Fréttir

Laxablóð – verðmæt hliðarafurð

Matís tók þátt í rannsóknarverkefni í sumar sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Rannsóknin snýr að söfnun og nýtingu á blóði úr eldislaxi og var verkefnið unnið í samvinnu við Slippinn-DNG, Samherja fiskeldi, Eim og Háskólann á Akureyri.

Þrír nemendur unnu að verkefninu í sumar og framkvæmdu tilraunir með þurrblæðingu laxa í slátrun, söfnun og greiningu á laxablóði og mati á áhrifum mismunandi blæðingaraðferða á flakagæði. Laxablóði var safnað við slátrun með búnaði sem var sérstaklega hannaður og smíðaður fyrir verkefnið. Næringargildi blóðsins voru rannsökuð ásamt því að gæði og geymsluþol flaka var metið með mismunandi aðferðum, því mikilvægt er að gæði fisksins rýrni ekki í ferlinu.

Sæmundur Elíasson verkefnastjóri hjá Matís var einn af leiðbeinendum nemendanna í verkefninu og  kynnti hluta af niðurstöðum þess á 51. ráðstefnu WEFTA sem fram fór í Kaupmannahöfn 16.-20. október síðastliðinn. West European Fish Technologists Association eða WEFTA er vettvangur þar sem margt fremsta vísindafólk Evrópu á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess kemur saman og ber saman bækur sínar. Áhersla ráðstefnunnar í ár var ,,sjálfbær nýting sjávarfangs“.

Niðurstöður verkefnisins skiluðu hönnunarforsendum sem nýtast til þróunar tæknilausna við þurrblæðingu á eldislaxi og sýndu einnig fram á að þurrblæðingarferlið sem notast var við hafði ekki neikvæð áhrif á flakagæði. Ljóst er að laxablóðið sjálft getur verið verðmæt hliðarafurð, það hefur fjölþætta möguleika til nýtingar, er bæði járn og próteinríkt og gæti verið gott fæðubótarefni fyrir fólk. Töluverðar áskoranir felast í söfnun þess og geymslu í miklu magni til nýtingar og er þetta verkefni gott byrjunarskref í átt að aukinni nýtingu og verðmætasköpunar laxablóðs.

Fréttir

Aukin sjálfbærni grænmetisgeirans á Íslandi, verðmætasköpun, ný atvinnutækifæri og nýjungar

Bændablaðið birti í vikunni tvær greinar sem fjölluðu um grænmetisverkefni sem unnið hefur verið að hjá Matís síðustu misseri. Annars vegar var fjallað um verkefni sem miðar að því að byggja upp hnitmiðaða þekkingu á valkostum fyrir pökkun á grænmeti og hins vegar verkefni sem sneri að því að fullnýta hliðarafurðir grænmetisframleiðslu og möguleika til vöruþróunar úr þeim hráefnum.

Fyrri greinin sem bar yfirskriftina ,,Vilja leysa grænmetið undan plastfargani“ fjallar um verkefnið Áskoranir við pökkun grænmetis sem Ólafur Reykdal, verkefnastjóri hjá Matís hefur stýrt og er unnið í samstarfi við deild garðyrkjubænda í Bændasamtökum Íslands, Sölufélag garðyrkjumanna og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga með styrk frá Matvælasjóði. Vonast er til þess að verkefnið leiði til framfara við pökkun
ýmissa matvæla þó að grænmeti sé séstaklega til rannsóknar hér og greiði einnig leiðina fyrir nýjar tegundir pökkunarefna.
Greinina má lesa í heild sinni á blaðsíðu 16 í Bændablaðinu og hér: Bændablaðið 19. október 2023

Seinni greinin fól í sér viðtal við Evu Margréti Jónudóttur, verkefnastjóra hjá Matís en hún fjallaði um verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju sem Rósa Jónsdóttir, fagstjóri lífefna, stýrir. Verkefnið er unnið í samstarfi við Orkídeu og Bændasamtök Íslands með styrk frá Matvælasjóði og miðar að því að koma blómkálsblöðum, spergilkálsblöðum, rósalaufblöðum, tómatblöðum, gúrkublöðum og gulrótargrasi í betri not en nú er gert. Það gera þau með því að rannsaka næringargildi og lífvirkni en einnig þróa vöruhugmyndir úr þessum hráefnum. Verkefnið mun stuðla að sjálfbærni grænmetisgeirans á Íslandi og aðstoða við þróun hans í tengslum við aukna verðmætasköpun, ný atvinnutækifæri og nýjungar. Meginmarkmið verkefnisins er að auka virði grænmetisframleiðslu, bæta nýtingu og auka sjálfbærni.

Í viðtalinu segir Eva meðal annars: ,, það sem standi upp úr eftir þessa vinnu – og vakið helst áhuga hennar – er hversu mörg tækifæri séu til frekari vinnslu á þessu hráefni. „Við höfum verið að sjá töluvert mikla andoxunarvirkni í rósalaufblöðum sem gefur til kynna að afskurður úr rósarækt geti til dæmis verið spennandi hráefni til framleiðslu innihaldsefna í snyrtivörur. Blöð af blóm- og spergilkáli eru síður en svo minna næringarrík en blómið sjálft og engir annmarkar við notkun þeirra
í matvæli“.

Greinina má lesa í heild sinni á blaðsíðum 32 og 33 í Bændablaðinu hér: Bændablaðið 19. október 2023

Fréttir

Nýpróteinin afar sjálfbær í samanburði við flest hefðbundnari matvæli

Á dögunum birtist grein í veftímaritinu Horizon, the EU Research & Innovation Magazine þar sem fjallað var um það hvernig viðhorf fólks til ýmissa nýpróteina hafa breyst og þróast undanfarin ár.

Í greininni var meðal annars rætt við Birgi Örn Smárason, fagstjóra hjá Matís um verkefnið NextGenProteins sem hann hefur leitt undanfarin fjögur ár. Í því verkefni voru umhverfisáhrif, næringareiginleikar og viðhorf neytenda til þriggja nýpróteina rannsökuð.

Unnt var að framleiða þrjár gerðir af próteindufti, úr skordýrum, spirulinu úr örþörungum og einfrumuprótein úr gersveppum sem ræktaðir voru á afgöngum sem falla til við skógrækt. Allar gerðir hafa góða næringareiginleika svo hægt er að nota duftið í bæði fóður og fæðu og auk þess hefur framleiðsla þeirra lítil umhverfisáhrif í samanburði við flesta aðra matvælaframleiðslu.

Birgir Örn sagði í viðtalinu að hann trúi því sannarlega að með því að fræða neytendur sé hægt að taka stór skref í átt að aukinni sjálfbærni í mataræði fólks og matvælakerfum heimsins. Í verkefninu voru gerðar ýmsar neytendakannanir meðal fjölda fólks frá Finnlandi, Þýskalandi, Íslandi, Ítalíu, Póllandi, Svíþjóð og Bretlandi.

Í ljós kom að viðhorf fólks eru að stærstum hluta mjög jákvæð í garð spirulinu og einfrumupróteins en dálítið síðri í garð skordýrapróteins. Þrátt fyrir að próteinduft sem búið var til úr krybbum hafi verið þróað sérstaklega til þess að bæta viðhorfin til þessarar tegundar próteins voru samt aðeins einn af hverjum þremur sem gátu hugsað sér að bragða á skordýrum.

Greinina, sem ber yfirskriftina New foods can go from yucky to yummy as people’s perceptions evolve má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um matvæli og líftækni

Dagana 26. – 27. september sl. hélt Aarhus Food & Bio cluster í Danmörku ráðstefnuna Food & Bio Global Summit 2023. Meginstef ráðstefnunnar var sjálfbærni í framleiðslu matvæla með áherslu á nýsköpun. Líkt og kom fram á ráðstefnunni eru matvælakerfi heimsins komin að þolmörkum, þá einkum tengt áhrifum veðurröskunar; hamfarahlýnunar, flóða, hækkun yfirborðs sjávar, þurrka o.s.frv. Yfir 170 þátttakendur víðsvegar að úr heiminum sóttu ráðstefnuna sem var hlaðin frábærum fyrirlestrum. 

Eitt mikilvægasta stef ráðstefnunnar var að efla til alþjóðlegs sáttmála um matvæli eða Global Food Alliance, til að tengja og efla sjálfbærni og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þessi sýn er mikilvæg í ljósi Parísarsáttmálans um að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar. Einnig nær sáttmálinn til þess að efla getu ríkja heims í að takast á við afleiðingar loftlagsbreytinga.

Ein alvarlegasta afleiðing loftlagsbreytinga er áhrif á heilbrigði og getu vistkerfa til að framleiða mat. Hnignun vistkerfa mun því leiða til matvælaskorts og hungursneyðar. Hugmynd ráðstefnunnar um alþjóðlega sáttmálann um mat er að með samstöðu og samstarfi allra sem vinna eða eiga aðkomu að rannsóknum, nýsköpun eða pólitískum ákvörðunum verði hægt að sporna við hörmungum á borð við tap vistkerfa og hungursneyð.

Á ráðstefnunni var þétt dagskrá fyrirlestra tengdum ofangreindum málefnum; samstarfi, nýsköpun, rannsóknum og þróun. Einnig voru haldnir tengifundir, speed date, þar sem hver og einn þátttakandi gat tengst innan síns fagsviðs öðrum þátttakendum og þar með teygt á tengslaneti sínu.

Vel var mætt á ráðstefnuna, og mátti sjá þátttakendur víðsvegar að úr heiminum. Frá Íslandi mætti einn ráðstefnugestur á vegum Matís og var hún afar ánægð með ráðstefnuhaldið og erindin. Málefni matvælaframleiðslu og getu vistkerfa til að standa undir áskorunum framtíðar þ.e. fólksfjölgun og hnignandi vistkerfi sökum hamfarahlýnunar er ein allra mikilvægasta áskorun samtímans.

Nýsköpun og tækniþróun sem hefur átt sér stað í matvælaiðnaði er ekki bara hröð heldur jafnframt afar áhugaverð. Nú ert til dæmis mögulegt að vinna kjöt úr frumum dýra (cell based proteins) og rækta þörunga með hátækni aðferðum o.s.frv. Framundan eru áskoranir í matvælaframleiðslu en samhliða er unnið ötullega að lausnum með þróun tæknilausna og nýsköpun samhliða sjálfbærri þróun og eflingu hringrásarhagkerfisins. Nánari upplýsingar um Food & Bio Global Summit 2023 má finna hér:

Food & Bio Global Summit 2023 

Fréttir

Mikilvægt að draga úr matarsóun

Alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna um matarsóun var 29. september síðastliðinn. Umhverfisstofnun kynnti þann dag niðurstöður nýrrar rannsónar á umfangi matarsóunar á Íslandi en þetta var í fyrsta sinn sem matarsóun hefur verið mæld í allri virðiskeðju matvæla eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópusambandsins. Umfjöllun Umhverfisstofnunar má finna hér: Matarsóun á íslenskum heimilum undir Evrópumeðaltali.

Í ljós kom að matarsóun á íbúa á Íslandi var um 160 kg á einu ári. Um helmingur kom frá frumframleiðslu og um 40% frá heimilum. Niðurstöður fyrir matarsóun í heildina voru nokkuð svipaðar og í öðrum Evrópulöndum. Þó er ekki hægt að láta staðar numið því markmið fyrir framtíðina er að minnka matarsóun til muna.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um að minnka matarsóun um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030. Mælingarnar sem nú liggja fyrir verða notaðar sem grunnlína þessara markmiða.

Hjá Matís hafa verið unnin fjölmörg verkefni sem geta hjálpað til við að draga úr matarsóun. Í verkefni um virðiskeðju grænmetis voru gerðar mælingar á geymsluaðstæðum og settar fram tillögur til að draga úr sóun grænmetis. Matís hefur átt þátt í að auka fullvinnslu sjávarafla á Íslandi og víðar um heim og nú er unnið að verkefnum sem geta aukið verðmæti úr hliðarafurðum grænmetisframleiðslu og kjötframleiðslu. Umbúðir matvæla hafa verið mikið til umræðu, ekki síst vandamál varðandi umbúðaplast og endurvinnslu þess en um þessi mál má lesa í skýrslu Matís. Umbúðir geta skipt máli fyrir varðveislu gæða matvæla en gæðarýrnun matvæla vegna vankanta á umbúðum og meðferð getur leitt til matarsóunar.

Auk þessara verkefna eru fjölmörg önnur í gangi hjá Matís sem stuðla með einum eða öðrum hætti að betri nýtingu matvæla og hliðarafurða matvælavinnslu, eflingu hringrásarhagkerfisins og sjálfbærnihugsunar. Verkefni Matís má skoða hér:

Fréttir

Nýstárlegar lausnir í framleiðslu á hráefnum úr þara í matvæli

Í september á þessu ári var haldinn fundur í verkefninu SusKelpFood í Bergen í Noregi. Verkefnið snýst um að þróa nýstárlegar lausnir í framleiðslu á öruggum, næringarríkum og bragðgóðum hráefnum úr þara í matvæli. 

Meðal Þess sem þróað er í verkefninu eru nýjar aðferðir í vinnslu, svo sem þurrkun og gerjun, á beltisþara (Saccharina latissima) og marínkjarna (Alaria esculenta) til að minnka orkunotkun í framleiðslunni og auka gæði á lokaafurðum. Allir þættir virðiskeðjunar verða rannsakaðir frá frumframleiðslu til matvara, tilbúnum til neyslu. Matvælafyrirtækið Orkla sem m.a. framleiðir TORO vörurnar er þátttakandi í verkefninu og mun þróa nýjar vörur fyrir matvörumarkað sem innihalda þara.

Verkefnið er styrkt af Norska rannsóknarráðinu en hlutverk Matís í verkefninu er að gera mælingar á lyktarefnum í hráefnunum og skynmat á þeim, en skynmat er notað til að lýsa útliti, lykt, bragði og áferð matvara. 

Farið var yfir stöðu verkefnisins á fundinum en Matís kynnti niðurstöður úr mælingum með rafnefi og raftungu sem framkvæmdar voru í Ísrael og gefa vísbendingar um bragð og lykt hráefnanna án þess að þau séu smökkuð. Niðurstöður úr þeim mælingum, ásamt skynmati, gefa til kynna að framleiðsluaðferðir geti haft mikil áhrif á lykt og bragð þarans.

Frekari upplýsingar um SusKelpFood verkefnið má finna á verkefnasíðu þess hér:
Sjálfbær innihaldsefni úr ræktuðum þara fyrir matvælaiðnaðinn

Fréttir

Aukin sjálfbærni í fiskeldi með áherslu á fóður og hliðarstrauma

AG Fisk ráðstefna, 11. Október 2023 | Grand hótel Reykjavík og í streymi.

Þann 11. október 2023 var haldin ráðstefna og vinnustofa um fiskeldi með áherslu á nýtingu hliðarstrauma og sjálfbæra fóðurframleiðslu.

Ráðstefnan var haldin á vegum AG Fisk en það er samráðsvettvangur um sjávarútvegsmál sem starfar þvert á öll Norðurlöndin fyrir tilskipan Norrænu ráðherranefndarinnar sem Ísland leiddi árið 2023.

Hér að neðan má sjá dagskrá viðburðarins. Ef smellt er á valin erindi birtast glærukynningar.

Kostnaður var krónur 5000 og voru veitingar innifaldar.

Fyrirlestrum var einnig streymt.

Fréttir

Matís býður upp á erfða- og upprunagreiningar á laxi í fiskrækt

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Á undanförnum vikum hafa fjölmargir strokulaxar úr sjókvíaeldi veiðst víða um land sem bendir til að eldislax í laxveiðiám sé orðinn nokkuð útbreiddur á Íslandi. Fiskrækt hefur verið stunduð hér á landi um áratuga skeið til að auka fiskgengd í ám. Sú ræktun byggir á veiðum á klakfiski úr viðkomandi ám og eldi á seiðum í eldisstöðvum.

Mikilvægt er að tryggja að eldislax rati ekki í þessa ræktun, þar sem slíkt getur aukið erfðablöndum í ám til muna. Í mörgum tilfellum eru strokulaxar auðþekktir á útlitseinkennum, t.d. skemmdum á uggum og eyddum tálknabörðum. Mun erfiðara getur reynst að þekkja strokulaxa sem sloppið hafa snemma í eldisferlinum, þar sem hefðbundin útlitseinkenni eru ekki eins áberandi. Sjónrænt mat er ekki nægjanlega öruggt til að fjarlægja fiska sem eiga uppruna sinn úr sjókvíaeldi. Erfðagreiningar eru því nauðsynlegar til að tryggja að fiskur sem nýttur er til fiskræktar sé villtur. Matís hefur stundað erfðagreiningar á laxi um árabil, bæði til grunnrannsókna en einnig til að rekja uppruna strokulaxa sem veiðast í ám.

Þær erfðagreiningar sem Matís býður upp á byggja á 14 erfðamörkum, svokölluðum Salsea setti. Þessi erfðamörk eru ákaflega næm og hafa verið notuð til þess að meta stofngerð íslenskra laxa.  Einnig hafa erfðamörkin reynst vel til þess að rekja laxa sem veiðast sem meðafli í uppsjávarveiðum við Ísland til áa í Evrópu og Íslandi. Arfgerðarsettið er jafnframt nógu næmt til þess að greina milli eldislax og villts lax og getur greint blendinga af fyrstu kynslóð. Fyrstu kynslóðar blendingur er afkvæmi villts lax og fisks úr eldi.

Matís býður veiðifélögum upp á erfðagreiningar á fiski sem til stendur að nýta í fiskrækt.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Dr. Sæmund Sveinsson, fagstjóra í erfðafræði.

Fréttir

Vel heppnuð haustferð starfsfólks í Ölfus

Fimmtudaginn 21. september brá starfsfólk Matís undir sig betri fætinum og skellti sér í haustferð austur fyrir fjall. Dagurinn var sólríkur og fallegur og Ölfus skartaði sínu fegursta.

Fyrsti viðkomustaður hópsins var Ráðhús Ölfuss í Þorlákshöfn. Þar tóku þau Kolbrún Hrafnkelsdóttir og Rúnar Þórarinsson vel á móti okkur með kaffi og kleinum og kynntu fyrir hópnum Ölfus Cluster, Grænan iðngarð, starfsemi First Water og Jarðlífs og fleiri spennandi þætti sem eru í gangi í þessu ört vaxandi sveitarfélagi. Óhætt er að segja að af nógu hafi verið að taka!

Eftir kynninguna var haldið í vettvangsferð um svæði First Water en það er lokuð landeldisstöð sem er í hraðri uppbyggingu um þessar mundir. Það var tilkomumikið að ganga um svæðið sem er gríðarstórt og fullt af möguleikum. Rúnar leiðsagði hópnum og sýndi hvernig uppbyggingin hefur verið undanfarna mánuði og hverjar áætlanirnar eru fyrir næstu misseri.

Eftir gönguferð um svæðið var stoppað á veitingastaðnum Hafinu Bláa sem staðsett er við ósa Ölfusár milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar. Þar var dýrindis humarsúpa og nýbakað brauð borið á borð og hópurinn gat notið útsýnisins og veðurblíðunnar á þessum skemmtilega stað.

Þaðan lá leiðin upp á Hellisheiði, í húsakynni Orku Náttúrunnar og VAXA. Kristinn Hafliðason eða Kiddi í VAXA eins og hann er gjarnan kallaður sagði frá uppbyggingu og starfsemi fyrirtækisins sem endurnýtir vatn og orku frá Hellisheiðarvirkjun til þess að rækta örþörunga og framleiða úr þeim sjálfbær matvæli. Hópurinn fékk að ganga um framleiðslusalinn sem er afar skemmtileg upplifun vegna þess að allt svæðið er baðað fjólubláu ljósi sem örþörungarnir þrífast vel í.

Hópurinn endaði svo daginn á því að fá sér kaffisopa á Hellisheiði og halda aftur sem leið lá til Reykjavíkur.

Starfsfólk Matís vill koma á framfæri þökkum fyrir frábærar móttökur í Ölfusi.  

Fréttir

Ráðstefna um umhverfisáhrif og orkuskipti í sjávarútvegi – upptaka

Þann 13. september síðastliðinn fór fram samnorræn ráðstefna um umhverfisáhrif sjávarútvegsins og orkuskipti í greininni. Ráðstefnan var haldin á vegum AG Fisk en það er samráðsvettvangur um sjávarútvegsmál sem starfar þvert á öll Norðurlöndin fyrir tilskipan Norrænu Ráðherranefndarinnar sem Ísland leiðir árið 2023.

Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri verðmætasköpunar hjá Matís stýrði viðburðinum fyrir hönd AG-Fisk. Margir af helstu sérfræðingum Norðurlandanna í málaflokknum fluttu erindi auk þess sem Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, flutti opnunarávarp. Ráðstefnan fór fram á ensku.

Ráðstefnan var tekin upp í heild sinni og eru upptökurnar aðgengilegar í spilurum hér að neðan.

Svipmyndir frá viðburðinum:

Upptaka frá ráðstefnunni, fyrsti hluti:

Upptaka frá ráðstefnunni, annar hluti:

Upptaka frá ráðstefnunni, þriðji hluti:

Frekari upplýsingar um viðburðinn og glærur frá þeim erindum sem flutt voru má nálgast á verkefnasíðu hans hér: Norrænt netverk um umhverfisáhrif og orkuskipti í sjávarútvegi

IS