Fréttir

Hvernig byggjum við fram­tíð mat­væla­iðnaðar á Ís­landi?

Rannsóknir og nýsköpun eru nauðsynlegar til að takast á við breytingar og efla íslenskan matvælaiðnað. Til þess þarf mannauð, samstarf, samnýtingu aðstöðu, tækja og búnaðar og fjármagn. Þetta þarf að spila saman. Þörfin er mikil og samkeppnin er mikil við aðrar greinar atvinnulífs og þjónustu. Samstarf Matís og Háskóla Íslands er gott dæmi um hvernig þetta getur virkað. Þar hefur Matís verið brúin milli háskólamenntunar og atvinnulífs í mjög árangursríku samstarfi. Á síðustu 15 árum hafa um 30 einstaklingar klárað doktorsverkefni og um 150 einstaklingar unnið sín rannsóknaverkefni í mastersnámi í samstarfi við atvinnulífið. Þannig höfum við menntað og þjálfað sérfræðinga og frumkvöðla framtíðarinnar í nýtingu, vinnslu og verðmætasköpun úr lífauðlindum á Íslandi. Þetta er líka ein af forsendunum fyrir góðum árangri Matís í samkeppnissjóðum Evrópusambandsins við að fjármagna samstarfsverkefni til að takast á við áskoranir og tækifæri matvælaframleiðenda á Íslandi.

Samstarf Matís við háskóla felst í sameiginlegu starfsfólki og samnýtingu aðstöðu og búnaðar til að efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem það nær til. Rannsóknirnar í þessum verkefnum snúast meðal annars um matvælaframleiðslu, öryggi matvæla, líftækni og orkunýtingu. Þær hjálpa til við að auka samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi og skapa tækifæri til nýsköpunar sem nýtist samfélaginu í heild.

Markmiðið er einnig að vera leiðandi og alþjóðlega samkeppnisfær á sérfræðisviðum sem tengjast rannsóknun og nýsköpun í nýtingu lífrænna auðlinda á sjó og landi. Þannig hafa sameiginleg rannsóknaverkefni eflt bæði framhaldsnám og íslenskt samfélag. Matís er því mikilvæg brú milli vísinda og atvinnulífs með því að tengja verkefni háskólanemenda við þarfir atvinnuvega og samfélags.

Á síðustu árum hafa nemendur við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og starfsnemar frá nokkrum háskólum Í Evrópu unnu að sínum verkefnum undir leiðsögn sérfræðinga frá Matís. Öll voru þau unnin í samvinnu við fyrirtæki í iðnaðinum t.d um framtíðarflutningsleið fyrir ferskan lax til Norður-Ameríku; framhaldsvinnslu á laxi og um strandveiðar á Íslandi. Sex meistaranemar í matvælafræði, iðnaðarlíftækni og örverufræði við Háskóla Íslands unnu og luku við sín verkefni á árinu. Þau snerust um allt frá rannsóknum á hitakærum örverum; örveruflóru við verkun á hákarli, örverur á fiskikerjum til samanburðar á fiskveiðum í Noregi og á Íslandi.

Þrettán doktorsnemar við Háskóla Íslands stunduðu sínar rannsóknir í samvinnu við Matís. Tveir nemendur vörðu verkefni sín á síðastliðnu ári, þær Rebecca Sim og Anna Þóra Hrólfsdóttir. Starfsnemar frá erlendum háskólum voru 27. Þetta eru starfsnemar á meistarastigi sem koma sex mánuði í senn og doktorsnemar sem koma aðallega frá Evrópulöndum. Á árinu 2023 voru þeir frá níu löndum, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Indlandi, Skotlandi, Spáni, Tékklandi og Þýskalandi og frá nítján háskólum.

Samstarf Matís og háskólanna á Íslandi sýnir hvernig markviss þekkingaruppbygging getur haft jákvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag. Með því að bæta við þekkingu, tengjast erlendum stofnunum og styðja við doktorsverkefni hefur þetta samstarf lagt grunn að nýjum lausnum og tækifærum. Til að halda þessum árangri áfram þarf að fjárfesta enn frekar í rannsóknum og nýsköpun. Með skýrri framtíðarsýn og stuðningi við mannauðinn getum við tryggt að Ísland haldi áfram að vera í fararbroddi á sviði nýsköpunar og þekkingarsköpunar, sem mun nýtast komandi kynslóðum vel.

Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, og Salvör Jónsdóttir, stjórnarformaður Matís.

Fréttir

Rannsóknir á Listeria monocytogenes hjá Matís

Tengiliður

Halla Halldórsdóttir

Gæða- og öryggisstjóri og persónuverndarfulltrúi

halla.halldorsdottir@matis.is

Örverurannsóknastofur Matís, bæði í Reykjavík og Neskaupstað, hafa frá 2007 rannsakað margskonar sýni gagnvart Listeria bakteríum. Listeria monocytogenes er helsti sjúkdómsvaldur Listeria fjölskyldunnar og veldur sjúkdómi sem kallast„Listeriosis“. Einkennin geta verið misalvarleg, allt frá flensueinkennum til heilahimnubólgu í ungbörnum, blóðeitrun og jafnvel fósturlát hjá þunguðum einstaklingum. Undanfarin ár hafa tvö til fimm tilfelli greinst á Íslandi á ári, en árið 2024 greindust fleiri tilfelli, samtals sjö.

Listeria bakteríur finnast víða í náttúrunni, bæði almennt í umhverfinu (t.d. í jarðvegi og plöntum) og einnig í þörmum manna og dýra. Listeria útbreiðslan er svo mikil að mengun unnra matvæla er nánast óhjákvæmileg. Þess vegna er þunguðum einstaklingum og öðrum einstaklingum í áhættuhópum gjarnan ráðlagt að sneiða framhjá réttum eins og t.d. reyktum og gröfnum laxi, sushi/sashimi sem inniheldur hráan fisk, kæfu, ákveðnum gerðum af ostum – m.a. brie og camembert – og kjötáleggi eins og t.d. skinku þar sem Listeria tegundir hafa ítrekað fundist í gegnum tíðina.

Frá stofnun Matís höfum við rannsakað rúmlega 13.000 sýni fyrir Listeria. Sýnin eru oftast matvæli, en ennig er hægt að rannsaka svokölluð stroksýni til að kanna hvort Listeria sé til staðar á yfirborði eða í matvælaframleiðslubúnaði. Slíkar rannsóknir geta aðstoðað matvælaframleiðendur við að kanna hvort nægilega vel sé staðið að þrifum, en Listeria á það til að leynast í skúmaskotum og getur vaxið við mjög fjölbreyttar aðstæður.

Matís starfar sem tilvísunarrannsóknastofa (National Reference Laboratory) Íslands hvað varðar Listeria monocytogenes. Lögbundið hlutverk og helstu skyldur tilvísunarrannsóknastofa eru margvíslegar, m.a. þátttaka í þróun og sannprófun mæliaðferða, og að veita lögbærum yfirvöldum vísindalega og tæknilega aðstoð.

Nýleg samantekt frá ANSES, European Union Reference Laboratory (EURL) fyrir Listeria monocytogenes sem kallast: „Bibliographical review on Timing for Surface Sampling in Food Processing Environments to Detect Listeria monocytogenes“ undirstrikar að stöðugt þarf að vera á verði gagnvart L. monocytogenes í matvælaframleiðslu, og nauðsynlegt kann að vera að uppfæra leiðbeiningar um hvenær í matvælaframleiðsluferlinu best sé að taka sýni til þess að auka líkur á áreiðanlegum niðurstöðum.

Á vefsíðu Matvælastofnunar er að finna fróðleik um Listeria og almennar ráðleggingar til að minnka líkur á smiti.

Fréttir

BIO2REG: Lífauðlindir í stað óendurnýjanlegra auðlinda

Tengiliður

Katrín Hulda Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri

katrinh@matis.is

Matís er einn af níu aðilum sem eru þátttakendur í BIO2REG verkefni Evrópusambandsins. Verkefnið er þriggja ára samhæfingar- og stuðningsverkefni (CSA) styrkt af Horizon Europe áætluninni. BIO2REG mun gera hagaðilum sem glíma við stórt umhverfisspor, kleift að læra af þeim sem lengra eru komnir í kolefnissamdrætti, með því að reiða sig á lífauðlindir í stað óendurnýjanlegra auðlinda.

Dagana 19. og 20 janúar 2025 hittust þátttakendur Evrópuverkefnisins BIO2REG  á ársfundi í Jülich í Þýskalandi til þess að ræða næstu skref verkefnisins. Fundurinn fór fram í húsakynnum Forschungszentrum Jülich, en þeir stýra verkefninu.

Farið var yfir stöðu verkefnisins að fyrsta árinu loknu og unnu þátttakendur saman að því að móta framtíð verkefnisins, en framundan eru m.a. vinnustofur sem verða haldnar víða í Evrópu. Til þess að þær fari fram á sem árangursríkastan hátt og svo hægt sé að safna sem mestum upplýsingum fyrir verkefnið voru ýmis praktísk atriði rædd. Eitt meginmarkmiða verkefnisins er að tengjast hagsmunaaðilum og kanna þeirra þarfir þegar að kemur að umbreytingu svæða yfir í lífhagkerfi.

En svona fundir fara ekki bara fram innandyra og hélt hópurinn í skoðunarferð um nágrennið og heimsóttu m.a. stærstu kolanámu Þýskalands, Hambach námuna, sem er ennþá starfandi þrátt fyrir stefnu yfirvalda um að hætta notkun kola. Náman er með opið yfirborð, en nú er stefnt að því að námuvinnsla hætti innan 10 ára og svæðinu verði breytt í gríðarstórt manngert stöðuvatn.

Fundargestir virða fyrir sér námuna. Mynd: BIO2REG project.

Annar viðkomustaður í skoðunarferðinni var hið svokallaða Startup Village, en það er „Viðskiptagarður“, sem er þyrping húsa sem lítil fyrirtæki geta leigt fyrir sína starfsemi. Litrík húsin eru hugsuð sem stökkpallur fyrir nýsköpunarstarfsemi og auðveldar nálægðin fyrirtækjum að tengjast, starfa saman og sækja innblástur hvert til annars. Húsin eru byggð á sjálfbæran hátt samkvæmt nýjustu tækni sem sparar sem mesta orku bæði til lýsingar og kyndingar.

Startup Village í Jülich. Mynd: Jónas Baldursson.

Við hjá Matís þökkum kærlega fyrir höfðinglegar móttökur og hlökkum til áframhaldandi samstarfs á komandi árum.

r má finna frekari upplýsingar um verkefnið.

Fréttir

Eru tækifæri í nýtingu rauðátu og ljósátu á norðurslóðum?

Tengiliður

Stefán Þór Eysteinsson

Fagstjóri

stefan@matis.is

Rauðáta og ljósáta eru undirstaða lífs í höfunum og er lífmassi þeirra einn sá mesti einstakra lífvera á jörðinni. Þannig er talið að lífmassi rauðátu á norsku hafsvæði sé um 33 milljónir tonna og ársframleiðslan um 300 milljónir tonna. Norsk yfirvöld hafa gefið út veiðikvóta upp á rúmlega 250 þúsund tonn á ári og þá hafa Færeyingar fylgt eftir og gefið út kvóta upp á um 125 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun mat nýlega stofnstærði rauðátunnar umhverfis Ísland og telur að lífmassinn sé um 5,9 milljón tonn, í framhaldi af því hefur stofnunin gefið út minnisblað sem leggur til að aflamark í rauðátu upp á 59 þúsund tonn.

Það er hins vegar ekki sjálfsagt að farið verði að nýta rauðátu og ljósátu, þar sem tegundirnar gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfum hafsins og eru til dæmis ein helsta fæða mikilvægra nytjastofna. Dýrasvif gegna einnig lykilhlutverki í líffræðilegri kolefniskeðju úthafanna, þar sem koltvísýringur úr andrúmsloftinu er fangaður og geymdur djúphafinu. Þetta tvöfalda hlutverk við að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika og draga úr loftslagsbreytingum undirstrikar mikilvægi þess að stýra nýtingu dýrasvifa á sjálfbæran hátt. Mögulega er áhættan við að nýta dýrasvið einfaldlega of mikil? Nýting á rauðátu og ljósátu gætu aftur á móti skapað miklar tekjur og atvinnutækifæri, auk þess að stuðla að fæðuöryggi. Möguleikar í kringum nýsköpun á sviðum eins og matvælaframleiðslu, líftækni, lyfjaþróunar, framleiðslu fæðubótaefna, snyrtivara og fóðurgerðar eru umtalsverðir. Árangursrík nýting þeirra gæti aukið fjölbreytni í íslenskum og norrænum hagkerfum og treyst stöðu sjávarbyggða.

Norska fyrirtækið Calanus AS hefur staðið að uppbyggingu rauðátuveiða og vinnslu í Noregi síðustu tvo áratugi. Fyrirtækið hefur verið með 3 stóra frystitogara í veiðunum síðustu ár og  fjárfesti nýlega í vinnsluhúsnæði og búnaði sem unnið getur úr 10 þúsund tonnum af rauðátu á ári. Þá hafa Færeyingar reynt fyrir sér með rauðátuveiðar í atvinnuskyni, með frekar dræmum árangri. Þá má einnig geta þess að fyrirtækið Rauðátan ehf. í Vestmannaeyjum, ásamt Þekkingarsetri Vestmannaeyja, hefur staðið að tilraunaveiðum á rauðátu við Vestmannaeyjar síðastliðin 2 ár. Veiðar á ljósátu eru komnar lengra en rauðátuveiðarnar, en þar hefur Aker BioMarin rutt brautina með yfir áratug af rannsóknum og nýsköpun, auk umfangsmikilla veiða í atvinnuskyni við Suðurskautslandið. Tilraunir með ljósátuveiðar á norðurslóum hafa staðið yfir með misjöfnum árangri.

Ljóst er að það eru gríðarleg tækifæri í nýtingu rauð- og ljósátu, en það er hins  vegar þá þörf á mikilli fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun til að þróa fiskveiðar og afurðir, sem og til að skilja áhrif veiðanna á vistkerfið, þar sem vistkerfisnálgun við stjórnun er mikilvæg. Því ákvað vinnuhópur Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í sjávarútvegi að fjármagna Norrænt rannsóknaverkefni sem ætlað var að koma á fót netverki hagaðila er tengjast rannsóknum og mögulegri nýtingu á rauðátu og ljósátu á norðurslóðum. Stóð netverkið fyrir ráðstefnu sem fram fór í Kaupmannahöfn síðasta sumar og má sjá framsögur ráðstefnunnar á heimasíðu verkefnisins https://little-giants.net/ auk þess sem hópurinn hefur nú gefið út lokaskýrslu um verkefnið, sem nálgast má hér.

Frekari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess veitir verkefnastjóri verkefnisins Stefán Þór Eysteinsson stefan@matis.is

Fréttir

Matís fékk GMP gæðavottun frá Lyfjastofnun

Tengiliður

Halla Halldórsdóttir

Gæða- og öryggisstjóri og persónuverndarfulltrúi

halla.halldorsdottir@matis.is

Vottunin staðfestir að örverurannsóknastofa Matís í Reykjavík uppfyllir reglur um góða starfshætti í lyfjagerð. Þessi viðurkenning bætist við aðrar faggildingar rannsóknastofunnar, frá Swedac (Swedish Board for Accreditation and Conformity Assessment) og NYSDOH (New York State Department of Health) og undirstrikar að gæðakerfi rannsóknastofunnar og starfshættir hennar tryggja áreiðanlegar og trúverðugar niðurstöður í  hvívetna. 

GMP vottunin hefur sérstaka þýðingu gagnvart viðskiptavinum Matís í lyfjaiðnaði. GMP stendur fyrir Good Manufacturing Practice (GMP), en öll meðhöndlun og umsýsla lyfja s.s. framleiðsla, innflutningur, dreifing, notkun, verkun og tilraunir með lyf lúta ákveðnum skilgreindum gæðastöðlum sem Lyfjastofnun heldur utan um.

Vonir standa til þess að GMP vottunin greiði fyrir því að fyrirtæki í lyfjaiðnaði og aðrir aðilar sem starfa í GMP umhverfi geti nýtt sér þjónustu örverurannsóknastofu Matís sér til gagns.

Á myndinni er Halla Halldórsdóttir gæða- og öryggisstjóri Matís.

Fréttir

Matís leitar að starfsmanni á sviði efnamælinga

Tengiliður

Natasa Desnica

Fagstjóri

natasa@matis.is

Matís óskar eftir að ráða drífandi  aðila á rannsóknarstofu efnamælinga í tímabundna afleysingu til eins árs. Starfið felst í aðstoð við rannsóknir og almennri vinnu á tilraunastofu Matís í Reykjavík.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Móttaka og undirbúningur sýna
  • Efnamælingar og útgáfa niðurstaða
  • Innkaup og samskipti við birgja

Hæfniskröfur

  • B.Sc. gráða í raunvísindum (t.d. efnafræði, lífefnafræði, matvælafræði, líffræði,) og/eða reynsla við rannsóknastörf
  • Sjálfstæð og öguð vinnubrögð
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi
  • Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst

Starfshlutfall er 100%. Viðkomandi mun starfa á rannsóknastofu Matís á Vínlandsleið 12, Reykjavík.

Matís er leiðandi á sviði matvælarannsókna og líftækni. Hjá Matís starfar um 100 manna öflugur hópur starfsfólks sem brennur fyrir því að finna nýjar leiðir til að hámarka nýtingu hráefnis, auka sjálfbærni og efla lýðheilsu. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs og tryggja matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu.

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf.

Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Umsóknarfrestur er til og með 31 janúar.

Upplýsingar veitir Natasa Desnica, fagstjóri efnamælinga, natasa@matis.is, 4225067.

Fréttir

Matís og samstarfsaðilar tryggja sér 2,5 milljarða króna í styrki frá rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Nú í aðdraganda jóla bárust þær ánægjulegu fréttir frá Brussel að þrjú alþjóðleg rannsókna- og nýsköpunarverkefni sem Matís kemur að hafi verið valin til fjármögnunar af Horizon Europe rammaáætluninni.  Mikil samkeppni er um að fá slík verkefni fjármögnuð og ljóst að aðeins allra bestu verkefnin ná því að vera útvalin til fjármögnunar.  Matís fær um 310 milljónir króna úthlutaðar og innlendir samstarfsaðilar um 270 milljónir króna. Öll snúa þessi verkefni að því að auka sjálfbærni í fiskveiðum og fiskeldi, draga úr umhverfisáhrifum, og gera greinarnar betur reiðubúnar til að mæta áhrifum loftslagsbreytinga, sem og aukinna krafna um að fyrirtæki sýni fram á að sjálfbærnimarkmið séu höfð að leiðarljósi í rekstri. Frekari upplýsingar um verkefnin má sjá hér að neðan.

MarineGuardian verkefnið hefur það að markmiði að efla sjálfbærar fiskveiðar og stuðla að verndun sjávarvistkerfa í Atlantshafi og Norðuríshafi, með aukinni þekkingu og þróun lausna sem draga úr meðafla, brottkasti, olíunotkun, neikvæðum áhrifum á botnvistkerfi, auka afla á sóknareiningu, og tryggja bætta gagnaöflun og úrvinnslu til ákvarðanatöku og framsetningu sjálfbærniskýrslna. Matís leiðir verkefnið sem hlotið hefur styrk upp á 1.2 milljarða króna (8 millj. EUR), en þátttakendur í verkefninu eru alls 21, en þar eru í lykilhlutverkum íslensku fyrirtækin og stofnanirnar Trackwell, Brim, Hampiðjan og Hafrannsóknastofnun, auk þess sem verkefnið mun kaupa þjónustu frá Stiku umhverfislaustnum. Verkefnisstjóri er Jónas R. Viðarsson jonas@matis.is.

MeCCAM verkefnið hefur það að markmiði að þróa mótvægis og aðlögunaraðgerðir fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og aðra hagaðila í Evrópu. Verkefnið hlýtur um 650 milljónir króna (4.5 millj. EUR) styrk og er stýrt af SJÓKOVANUM í Færeyjum, en Matís stýrir verkþætti og tilvikarannsóknarsvæði (case study) í verkefninu. Að verkefninu koma 16 samstarfsaðilar vítt og breitt frá Evrópu, en þátttakendur frá Íslandi auk Matís eru Trackwell, Brim og Stika umhverfislaustnir. Tengiliður Matís í verkefninu er Katrín Hulda Gunnarsdóttir katrinh@matis.is.

OCCAM er systurverkefni MeCCAM þar sem því er ætlað styðja fiskeldisiðnaðinn við mótvægisaðgerðir og aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er styrkt um 650 milljónir króna (4.5 millj. EUR) og er því stýrt af NOFIMA í  Noregi, en Matís stýrir verkþætti og tilvikarannsóknarsvæði (case study) í verkefninu. Að verkefninu koma 22 samstarfsaðilar vítt og breitt um Evrópu, en þátttakendur frá Íslandi auk Matís eru Samherji fiskeldi. Tengiliður Matís í verkefninu er Valur N. Gunnlaugsson valur@matis.is.

Þátttaka innlendra aðila í alþjóðlegum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag, enda fá þar fyrirtæki og stofnanir tækifæri til að vinna á jafningjagrundvelli með þeim aðilum sem fremstir standa í sínum greinum. Jafnframt skapar slíkt samstarf tækifæri til að miðla þekkingu, tileinka sér nýjar aðferðir og stuðla að þróun sem leiðir til nýsköpunar, aukinnar sjálfbærni, arðsemi, fæðuöryggis og  framþróunar í íslensku atvinnulífi.

Fréttir

Matís leitar að fagstjóra örverumælinga

Matís leitar að fagstjóra örverumælinga. Starfið felur í sér samskipti við viðskiptavini, stjórnun og stefnumótun. Fagstjóri heyrir undir sviðsstjóra þjónustu.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Stjórnun og ábyrgð á rekstri og starfsmannahaldi faghópsins (8 manna teymi).
  • Samskipti við fyrirtæki og hagaðila.
  • Stefnumótun, skipulagning, forgangsröðun og samhæfing mælinga og verkefna.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Háskólamenntun á sviði örverufræði, matvælafræði, líffræði, lífefnafræði eða sambærileg menntun. Framhaldsmenntun er kostur.
  • Rík samskipta- og skipulagshæfni.
  • Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður.
  • Leiðtogahæfileikar.
  • Reynsla af örverumælingum er æskileg.
  • Reynsla af rekstri, stjórnun og markaðsmálum er kostur.
  • Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku.

Starfshlutfall er 100%. Viðkomandi mun starfa hjá Matís í Reykjavík.

Matís er leiðandi á sviði matvælarannsókna og líftækni. Hjá okkur starfar kraftmikill hópur sem brennur fyrir því að finna nýjar leiðir til að hámarka nýtingu hráefnis, auka sjálfbærni og efla lýðheilsu. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs og tryggja matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu. Matís leggur áherslu á hagnýtar rannsóknir sem auka verðmæti íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að öryggi og heilnæmi afurða og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf. Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Upplýsingar veitir Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is

Sækja um starf

Fréttir

Námskeið um meðhöndlun matvæla fyrir starfsfólk mötuneyta og eldhúsa

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Matís býður upp á námskeið, varðandi meðhöndlun á matvælum, hreinlæti, helstu áhættur og matvælaöryggi, sem er sérstaklega miðað að starfsfólki í mötuneytum, eldhúsum og veitingahúsum. Tilgangur námskeiðanna er að tryggja að þekking og skilningur aðila sem meðhöndla matvæli á matvælaöryggi og hreinlæti, sé gott, til að lágmarka áhættu á að skaðlegar sýkingar berist í matvæli og ógni þar með heilbrigði og öryggi neytenda. Námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Boðið verður upp á námskeiðið bæði sem staðnámskeið og vefnámskeið.

Matís og sérfræðingar þess eru bakhjarlar þessa verkefnis, en námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Fræðsluefnið er unnið úr ýmsum gögnum s.s. þeim lögum og reglugerðum sem fjalla um matvæli, úr fyrri rannsóknum og því náms- og kynningarefni sem útbúið hefur verið hjá Matís og Matvælastofnun.

Áætlað er að tvær til þrjár kennslustundir (3×45 mín) taki nemanda að lesa yfir og tileinka sér það sem borið er fram og að taka próf í lok námskeiðs. Hafi þátttakandi staðist prófið, er gefið út vottorð s.k. matvælaöryggis skírteini. Skírteinið er staðfesting á að þátttakandi hafi aflað sér staðgóðrar þekkingar vegna vinnu við meðhöndlun matvæla samkvæmt kröfum þeirra reglugerða sem mötuneytum og veitingahúsum ber að fara eftir. Krafist er 80% réttrar svörunnar og mögulegt er að endurtaka prófið tvisvar.

Farið er í eftirfarandi þætti:

1 Matvælaöryggi

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni deyja um 240 þúsund manns ár hvert af völdum matarsýkinga eða matareitranna, og þriðjungur eru börn undir fimm ára aldri. Það má því segja að matvælaöryggi sé dauðans alvara. Í þessum hluta er farið yfir helstu hættur í matvælum og hver er hugsanlegur uppruni þeirra. Sérstök áhersla er lögð á sjúkdómsvaldandi örverur, hverjar eru þær helstu og hvernig komast þær í matvæli. Þá er einnig rætt um hvernig þær ná að fjölga sér og hverjar eru helstu afleiðingar nái þær að sýkja neytendur.

Fjallað er um hvaða hættur tengjast matvælum og farið yfir flokkana (eðlis-, efna- og líffræðilegar hættur, þar sem fjallað er um hvers konar hættur þar er að finna og hvar þær gætu verið). Þá er fjallað um hvernig á að verjast því að hætturnar komið í matvæli og neytendur. Farið er yfir meðhöndlun og geymslu matvæli og einnig fjallað um þrif og umgengni um matvæli. Að lokum er farið yfir nauðsyn skráninga.

2 Meðhöndlun og geymsla matvæla

Í þessum hluta er fjallað um hvernig verja má matvæli frá utanaðkomandi smiti. Þá fariðyfir mikilvægi rétts hitastigs við matreiðslu, framreiðslu, kælingu og geymslu matvæla.

3 Hreinlæti

Farið yfir mikilvægi þrifa og sótthreinsunar á umhverfi og áhöldum sem notuð eru við tilbúning matar og sérstök áhersla lögð á hreinlæti og heilbrigði þeirra sem meðhöndla óvarin matvæli.

4 Hættugreining og mikilvægir stýristaðir (HACCP)

Matvælareglugerðir kveða á um að öll meðhöndlun og vinnsla matvæla skuli byggð á HACCP hugmyndafræðinni. Farið er yfir hvað það þýðir og hvaða kröfur eru gerðar til mismunandi fyrirtækja og stofnana.

5 Ofnæmisvaldar

Ákveðin matvæli og innihaldsefni geta kallað fram sterk ofnæmisviðbrögð hjá vissum einstaklingum. Fjallað er um hvaða matvæli og innihaldsefni það eru og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem bjóða fram matvæli sem innihalda slík efni.

Verð á vefnámskeiði eru 22 þúsund krónur. Dagsetningar verða auglýstar síðar.

Frekari upplýsinar veitir Óli Þór Hilmarsson, olithor@matis.is.

Mynd: Shutterstock

Fréttir

Matís leitar eftir metnaðarfullum sérfræðingi í matvælaörverufræði

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Matís er leiðandi á sviði matvælarannsókna og líftækni. Hjá Matís starfar um 100 manna öflugur hópur starfsfólks sem brennur fyrir því að finna nýjar leiðir til að hámarka nýtingu hráefnis, auka sjálfbærni og efla lýðheilsu. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs og tryggja matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Almennar örverurannsóknir með faggildum aðferðum
  • Þátttaka í færni-prófunum á sviði matvæla og lyfja
  • Þátttaka í innri samanburðarsýnaprófunum á ýmsum matvælasýklum
  • Þátttaka í verkefnum sem heyra undir tilvísunarrannsókna fagsviðsins
  • Uppbygging faglegrar áherslu varðandi þjónustumælinga í örverufræði

Hæfnikröfur

  • Menntun í matvælafræði, lífeindafræði, líffræði eða skyldum greinum er skilyrði
  • Reynsla af rannsóknum og mælingum er æskileg
  • Jákvætt viðmót og lipurð í mannlegum samskiptum eru skilyrði
  • Samstarfshæfni og sveigjanleiki
  • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
  • Frumkvæði og faglegur metnaður
  • Góð almenn íslensku- og enskukunnátta bæði í tali og riti.
  • Góð almenn tölvukunnátta

Starfshlutfall er 100%. Viðkomandi mun starfa á rannsóknastofu Matís við Vínlandsleið 12, Reykjavík.

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf.

Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Upplýsingar veitir Sæmundur Sveinsson, fagstjóri örverumælinga og erfðagreininga, saemundurs@matis.is, 422 5130.

IS