Fréttir

Kartöflurnar komu á óvart

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Hjá Matís eru í gangi margvíslegar rannsóknir á grænmeti fyrir styrk frá Matvælasjóði. Rannsóknirnar miða að því að auka gæði og geymsluþol grænmetis en einnig að draga úr sóun í virðiskeðjunni frá uppskeru til neytenda og finna nýjar leiðir til að auka verðmæti hliðarafurða grænmetisgeirans.

Nýverið lauk verkefni sem hófst 2020 og fjallaði um andoxunarvirkni og gæði grænmetis. Með andoxunarvirkni er átt við virkni andoxunarefna sem eru meðal mikilvægra efna í grænmeti.  Andoxunarefni eru efni sem veita líkamanum vörn gegn skaðlegum áhrifum efna sem stuðla að oxun. Heilsufarslegur ávinningur hefur verið rakinn til neyslu grænmetis með andoxunarvirkni.

Andoxunarvirkni fannst í öllum sýnum af grænmeti en var mismikil eftir tegundum. Umtalsverð andoxunarvirkni í kartöflum kom á óvart þar sem andoxunarefni eru oft tengd litsterku grænmeti.

Blómkál og spergilkál ásamt kartöflum voru meðal þess grænmetis sem skoraði hæst fyrir andoxunarvirkni.

Vera má að hollusta kartaflna sé vanmetin en þær eru oft ekki taldar með hollasta grænmetinu. Kartöflur innihalda mikilvæg næringarefni eins og vítamín og talsvert af sterkju sem gerir kartöflur orkuríkari en flest annað grænmeti. Niðurstöður verkefnisins hafa verið gefnar út og má nálgast þær hér:  https://matis.is/skyrsla/gaedi-og-andoxunarvirkni-graenmetis-a-markadi-2020-21/ . Vænta má nýrra niðurstaðan um grænmeti á næstu mánuðum, þar á meðal um kartöflur.

Hefur þú áhuga á rannsóknum og nýsköpun í grænmetisgeiranum? Horfðu á áherslufund Matís um virðiskeðju grænmetis hér: Virðiskeðja grænmetis.