NextGenProteins – Þróun á næstu kynslóð próteina úr vannýttum auðlindum til notkunar í matvæli og fóður

Heiti verkefnis: NextGenProteins

Samstarfsaðilar: Arbiom, Aquascot, Circular, Amadori, VAXA, Entocube, Naturalleva, Biozoon, Fazer, Grímur Kokkur, Härryda Karlsson, Matís, Mowi, Mutatec, Rise, Processum, Blure resource, TTZ Bremenhaven, Alma mater studiorum, VTT, Waitrose

Rannsóknasjóður: Horizon 2020

Upphafsár: 2019

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Framleiðsla nýrra próteina úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum. NextGenProteins er 4 ára verkefni og standa að því 21 samstarfsaðilar frá tíu Evrópulöndum, þar af fjórir þátttakendur frá Íslandi.

Matís leiðir nýtt evrópskt rannsóknaverkefni, NextGenProteins, þar sem þróa á næstu kynslóðir af matvæla- og fóðurpróteinum með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Verkefnið er liður í þeirri umbyltingu sem þarf að eiga sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum á komandi árum til að fullnægja aukinni próteinþörf heimsins á sem umhverfisvænstan máta. Verkefnið hlaut yfir milljarð íslenskra króna í styrk úr evrópsku rannsóknaáætluninni Horizon 2020 fyrr á þessu ári og er nú að hefjast.

Aðgengi að hágæða, sjálfbært framleiddum próteinum verður sífellt takmarkaðra vegna fólksfjölgunar, aukins þrýstings á náttúruauðlindir og loftslagsbreytinga. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir próteini á heimsvísu aldrei verið meiri. Til að mæta aukinni eftirspurn verður núverandi próteinframleiðsla að tvöfaldast fyrir árið 2050. Evrópa er ekki sjálfbær þegar kemur að próteinframleiðslu, en 70-80% af fóðurpróteinum álfunnar er innflutt, að mestu frá Suður-Ameríku. Þessi staðreynd hefur beint sjónum að fæðuöryggi og almennri samkeppnishæfni Evrópu.

Mikil þörf á sjálfbærum próteingjöfum

Neikvæð áhrif próteinframleiðslu nútímans eru að mestu leyti tengd verksmiðjubúskap sem orsakar víðtæka losun gróðurhúsalofttegunda, óhóflegri notkun lands og vatns, sem og tap á líffræðilegum fjölbreytileika. Til þess að mæta áætlaðri framtíðareftirspurn eftir próteini munu núverandi framleiðsluaðferðir setja aukinn þrýsting á auðlindir heimsins og leiða til frekari losunar gróðurhúsalofttegunda. Það er því afar mikilvægt að finna og þróa sjálfbæra próteingjafa sem hægt er að framleiða í magni sem mætir vaxandi eftirspurn matvæla- og fóðuriðnaðarins.

NextGenProteins mun þróa framleiðslu þriggja nýrra próteina úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum og sannreyna notagildi þeirra í ýmsum matvælum og dýrafóðri. Mikilvægur þáttur við prófanir er að mæta þörfum viðskiptavina og efla traust þeirra á nýjum próteinum. Með því að sýna fram á notagildi næstu kynslóðar próteina – sem framleidd eru með minna álagi á náttúruauðlindir og minni umhverfisáhrifum – í matvæli og fóður og efnahagslega hagkvæmni þeirra, mun verkefnið verða liður í að styrkja matvælaöryggi og sjálfbærni próteinframleiðslu í Evrópu.

Vefsíðu verkefnisins má finna hér: NextGenProteins

Fréttir:

Áhrif NextGenProteins verkefnisins

Hvernig verður matur framtíðarinnar? Úrslit myndasamkeppni NextGenProteins

Fréttatilkynning

Nýpróteinin afar sjálfbær í samanburði við flest hefðbundnari matvæli

Skordýr, gersveppir og örþörungar próteingjafar framtíðarinnar?