Fiskeldi

Fiskeldi

Matís hefur yfir að ráða öflugu liði sérfræðinga og góðri aðstöðu á sviði fiskeldisrannsókna, þá sér í lagi hvað varðar fóðurrannsóknir og atferli fiska. Þessi hluti starfsemi Matís hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár samhliða vaxandi fiskeldi.

Fiskeldi gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að því að tryggja fæðuöryggi heimsins, sem og í verðmætasköpun og byggðaþróun hér á landi. Matís hefur lagt áherslu á að styðja við þessa atvinnugrein eftir fremsta megni og leitað eftir víðtæku samstarfi við greinina. Sérstaklega hefur fyrirtækið beint sjónum að fóðurrannsóknum, en einnig að ræktun og erfðum, atferli, þarmaflóru, vinnslu, vöruþróun, pakkningum, flutningum o.s.frv. Þess utan býður Matís upp á ýmiss konar ráðgjöf og mælingar er varða matvælaöryggi. Matís hefur átt í góðu samstarfi við innlend og alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir á þessu sviði, og hefur meðal annars skipað sér á stall þeirra fyrirtækja og stofnana í Evrópu sem eru leiðandi í rannsóknum og þróun á nýjum próteinum til notkunar í fiskeldisfóður.

Matís rekur tilraunaeldisstöð, þar sem unnt er að því að ala fiska á mismunandi lífsskeiðum undir stýrðum aðstæðum, en meðal tegunda sem aldar eru þar má nefna lax, bleikju, regnbogasilungi, beitarfiski (tilapia), hvítleggjarækju og ostrur. Þegar kemur að fóðurrannsóknum og fóðurtilraunum hefur Matís töluverða sérstöðu á markaði þar sem fyrirtækið getur einnig boðið upp á gæða-, efna- og örverumælingar, skynmat, sérfræðiþekkingu í tengslum við erfðafræði, vinnslu, vöruþróun, pakkningar, flutninga o.s.frv. Þessi sérstaða hefur gert Matís að eftirsóttum samstarfsaðila í þjónustu- og rannsóknaverkefnum.