Fréttir

North Atlantic Seafood Forum ráðstefnan afstaðin

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Sviðsstjóri verðmætasköpunar

jonas@matis.is

North Atlantic Seafood Forum (NASF) ráðstefnan fór fram dagana 8.-10. júní sl. en á ráðstefnunni voru fluttir 160 fyrirlestrar í 18 málstofum um hin ýmsu málefni er snúa að sjávarútvegi og fiskeldi.

Umræðuefni á ráðstefnunni voru fjölbreytt en sem dæmi um efnistök voru haldnar málstofur um:

 • Áhrif laxalúsar á fiskeldi
 • Fiskeldisfóður og þróun þess
 • Framboð og eftirspurn í fiskeldi
 • Nýjar framleiðsluaðferðir í fiskeldi
 • Framboð og markaðir fyrir hvítfisk
 • Konur í sjávarútvegi
 • Framboð og eftirspurn í rækju
 • Fjárfestingar í sjávarútvegi
 • Framboð og markaðir uppsjávartegunda
 • Umfjöllun um lykilmarkaði fyrir sjávarafurðir
 • Sjálfbærni og sjávarafurðir

Íslensk fyrirtæki og fyrirlesarar voru nokkuð áberandi á ráðstefnunni. Þar má meðal annars nefna ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sjálfbærni og sjávarútveg, fyrirlestur Jóns Birgis Gunnarssonar frá Völku um flökun fyrir dauðastirðnun, fyrirlestur Guðbjargar Heiðu Guðmundsdóttur frá Marel um stafræna byltingu í virðiskeðju fiskeldis og fyrirlestur Þórs Sigfússonar frá Sjávarklasanum um nýtingu aukahráefna.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér.

Ráðstefnan fór fram á netinu og er nú möguleiki fyrir þá sem misstu af ráðstefnunni að kaupa aðgang að fyrirlestrunum. Gjaldið fyrir þann aðgang er 100 EUR.

Þau sem hafa áhuga á að kaupa slíkan aðgang geta haft samband við Jónas R. Viðarsson í gegnum netfangið jonas@matis.is

Fréttir

Sjálfbærari og betri matvælaumbúðir

Athyglisverð ráðstefna um sjálfbærni þegar kemur að matvælapakkningum, stöðu hennar í dag og framtíðarhorfur fer fram 5. júlí næstkomandi.

Matís er þátttakandi í COST (European Cooperation in Science and Technology) verkefninu CIRCUL-A-BILITY sem hefur að markmiði að þróa og fræða hagaðila um sjálfbærar matvælaumbúðir. Alls taka 160 fyrirtæki og stofnanir frá 34 löndum þátt í verkefninu, með bakgrunn á ýmsum sviðum, allt frá frumframleiðslu og matvælafræði til hönnunar og markaðssetningar. Verkefninu er ætlað að stuðla að samstarfi innan Evrópu til að þróa matvælaumbúðir framtíðarinnar sem tryggja aukin gæði og geymsluþol, sem og minni matarsóun og umhverfisáhrif.

Verkefnið mun standa fyrir 90 mínútna netfundi (webinar) þann 5. júlí næstkomandi þar sem fjallað verður um sjálfbærni og matvælaumbúðir. Þátttaka í fundinum ókeypis, en upplýsingar um skráningu og dagskrá má nálgast hér: Sustainability communication on food packages status quo and future needs.

Einnig verður haldin ráðstefna í haust, dagana 26.-29. september og er hægt að nálgast upplýsingar um hana hér. Hún verður nánar auglýst síðar.

Fréttir

Hvað getum við lært af hinum sænska Eldrimner?

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Þann 10. júní síðastliðinn fór fram veffundur á vegum Eldrimner og var umfjöllunarefnið matarhandverk í Svíþjóð og ýmiss konar fróðleikur því tengdur.

Eldrimner er landsmiðstöð fyrir matarhandverk og þekkingarmiðstöð fyrir smáframleiðendur í Svíþjóð. Eldrimner heldur námskeið um fjölbreytt matarhandverk, svo sem pylsugerð, súrdeigsgerð og ostagerð. Þá heldur Eldrimner einnig árlega matarhandverkskeppni þar sem framleiðendur fá faglegt mat á vörur sínar og þeir sem skara fram úr frá viðurkenningu sem þeir geta notað í markaðsstarf sitt. Eldrimner hefur náð miklum árangri í að auka fagþekkingu smáframleiðenda í Svíþjóð og auka veg og virðingu matarhandverks. Það er margt sem við á Íslandi getum lært af Eldrimner og fróðlegt að heyra fólk segja frá reynslu sinni af starfinu.

Fundurinn fór fram á ensku og í spilaranum hér að neðan má horfa á upptöku af fundinum í heild sinni.

Að fundinum stóðu Slow Food á Íslandi, Matís, Samtök smáframleiðenda matvæla og Vörusmiðja Biopol.

Fréttir

Hvað þarf að gera til að stuðla að sjálfbæru matvælakerfi?

Víðtækur stuðningur er við umbreytingu matvælakerfis og norrænt samstarf til að takast á við áskoranirnar.

Nýlega birtust niðurstöður úr verkefni sem bar yfirskriftina: Í átt að sjálfbærum norrænum matvælakerfum, þar sem kannað var hvaða skref þurfi að taka til að þróa sjálfbær matvælakerfi. Verkefnið var unnið gegnum samtal við breiðan hóp hagaðila frá Íslandi, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku. Þátttaka íslenskra hagaðila í verkefninu var sérlega góð og kom Matís að því að skipuleggja vinnustofu verkefnisins á Íslandi. Verkefnið var leitt af Stockholm Resilience Centre.

Helstu niðurstöður:

 • Tæplega 90% þátttakenda voru sammála um að norræn matvælakerfi þurfi að breytast til að hægt sé að ná settum markmiðum um sjálfbærni
 • Helmingi þátttakenda fannst leiðin að sjálfbærni óljós og jafnframt umdeild
 • 88% þátttakenda töldu best að Norðurlöndin vinni saman að því að takast á við sameiginlegar áskoranir í matvælakerfinu

En hvar byrjum við?

Átta leiðir til aðgerða og norræns samstarfs voru lagðar fram. Þær, ásamt öðrum helstu niðurstöðum verkefnisins eru birtar í stuttum köflum sem eru aðgengilegir hér: Nordic countries are well suited to collaborate on food systems transformation

Fréttir

Matís og Landsbyggðirnar

Norðlenska sjónvarpsstöðin N4 sýnir vikulega umræðuþætti um byggðamál á Landsbyggðunum sem heita einfaldlega Landsbyggðir. Í þætti vikunnar var rætt við Odd Má Gunnarsson, forstjóra Matís.

Í sjónvarpsþættinum ræddi Karl Eskil Pálsson, þáttarstjórnandi, við Odd Má um starfsemi Matís á landsbyggðunum en reknar eru starfsstöðvar á Akureyri, Ísafirði og í Neskaupsstað. Þeir létu þó ekki þar við sitja í umræðunum heldur fóru um víðan völl og ræddu verkefnin, rekstrargrundvöllinn, þekkinguna sem hefur myndast við rannsóknarstörf í gegnum árin og þau fjölmörgu tækifæri sem liggja í matvælaframleiðslu og -iðnaði á Íslandi í framtíðinni.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar N4 hér: Spilari – N4

Fréttir

Vel heppnaðri áherslufundaröð lokið

Í maímánuði fór ársfundur Matís fyrir árið 2020 fram og í kjölfar hans áherslufundaröð sem gaf frekari innsýn í ákveðna hluta starfsemi fyrirtækisins. Fundaröðin fól í sér að haldinn var einn morgunfundur fyrir afmarkaðan geira eða grein atvinnulífsins sem Matís veitir stuðning og var aðilum þar og áhugafólki boðið til samtals.

Áherslufundaröðin samanstóð af 8 fundum sem fóru fram í gegnum fjarfundarbúnað. Allir fundirnir voru vel sóttir og sköpuðust í flestum tilfellum líflegar umræður um ýmis málefni tengd viðfangsefninu. Sérfræðingar frá Matís, fulltrúar frá stórum og smáum fyrirtækjum í matvælaiðnaði á Íslandi, frumkvöðlar og almenningur fengu þarna tækifæri til þess að ræða saman um það sem efst er á baugi í hverjum málaflokki fyrir sig.

Fyrsti fundurinn fór fram þann 14. maí og var umræðuefnið Kolefnisspor botnfiskafurða og aðlögun sjávarútvegsins að áhrifum loftslagsbreytinga. Á næstu tveimur vikum þar á eftir voru haldnir fundir þar sem umræðuefnin voru: rannsóknir og nýsköpun fyrir fiskeldi framtíðar, uppsjávariðnaður nú og til framtíðar, virðiskeðja grænmetis, rannsóknir og nýsköpun við kjötframleiðslu og kjötvinnslu, mjólkurvörur í nútíð og framtíð og framtíðaráherslur og samstarfsmöguleikar í líftækni og lífefnum á Íslandi.

Síðasti fundurinn sem fór fram var haldinn í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Nýsköpunarvikuna. Fundurinn bar yfirskriftina Sprotar og vöruþróun – hvernig getur Matís aðstoðað? Á þeim fundi var farið sérstaklega yfir það hvernig Matís getur aðstoðað frumkvöðla við nýsköpunarferli, allt frá hugmyndavinnu að markaði. Dagný Hermannsdóttir frá fyrirtækinu Súrkál fyrir sælkera og Óskar Ericsson  frá Himbrimi Gin eru frumkvöðlar sem hafa stundað nýsköpun í matvælaframleiðslu og þau sögðu frá sinni reynslu af samstarfi við Matís  en bæði hafa þau framleitt vörur sem hafa notið mikillar velgengni.

Matís þakkar öllum þátttakendum kærlega fyrir samstarfið og auk þess fyrir þá athygli sem fundaröðin fékk. Stefnt er að því að gera samtalsfundi sem þessa að árlegum viðburði hjá fyrirtækinu.

Alla áherslufundina, auk ársfundar Matís fyrir árið 2020 má finna hér á vefsíðu Matís en einnig á Youtube rás fyrirtækisins.  

Fréttir

Netviðburðurinn North Atlantic Seafood Forum 8.-10. júní

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Sviðsstjóri verðmætasköpunar

jonas@matis.is

North Atlantic Seafood Forum fer fram dagana 8.-10. júní og er ljóst að ráðstefnan verður einn merkilegasti netviðburður í sjávarútvegi og fiskeldi ársins 2021. Alls verða fluttir yfir 160 fyrirlestrar í 18 málstofum, og er búist við yfir 2000 þátttakendum víðsvegar að úr heiminum og úr hinum ýmsu hlekkjum í virðiskeðju sjávarafurða. Láttu ekki þennan viðburð fram hjá þér fara!

Í mars ár hvert, síðastliðin 15 ár, hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst til Bergen til að sitja ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum (NASF). Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Sökum COVID hefur nú verið ákveðið að NASF21 verði netviðburður, sem gefur tækifæri til að auka fjölda þátttakenda og lækka ráðstefnugjaldið verulega.

Ráðstefnan fer fram dagana 8.-10. júní og er búist við að þátttakendur verði a.m.k. 2.000 talsins. Dagskrá ráðstefnunnar er sérlega spennandi að þessu sinni, en sjá má hana hér: Program for NASF 2021.

Ef stiklað er á stóru yfir dagskrána, þá vekja eftirfarandi málstofur sérstaka athygli:

 • Áhrif laxalúsar á fiskeldi
 • Fiskeldisfóður og þróun þess
 • Framboð og eftirspurn í fiskeldi
 • Nýjar framleiðsluaðferðir í fiskeldi
 • Framboð og markaðir fyrir hvítfisk
 • Konur í sjávarútvegi
 • Framboð og eftirspurn í rækju
 • Fjárfestingar í sjávarútvegi
 • Framboð og markaðir uppsjávartegunda
 • Umfjöllun um lykilmarkaði fyrir sjávarafurðir í umsjón Norwegian Seafood Council
 • Sjálfbærni og sjávarafurðir

Íslensk fyrirtæki og einstaklingar skipa nokkuð stóran sess í dagskránni. Þar er fyrst að nefna að Valka og Marel eru meðal helstu styrktaraðila ráðstefnunnar. Þá verða eftirtaldir Íslendingar eða aðilar tengdir Íslandi með á mælendaskrá:

 • Jón Birgir Gunnarson hjá Völku mun fjalla um flökun fyrir dauðastirðnun
 • Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir hjá Marel mun fjalla um stafræna byltingu í virðiskeðju fiskeldis
 • Bjorn Hembre hjá Arnarlax mun fjalla um laxeldi á Íslandi
 • Sturlaugur Haraldsson hjá Norebo mun fjalla um framboð á hvítfiski frá Rússlandi
 • Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum mun fjalla um nýtingu aukahráefna og velta upp spurningunni hvort 100% nýting sé möguleg
 • Guðmundur Gíslason mun koma fram fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða (Ice Fish Farm), Bjorn Hamre fyrir hönd Arnarlax (Icelandic Salmon) og Stein Ove Tveiten fyrir hönd Arctic Fish í málstofu fjárfesta.
 • Jóhannes Pálsson mun fjalla um áhrif Brexit á uppsjávargeirann
 • Guðlaugur Þór Þórðarson mun fjalla um sjálfbærni í sjávarútvegi

Þátttaka á NASF síðustu ára hefur ekki verið á allra færi þar sem skráningargjaldið eitt og sér hefur verið nálægt 200 þús. kr. auk þess sem ferðir og uppihald í Bergen kostar sitt. Engu að síður hafa yfir 800 manns séð ástæðu til að sækja ráðstefnuna síðustu ár. Þar sem nú verður um netviðburð að ræða er unnt að upplifa NASF fyrir umtalsvert lægri kostnað. Ráðstefnugjaldið er um 43.000 ISK (290 EUR) á þátttakanda, en svo er magnafsláttur í boði fyrir fyrirtæki sem skrá fleiri þátttakendur.

Nú er til dæmis boðið upp á tilboð svo ef þrír þátttakendur eru skráðir fer verðið niður í 150 EUR/pers.

Allir fyrirlestrar verða aðgengilegir í a.m.k. mánuð eftir að ráðstefnunni lýkur og því er vel þess virði að skrá sig, þó svo að þátttakendur hafi ekki tækifæri til að sitja ráðstefnuna í „rauntíma“.

Einn mikilvægasti hluti þess að taka þátt í NASF hefur ávallt verið það tækifæri sem felst í því að safna saman helstu áhrifavöldum í sjávarútvegi á einn stað til að stofna til og viðhalda samstarfi. Góð og trygg viðskiptasambönd byggja jafnan á persónulegum samskiptum og þar hefur NASF gengt mikilvægu hlutverki. Í þetta sinn verður leitast við að mæta þeim þörfum með því að bjóða upp á að tengja aðila saman á örfundum. Mismunandi „pakkar“ eru í boði þegar kemur að slíkum tengingum, en sá „pakki“ sem líklegast er að flestir velji sem áhuga hafa á að nýta þetta tækifæri kostar 500 EUR. Fyrir þann „pakka“ fá fyrirtæki sitt nafn og kynningu upp á „vegginn“ og þá geta allir almennir þátttakendur bókað fund með því fyrirtæki.

Þeir sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar um NASF21 er bent á að hafa samband við Jónas R. Viðarsson jonas@matis.is eða í síma 4225107.

Matís og Nýsköpunarvikan – Sprotar og vöruþróun

Matís tekur þátt í Nýsköpunarvikunni þann 27. maí næstkomandi í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Um er að ræða samtal í kjölfar örkynninga á þjónustu Matís varðandi vöruþróun og reynslu tveggja frumkvöðla af samstarfi við Matís.  

Fundarstjóri: Bryndís Björnsdóttir, Matís 

Dagskrá fundar 

 1. Hvað hefur Matís uppá að bjóða? Margeir Gissurarson 
 2. Hvernig er matvara þróuð fyrir markað? Kolbrún Sveinsdóttir &  Þóra Valsdóttir  
 3. Reynslusögur:  
  1. Súrkál fyrir sælkera – Dagný Hermanssdóttir 
  2. Himbrimi Gin – Óskar Ericsson  
  3. Umræður 

Fundurinn var haldinn þann 27. maí. Hér að neðan má sjá upptöku af fundinum.

Hér er hlekkur á viðburðarsíðu fundarins á facebook.

Þessi viðburður er hluti af áherslufundaröð sem haldin er í kjölfar ársfundar til þess að gefa frekari innsýn í starfsemi Matís sem veitir mismunandi geirum og greinum atvinnulífsins stuðning.

Fundurinn verður tekinn upp og gerður aðgengilegur á matis.is.

Nánari upplýsingar um Nýsköpunarviku má finna hér.

Líftækni og lífefni á Íslandi – framtíðaráherslur og samstarfsmöguleikar


Matís býður til morgunfundar um stöðu og framtíðarhorfur líftækni á Íslandi og hvernig Matís getur hjálpað fyrirtækjum á sviði líftækni og lífefna að hasla sér völl í íslensku atvinnulífi. 

Dagskrá fundarins verður sem hér segir.

 • Matís Líftækni – Starfsemi, innviðir & hagnýtar líftækni rannsóknir – Elísabet Guðmundsdóttir & Björn Þór Aðalsteinsson
 • Matís Lífefni –  Einangrun og nýting lífvirkra efna úr íslenskri náttúru – Sophie Jensen & Margrét Geirsdóttir
 • Hvernig hefur Matís stutt við VAXA – Kristinn Hafliðason – myndband:
 • Umræður
  • Opnað með kynningum frá Jóni Má Björnssyni, ORF genetics, Steini Guðmundssyni, Háskóla Íslands og Hildi Magnúsdóttur, Pure Natura.
  • Staða líftækni og framtíðarhorfur
  • Samstarfsmöguleikar, rannsóknarverkefni, bein þjónusta og ráðgjöf

Fundurinn var haldinn þann 27. maí. Hér að neðan má sjá upptöku af fundinum.

Hér er hlekkur á viðburðarsíðu fundarins á facebook.

Þessi viðburður er hluti af áherslufundaröð sem haldin er í kjölfar ársfundar til þess að gefa frekari innsýn í starfsemi Matís sem veitir mismunandi geirum og greinum atvinnulífsins stuðning.

Fundurinn verður tekinn upp og gerður aðgengilegur á matis.is.

Mjólkurvörur í nútíð og framtíð

Matís býður mjólkurbændum, aðilum sem tengjast geiranum og áhugafólki til samtals!

Dagskrá fundarins:

 • Hvað er Matís?​ -Margrét Geirsdóttir
 • Þörungar og mjólk – Dr. Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir​
 • Gerlar úr skyri og notkun þeirra – Dr. Viggó Þór Marteinsson​
 • Ógerilsneyddir ostar og smáframleiðendur – Dominique Plédel Jónsson​
 • Hvaða þjónustu veitir Matís – Þóra Valsdóttir ​
 • Umræður​

Fundarstjóri – Dr. Bryndís Björnsdóttir​

Fundurinn var haldinn þann 26. maí. Hér að neðan má sjá upptöku af fundinum.

Hér er hlekkur á viðburðarsíðu fundarins á facebook.

Þessi viðburður er hluti af áherslufundaröð sem haldin er í kjölfar ársfundar til þess að gefa frekari innsýn í starfsemi Matís sem veitir mismunandi geirum og greinum atvinnulífsins stuðning.

Fundurinn verður tekinn upp og gerður aðgengilegur á matis.is.