Föstudaginn 1. nóvember næstkomandi ver Anna Þóra Hrólfsdóttir doktorsritgerð sína í matvælafræði við Háskóla Íslands í samvinnu við Matís. Ritgerðin ber heitið: Bætt nýting, varðveisla og gæði brúnþörunga.
Doktorsvörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands klukkan 9:00 til 12:00.
Andmælendur verða dr. Susan Løvstad Holdt, dósent við Matvælastofnun Danska tækniháskólans,DTU, og dr. Marthe Jordbrekk Blikra, vísindamaður við norsku matvælarannsóknarstofnunina Nofima.
Umsjónarkennari er María Guðjónsdóttir og leiðbeinendur auk hennar eru Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og sérfræðingur hjá Matís, og Sigurjón Arason, prófessor emeritus og sérfræðingur hjá Matís. Auk þeirra situr Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, prófessor, í doktorsnefnd.
Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor og forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.
Eftirfarandi ágrip af ritgerðinni:
Þrátt fyrir gífurlega aukningu í stórþörungaframleiðslu á síðustu áratugum eru þeir enn frekar vannýtt auðlind í Evrópu. Hins vegar hefur áhugi á stórþörungum aukist verulega í Evrópu undanfarin ár og spáð hefur verið að framleiðslan gæti aukist gríðarlega næstu áratugi. Með aukinni framleiðslu stórþörunga er mikilvægt að fullnýta, varðveita og meðhöndla lífmassann á viðeigandi hátt til að hámarka gæði afurðarinnar. Því var markmið rannsóknarinnar að kanna og bæta virðiskeðjur valinna brúnþörunga, með áherslu á fullnýtingu hráefnis í mjölvinnslu úr klóþangi, varðveislu og geymsluþol á ræktuðum beltisþara og marinkjarna, og meta nýtingu fjöllitrófsmyndgreiningartækni (MSI) til að meta gæði stórþörunga innan iðnaðarins. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna tækifæri í því að auka verðmæti stórþörunga með bættum framleiðsluferlum. Enn fremur benda niðurstöðurnar til þess að sýring gæti hentað vel sem varðveisluaðferð fyrir ræktaða brúnþörunga og að MSI gæti verið notuð til gæðamats á stórþörungum innan iðnaðarins.