Ársskýrsla Matís 2020

Ársskýrsla Matís 2020

Ávarp stjórnarformanns 

Matís er í mínum huga fyrst og fremst verðmæt auðlind á sviði rannsókna og nýsköpunar á matvælum og til að efla matvælaöryggi og lýðheilsu. Þessi auðlind samanstendur af þekkingu, reynslu, færni, hugmyndaauðgi og krafti og er uppspretta hennar okkar hæfileikaríka starfsfólk. Matís er samnefnari þessarar auðlindar sem hefur átt þátt í að búa til aukin verðmæti, stuðla að bættri lýðheilsu og öryggi í matvælaiðnaði í samstarfi við fyrirtæki, menntastofnanir og stjórnvöld. Óhætt er að segja að starfsemi Matís sé fjölbreytt og snertifletirnir við matvælaiðnaðinn margir. Mysa og snyrtivörur, faðerni sauðfjár og kynbótastarf í sauðfjárrækt, þörungarækt til próteinframleiðslu, smitleiðir sjúkdómsvaldandi örvera í matvælavinnslu og orkudrykkjaneysla ungmenna eru aðeins örfá dæmi um verkefni sem Matís hefur átt aðkomu að.

Matvælaframleiðsla skiptir þjóðina miklu máli og skapar þjóðarbúinu verðmæti. Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnisstöðu og gæði íslenskra matvæla og er stuðningur Matís við íslenskt atvinnulíf mikilvægur þáttur í að viðhalda þessari stöðu. Matvælaiðnaðurinn er í örri þróun og Matís er mikilvægur hlekkur í því að tryggja að íslensk matvælaframleiðsla sé í fremstu röð. Samstarf Matís við íslensk fyrirtæki, stjórnvöld og háskólana hefur ýtt undir gott orðspor og góða ímynd íslensks matvælaiðnaðar. Árangurshlutfall umsókna um erlenda styrki til rannsókna og nýsköpunar staðfestir það. Þá hefur Matís náð að skipa sér í fremstu röð fyrirtækja og stofnana í Evrópu þegar kemur að rannsóknum og þróun, s.s. við þróun nýrra próteingjafa til notkunar í fiskeldisfóður.

Í ársskýrslunni er dregin upp mynd af starfseminni á árinu 2020. Auk hefðbundins reksturs einkenndist starfið af viðbrögðum við heimsfaraldri og því að finna leiðir til að halda uppi starfsemi við þær krefjandi aðstæður. Matís er í lögum ætlað viðamikið hlutverk á sviði mætvæla og árið 2020 lagði stjórn áherslu á góða yfirsýn yfir skiptingu verkefna milli nýsköpunar, rannsókna, lýðheilsu og matvælaöryggis, þannig að sjá mætti á hvaða sviðum þyrfti að sækja fram. Þá var lögð áhersla á uppbyggingu á landsbyggðinni í þeim tilgangi að auka og bæta þjónustu við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Fyrir hönd stjórnar Matís vil ég þakka starfsmönnum félagsins fyrir frábært starf á árinu 2020. Krafturinn og getan í mannauði Matís er einstök.

Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Matís
Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís

Ávarp forstjóra  

Árið 2020 var ótrúlegt ár. Öll þurftum við að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum sökum heimsfaraldurs, bæði í starfi og í einkalífinu. Heimsfaraldurinn hafði vissulega áhrif á Matís á árinu, en heilt á litið er þó óhætt að segja að hann hafi ekki náð að trufla starfsemina nema að takmörkuðu leyti. Þar ber helst að þakka samheldnu starfsliði sem sýndi mikla þrautseigju, sveigjanleika og þolinmæði við þessar krefjandi aðstæður. 

Þrátt fyrir allt náðum við stórum og mikilvægum áföngum á árinu. Ber þar helst að nefna undirritun á nýjum langtíma samningi við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Með samningnum er starfsemi Matís tryggð til lengri tíma. Þar er hlutverk Matís skilgreint með skýrum hætti, þ.e. að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna og styðja við rannsóknir sem auka verðmæti íslenskrar matvælaframleiðslu og stuðla að öryggi og heilnæmi hennar. 

Einnig var undirritaður sérstakur samningur við ráðuneytið um uppbyggingu Matís á landsbyggðinni.

Markmið samningsins er meðal annars að færa starfsemi Matís nær viðskiptavinum og bæta verðmætasköpun til framtíðar með aukinni nýsköpun, rannsókna- og þróunarvinnu. Í framhaldinu hefur verið ráðist í eflingu starfsstöðva, einkum í Neskaupstað og á Akureyri. 

Farið var í markvissa stefnumótunarvinnu innan fyrirtækisins með það að marki að geta mætt betur þörfum viðskiptavina og samstarfsaðila okkar. Þessi vinna fól einnig í sér að skilgreina hlutverk okkar betur, bæði inn á við og út á við.  

Matvælasjóður var settur á laggirnar til að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Í fyrstu úthlutun sjóðsins hlutu alls 12 verkefni sem Matís kemur að styrk úr sjóðnum sem sýnir styrk og mikilvægi þess samstarfs sem Matís á við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla í landinu. 

Matís kom einnig að þróun Matvælastefnu Íslands til ársins 2030 sem hefur mikla þýðingu fyrir innlenda matvælaframleiðslu. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi, tryggja matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.   

Já, 2020 var svo sannarlega ótrúlegt ár og erfitt á marga vegu. Af þessari stuttu yfirferð má þó sjá að ýmislegt jákvætt átti sér stað líka. Árið var þrátt fyrir allt gæfuríkt fyrir Matís og rannsóknir og nýsköpun í þágu matvælaöryggis, lýðheilsu og atvinnulífs. Það er ástæða til að líta björtum augum til framtíðar, en jafnframt er ljóst að framundan bíða mikilvægar og erfiðar áskoranir fyrir samfélagið allt. Hlutverk Matís við að styðja atvinnulífið í sjálfbærri nýtingu auðlinda Íslands hefur því sjaldan verið mikilvægara en einmitt núna. 

Hlutverk og rekstur Matís 

Opinbera hlutafélagið Matís vinnur að rannsóknum og nýsköpun á matvælum í þágu atvinnulífsins og til að efla matvælaöryggi og lýðheilsu. Einnig er unnið að verðmæta- og nýsköpun úr vannýttum lífauðlindum landsins. 

Með samstarfi eru niðurstöður rannsókna og þróunar nýttar til að auka þekkingu og skapa verðmæti í samfélaginu. Þannig skipar Matís stóran sess í verðmætaaukningu, eflir matvælaframleiðslu og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og afurða – og stuðlar um leið að sjálfbærni og umhverfisvernd. 

Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum matvæla á Íslandi og gegnir lykilhlutverki við að tryggja matvælaöryggi og bæta lýðheilsu. Matís veitir stjórnvöldum stuðning og ráðgjöf um viðbrögð ef upp kemur hópsýking eða faraldur tengdum matvælum, sem er lykilatriði til þess að hægt sé að lágmarka neikvæð áhrif hópsýkingar eða faraldurs á lýðheilsu og efnahag þjóðarinnar. Til að tryggja matvælaöryggi íslenskra neytenda og verðmæti útflutningsafurða er nauðsynlegt að Matís vinni náið með opinberum eftirlitsaðilum við ráðgjöf, mælingar, vöktun og áhættumat. 

Með rannsóknum og vöruþróun á matvælum og innihaldsefnum í matvælum stuðlar Matís að bættri lýðheilsu landsmanna. Áhersla er lögð á þróun fjölbreyttra næringarríkra matvæla sem hafa heilsubætandi áhrif. 

Stefna og framtíðarsýn Matís: 

  • Að vera framsækið þekkingarfyrirtæki sem eflir samkeppnishæfni og sjálfbærni matvælaframleiðslu á Íslandi 
  • Að skila íslensku samfélagi verðmætum afurðum með samstarfi og þjónustu við atvinnulífið 
  • Að styðja íslensk yfirvöld í að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla 
  • Að byggja upp starfsstöðvar á landsbyggðinni og auka verðmætasköpun um allt land 
  • Að vera eftirsóttur samstarfs- og þjónustuaðili fyrirtækja og stofnana 
  • Að vera eftirsóknarverður, krefjandi og spennandi vinnustaður með fyrsta flokks aðstöðu þar sem starfsmenn njóta sín í starfi 

Starfsemi Matís er fjármögnuð af þjónustusamningi við ANR, verkefnum fyrir ýmsar opinberar stofnanir og eftirlitsaðila, ráðgjafaverkefnum, þjónustumælingum og rannsókna- og nýsköpunarverkefnum úr samkeppnissjóðum. Heildarvelta Matís árið 2020 var 1.69 milljarðar, þar af var sjálfsaflafé 76%.  

Árið 2020 störfuðu hjá Matís 98 starfsmenn í 91,4 stöðugildum, 60 konur og 38 karlar. 

Áherslur og verkefni Matís stuðla að því að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verði náð. Af markmiðunum 17 eru það einkum eftirfarandi markmið sem starfsemi Matís tengist: 

Stuðlað að sjálfbærum hagvexti og arðbærum atvinnutækifærum. Aukinni framleiðni í atvinnulífinu náð með fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun.

Stuðlað að uppbyggingu sjálfbærra atvinnuvega og hlúð að nýsköpun.

Unnið að því að tryggja sjálfbært framleiðslumynstur og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda. Dregið úr sóun matvæla.

Hafið og auðlindir þess vernduð og nýtt á sjálfbæran hátt með vísindalegri þekkingu.

Landið og auðlindir þess vernduð og nýtt á sjálfbæran hátt með vísindalegri þekkingu.

Skipurit Matís

Stjórn Matís skipuðu árið 2020: Hákon Stefánsson, stjórnarformaður; Sindri Sigurðsson, varaformaður; Sigrún Traustadóttir, ritari; Arnar Árnason, Drífa Kristín Sigurðardóttir, Helga Sigurrós Valgeirsdóttir og Sigmundur Einar Ófeigsson. 

Víðtækt samstarf

Grunnurinn að árangri af starfi Matís er öflugt samstarf, innanlands sem utan, með fyrirtækjum, stofnunum, yfirvöldum og frumkvöðlum. Kortið hér til hægri sýnir valda samstarfsaðila í rannsóknaverkefnum sem Matís kom að á árinu 2020. Smelltu á kortið til að sjá samstarfsaðila og verkefni unnin í samstarfi við þá.

Samstarfsadilar

Embætti landlæknis

Artic Fish

Arnarlax

Arctic Protein

Arctic Fish

Akraborg

Ajtel

Ægir Seafood

Grímur Kokkur

Grunnskólinn austan vatna

Haf og Vatn

Hafrannsóknarstofnun

Háskóli Íslands

Háskólinn á Akureyri

Háskólinn á Hólum

Háskólinn í Reykjavík

Héðinn

GHÞ ehf

Geitfjárræktarfélag Íslands

FISK-Seafood ehf.

Artic Protein

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisið

Bændasamtök Íslands

Bíóbú

Brim

Búlandstindur

Centra Fyrirtækjaráðgjöf

Dermos

Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda

Kælismiðjan Frost ehf.

Kokkalandsliðið

Landbúnaðarháskóli Íslands

Laugarnesskóli

Laxar Fiskeldi

Lovísa R Bjarnadóttir, bóndi

Magla

Margildi

Jóhanna B Þorvaldsdóttir, bóndi

Íslenskir Saltfiskframleiðendur

Hyndla

Ice Fish Farm

Inventec

Ísfélag Vestmannaeyja

Ísfiskur

Ísfugl

Íslandsstofa

Íslenski ferðaklasinn

Pure Natura

Rannsóknarmiðstöð ferðamála

Rannsóknarstofa í Lyfja og eiturefnafræði

Rannsóknasetur HÍ Sandgerði

Reykjagarður

Reykjalundur

Sæbýli

Primex ehf

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Nesbúegg

Matarauður Íslands atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Matarmarkaður Íslands

Matfugl

Menntaskólinn í Kópavogi

Micro-ryðfrí smíði ehf.

Mjólkursamsalan

MPF Iceland Fish Protein

Sláturfélag Suðurlands

Slow Food Reykjavík

Sölufélag garðyrkjumanna

Stóra Ármót – Tilraunabú í nautgriparækt

Tilraunastöð HÍ að Keldum.

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Trefjar ehf

Skógræktin

Skinney-Þinganes hf.

Sæplast Iceland ehf.

Samband garðyrkjubænda

Samherji

Sif Matthíasdóttir, bóndi

Sigrún Indriðadóttir, bóndi

Síldarvinnslan hf

Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið

Þörungaverksmiðjan / Thorverk

Þorbjörn

Vísir

Vaxa

Varmahlíðarskóli

UNU-FTP

UNA skincare

Umhverfisstofnun

Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins

Íslensk Bláskel

Aurora Seafood

Genís

Útgerðarfélag Akureyrar

Slippurinn

Fóðurverksmiðjan Laxá

Skaginn 3X

KeyNatura

Atmonia

Landsvirkjun

Efnasmiðjan

Verðmætasköpun, lýðheilsa og matvælaöryggi

Í samræmi við lög um hlutverk Matís er rannsóknum fyrirtækisins skipt upp eftir þremur áherslum: verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi. 

Verðmætasköpun 

Matís vinnur markvisst að því að auka verðmætasköpun er tengist matvælaframleiðslu og líftækni til eflingar samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs. Markmiðið er sjálfbær nýting auðlinda til sjávar og sveita. Ein helsta sérstaða Íslands er hversu vel hefur tekist að skapa verðmæti úr hinum ýmsu auðlindum og tengja þarfir neytenda og erlendra markaða við hlekki virðiskeðjunnar. Matís hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að skapa þessa sérstöðu og unnið með atvinnulífinu að rannsóknum og nýsköpun til að hámarka verðmæti og afrakstur af þeim auðlindum sem þjóðin hefur yfir að búa. Meðal mikilvægra verkefna sem hafa stuðlað að aukinni verðmætasköpun má nefna fullvinnslu og nýtingu á ýmiskonar hliðarafurðum, bætta vinnsluferla, vöruþróun, úrbætur á pakkningum og flutningsferlum, þróun á nýjum próteinum til fóðurgerðar, líftækni, þróun á nýjum ensímum og margt fleira. 

Lýðheilsa 

Matís stuðlar að því að bæta lýðheilsu á Íslandi með rannsóknum og vöruþróun. Mikilvægt er að þekkja eiginleika íslenskra afurða og eru haldgóð gögn forsenda umræðna um hvernig við bætum líf og heilsu. Matís hefur byggt upp gagnvirkan gagnagrunn, ÍSGEM, með upplýsingum um efnainnihald matvæla á íslenskum markaði. Gagnvirkir notendavænir gagnagrunnar með upplýsingum um innhald jákvæðra og óæskilegra efna í matvælum eru mikilvægir og nýtast neytendum, framleiðendum, seljendum, kaupendum, stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum. 

Í ljósi aukins framboðs og neyslu íslenskra ungmenna á orkudrykkjum óskaði Matvælastofnun eftir því að Áhættumatsnefnd Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins gerði magnbundið mat á því hversu mikið af koffíni er líklegt að ungt fólk innbyrði í gegnum drykkjarvörur og hvort neyslan hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmennanna. Vinna við áhættumat fyrir grunnskólanema í 8.-10. bekk hófst í október 2019 og var Matís fengið til að taka að sér verkefnastjórn.

Áhættumatsnefndin skilaði skýrslu um heilsufarslega áhættu vegna neyslu íslenskra ungmenna í 8.-10. bekk á koffíni í drykkjarvörum í október 2020. Niðurstaða nefndarinnar var að neysla íslenskra ungmenna sé töluvert meiri en sést hefur í fyrri rannsóknum og gefi tilefni til aðgerða til að lágmarka neyslu ungmenna á orkudrykkjum sem innihalda koffín og fyrirbyggja neikvæð áhrif á heilsu þeirra. 

Matvælaöryggi 

Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum á matvælum á Íslandi og sér um rekstur tilvísunarrannsóknastofa og öryggis- og forgangsþjónustu á sviði matvæla fyrir lögbær stjórnvöld. Styrkur fyrirtækisins liggur í breiðum grunni getu, þekkingar og innviða sem tryggja öryggis- og forgangsþjónustu ef upp kemur matvælavá. Áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á óæskilegum efnum og örverum í matvælum og vinnsluumhverfi og þróun greiningaraðferða. Aukinn skilningur á eðli, uppruna og smitleiðum sjúkdómsvaldandi örvera er mikilvægur til að tryggja öryggi matvæla, koma í veg fyrir faraldra og efla öryggi neytenda. Matís hefur umfangsmikla þekkingu á örverum í fiskvinnslu og eldistegundum, svo sem Listeríu, og beitir nýjustu tækni við að rekja uppruna smits. Það er grundvallaratriði fyrir kaupendur íslenskra afurða að geta treyst því að þau matvæli sem framleidd eru hér á landi séu örugg. Útflutningur íslenskra matvæla er einnig háður því að unnt sé að sýna fram á heilnæmi með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum kaupenda. Matís þjónustar íslensk stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf með því að reka öryggisþjónustu, bjóða upp á þjónustumælingar og hafa tiltæk vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni og örverur í íslenskum matvælum. Nauðsynlegt er að styðja fullyrðingar um hreinleika og heilnæmi íslenskra matvæla með áreiðanlegum gögnum frá óháðum aðila eins og Matís, sem byggja á rannsóknum á afurðum og umhverfinu.  

Rannsókna- og nýsköpunarverkefni

Rannsókna- og nýsköpunarverkefni Matís eru flokkuð eftir áherslum og þjónustu við atvinnugreinar og hópa:

  1. Kjöt
  2. Mjólkurvörur
  3. Grænmeti, ávextir og korn
  4. Uppsjávarfiskur
  5. Botnfiskur
  6. Fiskeldi
  7. Þörungar
  8. Líftækniiðnaður
  9. Umhverfisrannsóknir
  10. Nýsköpun, frumkvöðlar og menntastofnanir
  11. Stjórnsýsla
  12. Þróunaraðstoð
  1. Kjöt 

Markmið rannsókna- og þróunarverkefna um kjöt er að styrkja innlenda kjötframleiðslu og efla verðmætasköpun á landsbyggðinni í samstarfi við framleiðendur og aðra hagaðila. Árið 2020 var áhersla lögð á mælingar á næringargildi, nýtingu, kjötgæði, geymsluþol og dýravelferð til að sýna fram að sérstöðu íslenskra afurða. Í sauðfjárræktinni var áherslan á áhrif kynbóta, sláturaðferða og áhrif meðferðar fyrir og eftir slátrun á gæði lambakjöts. Einnig voru gæði íslensks lambakjöts borin saman við gæði erlends lambakjöts. Í hrossakjötinu var áhersla á sérstöðu í næringargildi og meyrni en einnig á upplýsingar um nýtingu kjötskrokka, geymsluþol og vöruþróun. Birtar voru skýrslur um áhrif Evrópumats á nýtingu og verðmæti nautgripaskrokka og um gæði kjöts af galtargrísum. Einnig var unnið verkefni um nýtingu og næringargildi alifugla- og svínakjöts. Upplýsingar um kjötnýtingu eru mikilvægar fyrir kjötkaupendur vegna úrvinnslu og vöruþróunar en upplýsingar um næringargildi eru nýttar fyrir merkingar matvæla og aðra upplýsingagjöf. Á undanförnum árum hafa þrjú verkefni með áherslu á að auka framleiðslu geitfjárafurða verið unnin í nánu samstarfi við Geitfjárræktarfélagið og lauk síðasta verkefninu á árinu 2020. 

Að auki var erfðafræðilegum aðferðum beitt til að efla kynbótastarf og auka rekjanleika afurða. Unnið var að þróun á faðernisprófi fyrir íslenskt sauðfé en slík próf hafa áður verið þróuð á Matís fyrir hross og nautgripi. Mikilvægt er að geta staðfest faðerni sauðfjár, sérstaklega til að útrýma arfgengum erfðagöllum. Einnig var unnið að þróun á nýrri erfðafræðilegri aðferðafræði til upprunagreininga á nautakjöti. Með þessari aðferðafræði er hægt að rekja nautakjötsafurðir til einstaka nautgripa. Enn fremur er hægt að nýta aðferðina til að staðfesta hvort nautakjöt hafi verið framleitt á Íslandi eða sé innflutt.

  1. Mjólkurvörur 

Nokkur verkefni voru unnin á árinu þar sem lögð var áhersla á þróun nýrra vara og vinnsluferla tengdum mjólkurvörum, einkum úr mysu og skyri. Verkefnin voru unnin með góðum hópi samstarfsaðila. Þróuð var leið til að þurrka skyr sem er afbragðs leið til að auka geymsluþol þess. Hægt er að líta á a.m.k. tvö verkefni utan Matís sem afsprengi þessarar vinnu. Alls falla til um 60 milljónir lítra af mysu í osta- og skyrframleiðslu á Íslandi á ári og því mikilvægt að þróa leiðir til að nýta þessa verðmætu auðlind. Má þar nefna þróun á kremi úr efnisþáttum mysu og þróun á aðferð til að umbreyta mjólkursykurvökva (laktósa) úr mysu í etanól. Örverur geta nýst til að umbreyta mjólkursykursvökva í etanól og sýndu rannsóknir Matís að langvirkasta örveran til þess var gersveppur sem hafði áður verið einangraður úr skyri og var varðveittur í stofnasafni Matís. Hefur gerillinn mikla virkni bæði í hlutlausu umhverfi ostamysunnar og súru umhverfi skyrmysunnar. Gerillinn umbreytir laktósanum að fullu í etanól og hefur þessi öflugi stofn fengið nafnið Kluyveromyces marxianus Islandicus. Vænta má mikillar verðmætasköpunar með framleiðslu á etanólinu þegar búið verður að koma því í íslenskar áfengisvörur á markaði en þær eru nú framleiddar með innfluttum spíra. Þannig geta vörurnar verið að fullu framleiddar með íslensku hráefni. Að auki gefur þetta vonir um að hægt verði að bjóða erlendum samstarfsaðilum í skyrframleiðslu upp á heildarlausn með því að framleiða etanól úr hliðarafurð skyrframleiðslunnar, auka þannig virði framleiðslunnar og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

  1. Grænmeti og korn 

Áhersla verkefna sem tengdust grænmeti á árinu 2020 var á að greina gæði og hollustu innlendrar framleiðslu og bera saman við innfluttar vörur. Með þessu móti er leitast við að benda á styrkleika íslensks grænmetis en jafnframt að finna tækifæri fyrir nýbreytni og aukna framleiðslu. Leitast er við að ná til grænmetisframleiðslu um allt land. Samstarfsverkefni um íslenskt bygg hafa verið unnin á undanförnum árum og hefur áherslan verið á að auka virði innlendu framleiðslunnar með því að nýta hluta hennar til matvælaframleiðslu. Einnig er aukin sjálfbærni lykilatriði þegar innlent bygg er nýtt í stað innflutnings. Á árinu var unnið verkefni um hagnýtingu íslensks byggs í viskígerð í samstarfi við viskíframleiðanda og Háskóla Íslands og út komu tvær greinar um sjálfbærni í bjórframleiðslu. 

  1. Uppsjávarfiskur 

Frá stofnun hefur Matís unnið náið með sjávarútvegsfyrirtækjum að því markmiði að hámarka verðmæti alls þess hráefnis sem verður til við uppsjávarveiðar. Árið 2020 var rík áhersla lögð á að vinna verkefni í samstarfi við lykilaðila í iðnaðnum. Á árinu lauk verkefnum er snúa að rannsóknum á nýtingarmöguleika makríls í flakaafurðir á meðan hann er innan íslensku lögsögunnar en það reyndist vel mögulegt. Ásamt því hefur framleiðsla roðskorinna makrílflaka verið skoðuð, sem og nýting á makrílroði til framleiðslu verðmætra afurða. Nýting á dýrasvifi hér við land hefur verið skoðuð af Matís en gríðarleg tækifæri felast í vinnslu á dýrasvifi sem hingað til hefur verið ósnert auðlind hér á landi. Á komandi árum munu Matís og samstarfsaðilar vinna að því að gera það mögulegt að fullvinna verðmætar afurðir úr dýrasvifi, sem berst til lands sem aukahráefni eða sem meðafli frá uppsjávarfisksveiðum. Mjöl- og lýsisframleiðsla skipar stóran sess í verðmætasköpun uppsjávariðnarins og hefur Matís unnið að því að besta þá framleiðslu svo hámarksnýting náist en einnig hefur verið unnið að því að nýta hráefnið í verðmætari afurðir sem nýta má t.d. beint í matvælaframleiðslu. Nú eru erfðafræðilegar aðferðir í þróun innan Matís sem munu skila aukinni þekkingu á aðskilnaði síldarstofna í Norður-Atlantshafi og stuðla að bættri fiskveiðistjórnun. Einnig eru í þróun aðferðir til að finna og rekja loðnu með umhverfis DNA og þannig auka þekkingu á breyttri dreifingu hennar sem mun auðvelda og bæta stofnstærðarmat loðnu á íslenskum hafsvæðum. Síðast en ekki síst hefur verið unnið að því að safna saman þekkingu Matís á vinnslu og veiðum uppsjávarafla sem verður miðlað til uppsjávariðnaðarins í formi handbókar. Það er mikilvægur hluti í því að samræma vinnslu hér á landi þannig að hámarksnýting og verðmætasköpun náist.  

  1. Botnfiskur 

Á árinu 2020 voru rannsóknaáherslur Matís fyrir botnfisktegundir á frekari nýtingu vannýttra hráefna og að bæta ferla innan virðiskeðjunnar. Þessi verkefni hafa verið unnin í nánu samstarfi við stóran hóp fyrirtækja í sjávarútvegi. Framkvæmdar voru greiningar til að bæta nýtingu og auka verðmætasköpun úr hliðarhráefnum bolfiskvinnslu, m.a. var í rannsóknaverkefnum lagt mat á nýtingu kolmunna til manneldis og vöruþróun til að auka verðmæti þorskhausa. Einnig var stuðlað að aukinni nýtingu próteina, bæði úr ýmsum hliðarhráefnum hvítfiskvinnslu sem og próteina sem hægt er að vinna úr vatni sem notað er við fiskvinnslu. Niðurstöður þessara verkefna benda til þess að enn liggi mikil tækifæri í að fanga verðmæti úr vannýttu hráefni bolfiskvinnslna með tiltölulega einföldum og hagkvæmum aðferðum. Áhersla var lögð á að bæta saltfiskferla í verkefnum ársins og áframhaldandi þróun á tækni við meðhöndlun ferskfisks um borð í vinnsluskipum, þ.m.t. að auka möguleika á sjálfvirknivæðingu ferla. Þessi verkefni hafa skilað sér í bættum gæðum botnfiskafla og auknum stöðuleika afurða. Nokkur verkefni höfðu það að leiðarljósi að greina möguleika til virðisaukningar með auknum sýnileika og upplýsingagjöf í virðiskeðju botnfisks með því að virkja þær tæknilausnir sem fyrir eru á markaðinum eða þróa nýjar og spennandi lausnir með það að markmiði að auka gagnafæði innan virðiskeðjunnar, alla leið til neytenda. Matís hefur einnig komið að verkefnum tengdum skelfiski og skelfiskafurðum svo sem upplýsinga- og gagnaöflun um nýtingu ígulkera ásamt hagnýtingu sæbjúgna á norðurslóðum. 

  1. Fiskeldi 

Matís hefur yfir að ráða góðri aðstöðu og öflugu liði sérfræðinga á sviði fiskeldisrannsókna, þá sér í lagi hvað varðar fóðurrannsóknir og atferli fiska. Þessi hluti starfsemi Matís hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum samhliða vaxandi fiskeldi. Fiskeldi gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að því að tryggja fæðuöryggi heimsins, sem og í verðmætasköpun og byggðaþróun hér á landi. Fiskeldisframleiðsla Íslendinga hefur fimmfaldast á undanförnum fimm árum og útlit er fyrir að svipaður vöxtur muni eiga sér stað á næstu fimm árum. Ef það gengur eftir má búast við að lax fari fram úr þorski sem mikilvægasti nytjastofn okkar. Matís hefur lagt áherslu á að styðja við þessa atvinnugrein eftir besta megni og leitað eftir víðtæku samstarfi við greinina. Sérstaklega hefur fyrirtækið beint sjónum að fóðurrannsóknum, en einnig að ræktun- og erfðum, atferli, þarmaflóru, vinnslu, vöruþróun, pakkningum, flutningum o.s.frv. Þess utan býður Matís upp á ýmiskonar ráðgjöf og mælingar er varða matvælaöryggi. 

Matís hefur átt í góðu samstarfi við innlend og alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir þá þessu sviði. Matís hefur skipað sér á stall þeirra fyrirtækja og stofnana í Evrópu sem eru leiðandi í rannsóknum og þróun á nýjum próteinum til notkunar í fiskeldisfóður. Má í því samhengi nefna skordýraprótein, prótein frá einfrumungum, smáþörungum og þara. Matís rekur litla tilraunaeldisstöð, sem í daglegu tali er kölluð MARS (Matís Aquaculture Research Station), en þar eru þrjú fiskeldiskerfi sem saman standa af tveimur lokuðum kerfum (RAS – Recirculation Aquaculture System) og einu gegnumstreymiskerfi. Í kerfunum er unnt að ala fiska á mismunandi lífsskeiðum og stýra öllum aðstæðum. Í MARS er framleitt fóður og framkvæmdar fóðurtilraunir á ýmsum fiskeldistegundum þ.m.t. á Atlantshafs lax, beitarfiski (tilapia), bleikju, regnbogasilungi, hvítleggjarækju og ostrum. Þegar kemur að fóðurrannsóknum og fóðurtilraunum hefur Matís töluverða sérstöðu á markaði þar sem fyrirtækið getur einnig boðið upp á gæða-, efna- og örverumælingar, skynmat, sérfræðiþekkingu í tengslum við erfðafræði, vinnslu, vöruþróun, pakkningar, flutninga o.s.frv. Þessi sérstaða hefur gert Matís að eftirsóttum samstarfsaðila í rannsóknaverkefnum og mörg stærstu fyrirtæki heims í fóðurgerð og fiskeldi kaupa nú fóðurtilraunir og aðra sérfræðiþjónustu hjá Matís. Auk þess kemur Matís að verkefni um þróun lausna til að auka ræktun á lágtrófískum tegundum, svo sem þangi, sæeyrum og ígulkerjum, og eflingu sjálfbærra ferla með innleiðingu á samþættum fiskeldiskerfum (Integrated Multi-Trophic Aquaculture) þar sem mismunandi tegundir eru ræktaðar saman. 

  1. Þörungar 

Á Íslandi eru stórþörungar vannýttur lífmassi sem nota má á sjálfbæran hátt til verðmætasköpunar. Áhugi innlendra aðila á nýtingu þörunga fer vaxandi og leita þeir í auknum mæli eftir stuðningi og samstarfi við Matís. Matís hefur um árabil lagt áherslu á rannsóknir á stórþörungum og unnið að hagnýtingu þeirra. Til þess að stuðla að hámarksnýtingu, verðmætasköpun og tryggja sjálfbærni hefur Matís unnið að því að koma á sameiginlegum gæðaviðmiðum fyrir uppskeru og vinnslu þangs og þara (brúnþörunga) sem og uppbyggingu þekkingargrunns innihaldsefna valinna tegunda með tilliti til árstíðasveiflna og breytileika eftir uppskerusvæðum. Stórþörungar innihalda snefilefni sem eru mikilvæg mannslíkamanum en geta reynst hættuleg ef styrkur þeirra í matvælum eða fóðri er hár. Joð innihald mismunandi þangtegunda hefur verið magngreint og aðferðir þróaðar til að draga úr styrk joðíðs í þangi fyrir framleiðslu matvæla og fóðurs. Möguleikar þangs sem fóðurbætir fyrir mjólkurkýr og nautgripi voru rannsakaðir til að draga úr losun metans í andrúmsloftið og einnig voru þróaðar aðferðir til að gerja þang og nýta súrþangið sem heilsubætandi fóðurbæti í fiskeldi. Unnið var að þróun heilsusamlegra bragðefna úr þörungum í matvæli með það að mark miði að bæta lýðheilsu og að þróun andoxunarefna úr stórþörungum og nýtingu þeirra í snyrtivörur. Stundaðar voru rannsóknir og þróun á ensímum og frumusmiðjum sem umbreyta flóknum þangsykrum í ýmis konar efni, t.d. eldsneyti fyrir ökutæki og lífplast fyrir t.d. matvæli. Verkefnunum er ætlað að stuðla að nýsköpun og hjálpa fóður, matvæla- og líftæknifyrirtækjum að koma nýjum vörum á markað.  

Mikill áhugi hefur skapast á ræktun smáþörunga, sem er grein sem nýtir auðlindir sem Ísland er þekkt fyrir, svo sem umhverfisvænt rafmagn og hreint vatn. Smáþörunga er hægt að nýta á ýmsan hátt, svo sem til framleiðslu á lífvirkum efnum. Matís kom að tveimur samstarfsverkefnum á árinu 2020 þar sem smáþörungar eru ræktaðir til framleiðslu á nýjum próteinum í fæðu og fóður og þróunar náttúrulegs litarefnis sem er stöðugt við krefjandi aðstæður. 

  1. Líftækniiðnaður 

Eitt af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að uppbyggingu sjálfbærra atvinnuvega og hlúa að nýsköpun. Matís hefur fylgt þessu markmiði eftir m.a. með því að vinna að rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum líftækni til að renna stoðum undir framtíðar líftækniiðnað á Íslandi sem hefur farið ört vaxandi undanfarin ár. Við stofnun Matís vann líftæknihópur Matís nær eingöngu að rannsókna- og þróunarverkefnum. Nú leita líftæknifyrirtæki í auknum mæli til Matís varðandi ráðgjöf og þjónustu enda eru markmið líftæknihóps Matís að stuðla að nýsköpun með uppbyggingu líftækni á Íslandi og hjálpa líftæknifyrirtækjum að hasla sér völl í íslensku atvinnulífi. Á síðasta ári vann Matís t.d. með líftæknifyrirtækjum að þróun vinnsluferla og afurða, framkvæmd virknimælinga og sýnagerð. Enn fremur veitti Matís þjónustu sem tengd er erfðatækni, þ.e. klónun gena og raðgreiningu erfðamengja. Matís hefur lengi stundað rannsóknir og þróun á ensímum úr hita- og kuldakærum örverum og frumusmiðjum sem umbreyta sykrum í verðmæt efni enda er Matís þekkt fyrir þekkingu sína á því sviði. Á síðast liðnu ári var sérstök áhersla lögð á ensím sem umbreyta flóknum sjávarsykrum t.d. í líf- og lyfjavirk efni og litarefni. Enn fremur var unnið að gerð verkfæra til notkunar í erfðatækni, þ.e. hitakærrar útgáfu af CrispR kerfinu sem umbylt hefur erfðarannsóknum um allan heim á undanförnum árum. Líklegt er að slíkt hitakært kerfi muni auðvelda erfða- og líftæknirannsóknir enn frekar í framtíðinni. Fyrir utan verkefni tengd líftækniiðnaðinum vann Matís að fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum sem tilheyra öðrum þjónustuflokkum, þar sem aðferðfræði líftækninnar var beitt. Má þar nefna verkefni tengdum korni, fiskeldi, þara og skelfiski, og umhverfisrannsóknum. 

  1. Umhverfisrannsóknir 

Nokkur fjölbreytileiki var á eðli umhverfistengdra rannsókna- og þróunarverkefna hjá Matís árið 2020. Þar ber helst að nefna verkefni tengd loftslagsmálum og plastmengun í hafi, efnamælingar á íslensku sjávarfangi, auk örverurannsókna. Innan loftslagsmála var megináhersla lögð á aðlögun sjávarútvegs að loftslagsbreytingum en á árinu kláraðist verkefni þar sem. Matís þróaði aðferðafræði til að setja upp aðlögunaráætlun fyrir sjávarútveg og fiskeldi. Auk þess hófst vinna við að meta áhrif endurnýjunar íslenska fiskiskipaflotans á kolefnisspor íslenskra sjávarafurða með hjálp vistferilsgreininga í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki um allt land.  

Plastmengun var tekin fyrir á árinu og má þar nefna hugmyndasmiðju um lausnir á plastvandanum (Plastaþon) og útgáfu kennsluefnis um plastmengun í hafi á norðurslóðum sem nýtast mun sem kennsluefni í grunnskólum landsins og annarra norðurlanda. Þar að auki var efnainnihald íslenskra þörunga rannsakað til að meta mögulega getu þeirra til að draga úr metanframleiðslu jórturdýra. Rannsóknir á fjölbreytileika sjávarörvera hafa aukist undanfarin ár en litlar upplýsingar eru til um örverur í hafinu umhverfis Ísland. Matís hefur í samstarfi við Hafrannsóknastofnun rannsakað örverufjölbreytileika í sýnum (umhverfis DNA) frá sýnatökustöðvum í kringum landið til að kanna hvaða áhrif hlýnun andrúmslofts og súrnun sjávar hafa á örverufjölbreytileika og efnahringrásir í sjónum. Niðurstöður sýna að munur er á örverusamfélögum fyrir norðan og sunnan land og að undirstaða fæðukeðjunnar í sjónum, frumbjarga örverur, eru mun fjölbreyttari og dreifðari en áður var talið. Auk ofangreindra verkefna stóð Matís, ásamt Hafrannsóknastofnun, að ráðstefnu um notkun umhverfis DNA (eDNA) til vöktunar á líffræðilegum fjölbreytileika í sjó og ferskvatni. Vaxandi áhersla var á framþróun á eDNA aðferðafræðinni en notkun hennar getur haft umtalsverð áhrif, t.a.m. við vöktun á áhrifum sjókvíaeldis á botndýralífríki við kvíar, kortlagningu nýrra tegunda, mat á stofnstærðum fiska og loðnuleit.  

  1. Nýsköpun, frumkvöðlar og menntastofnanir 

Í þessum flokki eru verkefni sem einkum stuðla að aukinni þekkingu og færni einstaklinga með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlaþjálfun. Á árinu 2020 voru meðal annars haldin rafræn nýsköpunarnámskeið sem lögðu áherslu á þjálfun ungs fólks á sviðum eins og bættri nýtingu í matvælaframleiðslu og verðmætasköpun úr hliðarafurðum matvælavinnslu. Fræðsluefni sem miðlar upplýsingum um hvernig matvælavísindi, tækni og nýsköpun geta aukið sjálfbærni í matvælaframleiðslu var útbúið með gerð sýndarveruleikamyndbanda. Vinnustofa um tækifæri tengdum ræktun þörunga var haldin, þar sem nemendum, frumkvöðlum og fulltrúum fyrirtækja var boðin þátttaka. 

  1. Stjórnsýsla 

Nokkur verkefni Matís eru sérstaklega talin nýtast stjórnsýslu og yfirvöldum við ákvarðanatöku. Verkefni sem falla í þennan flokk eru fjölbreytt og dæmi um slík verkefni sem voru unnin árið 2020 eru greiningar á því hvernig hægt sé að efla og styðja betur við bláa lífhagkerfið, skoðun á kostum og göllum rafræns eftirlits með fiskveiðum, greining á neysluhegðun sem drifkrafti í matarferðaþjónustu, mat á mögulegum breytingum á norrænum fæðukerfum vegna aukinnar sjálfbærni og breyttum neyslumynstrum í kjölfar Covid-19. Mörg þessara verkefna eru unnin innan norræns, norðurslóða og evrópsks samstarfs. Í þessum flokki eru einnig verkefni sem falla undir formennsku Íslands í Norðurskautsráði og Norrænu ráðherranefndinni. 

  1. Þróunaraðstoð 

Á árinu 2020 tók Matís þátt í fjórum verkefnum sem eru hluti af þróunaraðstoð Íslands. Samstarf við Sjávarútvegsskólann (GRÓ-FTP, áður UNU-FTP) hélt áfram og stýrir Matís gæðastjórnunarlínu skólans. Á fyrsta fjórðungi ársins luku fimm nemendur 6 mánaða námi á gæðastjórnunarlínu en vegna Covid-19 var frekari kennslu frestað. Unnið var að hönnun og uppbyggingu reykaðstöðu fyrir fisk í sjávarbyggðinni Tombo í Síerra Leóne, uppbyggingu rannsóknastofu fyrir matvælarannsóknir í Líberíu og uppsetningu jarðhitaþurrkara til matvælavinnslu í Kenía. Öll þessi verkefni hafa tafist vegna Covid-19 en verður haldið áfram þegar takmörkunum verður aflétt. 

Þjónustumælingar

Rannsóknastofa Matís býður upp á örveru- og efnarannsóknir á matvælum, vatni, hráefnum, lyfjum, fóðri og umhverfissýnum. Matís hefur faggildingu fyrir stórum hluta þeirra aðferða sem notaðar eru.

Efnamælingar 

Mikilvæg áhersluefni í efnamælingum eru samsetning hráefnis og afurða í matvælavinnslu og fóðurgerð og þær breytingar á gæðum þeirra og öryggi sem verða við vinnslu og geymslu t.d. næringargildi, geymsluþol og stöðugleiki. Fjölbreyttar efnamælingar voru framkvæmdar hjá Matís á árinu 2020, m.a. almennar efnamælingar (prótein, fita, salt, vatn, aska o.fl.) og mælingar á stein- og snefilefnum. Hjá Matís eru einnig framkvæmdar varnarefnamælingar í ávöxtum, grænmeti og kornvöru, alls 192 mismunandi varnarefni. Finna má upplýsingar um niðurstöður mælinga á varnarefnaleifum ávaxta og grænmetis á heimasíðu MAST undir ársskýrslu hvers árs. Gæðamælingar á fiski og fiskafurðum voru framkvæmdar á nýveiddum fiski sem kemur beint úr skipi á rannsóknastofu Matís í Neskaupstað. Mikilvægt er að hafa rannsóknastofu steinsnar frá helstu uppskipunarhöfnum á uppsjávarfiski á landinu. Matís framkvæmdi einnig mælingar fyrir framleiðendur til að tryggja réttar merkingar um næringargildi á matvöru þeirra.

Frekari upplýsingar

Örverumælingar 

Á örverudeild Matís eru framkvæmdar rúmlega 50 mismunandi örverumælingar. Til dæmis kemur mikið magn neysluvatnssýna frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, fyrirtækjum og einkaaðilum.  Nauðsynlegt er að tryggja að neysluvatn uppfylli öryggis- og gæðakröfur þar sem það er notað til drykkjar og við framleiðslu matvæla.  Matís fær líka mikið magn af matvælum til rannsókna, en þau eru rannsökuð vegna innra gæðaeftirlits fyrirtækja og vegna krafna frá kaupendum vörunnar. Eins ef ný vara er sett í framleiðslu þá fær Matís sýni til mælinga til að kanna hvaða geymsluþol er hægt að gefa viðkomandi vöru. Matís þjónustar einnig lyfja- og snyrtivöruframleiðendur sem hluta af þeirra innra gæðaeftirliti. 

Ef upp kemur matarsýking vegna neyslu matvæla hefur örverudeild Matís það hlutverk að leita að hugsanlegum uppruna matarsýkingarinnar í þeim sýnum sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna taka. Matís býr yfir getu til að raðgreina og bera saman erfðamengi sjúkdómsvaldandi örvera en slík tækni hefur verið að ryðja sér rúms við upprunagreiningar matarsýkinga.  

Á starfsstöð Matís í Neskaupstað voru örverumælingar að mestu á sjúkdómsvaldandi örverum (t.d. E. coliSalmonellu og Listeriu) á iðragerlum og heildargerlafjölda í matvælum fiskimjöli og neysluvatni. Fyrirferðamestar voru mælingar á uppsjávarfiski (síld og makríl) ásamt loðnuhrognum. Hins vegar er fjölbreytni sýna sífellt að aukast og komu fleiri sýni til mælinga frá bændum sem framleiða eigin matvæli árið 2020 en fyrri ár, m.a. á geitamjólk og sauðamjólk.

Frekari upplýsingar

 

Matarsmiðja, ráðgjöf, fræðsla og þjálfun

 

Matís rekur matarsmiðju til að aðstoða frumkvöðla í matvælavinnslu. Þar er aðstaða til fjölbreyttrar matvælavinnslu og notendur nýta til að framleiða vörur sínar samkvæmt útgefnu leyfi heilbrigðisyfirvalda. Á árinu 2020 nýtti á annan tug framleiðenda sér aðstöðu matarsmiðjunnar og unnu þar í samtals 494 daga við að þróa og framleiða fjölbreyttar vörur. 

Matís veitir frumkvöðlum, fyrirtækjum, stofnunum og samtökum ráðgjöf á sviðum sem falla undir sérfræðiþekkingu starfsmanna þess. Matís hefur m.a. unnið fýsileikagreiningar, komið að vöruþróun, vinnsluhönnun og upplýsingaöflun fyrir viðskiptavini sína. Matís gefur út og miðlar fjölbreyttu fræðsluefni, svo sem fiskbókinni og kjötbókinni sem finna má á netinu, og stendur fyrir námskeiðum og þjálfun, t.d. vefnámskeiðum á síðunni matis.online.

Stuðningur við stjórnvöld og nefndarstörf

 

Í samræmi við þjónustusamning veitir Matís stjórnvöldum ráðgjöf og sérfræðingar fyrirtækisins taka þátt í störfum nefnda og vinnuhópa, svara fyrirspurnum, gefa umsagnir og álit á reglugerðum og lagafrumvörpum sem varða hlutverk Matís.

Helstu verkefni starfsmanna Matís ársins 2020 í nefndum og vinnuhópum voru: 

  • Þátttaka í mótun matvælastefnu fyrir Ísland   
  • Seta í Vísinda- og tækniráði 
  • Seta í fagráði Hafrannsóknastofnunar 
  • Seta í samráðshóp um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni 
  • Þátttaka í starfshóp um matarsóun 
  • Seta í ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur

Einnig var unnið að því að efla og styðja aðkomu íslenskra aðila í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi og verja hagsmuni Íslands á erlendum vettvangi. Sérstaklega ber að nefna vinnu á vegum Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) en Matís er samþykkt sem Article 36 stofnun af EFSA. Einungis stofnanir sem eru með viðamikinn vísindalegan þekkingargrunn á sviði matvælaöryggis og áhættumats, ásamt því að vera faglega sjálfstæðar og stunda rannsóknir sem tengjast matvælaöryggi eiga möguleika á samþykki EFSA. Sérfræðingur Matís hefur unnið í starfshópi EFSA um flutning ferskra fiskafurða. Á þeim vettvangi hefur Matís unnið sérlega mikilvægt starf gegnum árin með því að vinna að hagsmunum íslenskra útflutningsaðila á sjávarfangi. Þessi vinna hefur leitt af sér aukna vitund um hvaða reglur gilda fyrir flutning á heilum, ferskum fiski og eins hvaða reglur eru væntanlegar. Einnig höfum við í gegnum þessa vinnu getað komið íslenskum sjónarmiðum að og komið í veg fyrir útilokun á notkun okkar tækni. 

Sem dæmi um aðra aðkomu Matís á þessu sviði frá 2020 má nefna: 

  • Setu í matvæla- og umhverfisstjórnarnefndum rannsóknaáætlana Evrópu (Societal Challenges 2 og 5, Horizon 2020) 
  • Setu í skuggastjórnarnefnd fyrir Horizon Europe rannsóknaáætlunina, Cluster 6 (fæða, lífhagkerfi, náttúruauðlindir, landbúnaður og umhverfi) 
  • Setu í stjórnar- og vísindanefnd rannsóknaáætlunar Bio-Based Industries (BBI) Evrópu (BBI Horizon 2020) 
  • Vinnu í AG-Fisk, starfshópi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem mótar rannsóknir og samstarf milli Norðurlandanna, þar á meðal NordForsk og Nordic Innovation
  • Þátttöku í norrænni nefnd um greiningaaðferðir á matvælum (NMKL) 
  • Setu í norrænni nefnd um rannsóknir tengdum landbúnaði og matvælum (NKJ)
  • Þátttaka í starfshópi Atlantic Ocean Research Alliance (AORA) um gerð stefnuskjals: Marine Microbiome Roadmap

Öryggis- og forgangsþjónusta á sviði matvæla

Matís gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla og hefur verið tilnefnt sem tilvísunarrannsóknarstofa (TVR) á eftirfarandi 11 sviðum: 

  1. Greining og prófun vegna sjúkdóma sem berast milli manna og dýra svk. zoonur á sviði Salmonella í matvælum 
  2. Vöktun á sjávarlífeitri 
  3. Rannsóknir á Listeria monocytogenes  
  4. Rannsóknir á kóagúlasa-jákvæðum klasakokkum, þ.m.t. Stapylococcus aureus  
  5. Rannsóknir á Escherichia coli, þ.m.t. verótoxínmyndandi E. coli (VTEC) sem mynda verósýtótoxín 
  6. Rannsóknir á dýrapróteini í fóðri 
  7. Rannsóknir á varnarefnaleifum 
  8. Rannsóknir á þungmálmum í fóðri og matvælum 
  9. Rannsóknir á náttúrueitrum (m.a. sveppaeiturefni) 
  10. Rannsóknir á efnum sem myndast við framleiðslu 
  11. Rannsóknir á þrávirkum lífrænum efnum í matvælum og fóðri 

Til þess að rannsóknastofur geti hlotið tilnefningu sem TVR þurfa þær að hafa faggildingu á viðkomandi rannsókna- eða prófunarsviði. TVR verður að geta sýnt fram á að mælingar á viðkomandi sviðum séu gerðar í samræmi við alþjóðlegar opinberar og vottaðar mæliaðferðir. Einnig er TVR skuldbundin til að veita öðrum rannsóknastofum aðstoð og leiðbeiningar við tilgreindar mælingar, hvort sem rannsóknastofurnar eru einkareknar eða opinberar. Matís er skylt að taka þátt í samanburðarprófum skipulögðum af tilvísunarrannsóknastofum Evrópusambandsins (EURL) ásamt árlegum fundum skipulögðum af EURL þar sem farið er yfir helstu nýjungar í mæliaðferðum, yfirvofandi breytingar á hámarksgildum í reglugerðum á sviði hverrar tilvísunarrannsóknarstofu o.fl. TVR er skylt að miðla þessum upplýsingum til hagaðila, þ.e. til lögbærra yfirvalda á sviði matvælaöryggis (Matvælastofnunar og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis) sem og tilnefndra opinberra rannsóknastofa. 

Í lok 2020 var skrifað undir nýjan þjónustusamning við ANR til þriggja ára um rekstur tilvísunarrannsóknastofa og öryggis- og forgangsþjónustu á sviði matvæla. Markmið samningsins er meðal annars að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna.

Vöktun á óæskilegum efnum í sjávarfangi

Haldgóð gögn eru nauðsynleg á hverjum tíma og því þarf stöðuga vöktun á ástandi íslenskra matvæla og samanburð við sambærileg erlend matvæli sem seld eru hérlendis.

Íslenskt sjávarfang hefur t.d. lengi verið markaðssett með áherslu á hreinleika og heilnæmi þess. Fullyrðingar um það duga hins vegar skammt, nauðsynlegt er að styðja þær með áreiðanlegum gögnum frá óháðum aðila. Slík gögn geta liðkað til fyrir markaðssetningu og sölu íslenskra afurða á krefjandi erlendum mörkuðum þar sem kröfur um gæði og öryggi endurspeglast í afurðaverðinu. 

Teknar hafa verið saman niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs 2020 (Matís skýrsla 01-21). Markmið verkefnisins er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggis og heilnæmis og að nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum og er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem stöðug útvíkkun og endurskoðun er nauðsynleg. 

Almennt voru niðurstöðurnar sem fengust árið 2020 í samræmi við fyrri niðurstöður frá árunum 2003 til 2012 sem og 2017 til 2019. Niðurstöður ársins 2020 sýndu að öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma og að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna (díoxín og PCB), varnarefna og þungmálma (kadmíum, blý og kvikasilfur).

Matís um land allt  

Matís gegnir mikilvægu hlutverki í verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi um land allt í öflugri samvinnu við stóran hóp samstarfsaðila. 

Nær hvert einasta rannsókna- og þróunarverkefni Matís er unnið annað hvort í beinu samstarfi við aðila utan höfuðborgarsvæðisins eða stuðlar með öðrum hætti að uppbyggingu og verðmætasköpun á landsbyggðinni. 

Starfsstöðvar Matís eru fimm, í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum. Ekki var fastur starfsmaður í Vestmannaeyjum á árinu en Matís er í góðu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Að auki er einn starfsmaður Matís með fasta aðstöðu í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. 

Áherslur starfsstöðva Matís 

Megintilgangur starfsstöðva á landsbyggðinni er að efla tengslin við atvinnulíf og hagsmunaaðila. Áhersla hefur verið lögð á fiskeldi á Vestfjörðum, vinnslutækni og bolfiskveiðar á Norðurlandi og uppsjávarveiðar/-vinnslu á Austurlandi. Auk þess hafa starfsmenn Matís verið með aðstöðu í Vestmannaeyjum til að tryggja samvinnu við fyrirtæki og koma að þeirri uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu og starfsmaður Matís á Hvanneyri sinnir einkum landbúnaðartengdum rannsóknum.

Vestfirðir: Eldissetur

  • Eldistækni; fóðurgerð, fóðrun, afurðarvinnsla, hliðarstraumar, umhverfismál.
  • Upplýsingaöflun; umhverfismál, atvinnumál, byggðamál, verðmætasköpun.
  • Háskóla-, mennta- og fræðslusetur.
  • Tækniþróun: búnaður og tækni til að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi og eldi.

Norðurland: Vinnslutækni-vettvangur

  • Vinnslutækni og líftækni í matvælavinnslu með áherslu á bolfisk og landbúnaðarvörur.
  • Upplýsingatækni, gagnaúrvinnsla, sjálfvirknivæðing og hagnýting tækifæra fjórðu iðnbyltingarinnar.
  • Tæknivettvangur fyrir þróun og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Austurland: Uppsjávarvinnsla og hráefnisstraumar

  • Uppsjávarsmiðja, þróunarsetur fyrir uppsjávarfisk og hliðarstrauma sjávarafurða.
  • Mæliþjónusta.
  • Afurðaþróun – fóður

Efling starfsstöðva Matís á landsbyggðinni 

Árið 2020 gerði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sérstakan samning við Matís um frekari eflingu á starfsemi fyrirtækisins á landsbyggðinni í samræmi við stefnumótun ráðherra um fjölgun starfa og aukna verðmætasköpun á landsbyggðinni. Samningurinn gerir Matís kleift að auka samstarf við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla á landsbyggðinni og færa starfsemi sína og þjónustu nær viðskiptavinum þess. 

Á starfsstöð Matís á Akureyri fara fram rannsóknir, þróun og nýsköpun í samstarfi við fyrirtæki á Norðurlandi, Háskólann á Akureyri og aðrar stofnanir á svæðinu. Til stendur að efla frekar samstarf við iðnaðinn á svæðinu með stofnun Þróunarvettvangs þar sem unnið verður að þróun tæknilausna í matvælaframleiðslu. Þrír starfsmenn Matís eru staðsettir á Borgum á Akureyri og fjölgaði stöðugildum þar um tvö á árinu 2020.  

Starfsstöð Matís í Neskaupstað sinnir verkefnum á sviði þjónustumælinga, þróunar og rannsókna. Breytingar urðu á starfsemi starfsstöðvarinnar á árinu 2020 þar sem verkefnastjóri var ráðinn með það að markmiði að auka samvinnu við fyrirtæki á Austurlandi í þróunar- og rannsóknastarfi. Einnig hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu lífmassavers (uppsjávarsmiðju) í samstarfi við uppsjávariðnaðinn sem staðsettur er á svæðinu. Hluti af uppbyggingu uppsjávarsmiðjunnar fól í sér uppbyggingu innviða á Austurlandi og hafa tæki verið keypt sem mynda  kjarna versins. Á árinu 2021 mun starfsstöð Matís í Neskaupstað flytja í nýtt húsnæði sem ber heitið Múlinn Samvinnuhús. Í húsinu verða einnig atvinnuþróunarfélag, opinberar stofnanir og fyrirtæki. Ný húsakynni munu efla enn frekar samstarf Matís við aðila á svæðinu og styðja betur við atvinnugreinar svæðisins.    

Starfsstöð Matís á Vestfjörðum er ætlað að vera miðstöð þekkingar og samskipta við eldisgreinina hvað varðar alla þætti fiskeldis þ.m.t. tækninýjungar, kynbætur, sjúkdóma, fóður, vinnslu, vöruþróun, pakkningar, flutningar o.s.frv. Matís hefur átt farsælt samstarf við Skaginn 3X í þróun og rannsóknum á vinnslutækni, en fyrirtækið rekur framleiðslueiningu á Ísafirði. Saman hafa Matís og Skaginn 3X þróað nýjungar til að bæta blæðingu á villtum og eldisfiski, uppþýðingu á frosnu hráefni, þróað ofurkælingu sem hefur bætt afurðagæði og líftíma vöru umtalsvert og rannsakað áhrif dauðastirðnuna á gæði laxaafurða. Í dag standa yfir rannsóknir og þróun á nýrri tegund af dælu, „Value-Pump“ til að meðhöndla lifandi eldisfisk til að lágmarka streitu og auka velferð fiska. Starfsstöð Matís á Vestfjörðum hefur tekið að sér framkvæmdastjórn á ráðstefnu ræktunar og eldis á Íslandi; Lagarlíf (áður Strandbúnaður). Markmiðið er að tryggja frekari samvinnu við vaxandi atvinnugrein sem byggir á hátækni og kallar á margskonar lausnir til framtíðar. 

Rannsóknasamstarf við menntastofnanir

Matís gegnir veigamiklu hlutverki við að tengja menntastofnanir og vísindarannsóknir saman við atvinnulífið.

Matís gegnir veigamiklu hlutverki við að tengja menntastofnanir og vísindarannsóknir saman við atvinnulífið. Nemendur í meistara- og doktorsnámi hljóta menntun og þjálfun á sviði rannsókna og nýsköpunar hjá Matís og þannig þjálfast upp leiðandi starfsmenn og ný þekking, ferlar og afurðir verða til hjá fyrirtækjum. Nemendur koma frá Íslandi en einnig mörgum öðrum löndum, svo sem Frakklandi, Danmörku, Sviss, Bretlandi, Suður Afríku, Gana, Víetnam, Grænhöfðaeyjum og Indónesíu. 

Flestir nemendanna í meistaranámi voru við Háskóla Íslands í greinum tengdum sjávarútvegs- og landbúnaði. Ellefu í matvælafræði og fimm í verkfræðigreinum. Öll verkefni meistara- og doktorsnema eru unnin í samstarfi við fyrirtæki, háskóla og rannsóknastofnanir. Matís er samstarfsaðili um kennslu í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (GRÓ-FTP) þar sem áhersla er lögð á hagnýta þekkingu. Matís leggur þannig sitt af mörkum til þróunarhjálpar. 

Öflugur rannsókna- og nýsköpunarkjarni í fiskvinnslu hefur þróast í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni. Tveir starfmenn Matís, annar í Neskaupstað og hinn í Reykjavík vörðu doktorsritgerðir í matvælafræði á árinu, annars vegar um eiginleika og verðmætasköpun úr rauðátu og hins vegar um geymsluþol, efna- og vinnslueiginleika makríls sem veiddur er á hafsvæðinu kringum Ísland. Tveir aðrir nemendur eru langt komnir með doktorsverkefni sín. Annar starfar hjá Matís á Akureyri og hinn vinnur að verkefni sínu í Reykjavík og Neskaupstað. Verkefni þeirra eru um nýsköpun í virðiskeðju botnfisks og um endurhönnun fiskmjölsvinnsluferils til að hægt sé að framleiða prótein og fiskolíu til manneldis. 

Dæmi um nemendaverkefni tengd sjávarútveginum:  

Lífvirkni afurða úr rauðátu, efna- og vinnslueiginleikar olíu í dýrasvifi og uppsjávarfiskum, aðferðir við forkælingu og kælingu við vinnslu og dreifingu á ferskum fiski, áhrif krapaís og tímabundinnar kæligeymslu á hitastig í þorski í ferskfiskvinnslu og þrívíddarprentun á sjávarfangi. 

Dæmi um nemendaverkefni sem tengjast landbúnaði: 

Þróun á skyrdufti í skyndidrykki, þróun afurða og markaða fyrir hrossakjöt, bætt nýting á íslensku byggi til bruggunar. 

Dæmi um líftækniverkefni tengd þang- og þaravinnslu: 

Ensím-umbreytingar á fjölsykrum sem auka lyf- og lífvirkni afurða, þróun framleiðsluaðferðar á forveraefni úr alginati til lífplastframleiðslu 

Matís leigir Háskóla Íslands aðstöðu til kennslu í meistaranámi í matvælafræði. Sérfræðingar á Matís héldu utan um og kenndu í námskeiðum um öryggi matvæla, matvælaörverufræði, gæðastjórnun og skynmati matvæla, auk þess að kenna í fleiri námskeiðum við HÍ, HA og LBHÍ.