lagarlíf í haust munu framleiðendur standa fyrir vinnufundi norrænna sérfræðinga í laxeldi 27. október n.k. Vinnufundurinn „Nordic Salmon“ verður haldinn í húsnæði Matíss að Vínlandsleið 12. Viðfangsefni fundarins verða laxalús, ræktun á stórseiðum og fiskafóður framtíðar. Sérfræðingar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum og Íslandi munu halda fyrirlestra um allt það nýjasta sem er að gerast á þessum sviðum. Laxalúsin er mikið vandamál og kostar eldið háar fjárhæðir á hverju ári, bæði sem tjón og eins við fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ein af hugmyndum framtíðar er að stækka seiðin áður en þeim er sleppt í sjókví, og stytta þannig tímann sem laxinn er í sjókví. Seiðaeldi er strandeldi sem kallar á miklar áskoranir og kostnað en býður upp á mikil tækfæri til frekari verðmætasköpunar til framtíðar. Vinnufundurinn er styrktur af AG Fisk.

Yfir 90% af kolefnaspori framleiðslu á laxi kemur frá fóðrinu, ekki vegna flutnings þess, heldur vegna ruðningsáhrifa við ræktun á soyabaunum sem er uppistaða í fóðurframleiðslu. Þó fiskeldi sé umhverfisvænasta matvælaframleiðsla samtímans, er enn hægt að gera betur og mikið af spennandi tækifærum fram undan. Ræktun á skelfiski og þörungum vinnur hins vegar með umhverfinu og skilar jákvæðum umhverfisáhrifum. Margir sjá slíka ræktun sem framtíðarlausn fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu framtíðar fyrir mannkynið.

Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri

Halldór Halldórsson, stjórnarformaður

Fréttir

Matvælið – nýtt hlaðvarp Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu

Tengiliður

Ísey Dísa Hávarsdóttir

Sérfræðingur í miðlun

isey@matis.is

Nýsköpun með verðmætaaukningu, matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbærni í fyrirrúmi er helsta viðfangsefni Matís og fjölbreytt sjónarhorn á þessa þætti verða umfjöllunarefni í nýjum hlaðvarpsþáttum sem bera heitið Matvælið – Hlaðvarp Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á þessa þætti. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur og frumkvöðla, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti koma að matvælaiðnaði. Til þess að fólk og fyrirtæki geti nýtt þjónustu og starfsemi Matís sér í hag er þörf á að miðla upplýsingum um starfsemi fyrirtækisins með fjölbreyttum hætti svo þær nái bæði augum og eyrum landans.

Nú þegar er vefsíða og samfélagsmiðlar Matís nýttir í þessum tilgangi, en hlaðvarp er nýjasti miðillinn sem tekinn hefur verið í gagnið svo fólk geti á einfaldan og þægilegan hátt kynnst þeim viðfangsefnum sem fengist er við hjá Matís hverju sinni.

Í þáttunum verður rætt við verkefnastjóra og starfsfólk um þeirra verkefni eða tengd mál en einnig við ýmsa samstarfsaðila, svo sem úr frumkvöðlaheiminum, matvælaiðnaðinum, viðskiptalífinu og frá háskólum landsins. Stefnan er að varpa ljósi á fagið og fólkið fremur en á fyrirtækið sem slíkt.

Í fyrsta þætti hlaðvarpsins er sem dæmi rætt við Birgi Örn Smárason, verkefnastjóra hjá Matís og Búa Bjarmar Aðalsteinsson sem hefur bakgrunn úr Listaháskólanum, vöruþróun, matvælaframleiðslu og ýmiss konar frumkvöðlastarfsemi. Þeir hafa ólíka aðkomu að viðfangsefni þáttarins, sem er próteingjafar framtíðarinnar og sjálfbær matvælaframleiðsla, og skapast því umræður um fjölbreytta vinkla á efnið.

Tveir þættir eru þegar komnir inn á vefsíðu Matís, Hlöðuna, hlaðvarpsvettvang Bændablaðsins og á allar helstu hlaðvarpsveitur, svo sem á Spotify og önnur þar til gerð smáforrit.

Þættirnir munu koma út einu sinni í mánuði en í upphafi fylgir stuttur kynningarþáttur sem ber yfirskriftina; Hvað er Matís? og situr Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Matís þar fyrir svörum. Miðlunarteymi Matís hefur umsjón með gerð þáttanna og Ísey Dísa Hávarsdóttir sér um þáttastjórnun.

Fréttir

Matur, orka, vatn: Leiðin að sjálfbærni

Hugsaðu stórt, hugsaðu grænt, er yfirskrift vefstofu (netfundar) sem Eimur stendur fyrir, ásamt Nýsköpun í Norðri, SSNE, SSNV og Hacking Hekla. Vefstofan verður haldin næsta fimmtudag frá kl. 14:00 til 16:00. Fundurinn er öllum opinn, og verður streymt á Facebook síðum Eims og sérstakri síðu viðburðarins.

Markmið fundarins er að hvetja fólk til að hugsa um það hvernig við getum nýtt auðlindir Norðurlands með sjálfbærum hætti til framtíðar. Þemað er orka-matur-vatn, heilög þrenning í sjálfbærni. Þessar auðlindir tengjast órjúfanlegum böndum og þannig getur verið gagnlegt að hugsa um þær saman. Þetta eru auðlindir sem við erum rík af, og auðlindir sem við bruðlum með. Hvernig getum við verið sjálfbær og til fyrirmyndar á heimsvísu? Við höfum sannarlega efnin og tækifæri til þess.

Við erum stolt af dagskránni, sem okkur þykir glæsileg, en þar koma saman ráðherra, listafólk, vísindafólk og fólk úr orku- og nýsköpunargeiranum og ræða sín hugðarefni. Sérstaklega verður spennandi að heyra af niðurstöðum nýrrar skýrslu sem gerð var um fýsileikann á stórsókn í ylrækt á Íslandi!

Dagskrána má nálgast hér.

Fréttir

Fæðuöryggi á Íslandi – tækifæri í framleiðslu á korni

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Í febrúar 2021 gaf Landbúnaðarháskóli Íslands út skýrsluna Fæðuöryggi á Íslandi. Margt merkilegt kemur fram í skýrslunni og má taka korn sem dæmi. Bent er á að innlend framleiðsla á korni til manneldis er aðeins um 1% af heildarneyslu. Um er að ræða afar lítið hlutfall sem gæti verið hærra þar sem skilyrði til framleiðslu hér á landi eru til staðar.

Matís hefur á undanförnum árum staðið að nokkrum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum um korn og möguleika þess á Íslandi. Dæmi um þetta er verkefnið um korn á norðurslóðum en einnig má nefna ýmis verkefni um íslenskt bygg sem unnin hafa verið í samstarfi við Landbúnaðarháskólann og fleiri innlenda og erlenda aðila. Auk þess er nú hafið samstarf um rannsóknir á notkun íslenskra hafra. 

Bygg og hafrar búa yfir ýmsum áhugaverðum eiginleikum fyrir matvælaframleiðslu og hafa rannsóknir hjá Matís fjallað um virðiskeðju korns frá kornskurði til framleiðslu matvæla. Bygg er um allan heim notað til framleiðslu á byggmalti sem er eitt mikilvægasta hráefnið til framleiðslu á áfengum drykkjum. Talsvert af byggmalti er flutt inn til landsins en nota mætti meira af íslensku byggi í drykkjarvöruiðnaði á Íslandi sem hefur verið í miklum vexti síðustu ár. Nú er í gangi verkefni hjá Matís þar sem eru gerðar tilraunir með möltun á íslensku byggi. 

Sýnt hefur verið fram á hollustu byggsins með mælingum á beta-glúkönum en þeir eru vatnsleysanleg trefjaefni og skýrslu um þessar mælingar má finna hér: Íslenskt bygg til matvælaframleiðslu. Þessi trefjaefni stuðla að lækkun kólesteróls í blóði og draga úr blóðsykursveiflum. Hveiti býr ekki yfir þessum eiginleikum og því er hægt að auka hollustugildi bökunarvara með því að nota bygg í staðinn fyrir hluta hveitisins. Hér eru miklir möguleikar á nýsköpun sem nýta mætti í hvers kyns bakstursiðnaði. 

Hafrar eru vel þekkt hráefni í margs konar matvæli eins og hafraflögur (haframjöl), múslí og hafradrykki. Á Sandhólsbúinu nálægt Kirkjubæjarklaustri hefur verið unnið ötult frumkvöðlastarf við ræktun hafra og hafraflögur frá búinu eru vinsæl vara í verslunum. Landbúnaðarháskólinn hefur hafið tilraunir með heppilegustu hafraafbrigðin fyrir íslenskar aðstæður. Sandhólsbúið er svo einnig í samstarfi við Matís og unnið er að því að þróa hafradrykk úr þeirra eigin framleiðslu.

Matís hefur í gegnum tíðina gefið út margvíslegar upplýsingar um þróun matvara úr korni. Víðtækustu upplýsingarnar er að finna á vefsíðu norræns verkefnis um korn.

Fréttir

Veiðar og vinnsla krossfisks við Ísland

Aurora Seafood og Matís hafa tekið saman skýrslu um óbeinar veiðar á krossfiski við Íslands, hugsanlegar beinar veiðar og möguleika á verðmætasköpun úr afurðum.

Rætt var við fjölda skipstjóra sem stunda veiðar með plóg, þar sem þeir voru spurðir álits á möguleikum á nýtingu krossfisks og hvort þeir teldu beinar veiðar líklegar til árangus. Skoðanir skipstjóra voru mjög mismunandi og ekki er hægt að tala um niðurstöður úr þeirri könnun.

Við mælingar vakti það vonbrigði hversu hátt magn kadmíns mældist í krossfiski, bæði sem veiddur var við austurströnd Íslands og vesturströndina. Leyfilegt magn kadmíns fyrir manneldisafurðir eru aðeins 0,5 mg í gr. en mælt magn var 6,3 fyrir austan og 2,5 fyrir vestan. Vitað er að nálægð við eldvirkni veldur kadmín mengun í hægfara botnfiskdýrum og aðstæður hér við land eru einmitt á þann veg.

Einnig vakti það vonbrigði hversu hratt krossfiskurinn brotanaði niður og voru sýni orðin maukuð vegna ensímvirkni á einum til tveimur dögum. Prótein magn krossfiska er aðeins um 12%, en vantsinnihald um 67%. Ekki er talið líklegt að hægt verði að nýta krossfiskinn til manneldis miðað við þessar niðurstöður. Aurora Seafood hefur flutt út frosinn krossfisk til Bandaríkjanna, en það skilar varla kostnaðarverði við pökkun, frystingu og flutning og því er engin verðmætasköpun við framleiðsluna. 

Verkefnið sem fól í sér þessa forathugun á veiðum og vinnslu krossfisks við Ísland var stutt af Matvælasjóði (AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi). Ómögulegt hefði verið að vinna þetta verkefni án þess stuðnings.

Lokaskýrslu um forathugun á veiðum og vinnslu krossfisks má finna hér.

IS