Fréttir

Allt í land!

Komin er út skýrsla á vegum Matís er fjallar um hliðarafurðir frá bolfiskvinnslu á Íslandi. Í skýrslunni er greint frá hliðarafurðum sem unnar eru úr hráefni er til fellur við vinnslu á okkar helstu bolfisktegundum, hver þróun vinnslunnar hafi verið á síðastliðnum árum hvað varðar magn og verðmæti, auk þess sem fjallað er um lítið- eða ónýtt tækifæri í enn frekari fullvinnslu bolfisksafla.

Árið 2015 fór Danmörk með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og samhliða því var Færeyingum falið að móta vinnu á þeim vettvangi í kringum nýtingu í bláa lífhagkerfinu (e. Blue Bioeconomy). Sem hluti af formennskuáætluninni var hrundið af stað verkefninu „Alt i land“, þar sem kanna átti núverandi nýtingu og möguleika til bættrar nýtingar í bolfiskvinnslu í Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Íslandi. Færeyska fyrirtækinu Syntesa var falið að leiða verkefnið og má sjá upplýsingar um uppsetningu og markið verkefnisins á heimasíðu færeysku formennskuáætlunarinnar.

Haldnir voru raðir vinnufunda í löndunum fjórum með hagaðilum, gögn greind og möguleikar kannaðir. Þar með talið var gerð hagkvæmniathugun á nokkrum helstu möguleikunum til aukinnar nýtingar. Niðurstöður verkefnisins hafa nú verið gefnar út í skýrslu á vegum Norrænuráðherranefndarinnar sem nálgast má.

Samhliða aðkomu Matís að verkefninu „Alt i land“ var unnin Matís-skýrsla þar sem teknar eru saman upplýsingar um nýtingu á mikilvægum bolfisktegundum við Ísland, gerð grein fyrir hvaða afurðir séu unnar úr því hráefni sem til fellur og möguleikar til aukinnar nýtingar á hliðarhráefni kannaðir. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu Matís.

Nánari upplýsingar veita  Jónas R. Viðarsson eða Ásbjörn Jónsson

Fréttir

Athyglisverð grein í Icelandic Agricultural Sciences – fæðuval landsela

Ný grein var að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences (IAS) og hægt er að nálgast hana á slóðinni http://www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/key2/bsinaawuad.html  

Greinin nefnist „Diet of harbour seals in a salmon estuary in North-West Iceland“ og er eftir höfundana Söndru M. Granquist og Erling Hauksson.

Greinin fjallar um fæðuval landsela í ósum lax- og silungaveiðiáa í Húnaþingi vestra. Hugsanleg áhrif sela á laxfiska er stórt og umdeilt mál og því er þessi rannsókn mjög mikilvægt innlegg í þá umræðu. Höfundar rannsökuðu fæðuval landsela á ósasvæðunum á árunum 2009 til 2011 með kvarna- og beinagreiningu úr selasaursýnum. Megin niðurstaðan var sú að engar vísbendingar voru um laxfiska í saursýnunum selanna. Það voru hinsvegar flatfiskar sem voru mikilvægastir í fæðu selanna í ósunum og næstmikilvægast var síli. Síli var einnig sú fisktegund sem fannst hlutfallslega mest öll árin (45% sýna) og það ásamt flatfiskum og loðnu voru ríkjandi í fjölda einstakra fiska. Breytileiki var þó nokkur á milli ára og einnig var árstíðabundin breytileiki í fæðuvali selanna. Þessar niðurstöður eru mjög áhugaverðar og mikilvægt innlegg í umræðu um meint neikvæð áhrif sela á lax- og silungsveiði hérlendis.

Nánari upplýsingar á vef IAS.

Fréttir

Getur þang haft jákvæð áhrif á blóðsykur? Viltu taka þátt til auka þekkingu?

Rannsóknarstofa í Öldrunarfræðum, Landakoti 5L og Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands óskar eftir þátttakendum í rannsókn sem hlotið hefur samþykki Vísindasiðanefndar.

  • Þátttakendur þurfa að vera heilbrigðir, fullorðnir einstaklingar, 40 ára og eldri.  Þátttakendur með líkamsþyngdarstuðul 30 kg/m2 eða hærri geta tekið þátt (sjá töflu með útreiknuðum líkamsþyngdarstuðli hér að neðan). Þátttakendur sem stunda reglulega hreyfingu eru útilokaðir frá þátttöku sem og þungaðar konur eða konur með barn á brjósti.
  • Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif mismunandi skammtastærða af blöðruþangsútdrætti á skammtíma blóðsykur hjá heilbrigðum, fullorðnum einstaklingum.
  • Þátttaka í rannsókninni felst í því að mæta þrisvar sinnum í tvo og hálfa tíma í blóðsykurpróf og líkamsmælingar. Þátttakendur munu fá mismunandi skammta af blöðruþangsútdrætti ásamt 50 g af kolvetnum í hverri komu. Framkvæmdar verða mælingar á líkamssamsetningu, hæð og þyngd. Auk þess verða þátttakendur beðnir um að upplýsa um almennt heilsufar.
  • Blöðruþang (Fucus vesiculosus) er ríkt af joði, ómeltanlegri sterkju, salti og lífvirkum efnum. Blöðruþangsútdráttur verður til þegar ákveðin lífvirk efni eru dregin út úr blöðruþanginu og einangruð. Þessi lífvirku efni eru sett í hylki úr gelatíni til að auðvelda inntöku. Notkun á blöðruþangi til manneldis er þekkt og rannsóknir á lífvirkum efnum í blöðruþangi bæði hérna á Íslandi og erlendis benda til þess að blöðruþangsútráttur getur haft jákvæð áhrif á blóðsykursstjórn þar sem blöðruþangsútráttur dregur úr upptöku kolvetna í meltingarvegi.
  • Ekki er greitt fyrir þátttöku.

Áhugasamir sem uppfylla ofangreind skilyrði eru beðnir um að hafa
samband við Anítu Sif Elídóttur í síma 844-7131 eða senda tölvupóst á anitas@landspitali.is


Aníta Sif Elídóttir
 er næringarfræðingur og starfsmaður á Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og hjálpar við framkvæmd rannsóknarinnar.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Alfons Ramel, Prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (alfonsra@hi.issími: 543-9875).

Þeir sem hafa samband við rannsakendur eru eingöngu að lýsa yfir áhuga á frekari upplýsingum en ekki skuldbinda sig til þátttöku.

Tafla 1 – Lágmarksþyngd sem þarf til að uppfylla skilyrði um líkamsþyngdarstuðul ≥ 30 kg/m2

Hæð (m)Þyngd (kg)
1,6077
1,6279
1,6481
1,6683
1,6885
1,7087
1,7289
1,7491
1,7693
1,7895
1,8097,5
1,8299,5
1,84101,5
1,86104
1,88106
1,90108,5
1,92110,5
1,94113
1,96115
1,98118
2,00120

Líkamsþyngdar stuðull er reiknaður út frá hæð og þyngd samkvæmt formúlunni þyngd/hæð2 (kg/m2).

HI_Landspitali_rannsokn

Fréttir

Fyrsti vinnufundurinn í MacroFuels

MacroFuels er verkefni sem er hluti af Horizon 2020, rannsóknaráætlun evrópu 2014-2020, og hófst verkefnið í byrjun árs. Matís tekur þátt í þessu verkefni sem hefur það að markmiði að þróa eldsneyti úr þangi, til dæmis bútanól, etanól , furanic-efni og lífgas (metan).

Verkefnið tekur til allra þátta í framleiðslu keðjunni: Ræktunar þangs af mismunandi tegundum, uppskerutækni, forvinnslu sem og þróun efnafræðilegra og líffræðilegra umbreytinga á þangsykrum í eldsneytsameindir.

MacroFuelsIceland_GroupPic

Þátttakendur er háskólar, rannsóknastofnanir og fyrirtæki frá Íslandi, Danmörku, Hollandi, Skotlandi, Belgíu og Þýskalandi. Matís mun þróa og rannsaka ensím og örverur til að brjóta niður þennan lífmassa og nýta til eldsneytisgerðar.

Fyrsti vinnufundurinn stóð í tvo daga þar sem farið var yfir fyrstu sex mánuði verkefnins, hvað hefði verið gert og hvað hefði áunnist. Einn dagur var svo vel nýttur í skipulagningu verka í vinnupökkum verkefnisins.

Að loknum fundum fóru þátttakendur saman í Reykjadalinn, og kynntust íslenskri náttúru og böðuðu sig í heitum laugum.

MacroFuelsIceland_ReykjadalurReykjadalur 

Nánari upplýsingar veita dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson og dr. Bryndís Björnsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Lífhagkerfisstefna 2016

Á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er frétt um lífhagkerfisstefnu fyrir Ísland. Lífhagkerfisstefnan hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og hefur víðtækt samráð átt sér stað við hagsmunaaðila. Þessi vinna hefur verið leidd af Matís í umboði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Birting stefnunnar á heimasíðu ráðuneytisins er hluti af mikilvægu samráðsferli og eru allir sem vilja láta sig þetta mikilvæga málefni varða hvattir til að kynna sér stefnudrögin og senda inn athugasemdir eða ábendingar, eigi síðar en 20. ágúst 2016.

Um lífhagkerfisstefnuna

Markmið lífhagkerfisstefnu fyrir Ísland eru að styðja sjálfbæra þróun og uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á nýtingu lífauðlinda, þvert á hinar svonefndu hefðbundnu atvinnugreinar, landbúnað, sjávarútveg og matvælavinnslu. Við þessa vinnu hefur verið leitast við að fjalla um tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar innan þessara greina atvinnulífsins og hvernig styðja megi við uppbyggingu nýrra greina til framtíðar, hvernig bæta megi nýtingu og minnka sóun, auk þess sem horft er til nýtingar vannýttra auðlinda.

Sjá nánar á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Fréttir

Aukið verðmæti tilbúinna rétta sem auðgaðir hafa verið með hráefnum úr hafinu

Fyrir nokkru lauk EnRichMar verkefninu sem leitt var af Matís. Verkefnið gekk út á það að auðga matvæli með hollustu úr hafinu en verkefnið var hluti af 7. rannsóknaáætlun Evrópu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki (FP7 SME).

Markmið verkefnisins var að auka verðmæti tilbúinna matvæla með því að auðga þau með hráefnum og innihaldsefnum úr vanýttum sjávarafurðum og hliðarhráefnum frá fiskvinnslum. Áhersla var lögð á ómega-3 fitusýrur og þörungaþykkni sem geta haft aukin og jákvæð áhrif á hollustu og stöðugleika matvælanna og aukið bragðgæði þeirra.

Niðurstöður

Verkefnið hefur skapað ný viðskiptatækifæri innan og utan þess hóps sem tók þátt í EnRichMar. Þau þátttökufyrirtæki sem framleiða lífvirk efni hafa færst skrefi framar og hafa markaðssett lífvirk efni fyrir margskonar fæðutegundir á nýja ábatasama markaði. Einnig hefur fjölbreytni í framleiðslu lífvirkra efna aukist vegna fyrirhugaðrar markaðssetningar á nýjum tilbúnum réttum sem þróaðir voru í tengslum við verkefnið. Þátttökufyrirtækin hafa aflað sér verðmætra markaðsupplýsinga um markfæði, skoðanir neytenda á markfæði á mikilvægum mörkuðum og þróað auðguð matvæli sem byggð eru á upplýsingum sem fengnar eru frá helstu markhópum. Auk þessa hafa þátttakendur upplýsingar frá fyrstu hendi um lífeðlisfræðileg áhrif af neyslu auðgaðra matvæla. Grundvallaratriði fyrir hvert og eitt þátttökufyrirtæki var að þróa nýtt og verðmætara viðskiptamódel sem mun hafa jákvæð áhrif á afkomu þeirra í framtíðinni.

Aukið verðmæti hráefna og framleiðsluvara mun leiða til aukinnar fjölbreytni í hollari tilbúnum réttum og getur þannig stuðlað að bættri lýðheilsu. Niðurstöðurnar eru einnig mikilvægar fyrir evrópskan sjávarútveg og nýtingu sjávarauðlinda vegna aukins verðmætis úr hliðarstraumum frá sjávarútvegi og vannýttum sjávarauðlindum.

Þess má geta að upphaf þessa verkefnis má rekja til styrkveitingar frá Aukið verðmæti sjávarfangs sjóðnum (AVS). Í kjölfarið vaknaði áhugi á Norðurlöndunum á verkefninu og úr varð samskonar verkefni sem styrkt var af Norden, Nordic Innovation, Norræna nýsköpunarsjóðnum. Að lokum stækkaði verkefnið enn frekar, og enn bættist í hóp þátttakenda, og úr varð EnRichMar verkefnið sem um er fjallað í þessari frétt.

Tveir íslenskir þátttakendur voru í verkefninu auk Matís. Marinox og Grímur kokkur voru með frá upphafi og er óhætt að segja að ávinningurinn hafi verið verulegur fyrir þessa íslensku þátttakendur:

Grímur kokkur, Grímur Gíslason:

“Það hefur verið mjög mikilvæg fyrir fyrirtæki okkar að vera hluti af EnRichMar og samstarfið var mjög gott. EnRichMar hefur opnað fyrir útflutningstækifæri, hjálpaði okkur að gera hollan mat hollari, og leysa vandamál sem tengjast framleiðslu á máltíðum sem innihalda ómega fitusýrur. Við munum markaðssetja tvær vörur þróaðar í verkefninu í sumar”

Marinox, Rósa Jónsdóttir:

“EnRichMar verkefnið hefur meginþátturinn í því að Marinox gat skalað upp framleiðslu á lífvirku þangþykkni og einnig höfum við fengið mikilvægar upplýsingar um samsetningu, virkni og klínískan ávinning af þangþykkninu. Ennfremur hefur þátttakan stutt Marinox í viðskiptaþróun þar sem það hefur opnað fyrir ný markaðstækifæri, veitt okkur mikilvæga innsýn í markað fyrir fæðuhráefni og aukefni og einnig sterk tengsl við nýja samstarfsaðila í rannsóknum og viðskiptum“

Lista yfir alla þátttakendur og umsagnir þeirra má finna á einblöðungnum Increased value of convenience foods by enrichment with marine based raw materials.

Nánari upplýsingar veitir dr. Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri EnRichMar. Meira um EnRichMar.

Fréttir

Skúli ST-75 bátur maí mánaðar í fegurðarsamkeppni

Fyrsta viðurkenningin fyrir góða aflameðferð er komin í réttar hendur. Áhöfnin á Skúla ST-75 sendi okkur fínar myndir af því hvernig þeir meðhöndla fisk.

Fallegur fiskur – vel gert feðgar!

Er feðgarnir Haraldur Vignir Ingólfsson og Ingólfur Árni Haraldsson á Skúla ST-75 frá Drangsnesi komu til hafnar í gær beið þeirra vösk sveit með Má Ólafsson stjórnarmann í Landssambandi smábátaeigenda (LS) og Smábátafélaginu Ströndum í broddi fylkingar.  Tilefnið var að afhenda þeim fegðum verðlaun fyrir besta myndefni maí mánaðar í „Fallegur fiskur“ átaki LS og Matís. Hlutu þeir að launum forláta GoPro myndavél, ásamt viðurkenningarskjali.

Ingólfur Árni og Haraldur Vignir taka við verðlaunum úr hendi Más Ólafssonar.Skuli_ST-75_7_web

Átakið „Fallegur fiskur“ er ætlað að stuðla að aukinni vitund um mikilvægi góðrar aflameðferðar og hversu miklu máli það skipti að stunda vönduð vinnubrögð. Með því að virkja sjómenn í að deila myndum og sögum þar sem vel er að verki staðið vonast LS og Matís til að geta gert þeim sem best standa sig hátt undir höfði og um leið hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.

Með þessari viðurkenningu vilja LS og Matís auka vitund um mikilvægi góðrar aflameðferðar og hversu miklu máli það skiptir að stunda vönduð vinnubrögð.

Sjómenn eru hvattir til að senda inn myndir og sögur á Facebook, Instagram eða Twitter síðum átaksins og komast þannig í „pottinn“ fyrir næstu verðlaunaafhendingu.

Ágætu sjómenn: endilega sendið inn myndir sem sýna fyrirmyndar vinnubrögð því verðlaunin fyrir bestu myndirnar af eru ekki af verri endanum.

Frekari leiðbeiningar um þátttöku má nálgast á http://www.matis.is/fallegurfiskur

Skuli_ST-75_4_web

Fréttir

Nýjar áherslur í starfsemi Matís

Síðastliðið ár hefur átt sér stað kröftug stefnumótunarvinna hjá Matís. Mjög stór hluti starfsmanna fyrirtækisins hefur komið að þessari vinnu en auk þess hefur verið unnið í minni hópum og utanaðkomandi aðstoð þegin.

Nýjar áherslur hafa litið dagsins ljós án þess þó að fallið hafi verið frá fyrri verkefnum. Ákveðnar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað í kjölfarið og er Matís nú enn betur í stakk búið til að takast á við framtíðar áskoranir í matvæla- og líftækniiðnaði þar sem áhersla er lögð á aukna verðmætasköpun, aukið matvælaöryggi og lýðheilsu með öflugum stuðningi við okkar viðskiptavini.

Með nýjum áhersum viljum við ítreka að Matís er öflugt þekkingar- og vísindasamfélag sem byggir á sterkum rannsóknainnviðum og samstarfi, með það að markmiði að hámarka áhrif fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun

Nýtt skipurit Matís.

Fréttir

Mjög góðar niðurstöður úr þjónustukönnun Matís

Með reglulegu millibili er lögð þjónustukönnun fyrir viðskiptavini örveru og efnamælinga, þjónustu sem boðið er upp á innan mæliþjónustusviðs Matís. Síðasta könnun var lögð fyrir viðskiptavini fyrir stuttu síðan og óhætt er að segja að viðskiptavinir Matís kunni að meta þá þjónustu sem fyrirtækið býður upp á. 

Niðurstöðurnar gefa góða heildarmynd af viðhorfi viðskiptavina Matís til þessarar þjónustu fyrirtækisins. Ef nokkur dæmi eru tekin úr niðurstöðunum þá voru viðskiptavinir mjög sammála um að Matís hefði staðist væntingar hvað varðar gæði og öryggi niðurstaðna, sömuleiðis mjög sammála um að afgreiðsluhraði hafi verið góður og mjög sammála um að starfsmenn hafi þá þekkingu og reynslu sem leitað var eftir. Auk þess voru viðskiptavinir mjög sammála um að viðmót starfsmanna Matís sé ánægjulegt, svo nokkur dæmi séu tekin. 

Þetta eru sannarlega góðar niðurstöður og eru Matís mikil hvatning. Jafnframt er þetta hvatning um að gera betur og þjónusta viðskiptavini okkar enn betur en nú er gert.

Heildar niðurstöður.

Ýmsar góðar og athyglisverðar athugasemdir bárust frá viðskiptavinum og verður reynt að bregðast við þeim eins og hægt er. Helstu athugasemdirnar sneru að eftirfarandi atriðum:

  • Athugasemdir bárust um útfærslu á könnuninni. Fram komu ábendingar um að meiri sundurliðun á viðskiptavinum hefði verið æskileg og verður það haft í huga við skipulagningu á næstu þjónustukönnun.
  • Óskir um fleiri tegundir af efnamælingum komu fram. Þó mikill og fullkominn tækjabúnaður sé til hjá Matís, er ekki hægt að koma algjörlega til móts við allar óskir, en hins vegar geta starfsmenn Matís fundið út og haft milligöngu um að senda sýni á systurstofnanir erlendis í þeim tilvikum sem ekki er hægt að bjóða upp á viðkomandi rannsókn hér heima.
  • Athugasemdir um viðmiðunarreglur og túlkun á niðurstöðum. Ekki er unnt að senda viðmiðunargildi út með niðurstöðum en viðskiptavinir eru hvattir til að hafa samband annað hvort með tölvupósti eða símleiðis, og er starfsmönnum bæði ljúft og skylt að aðstoða á allan þann hátt sem þeir eru færir um. Bæði hvað varðar túlkun og mat á niðurstöðum.
  • Athugasemd um að Matís kæmi sér upp notendasvæði, þar sem viðskiptavinur hefði aðgang að öllu varðandi sínar rannsóknir.  Þetta væri vissulega hægt og er bæði metnaðarfullt og spennandi en jafnframt kostnaðarsamt  verkefni sem vonandi verður að veruleika í framtíðinni.
  • Óskað var eftir uppfærslu á beiðnablöðum, en það er atriði sem verið er að vinna í.
  • Auk þess fékk Matís ánægjulegar athugasemdir þar sem þakkað var fyrir góða þjónustu, og kom greinilega fram að mikil ánægja er með þjónustu starfsstöðvar Matís í Neskaupstað.

Fréttir

Ekki ruglast! Matís er ekki Matvís sem er ekki MAST…..

Ekki nóg með að nöfn þessara eininga séu keimlík heldur er umfjöllunarefni þeirra að mörgu leyti það sama; matur! Það er því alls ekki skrýtið að fólk ruglist. Og til að bæta gráu ofan á svart þá eru þau með aðsetur eða útibú á nánast sama svæðinu í Reykjavík.

MAST (Matvælastofnun): Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla. Staðsetning: Selfoss, umdæmi dýrlækna á landsvísu og að Stórhöfða 23. Heimasíða: www.mast.is

Matvís: MATVÍS er félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum, þ.e.a.s. bakara, kökugerðarmanna, framreiðslumanna, kjötiðnaðarmanna, matreiðslumanna, nema og annarra sem starfa við framreiðslu, matreiðslu og sölu á matvælum og félagið ákveður að veita viðtöku. Staðsetning: Stórhöfða 31. Heimasíða: www.matvis.is

Matís (Matvælarannsóknir Íslands): Matís er þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla. Matís gegnir engu eftirlitshlutverki. Staðsetning: Vínlandsleið 12 og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Heimasíða: www.matis.is

IS