Fréttir

Nýr vettvangur fyrir nýsköpun og rannsóknir á Suðurlandi

Orkídea er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Helga Gunnlaugsdóttir sem áður starfaði hjá Matís, síðast sem sviðsstjóri lýðheilsu- og matvælaöryggissviðs, er rannsókna- og þróunarstjóri hjá Orkídeu.

Verkefnið snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra framtíðarinnar á Suðurlandi, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprotastarfsemi og að undirbúa svæði til að taka á móti orkutengdri nýsköpun.

Aðsetur Orkídeu er á Selfossi en nánari upplýsingar má nálgast á orkidea.is 

Startup Orkídea

Startup Orkídea er samstarfsverkefni Icelandic Startups og Orkídeu. Um er að ræða einstakan vettvang fyrir þróun viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna rótgrónari fyrirtækja sem vinna að sjálfbærum lausnum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. 

Umsjón með framkvæmd verkefnisins er í höndum Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára aðstoðað frumkvöðla við að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til viðskipti taka að blómstra. Icelandic Startups starfar náið með frumkvöðlum, háskólum, fjárfestum, atvinnulífinu, hagsmunasamtökum og hinu opinbera að því að efla frumkvöðlastarf og byggja upp nýsköpunarumhverfið á Íslandi.

Opið er fyrir umsóknir í Startup Orkídea til 24. janúar 2021.

Sjá nánar hér: https://www.startuporkidea.is/

Fréttir

Góð vika fyrir íslenska matvælaframleiðslu og samstarfsaðila Matís

Þróun á íslenskri haframjólk, próteinduft úr hliðarstraumum makríls og verðmætasköpun í þörungavinnslu eru á meðal nýrra verkefna Matís og samstarfsaðila

Síðasta vika reyndist íslenskum matvælaframleiðendum og samstarfsaðilum Matís vel, en tólf verkefni sem Matís kemur að hlutu styrk úr Matvælasjóði þegar sjóðurinn tilkynnti sína fyrstu úthlutun. Nokkrum dögum fyrr hafði Rannís tilkynnt að samstarfsverkefni sem Matís leiðir hafi hlotið veglegan styrk úr Markáætlun um samfélagslegar áskoranir til að vinna að þróun sjálfbærs innlends áburðar. Einnig bárust fréttir af því að Rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun (H2020) hefði samþykkt fjármögnun á verkefni sem Matís tekur þátt í á sviði líftækni. Þessi frábæri árangur sýnir vel styrk og mikilvægi þess samstarfs sem Matís á í við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla af öllum stærðum og gerðum, jafnt innan lands sem utan. 

Markmið Matís er að styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, og sýnir þessi árangur að samstarf við fyrirtækið er góður kostur. Hjá Matís starfa um 100 sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum er við koma matvælaframleiðslu og líftækni. Þessir starfsmenn eru stoltir af að taka þátt í þessum áðurnefndu rannsókna- og nýsköpunarverkefnum, og að fá tækifæri til að vinna með framsýnum fyrirtækjum, stofnunum og frumkvöðlum í að móta framtíðina. Hér á eftir fylgir stutt yfirlit yfir þessi 14 verkefni sem fengu brautargengi í síðustu viku.

Myndin sýnir dreifingu nýrra verkefna Matís og samstarfsaðila um landið.

Matvælasjóður

Þróun íslenskrar haframjólkur: Sandhóll bú ehf. í Vestur-Skaftafellssýslu hlaut styrk til þróunar á haframjólk úr innlendu hráefni. Haframjólk úr íslenskum höfrum er nýjung hér á landi sem auka mun virði innlendrar hafraframleiðslu, og kemur í stað innfluttrar haframjólkur og hefur því meðal annars minna kolefnisspor en innflutta varan. Sandhóll naut dyggrar aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og við skrif umsóknarinnar og mun Sandhóll nýta sér þjónustu Matís við framkvæmd verkefnisins. Matís óskar hjónunum á Sandhóli, Hellen M. Gunnarsdóttur og Erni Karlssyni, hjartanlega til hamingju með styrkinn.

Heilandi máttur lífrænnar mysu í krukku: Biobú ehf. hlaut styrk til þróunar á snyrtivörum úr lífrænni mysu. Árið 2009 var framkvæmd rannsókn hjá Matís þar sem lífvirkni mysu var mæld, en rannsóknin sýndi að mysa hefur andoxunareiginleika. Einnig reyndist hún hafa blóðþrýstingalækkandi áhrif. Í framhaldi þessara jákvæðu niðurstaðna var farið af stað að rannsaka nýtingu á mysu í andlitskrem í samstarfi við Bíóbú. Voru þau verkefni styrkt af Mjólk í mörgum myndum (MiMM) og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Biobú hyggst nú halda þessu þróunar- og nýsköpunarverkefni áfram, þannig að verðmætar vörur verði framleiddar og markaðssettar úr þessu vannýtta hráefni. Biobú naut dyggrar aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og við skrif umsóknarinnar. Biobú mun nýta sér þjónustu Matís við framkvæmd verkefnisins. Matís óskar eigendum og starfsfólki Biobú hjartanlega til hamingju með styrkinn.

Próteinduft úr hliðarstraumum makríls: Síldarvinnslan í Neskaupstað (SVN) hlaut styrk til að þróa og framleiða fiskpróteinhýdrólýsöt úr hliðarstraumum sem falla til við vinnslu makríls og meta fýsileika þess að nota þau í startfóður fyrir laxeldi, sem og til manneldis. Makríll er ein mikilvægasta uppsjávartegundin við Ísland og eru meira en 100.000 tonn unnin á landinu ár hvert, með tilheyrandi magni hliðarstrauma (hausum, innyflum og afskurði). Þessir hliðarstraumar hafa hingað til einungis verið nýttir til framleiðslu á fiskmjöli og lýsi og eru því miklir möguleikar fyrir hendi til þess að auka verðmæti þeirra. SVN er eigandi verkefnisins en ef verkefnið skilar tilætluðum árangri þá mun það skipta verulegu máli fyrir uppsjávargeirann í heild, sem og fyrir fóður- og fiskeldisfyrirtæki hér á landi. SVN hefur þegar lagt í verulega fjárfestingu til að sinna þessu rannsókna- og þróunarstarfi og því sérlega jákvætt að Matvælasjóður hafi einnig trú á verkefninu. SVN og Fóðurverksmiðjan Laxá standa að verkefninu og nutu aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og við gerð umsóknarinnar. SVN mun nýta sér þjónustu Matís við verkefnið, en starfsmenn Matís í Neskaupstað munu gegna þar lykilhlutverki. Matís óskar framsýnum eigendum, stjórnendum og starfsfólki SVN hjartanlega til hamingju með styrkinn.

Skógarkerfill – Illgresi eða vannýtt matarauðlind: Sýslið verkstöð ehf. á Hólmavík hlaut styrk til að kanna möguleika á að nýta skógarkerfil í matvæli. Sýslið verkstöð naut aðstoðar Matís við mótun verkefnisins og mun nýta sér aðstoð sérfræðinga Matís við framkvæmdina. Matís óskar Ástu Þórisdóttur, eiganda Sýslið verkstöð, innilega til hamingju með styrkinn.

Fullvinnsla laxafurða á Íslandi: Hvar liggja tækifæri flökunar og hliðarafurða: Freysteinn Nonni Mánason hlaut styrk til að framkvæma forkönnun á fýsileika aukinnar fullvinnslu laxafurða hjá Odda á Patreksfirði. Starfsmenn Matís og Háskóla Íslands munu gegna leiðbeinandi hlutverki í verkefninu. Matís óskar Freysteini til hamingju með styrkinn og þetta áhugaverða verkefni.

Ný þráavarnarefni og stöðuleiki makrílsmjöls: Síldarvinnslan í Neskaupstað (SVN), ásamt Skinney-Þinganes, Ísfélagi Vestmannaeyja og Matís hlutu styrk til að meta stöðugleika íslensks makrílsmjöls og skoða eiginleika og virkni mismunandi þráavarnarefna með það fyrir augum að finna hentugan arftaka fyrir ETQ, sem var nýlega bannað. Efnið ETQ hefur verið notað í íslenskum fiskmjölsiðnaði í mörg ár sökum þess hve áhrifaríkt það er í að sporna við þránun fitu í mjöli. Í kjölfar bannsins hafa fiskmjölsframleiðendur lent í vandamálum sem snúa að hitamyndun í makrílsmjöli sem má rekja beint til þránunar á fitu í mjölinu. Hitamyndun í mjöli getur dregið töluvert úr verðmæti mjölsins sökum skemmda sem verða á því en einnig er hætta á sjálfíkveikju í mjölinu. Hér er um gífurlega mikilvægt verkefni að ræða fyrir allan uppsjávargeirann og þjóðfélagið í heild. Sérfræðingar Matís eru spenntir að hefja störf við þetta mikilvæga verkefni. Vinna Matís í verkefninu verður að stórum hluta unnin í útibúi fyrirtækisins í Neskaupstað.

Mannkorn hafrar: Landbúnaðarháskólinn, í samstarfi við Matís, hlaut styrk til að efla nýjan geira íslenskrar kornræktar með því að bera kennsl á bestu hafrayrkin með tilliti til ræktunar og gæða. Lagður verður grunnur að því í verkefninu að hefja markvissar kynbætur á höfrum fyrir íslenskar aðstæður. Þessi tegund kornræktar verður kynnt bændum og ræktunarmörkin könnuð. Sérstaklega verður horft til norðurlands í því sambandi. Matís óskar Landbúnaðarháskólanum til hamingju með styrkinn og eru sérfræðingar fyrirtækisins spenntir að hefja vinnuna.

Hákarlsverkun: Matís og Bjarnarhöfn Stykkishólmi hlutu styrk til að afla nýrrar þekkingar á þeim flóknu breytingum sem eiga sér stað við kæsingu og þurrkun hákarls og gera hann að þessari sérstöku matvöru sem hann er, með það fyrir höndum að draga úr sveiflum í afurðagæðum, staðla framleiðsluna og stuðla að mögulegum útflutningi á þessari einstöku matvöru. Kæstur hákarl er vinsæll hjá ferðamönnum og oft talað um hann á netmiðlum sem þjóðarrétt Íslendinga. Áhugi er á að kaupa hákarl frá Íslandi en erfiðleikar eru í útflutningi vegna hefðbundinna framleiðsluhátta og hefur varan ekki útflutningsleyfi. Líkur eru á að þetta áhugaverða og tímabæra verkefni muni opna ný tækifæri til verðmætasköpunar á vannýttu hráefni. Matís óskar Bjarnarhöfn til hamingju með styrkinn og væntir árangursríks samstarfs á komandi ári.

Verðmæt efni úr hliðarstraumum þörungavinnslu: Matís, Háskóli Íslands, Thorverk, Þörungaklaustur, Ora og Síldarvinnslan í Neskaupstað hlutu styrk til að kanna möguleika á aukinni vinnslu til virðisaukningar á efnum úr þörungum, ásamt þróun á aðferðum til að draga þau út. Í framhaldi þess má ætla að miklir möguleikar til nýsköpunar verði til og, ef vel tekst, að samkeppnishæfni íslenskra framleiðenda verði efld, með nýtingu náttúrulegra aukaefna sem eru unnin á sjálfbæran hátt úr lífrænu hráefni. Matís óskar samstarfsaðilum til hamingju með styrkinn.

Greining á hringormum í flökum: Matís, Háskóli Íslands, Marel, Vísir hf. og SFS hlutu styrk til að meta möguleika og fýsileika á nýtingu mynd- og litrófsgreiningartækni (Multispectral Imaging, MSI) til þess að greina hringorma í flökum. Hér er um gífurlegt hagsmunamál að ræða fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið í heild, og eru sérfræðingar Matís stoltir og spenntir fyrir verkefninu, auk þess sem þeir eru þakklátir fyrir samstarfið með þessum öflugu samstarfsaðilum.

Streita laxfiska: Matís, Skaginn 3X og Arctic Fish hlutu styrk til að þróa og sannreyna nýja tegund af dælu til að dæla lifandi laxfiskum. Þessi dæla mun bæta meðhöndlun á lifandi fiski, valda minni streitu og draga úr kostnaði og gæðarýrnun hjá fiskeldisfyrirtækjum. Verkefnið verður að stórum hluta unnið á Vestfjörðum. Matís væntir mikils af þessu áhugaverða verkefni.

Virðiskeðja grænmetis: Matís, Háskóli Íslands og Samkaup hlutu styrk til að bæta gæði, geymsluþol og minnka sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis. Markmið verkefnisins er að efla grænmetisgeirann á Íslandi með nýrri þekkingu sem styður við uppbyggingu geirans og er þá átt við aukna framleiðslu, fleiri atvinnutækifæri og aukið framboð næringarríkra afurða. Sóknarfærin byggjast á stærri markaðshlutdeild innanlands og útflutningi. Hér er um mjög spennandi verkefni að ræða sem sérfræðingar Matís eru áhugasamir fyrir að hefja á nýju ári.

Markáætlun um samfélagslegar áskoranir

Matís, Atmonía ehf., Landbúnaðarháskólinn, Nýsköpunarmiðstöð, Landgræðslan og Landsvirkjun hlutu styrk til að bæta nýtingu innlendra auðlinda og aukaafurða með það að markmiði að framleiða sjálfbæran áburð fyrir íslenskan landbúnað og landgræðslu. Verkefnið mun standa yfir í tvö ár og mun væntanlega hafa mjög mikil fjárhagsleg og umhverfisvæn áhrif á íslenskt samfélag. Matís óskar samstarfsaðilum til hamingju með styrkinn.

H2020 – Rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun

Matís, ásamt fjölda samstarfsaðila víðsvegar að í Evrópu, hlutu 7,5 milljón Evra styrk í síðustu viku til að greina og þróa lífvirk efni úr náttúrulegum hráefnum. Verkefnisþáttur Matís mun byggja á niðurstöðum umfangsmikilla rannsókna á lífríki hafsins þar á meðal á einstökum örverusamfélögum sjávarhvera við strendur landsins. Verkefnið mun standa yfir í fjögur ár og er hluti Matís 600 þúsund Evrur, eða um 90 milljónir kr.

Eins og sjá má á þessum lista hér að ofan eru spennandi tímar fram undan. Á næstu mánuðum eru hinir ýmsu sjóðir, innlendir og alþjóðlegir, opnir fyrir umsóknum. Ef þú hefur áhuga á að auka verðmæti, nýtingu og sjálfbærni og skapa störf þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við Matís til að ræða möguleika á samstarfi. Matís er lykil samstarfsaðili í rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni á Íslandi. Við stundum rannsóknir og nýsköpun í ykkar þágu.

Tengiliður varðandi umsóknir er jonas@matis.is.

Þegar opinbera hlutafélagið Matís var stofnað árið 2007 var helmingur tekna fyrirtækisins tryggður í gegnum þjónustusamning við ríkið. Verðmæti samningsins í upphafi var um 700 milljónir kr. (1200 milljónir á gengi dagsins í dag). Það var hins vegar sameiginleg ákvörðun Matís og yfirvalda að draga úr vægi þessa samnings og að í staðinn skyldi fyrirtækið sækja í samkeppnissjóði, sem myndi tryggja enn frekar að verkefnin sem unnið er að séu þjóðhagslega mikilvæg, sem og mikilvæg fyrir matvælaframleiðendur í landinu. Nú er svo komið að árlegar tekjur Matís af þjónustusamningi við ríkið eru tæpar 400 milljónir, um 25% af veltu fyrirtækisins, sem ætlað er að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælaöryggis og styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi. Um 75% af tekjunum koma úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum, sem og frá beinni sölu á þjónustu og ráðgjöf.

Skýrslur

Aukin verðmæti gagna / Increased value of data

Útgefið:

01/11/2014

Höfundar:

Páll Gunnar Pálsson

Styrkt af:

AVS (R 12-026)

Aukin verðmæti gagna / Increased value of data

Markmiðið með þessu verkefni var að koma með tillögu að gerð staðlaðra vörulýsinga fyrir íslenskar sjávarafurðir svo hægt væri að greina betur þær afurðir sem fluttar eru út. Nauðsynlegt er að allir séu með sambærilegan skilning á hugtökum sem notuð eru til að lýsa afurðum. Farið var yfir hvaða upplýsingar eru til er varða veiðar og útflutning og staða kortlögð, síðan var útbúinn orðskýringalisti með myndum. Sett var upp leið til að útbúa staðlaða aðferð til að búa til vörulýsingar og í framhaldi af því var hönnuð tillaga að því hvernig hægt er að auka upplýsingar um þær afurðir sem fluttar eru út.

The aim of the project was to standardize product description for Icelandic seafood products, as it is very important to have the possibility to analyze the export, value and quantity. Same understanding of the meaning of the words used is necessary. Information about catch and export were analyzed and a dictionary for the various products were made. A new idea for standardizing product description was introduced as well as a new system for registration of exported seafood products.

Skoða skýrslu

Skýrslur

SSS PREDICTION Námskeið / SSS PREDICTION WORKSHOP

Útgefið:

29/04/2010

Höfundar:

Paw Dalgaard, Anna Kristín Daníelsdóttir, Steinar B. Aðalbjörnsson

Tengiliður

Anna Kristín Daníelsdóttir

Aðstoðarforstjóri / Rannsókna- og nýsköpunarstjóri

annak@matis.is

SSS PREDICTION Námskeið / SSS PREDICTION WORKSHOP

Námskeið í notkun á spáforritum í sjávarútvegi: SSS (Seafood Spoilage and Safety) Prediction version 3.1 2009 (http://sssp.dtuaqua.dk/), Combase (www.combase.cc) and Pathogen Modeling forrit (http://pmp.arserrc.gov/PMPOnline.aspx). Kennari er Dr. Paw Dalgaard frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU) og fer kennslan fram á ensku. Forritið nýtist vísindamönnum, yfirvöldum og iðnaði í sjávarútvegi.

Workshop on the practical use of computer software to manage seafood quality and safety. It includes presentations and hands-on computer exercises to demonstrate how available software can be used by industry, authorities and scientists within the seafood sector. Examples with fresh fish, shellfish and ready-to-eat seafood (smoked and marinated products) are included in the workshop. Special attention is given to: (i) the effect of storage temperature and modified atmosphere packing on shelf-life and (ii) management of Listeria monocytogens according to existing EU regulations (EC 2073/2005 and EC 1441/2007) and new guidelines from the Codex Alimentarius Commission. The presentations included in the workshop are given in English by Paw Dalgaard from the Technical University of Denmark. Participants will use their own laptop computers for the PC-exercises included in the workshop. Instruction for download of freeware will be mailed to the participants prior to the start of the workshop.

Skoða skýrslu
IS