Fréttir

Matarsmiðjan

Súrkál fyrir sælkera

Hjá Matís er starfrækt matarsmiðja en það er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.
Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Dagný og Ólafur hjá Súrkál fyrir sælkera.

Hjónin Dagný Hermannsdóttir og Ólafur Loftsson standa að baki verkefninu en Dagný hefur búið til súrkál frá því árið 1984. Áhugi hennar á þessari gerð matvæla jókst ár frá ári, fram til ársins 2017 þegar þau stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Huxandi utan um framleiðsluna sem þá var orðin töluvert stórtækari. Í dag súrsa þau alls kyns grænmeti og Dagný hefur auk þess haldið fjölda námskeiða í súrkálsgerð og gefið út bók um þetta lostæti.

Við súrkálsgerð, sem er ævaforn náttúruleg leið til að geyma grænmeti, er ferskt grænmeti sýrt með gerjun. Skapaðar eru sérstakar loftfyrrtar aðstæður svo að mjólkursýrugerlar sem eru í grænmetinu frá náttúrunnar hendi komi af stað gerjunarferli og á nokkrum vikum sýrist það. Einu innihaldsefnin í vörunum eru því grænmeti, salt og krydd en þær eru þó stútfullar af vítamínum, næringarefnum og góðgerlum. Súrkál fyrir sælkera er ógerilsneytt og því lifandi en það þýðir að í framleiðsluferlinu er grænmetið aldrei hitað svo góðgerlarnir haldast á lífi. Við þessa vinnsluaðferð verður grænmetið auðmeltanlegra og styrkir þarmaflóruna en er auk þess fæða sem er hrá, vegan og ketó.

Þetta fjölskyldufyrirtæki hefur framleitt alls kyns gerðir af súrkáli og hliðar afurðum þess með góðum árangri en þar má sem dæmi nefna Karríkál, Kimchi og ýmsa sýrða drykki. Súrkálið er hægt að borða á marga vegu og má til dæmis setja það ofan á hamborgara eða pylsu, í salöt, út í grjóna- eða baunarétti, ofan á brauð eða út í súpur. Súrkál fyrir sælkera þykir með eindæmum gott og hafa þrjár vörur frá merkinu hlotið verðlaun í Askinum, Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki.

Nánari upplýsingar um Súrkál fyrir sælkera má meðal annars finna á vefsíðu þeirra surkal.is

Fréttir

Hacking Hekla – Skapandi lausnamót á Suðurlandi

Hacking hekla í samstarfi við SASS og Nordic Food in Tourism býður skapandi heimamönnum á Suðurlandi og öðrum Íslendingum að verja helgi í að vinna með hugmyndir og verkefni sem “uppfæra” svæðið. Sigurteymi Hacking Hekla 2020 vinnur 150.000 krónur.

Hakkaþon eða lausnamót, er nýsköpunarkeppni þar sem fólk kemur saman og skapar lausnir yfir stuttan tíma – venjulega um 24-48 klukkustundir. Lausnamót eru frábær vettvangur fyrir hvern sem er til að deila reynslu og þekkingu og vinna gagngert að viðskiptahugmynd eða verkefni. Hacking Hekla er fyrsta lausnamótið fyrir landsbyggðina sem ferðast hringinn í kringum landið og byggir ofan á hugmyndir sem verða til á leiðinni.

Markmið Hacking Hekla er að draga fram í sviðsljósið það öfluga frumkvöðlastarf sem á sér stað um allt land og virkja um leið skapandi hugsun og nýsköpun. Það er leiðarljós Hacking Hekla að skapa sterkt tengslanet á milli frumkvöðla og stuðningsaðila á landsbyggðinni, sem og að tengja saman frumkvöðlasenurnar í dreifbýli og þéttbýli á Íslandi.

Í átt að sjálfbærri framtíð með matartengdri nýsköpun

Fyrsta Hacking Hekla fer fram á Suðurlandi dagana 16.-18. október í góðu samstarfi við Samtök Sunnlenskra Sveitafélaga og Nordic Food in Tourism. Nordic Food in Tourism er norrænt samstarfsverkefni, leitt af Matarauð Íslands og unnið í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og Matís, en því er ætlað að vekja athygli á þeim verðmætum sem liggja í staðbundinni matvælaframleiðslu og matargerð bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti. Að sama skapi er fókus á að aukin áhersla verði lögð á sjálfbærni í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu þannig að jafnvægi milli vaxtar og verndar sé gætt. Þema Hacking Hekla 2020 er „Í átt að sjálfbærri framtíð með matartengdri nýsköpun” og verða þátttakendur hvattir til að hugsa þemað út frá mismunandi vinklum; samgöngur, ferðaþjónusta, náttúruvernd, svæðisbundin hráefni, framleiðsla og neysla matvara. Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður eða markaðsherferð.

Þar sem ástandið í þjóðfélaginu vegna Covid býður ekki upp á samkomur þá mun viðburðurinn fara fram á netinu. Til að missa ekki stemmninguna á Suðurlandi voru um tíu frumkvöðlar á svæðinu heimsóttir af tökuliði og verða myndböndin sýnd í gegnum lausnamótið. Önnur erindi og fyrirlestrar munu einnig vera aðgengilegir fyrir alla og streymdir á facebooksíðu Hacking Hekla svo það er tilvalið að fylgjast með þar þó svo að ekki sé tekið þátt í lausnamótinu sjálfu.

Hacking Hekla lausnamótið spratt upp úr doktorsverkefni Magdalenu Falter en hún er að rannsaka frumkvöðlastarf og nýsköpun á landsbyggðinni. Hún fékk til liðs við sig reyndan verkefnastjóra, Svövu Björk Ólafsdóttur, sem hefur yfir sex ára reynslu úr stuðningsumhverfi frumkvöðla og hefur meðal annars stýrt fjölda lausnamóta. Þær hafa einnig unnið náið með Arnari Sigurðssyni sem einnig er reynslubolti í nýsköpun en hann er að þróa Hugmyndaþorp, sem er stafrænn vettvangur sem er eins konar samsköpunarlausn. Hacking Hekla 2020 mun fara fram að stórum hluta á þeim vettvangi. Það má segja að Hacking Hekla teymið ásamt Arnari séu sjálf í nýsköpun þar sem þróun vettvangsins fer fram samhliða þessu fyrsta lausnamóti Hacking Hekla.

Lausnamótið er fyrir alla sem vilja hugsa í lausnum og leysa vandamál og áskoranir sem finnast á Suðurlandi. Þátttakendur þurfa ekki að búa yfir reynslu eða hafa tekið þátt áður í lausnamóti eða öðru frumkvöðlastarfi. Allir eru velkomnir og þetta er frábær leið til að efla skapandi hugsun og þjálfast í ferlinu að koma góðum hugmyndum í framkvæmd. Allar upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu SASS en þar fer einnig fram skráning. Verkefnið er styrkt af Íslandsbanka og Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu. 

Fréttir

Vilt þú kynnast eldhúsi framtíðarinnar í sýndarveruleika?

Við hjá Matís erum núna að vinna að fræðsluverkefni sem heitir Future Kitchen og er markhópurinn ungt fólk, frá 12 ára aldri allt að fertugu. Verkefnið er samstarfsverkefni framsækinna fyrirtækja, stofnana og háskóla á matvælasviði í Evrópu og er stutt af EIT-Food undir Evrópusambandinu. Verkefnið gengur meðal annars út á að gera stutt sýndarveruleikamyndbönd um tækninýjungar, ný vísindi og nýsköpun á sviði matvæla sem auka möguleika okkar á að brauðfæða sívaxandi fjölda jarðarbúa á sjálfbæran hátt til framtíðar. 

Vilt þú leggja okkur lið í að ná rannsóknarmarkmiðum okkar?

Ef svar þitt er já, langar okkur að biðja þig um að horfa á 1 til 2 stutt Future Kitchen sýndarveruleikamyndbönd (um 3 mín. löng) og svara svo stuttri spurningakönnun í framhaldi (1-2 mín.). Markmið okkar er að fá upplýsingar um viðhorf ungs fólks til nýrra fæðumöguleika og nýrrar tækni á sviði fæðuframleiðslu. Spurningakönnunin er almenn viðhorfskönnun og er ópersónugreinanleg (ef þú ert undir 18 ára aldri þarftu samþykki foreldris/forráðamanns til að svara könnuninni).

Þú getur horft á sýndarveruleikamyndböndin (í sýndarveruleikagleraugum, í tölvunni þinni eða í símanum þínum) á YouTube síðu Matís undir spilunarlistanum Future Kitchen. Skannaðu QR kóðann á meðfylgjandi mynd með símanum þínum, eða smelltu á þessa slóð:

Og svarað svo spurningakönnuninni með því að skanna QR kóðann á meðfylgjandi mynd með símanum þínum, eða smella á þessa slóð: https://www.surveymonkey.com/r/VR_videos_ISL

Bestu þakkir fyrir þitt framlag til Evrópuverkefnisins Future Kitchen.

Fréttir

Neysla ungmenna á orkudrykkjum gefur tilefni til aðgerða

Áhættumatsnefnd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur rannsakað að beiðni Matvælastofnunar hvort neysla orkudrykkja sem innihalda koffín hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í 8.-10. bekk. 

Niðurstaða nefndarinnar er að neysla íslenskra ungmenna sé töluvert meiri en sést hefur í fyrri rannsóknum og gefi tilefni til aðgerða til að lágmarka neyslu ungmenna á orkudrykkjum sem innihalda koffín og fyrirbyggja neikvæð áhrif á heilsu þeirra.

Helga Gunnlaugsdóttir sviðsstjóri hjá Matís sá um verkefnastjórn fyrir áhættumatið og vann með áhættumatsnefnd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Frekari upplýsingar og helstu niðurstöður má finna í frétt Matvælastofnunar.

Skýrsluna má nálgast hér.

Viðtal við Helgu Gunnlaugsdóttur og Dóru S. Gunnarsdóttur sviðsstjóra neytendaverndar hjá Matvælastofnun í Bítinu á Bylgjunni í morgun um framvkæmd og niðurstöður rannsóknarinnar.

Fréttir

Vinnustofa um virðiskeðjur sæbjúgna í Norður-Atlantshafi

Á fimmtudaginn (8. október) verður haldin alþjóðleg vinnustofa um sæbjúgu á vegum norræna samstarfsverkefnisins Holosustain. Matís sér um skipulagningu vinnustofunnar sem fer alfarið fram á netinu.

Fjallað verður um veiðar, vinnslu, rannsóknir, vörur og markað. Vinnustofunni er skipt í tvær lotur. Sú fyrri ber yfirskriftina „Fisheries status and Aquaculture“ þar sem núverandi staða er skoðuð. Seinni lotan nefnist „High-added value product opportunities“ þar sem tækifæri í tengslum við sæbjúgu eru til umfjöllunar. Dagskránni lýkur svo með umræðum.

Hér má nálgast dagskrá vinnstofunnar.

Frekari upplýsingar veitir Ólafur H. Friðjónsson hjá Matís.

Fréttir

Vefnámskeið í þróun nýrra viðskiptahugmynda í matvælageiranum

Dagana 23. október til 13. nóvember mun Matís og Háskóli Íslands, í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Finnlands, Háskólann í Cambridge og PAS IARFR í Póllandi, halda vefnámskeið í þjálfun háskólanema í þróun nýrra viðskiptahugmynda um matvæli.

Um er að ræða sérstakt vefnámskeið fyrir háskólanema um nýjar vöru- og viðskiptahugmyndir að matvörum sem bæði eru vistvænar og ætlaðar neytendum með sérstakar einstaklingsbundnar næringarþarfir.

Áætlað er að námskeiðið taki 45 klukkutíma sem skiptast í 15 tíma kennslu og 30 tíma hópvinnu undir leiðsögn sérfræðinga (jafngildir 2 ects). Þátttakendur munu kynnast:

  • Vistvænni nýsköpun í matvælageiranum
  • Matvælum og nýsköpun sem tengjast næringarþörfum einstaklinga
  • Matvælum og nýjungum í upplýsingatækni (digital disruptions)

Þeir fá þjálfun í að vinna saman í þverfaglegum hópum við

  • þróun viðskiptahugmynda
  • gerð viðskiptalíkana
  • að kynna og sannfæra hóp dómara um ágæti viðskiptahugmynda

Sjá kynningarmyndband.

Frekari upplýsingar og skráningu má finna hér.

Fréttir

Nýstárlegar lausnir á MAKEathon til að auka verðmæti aukahráefnis úr íslenskum sjávarútvegi

Dagana 10. – 18. september hélt Matís MAKEathon nýsköpunarkeppni á Íslandi. Keppnin skiptist í tvær vinnustofur; annars vegar á Vestfjörðum, nánar tiltekið í Bolungarvík, og hins vegar í Reykjavík, Akureyri og Neskaupsstað. Síðarnefnda vinnustofan fór fram á netinu.

MAKEathon á Íslandi er hluti af Evrópuverkefninu MAKE-it! og er styrkt af EIT FOOD. Það felur í sér að ellefu aðilar víðs vegar um Evrópu halda MAKEathon í sínu heimalandi þar sem matvælaframleiðsla hvers staðar er skoðuð sérstaklega.

MAKEathon er nýsköpunarkeppni sem leggur áherslu á að búa eitthvað til með höndunum til þess að mæta ákveðinni áskoruninni eða vandamáli. MAKEathon á Íslandi hafði það markmið að finna lausnir til að auka verðmæti aukahráefnis úr sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari.

Þátttakendur voru alls 50 talsins og mynduðu 10 lið. Nítján samstarfsaðilar, fyrirtæki og menntastofnanir, komu að verkefninu. 


Snakk úr hliðarafurðum

Þáttakendur á Vestfjörðum mættust í Bolungarvík, en þeir komu allir frá Háskólasetri Vestfjarða. Nemendurnir höfðu þegar verið skimaðir fyrir COVID-19 og öllum sóttvarnarreglum var fylgt. Liðin í Bolungarvík fengu laxabein til að vinna með og höfðu aðgang að iðnaðareldhúsi í Djúpinu þar sem viðburðurinn fór fram. Gunnar Þórðarsson, verkefnastjóri hjá Matís og Gunnar Ólafsson hjá Djúpinu sáu til þess að allt færi þar fram samkvæmt áætlun og nutu stuðnings Arctic Fish, Eðalfiski og Vestfjarðastofu. Þórarinn Gunnarsson frá Fablab Ísafirði hjálpaði einnig til við vöruþróunina. Í dómnefndinni sátu Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, Sigríður Kristjánsdóttir og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir frá Vestfjarðastofu. Liðið SOS – Salmon on Seaweed sigraði keppnina með nýstárlegu snakki sem líkist pepperoni nema munurinn er að vara SOS er gerð úr fiski . Hugmynd hópsins þótti bæði framsækin og trúverðug. 

Vistvænn pappír sem vex

MAKEathon í Reykjavík, Akureyri and Neskaupstaður fór hins vegar fram á netinu þar sem 21 þátttakandi mættist á Zoom fjarfundi. Þar fengu þátttakendur m.a. þorskabein og fiskiroð, auk sérstaks verkfærakassa til að vinna frumgerðina. Þeim bauðst líka að heimsækja Fablab í Reykjavík eða á Akureyri til að fræðast um það hvernig á að þróa prótótýpu.

MAKEathon á Íslandi lauk svo 18. september síðastliðinn. Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, tók þátt í lokaathöfninni og talaði um mikilvægi sjálfbærrar auðlindanýtingar, nýsköpunar og frumkvöðlastarfssemi í sjávarútvegi. Hann tilkynnti svo sigurvegara keppninnar sem dómnefnd, skipuð af Sunnu Höllu Einarsdóttur (Icelandic Startups), Rannveigu Björnsdóttur (Háskólinn á Akureyri) og Benedikt Stefánssyni (Egersund), valdi eftir mikla umhugsun.

Sigurvegari keppninnar var liðið Otoseed sem er skipað einstaklingum úr ólíkum áttum, með fjölbreytta bakgrunna, en þeir þekktust ekki innbyrðis fyrir keppnina. Sigurliðið kynnti lausn sem nýtir ekki aðeins hliðarafurðir úr sjávarútvegi, heldur einnig annars konar afganga, t.d. frá kaffi. Um er að ræða sérstakan pappír sem inniheldur hliðarafurðir úr fiski sem hægt er að rækta fræ upp úr. Það er hægt að skoða verkefnið þeirra á vefsíðu liðsins hér.

Við vonumst til að endurtaka leikinn og við hvetjum áhugasama samstarfsaðila sem hafa áhuga á að halda MAKEathon með okkur í framtíðinni að hafa samband.

Fréttir

Sjálfbærni verður súrefni fyrir ferðaþjónustu framtíðarinnar

Á Nýsköpunarvikunni sem fer fram í þessari viku mun Íslenski Ferðaklasinn í samstarfi við Matarauð Íslands, Matís og Hacking Heklu, standa fyrir viðburði sem mun m.a tengja saman tækifæri í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á Norðurlöndunum, hvernig við stöndum saman að auknum gæðum, öryggi og samstarfi þvert á greinar, lönd og virðiskeðjur.

Þar verður einnig skoðuð þróun á sjálfbærni fyrir ferðaþjónustuna og tengingu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en verkefnið var unnið á sumarmánuðum með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Kynningin verður á fimmtudaginn klukkan 10:00 og mun hún fara fram á netinu.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér.

Fréttir

Möguleikar hitakærra örvera í íslenskum hverum

Á dögunum birtist ítarleg umfjöllun á vefmiðlinum Euronews um verkefnið Virus-X sem Matís leiðir. Myndskeið fylgir umfjölluninni og þar er meðal annars spjallað við Arnþór Ævarsson verkefnastjóra verkefnsins.

Grundvallarmarkmið VIRUS-X er að einangra erfðaefni hitakærra veira beint úr náttúrulegum sýnum. Það er gert til að raðgreina erfðamengi þeirra, bera kennsl á áhugaverð gen og framleiða viðkomandi gena­afurðir, fyrst og fremst ensím, til frekari skoðunar og hagnýtingar.

Umfjöllunina má finna hér.

Fréttir

Ert þú með hugmynd að verkefni fyrir Matvælasjóð?

Opnað hefur verð fyrir umsóknir í hinn nýstofnaða Matvælasjóð sem styrkir þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla.

Hefur þú verkefnishugmynd sem þú vilt senda inn í sjóðinn og vantar samstarfsaðila til að vinna með? Hlutverk Matís er að styðja við verðmætasköpun og framleiðslu heilnæmra afurða með rannsóknum og nýsköpun. Starfsmenn Matís hafa mikla reynslu af því að móta verkefnahugmyndir í rannsóknasjóði og geta því stutt frumkvöðla og fyrirtæki í því að ná árangri með hugmyndir sínar.

Ef þú hefur áhuga á að vinna með Matís að mótun og framkvæmd verkefnis þá hvetjum við þig til að hafa samband.

Smelltu hér til að hafa samband við okkur!

IS