Alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna um matarsóun var 29. september síðastliðinn. Umhverfisstofnun kynnti þann dag niðurstöður nýrrar rannsónar á umfangi matarsóunar á Íslandi en þetta var í fyrsta sinn sem matarsóun hefur verið mæld í allri virðiskeðju matvæla eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópusambandsins. Umfjöllun Umhverfisstofnunar má finna hér: Matarsóun á íslenskum heimilum undir Evrópumeðaltali.
Í ljós kom að matarsóun á íbúa á Íslandi var um 160 kg á einu ári. Um helmingur kom frá frumframleiðslu og um 40% frá heimilum. Niðurstöður fyrir matarsóun í heildina voru nokkuð svipaðar og í öðrum Evrópulöndum. Þó er ekki hægt að láta staðar numið því markmið fyrir framtíðina er að minnka matarsóun til muna.
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um að minnka matarsóun um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030. Mælingarnar sem nú liggja fyrir verða notaðar sem grunnlína þessara markmiða.
Hjá Matís hafa verið unnin fjölmörg verkefni sem geta hjálpað til við að draga úr matarsóun. Í verkefni um virðiskeðju grænmetis voru gerðar mælingar á geymsluaðstæðum og settar fram tillögur til að draga úr sóun grænmetis. Matís hefur átt þátt í að auka fullvinnslu sjávarafla á Íslandi og víðar um heim og nú er unnið að verkefnum sem geta aukið verðmæti úr hliðarafurðum grænmetisframleiðslu og kjötframleiðslu. Umbúðir matvæla hafa verið mikið til umræðu, ekki síst vandamál varðandi umbúðaplast og endurvinnslu þess en um þessi mál má lesa í skýrslu Matís. Umbúðir geta skipt máli fyrir varðveislu gæða matvæla en gæðarýrnun matvæla vegna vankanta á umbúðum og meðferð getur leitt til matarsóunar.
Auk þessara verkefna eru fjölmörg önnur í gangi hjá Matís sem stuðla með einum eða öðrum hætti að betri nýtingu matvæla og hliðarafurða matvælavinnslu, eflingu hringrásarhagkerfisins og sjálfbærnihugsunar. Verkefni Matís má skoða hér: