Fréttir

Matís þátttakandi í risavöxnu verkefni

Þekkingarfyrirtækið Matís, sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði, hefur tryggt sér þátttöku í umfangsmiklu samevrópsku verkefni. Þar koma saman tugir leiðandi fyrirtækja, rannsókna- og menntastofnana til að finna leiðir til nýsköpunar á heimsmælikvarða og ýta undir frumkvöðlastarf innan álfunnar. Nýsköpunar- og tæknistofnun Evrópu (EiT) fjárfestir í verkefnunum fram til ársins 2020 fyrir 2,4 milljarða evra eða 290 milljarða íslenskra króna. Heildarfjárfestingin mun stappa nærri tíu milljörðum evra, eða 1.200 milljörðum íslenskra króna en þátttakendur fjármagna 75% af rannsóknunum sjálfir.

Evrópa er á eftir

Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís, segir áætlunina byggjast á nýrri hugsun og snúa að átta sértækum verkefnum (Knowledge Innovation Community – KIC), og þar af eitt sem snýst um matvæli og nýsköpun í matvælaiðnaðinum í Evrópu (EIT Food). Þar er snertipunktur Matís við áætlunina, en tilurð hennar er sú staðreynd að Evrópa hefur verið að dragast aftur úr í nýsköpun og mikil áhersla sé lögð á að snúa þeirri þróun við. Verkefnin átta (KIC) séu lykiltól til þess; þau eru sjálfstæðar einingar með forstjóra og framkvæmdastjórn og ráða því hvernig fénu er ráðstafað innan hópsins, eftir ákveðnum reglum sem hópurinn setur sér.

Í hnotskurn er hlutverk KIC-verkefnanna að auka samkeppnis- og nýsköpunarhæfni Evrópu. Stuðla að auknum vexti efnahagslífsins með þróun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja, og fjölga störfum með því að þróa nýjar vörur og þjónustu. Eins, og ekki síst, að þjálfa næstu kynslóð frumkvöðla.

„Matís er einn af aðeins tveimur þátttakendum frá Norðurlöndunum sem eru meðlimir í EIT Food og er litið sérstaklega til okkar hvað varðar þekkingu og hæfni þegar kemur að rannsóknum og þróun á afurðum og efnum úr hafinu og ferlum tengdum þeim, eða bláa lífhagkerfinu. Þetta er gríðarlega mikil viðurkenning fyrir Matís og þá vinnu sem okkar frábæra starfsfólk hefur unnið síðustu ár, sem og Ísland. Það má segja að þetta hafi lyft okkur úr fyrstu deild yfir í meistaradeildina,“ segir Hörður og bætir við að umsóknarferlið fyrir einstök verkefni sé afar umfangsmikið og samkeppnin um styrkféð sé gríðarleg.

Án fordæma

„EIT Food er verkefnið sem vann eftir mikla vinnu og mjög stranga síu. Það er til sjö ára. Fimmtíu aðilar frá þrettán­ löndum koma að því; allt fyrir­tæki, háskólar og rannsóknastofnanir eða fyrirtæki sem eru fremst á sínu sviði í Evrópu og heiminum,“ segir Hörður og nefnir tvö stærstu matvælafyrirtæki heims, Nestlé og PepsiCo. Einnig Givaudan sem er stærsti bragðefnaframleiðandi heims, fyrirtækin DSM, Roquette, Nielsen, Siemens og Bosch. Einnig taka háskólarnir í Cambridge, ETH Zürich og Tækniháskólinn í München þátt. Önnur öflug rannsóknafyrirtæki, eða stofnanir, í verkefninu ásamt Matís eru m.a. VTT í Finnlandi, Fraunhofer í Þýskalandi og Azti á Spáni.

EIT mun á næstu sjö árum setja allt að 48 milljörðum króna í verkefnið gegn 145 milljarða mótframlagi þátttakenda. „Heildarfjárfestingin er því allra stærsta aðgerð sem farið hefur verið í í Evrópu á sviði matvælarannsókna,“ segir Hörður.

Þungamiðja umbyltinga

En hvaða áskoranir ætla þátttakendur, og Matís þeirra á meðal, að takast á við?

„Það verður sett saman sjö ára viðskiptaáætlun á næsta ári til að móta hvernig við sem hópur ætlum að takast á við nokkrar stórar áskoranir sem Evrópa er að kljást við hvað varðar matvælageirann og neytendur. Við ætlum okkur að gera Evrópu að þungamiðju umbyltinga í nýsköpun og framleiðslu á matvælum og fá neytendur beint að borðinu í þessu ferli og þróa 290 nýjar eða bættar afurðir, þjónustu og ferla. Við ætlum einnig að styðja við og skapa 350 ný fyrirtæki, þjálfa yfir 10.000 nemendur í framhaldsnámi og fagaðila í matvælafræði og tengdum greinum fyrir 2024 auk þess að draga um 40% úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í evrópska matvælageiranum fyrir 2030,“ segir Hörður og nefnir dæmi.

„Matís mun taka virkan þátt í öllu verkefninu en við verðum með sérstaklega stórt hlutverk hvað varðar sjávarfang og innihaldsefni unnin úr sjávarfangi og vannýttu hráefni úr hafinu. Það eru mikil tækifæri í matvælaiðnaðnum hvað varðar notkun á hráefnum og innihaldsefnum úr hafinu til að mæta þörfum framtíðarneytenda. Neytandinn verður miðpunkturinn í þessu mikla verkefni en við munum draga hann að borðinu til að hjálpa okkur að umbylta evrópska matvælageiranum. Þetta verkefni opnar gríðarleg tækifæri fyrir okkur og Ísland og tengir okkur föstum böndum við afar öflugan hóp fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana,“ segir Hörður.

Risavaxið verkefni í hnotskurn

  • Sjö ára viðskiptaáætlun sett upp á næsta ári.
  • Þróa á 290 nýjar eða bættar afurðir, þjónustu og ferla.
  • Styðja á við og skapa 350 ný fyrirtæki, þjálfa yfir 10.000 nemendur í framhaldsnámi og fagaðila í matvælafræði og tengdum greinum fyrir 2024.
  • Stefnt á að draga um 40% úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í evrópska matvælageiranum fyrir 2030.
  • Nýsköpunar- og tæknistofnun Evrópu (EIT) fjárfestir í verkefnunum fram til ársins 2020 fyrir 2,4 milljarða evra eða 290 milljarða íslenskra króna.
  • Heildarfjárfestingin nemur 1.200 milljörðum íslenskra króna en þátttakendur fjármagna 75% af rannsóknunum sjálfir.
  • Matís starfar beint og óbeint með Nestlé og PepsiCo, Givaudan sem er stærsti bragðefnaframleiðandi heims, fyrirtækjunum DSM, Roquette, Nielsen, Siemens og Bosch.
  • Háskólarnir í Cambridge, ETH Zürich­ og Tækniháskólinn í München taka þátt.
  • Önnur öflug rannsóknafyrirtæki, eða stofnanir, í verkefninu ásamt Matís eru m.a. VTT í Finnlandi, Fraunhofer í Þýskalandi og Azti á Spáni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu / Svavar Hávarðsson

Fréttir

Matvælaframleiðsla gengur á ósjálfbærar auðlindir jarðarinnar – þessu er hægt að breyta!

Þorvaldseyri – Staðbundin sjálfbærni / Verkefnið Korn á norðurslóð – Nýir markaðir, sem styrkt er af NPA (Northern Periphery and Arctic Programme) er nú í fullum gangi innan Matís.

Markmið verkefnisins eru að auka verðmæti afurða úr korni og stuðla þannig að auknum tekjum kornbænda og fyrirtækja, að stuðla að kornrækt þar sem hún er ekki stunduð nú og fjölga með því störfum í landbúnaði og að auka notkun á korni til framleiðslu á nýjum vörum.

Hluti af verkefninu snéri að Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, einu afkastamesta kornræktarbýli landsins. Á Þorvaldseyri er rekið kúabú með áherslu á mjólkurframleiðslu en löng hefð er fyrir ræktun á byggi á býlinu og undanfarin ár hefur repja einnig verið ræktuð.

Þorvaldseyri komst í sviðsljósið eftir gosið í Eyjafjallajökli árið 2010, þegar flug lá niðri um alla Evrópu, tún og jarðir hurfu í ösku og búfénaður var í hættu. Eftir gosið var ljóst að askan hafði styrkjandi áhrif á ræktarlandið og gefið sóknarfæri í atvinnu- og nýsköpun með opnun Gestastofunnar og sölu á ýmsum varningi tengdu gosinu og matvæla til ferðamanna og neytenda. 

Þorvaldseyri býður upp á mjög sérstakar aðstæður; býlið mun hafa sína eigin raforkuframleiðslu úr lítilli virkjun á landinu, borhola fyrir heitt vatn er á staðnum, fóður fyrir dýrin er að langmestu leyti framleitt á staðnum og allur áburður er fenginn frá mykju og hliðarafurðum. Repjuolían er seld neytendum en jafnframt notuð sem eldsneyti á tækin. Heimilishaldið getur verið sjálfbært að mestu leyti; afurðir býlisins nýtast sem matur jafnframt sem að grænmeti og ávextir eru ræktaðir fyrir eigin neyslu.

Í verkefninu er þetta kallað staðbundin sjálfbærni; þegar því markmiði er náð að verða sjálfum sér nægur um flest sem tengist orku og efni innan afmarkaðs svæðis. Ljóst er að erfitt getur reynst að ná fullri staðbundinni sjálfbærni í nútíma þjóðfélagi en engu að síður má byggja á þessu og skapa grundvöll fyrir aðra.

Útbúið var upplýsingaskema fyrir Þorvaldseyri sem lýsir þessari staðbundnu sjálfbærni og hvaða áhrif hún hefur í umhverfislegu og samfélagslegu tilliti. Notuð var aðferðafræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment) til útreikninga sem byggjast á gögnum frá býlinu. Samkvæmt þeim útreikningum getur sparnaður býlisins orðið um 19 milljónir króna á ári með því að nýta eigin raforku og heitt vatn, framleiða eigið fóður og áburð, nýta repjuolíu á vélar og framleiða eigin mat fyrir býlið. Jafnframt getur Þorvaldseyri sparað sem nemur um 18 tonnum af útblæstri gróðurhúsalofttegunda á ári.

Matvælaframleiðsla gengur á ósjálfbærar auðlindir jarðarinnar og skilar umtalsverðu magni af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Þar er landbúnaður ekki undanskilinn. Með því að tileinka sér sjálfbærni í hugsun og framkvæmd er til mikils að vinna, bæði fjárhagslega séð og umhverfislega séð.

Fréttir

Doktorsvörn og M.Sc. fyrirlestrar í HÍ

Nokkrir fyrirlestrar/varnir sem Matís tengist verða haldnir í vikunni. Um er að ræða fjóra M.Sc. fyrirlestra og eina doktorsvörn, en Paulina Elzbieta Wasik ver doktorsritgerð sína á föstudag kl. 13.

Doktorsvörn í matvælafræði – Paulina Elzbieta Wasik

Hvenær hefst þessi viðburður: 30. september 2016 – 13:00
Staðsetning viðburðar: AðalbyggingNánari staðsetning: Hátíðasal

Paulina Elzbieta Wasik ver doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild, sem ber heitið: Hámörkun gæða frosinna makrílafurða – Quality optimisation of frozen mackerel products

Andmælendur eru dr. Judith Kreyenschmidt, prófessor við Háskólann í Bonn, og Santiago Pedro Aubourg Martínez, prófessor við Marine Research Institute (IIM), sem er hluti af The Spanish Research Council (CSIC).

Umsjónarkennari var Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, en leiðbeining var í höndum Sigurjóns og dr. Maríu Guðjónsdóttur, dósents við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd, dr. Magnea Guðrún Karlsdóttir, fagstjóri hjá Matís, og dr. Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri hjá Matís og dósent við University of Florida.

Dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ritgerðin byggir á vinnu sem unnin var í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við fyrirtækin Skinney Þinganes, Hraðfrystihúsið Gunnvöru, Samherja, Síldavinnsluna, HB Granda, Ísfélag Vestmannaeyja, og Thor-Ice með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Ágrip af rannsókn

Veiðar á makríl í umtalsverðu magni við Íslandsstrendur hófust fyrir tæpum tíu árum. Fyrstu árin fór stærsti hluti aflans í fiskmjöls- og lýsisvinnslu en aðeins lítill hluti hans fór til manneldis. Til að auka verðmæti aflans þarf að nýta stærri hluta hans til manneldis og til að svo geti orðið er mikilvægt að finna leiðir til að bæta geymsluþol makríls í frystigeymslu.Makríll af Íslandsmiðum inniheldur mikið af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum (PUFA) og þar að auki hátt hlutfall af ómega n-3/n-6 en innihald og stöðugleiki fitu í makríl er breytilegur yfir veiðitímabilið. Stöðugleiki fitu er háður fitu- og efnainnihaldi makríls og niðurstöður sýna að feitari makríll er viðkvæmari fyrir oxun fitu (þránun) og ensímniðurbroti.

Löng geymsla í frystiklefum hefur í för með sér að makrílafurðir þrána og gæðin rýrna. Oxun fitu og ensímniðurbrot (myndun PV og TBARS og myndun FFA) er marktækt minna í makríl sem er geymdur við -25°C, samanborið við geymsluhitastigið -18°C. Að auki er minni hætta á losi og áferð afurða varðveitist betur við lægra geymsluhitastig.

Meiri ensímvirkni er í heilfrystum makríl samanborið við slægðan og hausaðan. Á hinn bóginn aflagast slægður og hausaður makríll meira í vinnslu og geymslu en sá heili. Það skal tekið fram að mikilvægt er að velja makríl með réttan eiginleika og rétta vinnsluleið til að fá afurð með tiltekna eiginleika.

Æskilegast er að geyma makrílafurðir frekar í frostgeymslu við -25°C en í -18°C og við stöðugar geymsluaðstæður til að tryggja gæði frosinna makrílafurða. Hægt er að nýta makrílinn, sem veiddur er við Íslandsstrendur og frystur í verðmætar afurðir eins og niðursoðnar og heitreyktar.

Um doktorsefnið

Paulina E. Wasik er fædd 1987. Hún lauk BSc-gráðu í líftækni árið 2009 frá University of Warmia and Mazury í Olsztyn í Póllandi. Þremur árum síðar, árið 2012, lauk Paulina MSc-gráðu í matvælafræði frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og innritaðist sama ár í doktorsnám við deildina. Að loknu BS-námi hóf Paulina störf við rannsóknir hjá Matís, þar sem hún starfar enn í dag. Rannsóknarsvið hennar er sem fyrr segir á sviði geymslu og ferskleika fiskafurða.Paulina er gift Piotr Wasik og foreldrar hennar eru Barbara Romotowska og Krzysztof Romotowski.

Matvælafræði – MS fyrirlestur – Hildur Inga Sveinsdóttir

Hvenær hefst þessi viðburður: 29. september 2016 – 14:00
Nánari staðsetning: Matís – Vínlandsleið 12, stofa 312Áhrif blóðgunaraðstæðna og geymsluaðferða á gæði þorsks (Effects of bleeding conditions and storage method on the quality of Atlantic Cod).

Niðurstöður  verkefnisins sýna að kæling við blæðingu gæti valdið því að flök verði rauðari. Þar sem litur flaks er mikilvægur þáttur í gæða og verðmati þess er ekki æskilegt að byrja kælingarferlið í blæðingartanki. Hitastigsbreytingin hafði meiri áhrif á ósaltuð flök en léttsöltuð. Það hvort einhver hreyfing er á blæðingarmiðli hefur áhrif á blæðingarafköst. Niðurstöður tilrauna gáfu til kynna að, upp að vissu marki, gæti blæðing í blæðingarmiðli sem sem er á hreyfingu verið afkastameiri en blæðing í óhreyfðu vatni. Þær gáfu líka til kynna að hversu mikil hreyfing er á blæðingarmiðli geti haft meiri áhrif á hversu hratt miðillinn er endurnýjaður.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís og Sæmundur Elíasson doktorsnemi við Háskóla Íslands.

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin er í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við fyrirtækin FISK Seafood, Samherja, HB Granda, Iceprotein, 3X Technology og Skagann með stuðningi Nordic Innovation, AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóðs.

Prófdómari: Dr. Kristín A. Þórarinsdóttir matvælafræðingur hjá Marel.

Matvælafræði – MS fyrirlestur – Inga Rósa Ingvadóttir

Hvenær hefst þessi viðburður: 29. september 2016 – 13:00
Nánari staðsetning: Matís – Vínlandsleið 12, stofa 312

Stöðugleiki léttsaltaðra þorskflaka (Gadus morhua) í frosti – Þættir sem hafa áhrif á stöðugleika og afurðarbreytileika.(Stability of lightly salted cod fillets (Gadus morhua) during frozen storage – Factors affecting the stability and the product variability).

Helstu niðurstöður voru þær að léttsöltun jók stöðugleika þorskflakanna, en þær niðurstöður eru mjög jákvæðar fyrir framleiðendur léttsaltaðra þorskflaka þar sem alltaf er verið að keppast við það að lengja geymsluþol fiskafurða. Afurðarbreytileiki léttsaltaðra þorskflaka á markaði er mjög mikill, en frekari rannsókna þarfnast til þess að átta sig á þeim breytum sem hafa mestu áhrifin á þennan breytileika.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís og Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís.

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin er í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við fyrirtækin FISK Seafood, Hraðfrystihúsið Gunnvöru, Nesfisk og Jakob Valgeir með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Prófdómari: Dr. Kristín A. Þórarinsdóttir matvælafræðingur hjá Marel.

Uppboðskerfi fiskmarkaða – Þarfagreining uppboðskerfis og gerð spálíkans fyrir uppboðsverð

Hvenær hefst þessi viðburður: 29. september 2016 – 11:00
Nánari staðsetning: Matís – Vínlandsleið 12, stofa 312

Bjarni Rúnar Heimisson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í reikniverkfræði. Heiti verkefnisins er Uppboðskerfi fiskmarkaða – Þarfagreining uppboðskerfis og gerð spálíkans fyrir uppboðsverð.

Ágrip

Uppboðskerfi fiskmarkaða olli byltingu í sölu á fiski á Íslandi þegar það var kynnt til sögunnar og var það mikið hagsmunamál fyrir sjómenn og útgerðir á Íslandi. Þrátt fyrir að ýmsar leiðir hafi verið farnar til að bæta upplýsingaflæði og gagnsæi kerfisins með nýju upplýsingakerfi og heimasíðu þá virðist framboð enn vera sá þáttur sem hefur mest áhrif á verðmyndun sem veldur því að sjómenn og útgerðir virðast ekki vera að fá umbun fyrir bætta meðhöndlun.

Markmið þessa verkefnis var að finna þau atriði sem ættu að koma fram í uppboðslýsingu á fiskuppboðum en eru ekki til staðar. Framkvæmd var þarfagreining þar sem meðal annars voru tekin viðtöl við mismunandi hagsmunaaðila uppboðskerfisins. Einnig var framkvæmd línuleg aðhvarfsgreining á raungögnum sem fengin voru frá Reiknistofu fiskmarkaða hf. og þessi gögn síðan greind til að finna út hvaða þættir það eru sem hafa mestu áhrif á verð á fiskuppboði.

Í ljós kom að hagsmunaaðilar bentu á þó nokkra þætti þar sem bæta mætti upplýsingagjöf í uppboðskerfi fiskmarkaða. Nákvæmni spálíkansins sem fékkst er takmarkað þar sem fleiri þættir hafa áhrif á verðið en fram koma í uppboðslýsingu.

Leiðbeinendur: Ólafur Pétur Pálsson prófessor við við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, Sigurjón Arason prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur við Matís og Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís.

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin var í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við Reiknistofu fiskmarkaðana, HB Granda, Nýfisks,og Toppfisks með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.Prófdómari: Daði Már Kristófersson, prófessor, og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Vinnsla, flutningur og geymsla á frosinni síld – Hitastigsbreytingar


Hvenær hefst þessi viðburður: 28. september 2016 – 10:30
Nánari staðsetning: Matís – Vínlandsleið 12, stofa 312

Finnur Jónasson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í iðnaðarverkfræði. Heiti verkefnisins er Vinnsla, flutningur og geymsla á frosinni síld – Hitastigsbreytingar.

Ágrip

Í þessu verkefni  voru skoðaðar hitastigsbreytingar síldar í gegnum landvinnslu og flutning frá Íslandi yfir í frostgeymslu erlendis. Þar sem hitastig fiskafurða hefur mest áhrif á geymsluþol og gæði afurða er nauðsynlegt að kortleggja hitaprófíl síldar í gegnum ferlið. Mælingar voru gerðar þegar blokkfryst síld var flutt erlendis bæði með frystiskipum og frystigámum. Þegar varan var flutt með frystiskipum varð hitaálag bæði við útskipun og uppskipun. Hitastigið í frystiskipunum hélst stöðugt ólíkt því sem búist var við en ekki var stillt á nægjanlega lágt hitastig í flutningunum.

Leiðbeinendur: Gunnar Stefánsson prófessor við við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, Sigurjón Arason prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur við Matís og Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís. 

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin er í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við Síldarvinnsluna og Samherja með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Prófdómari: Jón Heiðar Ríkharðsson, vélaverkfræðingur.

Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um lífhagkerfið og niðurstöður NordBio

Ísland og Norræna ráðherranefndin boða til alþjóðlegrar ráðstefnu um lífhagkerfið og niðurstöður NordBio verkefna í Hörpu 5.-6. október 2016.

Yfirskrift ráðstefnunar er: MINDING THE FUTURE. Bioeconomy in a changing Nordic reality.

Meðal fyrirlesara eru Christine Lang, formaður þýska lífhagkerfisráðsins, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Lene Lange, prófessor í lífefnafræði við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn, Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands og Bryan Alexander, framtíðarfræðingur og rithöfundur. Þá munu Gunnar Bragi Sveinsson, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar flytja opnunarerindi. Ráðstefnustjórn verður í höndum Þóru Arnórsdóttur og Stefáns Gíslasonar.   

Ráðstefnan fer fram á ensku og skiptist í gagnvirka fyrirlestra og málstofur.

Ráðstefnan er lokahnykkur NordBio áætlunarinnar, sem er þriggja ára verkefni (2014-2016 ) um lífhagkerfið undir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Undir merkjum NordBio hefur breiður hópur sérfræðinga á Norðurlöndum sameinað krafta sína og unnið að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Markmið NordBio er að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun.

Vinsamlegast áframsendið póstinn til þeirra sem áhuga kunna að hafa.                 

Vonumst til að sjá sem flesta í Hörpu 5. og 6. október.

MindingTheFuture

Fréttir

Fundur hagaðila í verkefninu Marine Biotechnology

Hagaðilafundur fer fram í Marine Biotechnology verkefninu 12. – 14. október nk. Fundurinn er fyrir aðila á sviði Sjávarlíftækni og með því að sækja fundinn fái þátttakendur einstakt tækifæri til kynna sér hvað er efst á baugi og haft áhrif á framtíðarstefnu í málaflokknum.

Dr. Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís, heldur erindi í málstofu 3: Supporting marine biotechnology RTDI.Tengill á viðburðinn má finna á heimasíðu Marine Biotechnology.

Fréttir

Áhugaverð heimsókn frá Kólumbíu

Þessa stundina stendur yfir heimsókn sendinefndar frá Kólumbíu og er umfjöllunarefnið í dag jarðvarmi og nýting hans. Á morgun verður fjallað um íslenskan sjávarútveg í víðu samhengi.

Á þessum málstofum gefst einstakt tækifæri til að koma á og efla tengsl við lykilaðila sem tengjast virkjun jarðvarma og sjávarútvegi í stjórnkerfinu og háskólum í Kólumbíu, þar sem mikill áhugi er á auknu samstarfi við Íslendinga í þessum efnum.

Málstofurnar eru haldnar í samstarfi Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Matís

Dagskrá hópsins má sjá hér að neðan.

Invitation-Colombia-Iceland-contact-seminar

Fréttir

Hlutverk landbúnaðarins í lífhagkerfi Norðurslóða – 6.-8. október

Níunda alþjóðaráðstefna Samtaka um landbúnað á Norðurslóðum (Circumpolar Agricultural Conference) verður haldin hér á landi á Hótel Söga 6.-8. október 2016.

Á ráðstefnunni verður fjallað um svæðisbundna framleiðslu sem styrkir dreifðar byggðir, matvælaframleiðslu á Norðurslóðum, ferðamennsku og nýsköpun sem bregst við breyttum aðstæðum. Sérstök áhersla verður lögð á að að kynna góðan árangur sem hefur náðst á einu svæði og aðrir geta notið góðs af. Matvælasýning á vegum lokaráðstefnu NordBio áætlunarinnar verður felld inn í.

Hægt er að skrá sig á heimasíðu ráðstefnunnar, www.caa2016.com. Ráðstefnugjaldið er kr. 35.200.

Þann 8. október verður farin skoðunarferð um landbúnaðarhérað með menningarlegu ívafi þar sem gestir kynnast íslenskum landbúnaði.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal hjá Matís.

Fréttir

Heimsókn frá Research Executive Agency

Þær Dr. Agne Dobranskyte-Niskota, fulltrúi rannsóknarverkefna (Research Programme Officer) og Sophie Doremus, lögfræðingur, báðar frá Research Executive Agency (REA) Evrópusambandins heimsóttu Matís þann 7. september.

Tilgangur heimsóknarinnar var að fylgjast með framvindu tveggja einstaklingsstyrkjaverkefna (Individual Fellowship) sem falla undir Marie Skłodowska-Curie áætlunina (MSCA), en þessi verkefni eru núna í gangi hjá Matís. Verkefnin tvö eru annars vegar verkefni Dr. Ástu H. E. Pétursdóttur sem nefnist Þversnið af þangi (SilhouetteOfSeaweed, project no. 656596) og hins vegar verkefni Dr. Gregory K. Farrant sem ber nafnið AstroLakes (project no. 704956).

Dagurinn hófst á fyrirlestri þeirra Dr. Agne Dobranskyte-Niskota og Sophie Doremus, en þær kynntu bæði REA og MSCA áætlunina. Dr. Helga Gunnlaugsdóttir hélt þvínæst fyrirlestur og kynnti starfsemi Matís. Ásta og Gregory kynntu síðan sig sjálf og verkefnin sín, og spjölluðu svo við gestina frá REA í einstaklingsviðtölum. Deginum lauk með því að gestirnir skoðuðu alla aðstöðu Matís.

EU

Fréttir

Enn öruggari upplýsingar um hollustu sjávarfangs

Nýlega ákváðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – SFS – að styrkja Matís til að vinna verkefnið – Næringargildi sjávarafurða: merkingar og svörun –  sem er sjálfstætt framhald verkefnis um Næringargildi sjávarafurða, sem AVS styrkti á árunum 2008-2010. Verkefnið miðar að því að styrkja íslenskan sjávarútveg í alþjóðlegri samkeppni á kröfuhörðum mörkuðum einkum innan hins Evrópska Efnahagssvæðis, ekki hvað síst varðandi auknar kröfur um merkingar á næringargildi.

Gengið var frá samkomulagi 8. september s.l. um tilhögun verkefnisins, með undirritun Jens Garðars Helgasonar formanns SFS og Sveins Margeirssonar forstjóra Matís.

Með verkefninu er þegar í stað hafist handa við að búa í haginn fyrir sjávarútveg morgundagsins svo hann geti mætt þörfum viðskiptavina sinna og er það er eitt af fjölmörgum hagnýtum verkefnum sem Matís vinnur að og þjóna breiðum hagsmunum íslensks sjávarútvegs og búa í haginn fyrir hagkvæma sókn íslensks sjávarútvegs á mið og markaði framtíðarinnar. Viðtakandi niðurstaðna verkefnisins eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Umsjónarmaður verkefnisins hjá SFS er Steinar Ingi Matthíasson. Verkefnisstjóri verkefnisins hjá Matís er Ólafur Reykdal

Fréttir

Lífgasframleiðsla hliðarbúgrein fiskeldis á Vestfjörðum?

Með aukinni uppbyggingu í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum koma fram áhugaverð hliðarverkefni við fiskeldið sem geta stuðlað að minni umhverfisáhrifum. Eitt af þeim verkefnum er að finna viðeigandi úrvinnslu á fiski sem drepst í eldiskvíum á eldistímanum.

Alltaf er eitthvað um að fiskur drepist í eldiskvíunum vegna sára, sjúkdóma eða verður undir í lífsbaráttunni í kvíunum einhverra hluta vegna. Algengt er að reikna með að um 4% af sláturþyngd fisksins drepist á eldistímanum. Flestir fiskar drepast meðan fiskurinn er smár eftir útsetningu í kvíarnar en alltaf er hætta á afföllum þó reynt sé að stemma stigu við þeim. Þessi fiskur er óhæfur til manneldis og sem fóður fyrir dýr og fiska til manneldis en hægt að nota hann í fóður fyrir loðdýr ef tekst að ná fiskinum sem fyrst eftir dauða. Megnið af dauðfiski er þó ekki nýtanlegt í loðdýrafóður og því hefur verið farin sú leið hér á landi að urða hann þar sem önnur leið er ekki í boði enn sem komið er.

Með auknu eldi er fyrirsjáanlegt að magn dauðfisks mun aukast á næstu árum og því brýnt að reyna að finna leiðir til að nýta þetta hráefni betur en að urða það með tilheyrandi kostnaði við geymslu og akstur. Í Noregi hefur þetta hráefni verið sett í sýru til að koma í veg fyrir lyktarvandamál og síðan hefur meltan ásamt öðru hráefni verið notuð sem fóður fyrir niðurbrotslífverur sem brjóta niður hráefnið. Við niðurbrotið myndast lífgas sem samanstendur að stórum hluta af metani og koltvísýringi auk annarra lofttegunda og lífgasið er síðan er notað til orkuframleiðslu. Því kviknaði sú hugmynd að kanna hvort framleiðsla á lífgasi úr dauðfiski væri framkvæmanleg við þær aðstæður sem eru að skapast á sunnanverðum Vestfjörðum.

Verkefnið var samstarfsverkefni Fjarðalax, Orkubús Vestfjarða og Matís og fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða síðastliðinn vetur. Í verkefninu voru kortlagðir allir mögulegir hráefnisstraumar á sunnanverðum Vestfjörðum sem til greina kæmu við lífgasframleiðslu auk mögulegrar nýtingar á orku frá verinu og mögulegt staðarval. Miðað við þær áætlanir sem eru um aukningu laxeldis á sunnanverðum Vestfjörðum gætu fallið til á bilinu 1.200 – 1.600 tonn af dauðfiski innan fárra ára auk annars hráefnis. Kostnaður við förgun þessa fisks gæti hlaupið á 40 – 60 milljónum króna á ári miðað við akstur og urðun í Fíflholti á Mýrum sem er sá urðunarstaður sem næstur er. Kostnaður við uppsetningu lífgasvers sem vinnur úr sambærilegu magni af hráefni gæti verið á bilinu 80 – 120 milljónir en stærðarhagkvæmni ræður miklu um kostnað við lífgasver og rekstur þeirra.

Í verkefninu kom fram að skortur er á kolefnisríku hráefni til að blanda saman við fiskinn til að jafna hlutfall kolefnis og köfnunarefnis en fyrir niðurbrotslífverurnar er æskilegt hlutfall kolefnis á móti köfnunarefni að vera um 30. Kolefni fæst úr hálmi, kornvörum svo sem byggi og grænmetisafskurði svo dæmi séu tekin. Lítið framboð er af slíku hráefni á sunnanverðum Vestfjörðum og því þyrfti að flytja það annars staðar frá svo sem frá brugghúsum eða öðrum stórnotendum. Því gæti önnur hliðarbúgrein við fiskeldið hugsanlega orðið bjórverksmiðja á sunnanverðum Vestfjörðum til að fá kolefni í lífgasframleiðsluna.

Í verkefninu var ekki lagt mat á kostnaðarliði eða hagkvæmni lífgasversins þar sem mjög margir óvissuþættir eru fyrir hendi og því ekki hægt að greina slíkt með neinni nákvæmni. Ljóst er þó að vert er að skoða hugmyndina um lífgasver betur með tilliti til sparnaðar fyrirtækja og umtalsverðs ávinnings í umhverfismálum fyrir fyrirtæki og íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða fær þakkir fyrir fjárhagslegan stuðning við verkefnið og einnig fá þeir fjölmörgu aðilar sem veittu upplýsingar um ýmsa þætti þakkir fyrir sitt framlag.

Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Matís.

Nánari upplýsingar veitir Lilja Magnúsdóttir hjá Matís.

IS