Fréttir

Lektor í matvælafræði við Matvæla- og næringar­fræðideild Háskóla Íslands

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Laust er til umsóknar 100% starf lektors í  matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Fagsvið: 

Leitað er eftir umsækjanda með þekkingu og reynslu til að efla rannsóknir og kennslu í matvælafræði með áherslu á matvælaefnafræði, matvælavinnslu eða matvælaörverufræði.

Starfssvið:

• Að taka þátt í þróun og kennslu í grunn, meistara- og doktorsnáms í matvælafræði.
• Að kenna og leiðbeina nemendum í matvælafræði.
• Að stunda rannsóknir á sviði matvælafræði.
• Að taka þátt í stjórnun og uppbyggingu kennslu og rannsókna.
• Að afla utanaðkomandi rannsóknarstyrkja og taka virkan þátt í innlendum og alþjóðlegum verkefnum og samstarfi.

Menntunar- og hæfniskröfur:

• Doktorspróf með sérhæfingu í matvælafræði.  Sérhæfingin getur m.a. verið á sviðum matvælaefnafræði, matvælalíftækni, matvælavinnslu eða matvælaörverufræði.
• Reynsla af umsjón rannsóknaverkefna, skýrar rannsóknaáherslur og reynsla í öflun vísindastyrkja.
• Kennslureynsla á háskólastigi með góðum árangri sem og reynsla í leiðbeiningu framhaldsnema.
• Framúrskarandi enskukunnátta.
• Góð samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum.
• Áreiðanleiki, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, ásamt góðri færni í að miðla eigin þekkingu.

Við ráðningu verður miðað við að sá er starfið hlýtur falli sem best að aðstæðum og þörfum Matvæla- og næringarfræðideildar.

Ráðið verður í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Samkvæmt reglum Háskóla Íslands nr. 569/2009, 38. gr. er rektor heimilt að veita framgang í starf dósents eða prófessors við nýráðningu uppfylli viðkomandi þau skilyrði.

Umsóknarferli:

Umsóknarfrestur er til og með 6. mars 2017 og skulu umsóknir berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is merkt HI17010159.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og rannsóknaráætlun ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Ef ekki er unnt að skila fylgigögnum með umsókn á rafrænu formi skal skila þeim í tvíriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík. Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru skv. kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Gert er ráð fyrir að ofangreint starf verði veitt frá 1. ágúst 2017 eða eftir samkomulagi, enda verði störfum nefnda, sem um málið fjalla, þá lokið. Umsækjendum verður greint frá niðurstöðum dómnefndar og valnefndar og um ráðstöfun starfsins þegar sú ákvörðun liggur fyrir.

Nánari upplýsingar veita:

  • Guðjón Þorkelsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar og starfsmaður Matís (gudjont@hi.is / s. 422 5044)
  • Auður Ingólfsdóttir, deildarstjóri Matvæla- og næringarfræðideildar (auduring@hi.is / 543 8408).

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Matvælafræði- og næringarfræðideild er ein af sex deildum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Við deildina stunda um 120 stúdentar nám í matvælafræði og næringarfræði. Þar af eru um 50 framhaldsnemar, bæði í meistaranámi og doktorsnámi.  Akademísk stöðugildi innan deildarinnar eru átta og vegna hás meðalaldurs matvælafræðikennara er gert ráð fyrir verulegri endurnýjun starfliðs á  næstu árum. Því eru ungir vísandamenn sérstaklega hvattir til að sækja um.  Deildin er í rannsókna- og kennslusamstarfi við Rannsóknastofu í næringarfræði (www.rin.hi.is) og Matís ohf (www.matis.is).

Nánari upplýsingar um deildina má finna á vef fræðasviðsins
http://www.hi.is/matvaela_og_naeringarfraedideild/forsida

IS