Matvælaöryggi – mál allra
Sjúkdómsvaldandi örverur geta borist í matvæli á ýmsan hátt. Þess vegna er nauðsynlegt að tileinka sér góða starfshætti við framleiðslu og meðhöndlun matvæla. Með góðum starfsháttum og innra eftirliti matvælafyrirtækja, fræðslu, rannsóknum og opinberu eftirliti hefur tekist að halda sjúkdómstilfellum vegna matarsýkinga og matareitrana í lágmarki hér á landi.
Á síðustu árum hefur framleiðsla aukist á matvælum sem hafa verið þróuð og framleidd í litlu magni frá býli eða úr héraði. Með auknum umsvifum í framleiðslu fjölbreyttra matvæla er þörf á að vekja athygli á þeim vágestum eða sjúkdómsvaldandi örverum sem geta borist með matvælum.
Með aukinni þekkingu á eiginleikum og smitleiðum þeirra ættu neytendur, matvælaframleiðendur og aðrir áhugamenn um matvælavinnslu að geta tryggt öryggi þeirra matvæla sem þeir meðhöndla. Framleiðendur matvæla bera ábyrgð á öryggi þeirra afurða sem þeir framleiða.
Hjá Matís er unnið að að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem einkum er lögð áhersla á heilnæmi og öryggi matvæla. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti eru að þjónusta matvælaiðnaðinn. Markvisst er unnið að því að auka samvinnu við erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni.
Helstu rannsóknaverkefni eru á sviði örveru- og efnarannsókna á matvælum, fóðri og umhverfi. Örverurannsóknir taka til flestra mikilvægustu sýkla sem fundist geta í matvælum. Meðal verkefna eru aðferðaþróun og prófun aðferða, rannsóknir á afkomu örvera í matvælum og umhverfi, vöktun örvera og áhrif hreinlætisaðgerða á örverur. Efnarannsóknir eru m.a. á aðskotaefnum og varnarefnum í matvælum. Þar undir heyra t.d. rannsóknir á snefilefnum í sjávarafurðum og ýmsum varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.