Fréttir

Norrænt netverk um útbreiðslu selastofna í Norður Atlantshafi og áhrif þeirra á sjávarútveg og aðra hagaðila

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega lauk rannsóknar & netverksverkefninu Nordic Seals, eða „Norrænt netverk um selastofna á norðurslóð“, sem Matís leiddi. Verkefnið var styrkt af vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í málefnum sjávarútvegs og fiskeldis AG-fisk. Meginmarkmið verkefnisins var að stuðla að myndun netverks hagaðila er koma að rannsóknum á selastofnum, eða verða fyrir áhrifum af selum á svæðinu. En á þann hátt var unnt að stuðla að virku samtali milli lykil hagaðila varðandi útbreiðslu og áhrif sela á umhverfið og samfélögin í N-Atlantshafi þ.m.t. á sjávarútveg og fiskeldi.

Selveiðar voru mikilvæg atvinnugrein víða á Norðurlöndunum fyrr á tíðum, enda veiddu selfangarar frá Noregi, Finnlandi, Grænlandi, Danmörku, Íslandi, Rússlandi og Kanada hundruð þúsunda sela á ári hverju. Þessi iðnaður varð fyrir harðri gagnrýni á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar dýravelferð fór að skapa stærri sess í umræðunni um nýtingu villtra dýrastofna. Um aldamótin voru svo selveiðar orðnar pólitískt óásættanlegar, sem hafði áhrif á markaði fyrir afurðirnar og gerði það að verkum að selveiðar í atvinnuskyni lögðust að lokum nánast af. Selveiðar í N-Atlantshafi hafa nú verið nánast engar í rúma tvo áratugi. En hvaða áhrif hefur þessi breyting á nýtingu selastofna haft á vistkerfi og efnahag þeirra sem verða fyrir áhrifum af breytingum á stærð og útbreiðslu selastofna?

Nordic Seals netverkið hefur frá því þegar því var komið á fót árið 2021 safnað, greint og miðlað upplýsingum um selastofnana á norðurslóðum og hefur til dæmis:

  • Safnað upplýsingum um selastofna og útbreiðslu á N-Atlantshafi, í Íshafinu, sem og á aðliggjandi hafsvæðum (t.d. Norðursjó, Eystrasalt, Skagerrak, Kattegat o.fl.),
  • Greint möguleg áhrif selastofna á vistkerfið, og kynnt sér þá vinnu sem er í gangi til að meta þau áhrif,
  • Greint hvaða áhrif selastofnar hafa á norrænan sjávarútveg,
  • tilgreint leiðir til að hafa stjórn á selastofnum, þar með talið sjálfbærar veiðar,
  • Kannað og tilgreint hugsanlegar vörur og markaði fyrir selaafurðir, samhliða því að huga að hindrunum eins og dýravelferð, stefnu og pólitískri rétthugsun, matvælaöryggi og eiturefnum.

Helstu niðurstöður áðurnefndrar vinnu má nú sjá í nýútkominni skýrslu, sem nálgas má hér.

Aðrar mikilvægar afurðir verkefnisins eru eftirfarandi:

Í samantekt lokaskýrslu verkefnisins kemur eftirfarandi fram:

Samhliða því sem selastofnar hafa stækkað í N-Atlantshafi, Íshafinu og aðliggjandi hafsvæðum á undanförnum misserum, hafa þeir orðið sífellt umdeildari á meðal sjómanna og annarra hagaðila innan virðiskeðja sjávarafurða. Er því gjarnan haldið fram að stækkandi selastofnar hafi neikvæð áhrif á nytjastofna, aflamagn, afurðagæði og efnahagslega afkomu í sjávarútvegi. Margir vísindamenn og náttúruverndarsinnar hafa aftur á móti bent á skort á upplýsingum og skilningi á hlutverki sela í vistkerfinu. Þó vitað sé að selir nærist á ýmsum fisktegundum er rannsóknum á áhrifum þeirra á stofnstærð, aldursdreifingu og viðgangi nytjastofna ófullnægjandi. Almennt skortir verulega upp á þekkingu á hlutverki og áhrifum sela í vistkerfinu. En þar sem sumir selastofnar hafa enn ekki jafnað sig að fullu á þeim veiðum sem fram fóru fyrir mörgum áratugum síðan er ljóst að ákvarðanir um veiðar og nýtingu sela þurfa að vera grundvallaðar á góðri vísindalegri þekkingu. Í dag er það helst að selir veiðist sem meðafli við aðrar veiðar, og getur það haft veruleg áhrif á viðgang einstakra selastofna. Er seladauði við veiðar á grásleppu hér við land gott dæmi um það.

Afrán og skemmdir á veiðarfærum og eldiskvíum af völdum sela er vel þekkt vandamál, en vistfræðileg- og efnahagsleg áhrif þessa eru hins vegar að mestu órannsökuð. Þá eru hringormar þekkt vandamál sem tengis selum, en hringormar hafa mikil áhrif á gæði, nýtingu og efnahagslega aflkomu í sjávarútvegi. Hér á árum áður voru selir veiddir sérstaklega til að koma í veg fyrir útbreiðslu hringorma, en hver man ekki eftir hingormanefnd?

Rannsóknir sýna að þær selategundir sem eru í N-Atlantshafi og tengdum hafsvæðum þurfa að borða lífmassa sem samsvarar 4-6% af líkamsþyngd sinni á dag til að viðhalda sér. Fjöldi sela á svæðinu er nú orðinn um 14 milljónir einstaklinga og því líklegt að neysla sela á lífmassa sé um þreföld á við veiðar mannanna á svæðinu. En eins og áður sagði er þekking á áhrifum neyslu sela á viðgang nytjastofna ófullkomin.

Selir eiga sér langa sögu sem mikilvægur fæðugjafi á norðurslóðum. Selkjöt er næringarríkt og fullt af mikilvægum amínósýrum, vítamínum og steinefnum. En kjötið inniheldur einnig óæskileg efni sem ógnað geta matvælaöryggi, svo sem hringorma, þungmálma og önnur snefilefni. Innflutningsbann á selaafurðum sem Bandaríkin og ESB settu á fyrir all-löngu-síðan hafa gert hvers kyns viðskipti með selaafurðir nær ómöguleg. En þar sem sumir selastofnar stækka á ákveðnum svæðum verður spurningin um mögulega nýtingu áleitnari. Til að svara þeirri spurningu er þörf á frekari rannsóknum til að skilja betur hlutverk sela í vistkerfinu og hvernig hægt sé að framleiða sjálfbær, örugg og stöðug matvæli og fóður úr selaafurðum.

IS