Ársskýrsla Matís 2022

Ársskýrsla
Matís 2022

Nýsköpun og verðmætaaukning
í matvælaframleiðslu um land allt

Samfélagslegur ávinningur matvælarannsókna

Matvælarannsóknir Matís og forvera þess hafa, í samstarfi
við atvinnulífið, háskólasamfélagið og stjórnvöld, aukið
gæði og stuðlað að mikilli verðmætaukningu í íslenskri
matvælaframleiðslu síðustu áratugi. Nærtækast er að
vísa til þeirrar verðmætaaukningar sem orðið hefur í
þorskvinnslu á Íslandi. Árið 1981 var þorskaflinn á Íslandi um 460 þúsund tonn og virði afurðanna um 460 milljónir bandaríkjadollara á núvirði. Árið 2021 var aflinn um
270 þúsund tonn, rúmlega helmingur aflans 1981, en
verðmæti afurðanna nálægt því tvöfalt meira eða 913 milljónir bandaríkjadollara. Þessi gífurlega verðmætaaukning hefur fengist með bættri nýtingu lífauðlinda og hráefna, betri kæli- og framleiðsluferlum, umbúðum og flutningum. Ljóst er að rannsóknir Matís og forvera þess hafa hjálpað mikið til í þessari farsælu vegferð. Samfélagslegur ávinningur þessarar vinnu er ótvíræður, ekki aðeins í hreinni verðmætasköpun, heldur hefur orðið
til ómetanleg þekking á sviði matvælavísinda í landinu
ásamt verðmætum gagnasöfnum um íslensk hráefni og
matvælaframleiðslu.

Ísland á að vera í fremstu röð ríkja í sjálfbærri framleiðslu hágæða matvæla til sjávar og sveita.

Tækifæri eru t.d. í því að vinna áfram að þróun í framleiðslu og fullnýtingu landbúnaðarafurða á arðbæran hátt og auka samstarf við hagaðila til að samnýta krafta í öflugri sókn til nýsköpunar, aukins framboðs, geymsluþols og gæða afurða. Innlendir endurnýjanlegir orkugjafar mætti einnig nýta enn betur til hagkvæmrar framleiðslu og þróunar á afurðum í landbúnaði og fiskeldi.

Það er mikilvægt að gæta íslenskra hagsmuna og tryggja
uppbyggingu matvæla- og líftækniiðnaðar á Íslandi, efla
rannsóknastarfsemi á þessu sviði, auka verðmæti hráefnisstrauma og stuðla að sjálfbærri og umhverfisvænni
nýtingu lífauðlinda hringrásarhagkerfisins. Matís hefur
verið í fremstu röð alþjóðlega í rannsóknum og nýsköpun
á þessu sviði og hefur gegnt leiðandi hlutverki hér á landi
í að mæta tækifærum og áskorunum sem fylgja fyrirsjáanlegri uppbyggingu hringrásarhagkerfis.

Með þekkinguna að vopni er hægt að hámarka virði
og hagkvæmni íslenskrar matvælavinnslu. Matvælarannsóknir eru uppspretta þekkingar og fjárfesting í slíkum rannsóknum hefur fram til þessa skilað miklu verðmætum til samfélagsins. Hluti af þeim verðmætum er sú þekking sem er hjá starfsfólki Matís sem mikilvægt er að hlúa að og viðhalda. Það er því mikilvægt að styðja vel við matvælarannsóknir á Íslandi og nýta þær til að styrkja hagkerfi okkar, lýðheilsu og samfélagið allt.

Fyrir hönd félagsins vil ég þakka viðskiptavinum félagsins fyrir samstarfið og þá framsýni sem felst í því að fjárfesta í starfi félagsins.

Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka starfsfólki Matís fyrir frábæra vinnu og einstakt framlag í þágu matvælavinnslu og lýðheilsu.

Hákon Stefánsson, stjórnarformaður

Með rannsóknir og þekkingu að leiðarljósi

Það er ljóst að framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi felur
í sér stórar áskoranir en jafnframt stórkostleg tækifæri. Við
þurfum að tryggja að hér sé nægur öruggur og heilnæmur matur fyrir alla. Við þurfum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu og stuðla að sjálfbærri nýtingu lands og sjávar til að auðlindirnar geti áfram þjónað komandi kynslóðum.

Matís vinnur að rannsóknum og nýsköpun í matvælaframleiðslu og er í fremstu röð í rannsóknum tengdum bættri nýtingu hliðarstrauma í matvælavinnslu sem og sjálfbærri nýtingu annarra lífauðlinda til fóðurs, áburðar og manneldis. Þar af leiðandi er Matís vel í stakk búið til að gegna lykilhlutverki hér á landi í því að mæta áskorunum og tækifærum sem fylgja fyrirsjáanlegri uppbyggingu hringrásarhagkerfis, fæðuöryggi og sjálfbærri matvælaframleiðslu.

Matís hefur þegar byggt upp öfluga hátækni rannsóknaaðstöðu í matvælafræði, matvælaverkfræði og
líftækni og hefur sérþekkingu í hagnýtingu lífauðlinda.

Á síðastliðnu ári hefur talsvert verið rætt um fæðaöryggi á
á íslandi. Í kjölfar átaka í Úkraínu og heimsfaraldurs hefur
komið í ljós hversu mikið innlend matvælaframleiðsla er
háð utanaðkomandi áhrifum. Huga þarf að því að minnka
þörf á innfluttum aðföngum með aukinni framleiðslu
innanlands svo hægt sé að mæta áskorunum og nýta
tækifærin. Það þyrfti að auka fjölbreytni í sjálfbærri og arðbærri matvælaframleiðslu sem og að auka nýsköpun við fullnýtingu þeirra lífauðlinda sem til falla. Með það að leiðarljósi stefnir Matís að því að koma á laggirnar lífauðlindaog matvælavinnsluverum til að nýta og/eða auka gæði og verðmæti hliðarstrauma matvælaframleiðslunnar.

Eitt skýrasta dæmið um mikilvægi rannsókna og
nýsköpunar í tengslum við verðmætasköpun og bætta
nýtingu í matvælaframleiðslu er sú verðmætaaukning sem hefur átt sér stað í sjávarútveginum á síðustu áratugum. Reynslan hefur sýnt að aukin verðmætasköpun í greininni byggir á hugviti og hafa íslensk fyrirtæki unnið metnaðarfullt og merkilegt starf á því sviði. Þar hefur Matís
iðulega verið í lykilhlutverki, verið eins konar þekkingarkjarni þegar kemur að beitingu vísinda í sjávarútvegi og brú á milli menntastofnana og atvinnulífs.

Í krafti rannsókna og þekkingar getur Matís með sama hætti stuðlað að verðmætari og sjálfbærari matvælaframleiðslu á öðrum sviðum, einkum í tengslum við fullnýtingu og verðmætaaukningu landbúnaðarafurða.
Í grunninn má segja að flest verkefni Matís stuðli að eflingu lífhagkerfisins alls, þ.e. atvinnustarfsemi sem snýst um vörur og þjónustu sem byggja á lífauðlindum. Þarna eru gífurleg tækifæri og möguleikar til að leysa af hólmi hagkerfi sem byggir á olíuvinnslu og færast þannig í átt til hagkerfis sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda. Fyrir utan tækifæri í matvælaframleiðslu eru þarna ógrynni tækifæra í annars konar iðnaði þar sem hægt væri að auka sjálfbæra nýtingu og skipta út óæskilegum efnum, t.d. í efnavörum, lyfjaframleiðslu, snyrtivörum o.s.frv. Til að stuðla að eflingu lífhagkerfisins er mikilvægt að unnið sé þvert á mismunandi atvinnugreinar og að horft sé á hliðarafurðir úr einni atvinnugrein sem mögulegan hráefnastraum inn í aðra. Með rannsóknir og þekkingu að leiðarljósi er Matís í lykilaðstöðu til að taka að sér leiðandi hlutverk í eflingu lífhagkerfisins á Íslandi og þannig stuðlað að hagsæld þjóðarinnar með áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlindanna.

Oddur Már Gunnarsson, forstjóri

Stefna og framtíðarsýn Matís 

 • Að vera framsækið þekkingarfyrirtæki sem eflir samkeppnishæfni og sjálfbærni matvælaframleiðslu á Íslandi
 • Að skila íslensku samfélagi verðmætum afurðum með samstarfi og þjónustu við atvinnulífið
 • Að vera hornsteinn matvælaöryggis á Íslandi og styðja íslensk yfirvöld í að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla
 • Að byggja upp starfsstöðvar á landsbyggðinni og auka verðmætasköpun um allt land
 • Að vera eftirsóttur samstarfs- og þjónustuaðili fyrirtækja og stofnana
 • Að vera eftirsóknarverður, krefjandi og spennandi vinnustaður með fyrsta flokks aðstöðu þar sem starfsfólk nýtur sín í starfi

 

Opinbera hlutafélagið Matís vinnur að rannsóknum og nýsköpun á matvælum í þágu atvinnulífsins og samfélagsins í heild til að stuðla að aukinni verðmætasköpun, og til að efla matvælaöryggi og lýðheilsu. Einnig er unnið að verðmæta og nýsköpun úr vannýttum lífauðlindum landsins, eins og t.d. örverum, ensímum, þörungum o.fl. með líftækni. Árið 2022 heyrði Matís undir Matvælaráðuneytið (MAR).

Með samstarfi við fjölbreyttan hóp hagaðila eru afurðir rannsókna og nýsköpunar nýttar til að auka þekkingu og skapa verðmæti í samfélaginu. Þannig skipar Matís stóran sess í verðmætasköpun, eflir matvælaframleiðslu og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og afurða – og stuðlar um leið að sjálfbærni og umhverfisvernd.

Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum matvæla á Íslandi og gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja matvælaöryggi og bæta lýðheilsu. Matís veitir stjórnvöldum og stofnunum stuðning og ráðgjöf um viðbrögð ef upp kemur matvælavá, sem er lykilatriði til þess að hægt sé að lágmarka neikvæð áhrif hópsýkingar eða faraldurs á lýðheilsu og efnahag þjóðarinnar. Matís vinnur náið með opinberum eftirlitsaðilum við ráðgjöf, mælingar, vöktun og áhættumat til að tryggja matvælaöryggi íslenskra neytenda og verðmæti útflutningsafurða.

Með rannsóknum og vöruþróun á matvælum og innihaldsefnum stuðlar Matís að bættri lýðheilsu landsmanna. Áhersla er lögð á þróun fjölbreyttra, næringarríkra matvæla sem hafa heilsubætandi áhrif.

Starfsemi Matís árið 2022 var fjármögnuð með þjónustusamningi við MAR (23,7%), styrkjum úr samkeppnissjóðum (48,5%), mælingum og annarri þjónustu við innlend fyrirtæki (22,8%), verkefnum fyrir ýmsar innlendar opinberar stofnanir og eftirlitsaðila (1,1%) og sölu á þjónustu við erlend fyrirtæki (4,0%). Heildarvelta Matís árið 2022 var 1,88 milljarðar, þar af var sjálfsaflafé 76,3% og 31,1% tekjur í erlendum gjaldeyri.

Árið 2022 störfuðu hjá Matís 97 starfsmenn í 91,1 stöðugildum, þar af 60 konur og 37 karlar.

Árið 2022 var í fyrsta sinn skilað inn upplýsingum um Grænt bókhald Matís fyrir árið 2021, sem er liður í þátttöku Matís í Grænum skrefum. Í lok árs 2022 var sótt um fyrsta Græna skrefið.

Matís er að stórum hluta fjármagnað með styrkjum úr innlendum og erlendum samkeppnisrannsóknasjóðum sem gera kröfur um mótframlag þátttakenda. Hluti þjónustusamningsins við MAR fjármagnar þessi mótframlög Matís. Rannsóknasjóðir gera mismunandi kröfur um mótframlag en almennt krefjast innlendir samkeppnissjóðir hærra mótframlags en erlendir sjóðir.

Auk þeirrar miklu verðmætasköpunar sem niðurstöður rannsókna- og nýsköpunarverkefna skila íslensku samfélagi er bein ávöxtun þess hluta þjónustusamnings sem varið er í rannsóknaverkefni (347 milljónir árið 2022) góð, þar sem Matís aflar 2,6 króna á móti hverri krónu sem MAR leggur til rannsókna með sókn í innlenda og erlenda samkeppnissjóði.

Grunnurinn að árangri af starfi Matís er öflugt samstarf, innanlands sem utan, með fyrirtækjum, stofnunum, yfirvöldum og frumkvöðlum.

Áherslur og verkefni Matís stuðla að því að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verði náð

Af markmiðunum 17 eru það einkum eftirfarandi markmið sem starfsemi Matís tengist.

Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.

Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.

Stuðlað að sjálfbærum hagvexti og arðbærum atvinnutækifærum. Aukinni framleiðni í atvinnulífinu náð með fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun.

Stuðlað að uppbyggingu sjálfbærra atvinnuvega og hlúð að nýsköpun.

Unnið að því að tryggja sjálfbært framleiðslumynstur og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda. Dregið úr sóun matvæla.

Grípa til bráðra aðgerða gegn loftlagsbreytingum og áhrifum þeirra.

Hafið og auðlindir þess vernduð og nýtt á sjálfbæran hátt með vísindalegri þekkingu.

Landið og auðlindir þess vernduð og nýtt á sjálfbæran hátt með vísindalegri þekkingu.

Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða.

Rannsóknir og nýsköpun

Í samræmi við lög um hlutverk Matís er rannsóknum fyrirtækisins skipt upp í þrjú áherslusvið: Verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi,

Verðmætasköpun

Matís vinnur markvisst að því að auka verðmætasköpun er tengist matvælaframleiðslu og líftækni, til eflingar samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs. Markmiðið er sjálfbær nýting auðlinda til sjávar og sveita. Ein helsta sérstaða Íslands er hversu vel hefur tekist að skapa verðmæti úr hinum ýmsu auðlindum og tengja þarfir neytenda og erlendra markaða við hina ýmsu hlekki í virðiskeðjunni. Matís hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að skapa þessa sérstöðu og unnið með atvinnulífinu að rannsóknum og nýsköpun til að hámarka verðmæti og afrakstur frá þeim auðlindum sem þjóðin býr yfir. Meðal mikilvægra verkefna sem stuðlað hafa að aukinni verðmætasköpun má nefna
fullvinnslu og nýtingu á ýmiss konar hliðarafurðum, bætta vinnsluferla, vöruþróun, úrbætur á pakkningum og flutningsferlum, þróun á nýjum próteingjöfum og ensímum o.m.fl.

Lýðheilsa

Matís stuðlar að því að bæta lýðheilsu á Íslandi með rannsóknum og vöruþróun. Mikilvægt er að þekkja eiginleika íslenskra afurða og eru haldgóð gögn forsenda umræðna um hvernig við bætum líf og heilsu. Matís hefur byggt upp gagnvirkan gagnagrunn, ÍSGEM, með upplýsingum um efnainnihald matvæla sem eru á íslenskum markaði. Gagnvirkir, notendavænir gagnagrunnar með upplýsingum um innhald jákvæðra og óæskilegra efna í matvælum eru mikilvægir og nýtast neytendum, framleiðendum, seljendum, kaupendum, stjórnvöldum og öðrum hagaðilum. Matís vinnur að fjölbreyttum verkefnum sem styðja við bætta lýðheilsu landsmanna, allt frá því að kortleggja steinefnamagn í hliðarafurðum og hýði grænmetis og ávaxta, rannsakan áhrif mataræðis á þarmaflóruna, skoða hvort næringarinnihald mjólkur er breytilegt eftir árstíð og til rannsókna á lífvirkum efnum í þörungum.

Matvælaöryggi

Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum á matvælum á Íslandi og sér um rekstur tilvísunarrannsóknastofa, og öryggis- og forgangsþjónustu á sviði matvæla fyrir eftirlitsstofnanir og lögbær stjórnvöld. Styrkur fyrirtækisins liggur í breiðum grunni getu, þekkingar og innviða sem tryggja öryggis- og forgangsþjónustu ef upp kemur matvælavá. Áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á óæskilegum efnum og örverum í matvælum og vinnsluumhverfi, og þróun greiningaraðferða. Aukinn skilningur á eðli, uppruna og smitleiðum sjúkdómsvaldandi örvera er mikilvægur til að tryggja öryggi matvæla, koma í veg fyrir faraldra og efla öryggi neytenda. Matís hefur umfangsmikla þekkingu á örverum í matvælavinnslu og eldistegundum, svo sem Listeríu, og beitir nýjustu tækni, raðgreiningarhæfni, við að rekja uppruna smita. Það er grundvallaratriði fyrir kaupendur íslenskra afurða að geta treyst því að þau matvæli sem framleidd eru hér á landi séu örugg. Útflutningur íslenskra matvæla er einnig háður því að heilnæmi sé til staðar með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum kaupenda. Matís þjónustar íslensk stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf með því að reka öryggisþjónustu, bjóða upp á þjónustumælingar og hafa tiltæk vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni og örverur í íslenskum matvælum. Nauðsynlegt er að styðja fullyrðingar um hreinleika og heilnæmi íslenskra matvæla með áreiðanlegum gögnum frá óháðum aðila eins og Matís, sem byggja á rannsóknum á afurðum og umhverfinu, m.a. með umhverfisvöktunum.

Áhersluflokkar

Á árinu 2022 kom Matís að 221 rannsókna-, þróunar- og þjónustuverkefni. Eru þessi verkefni flokkuð í áherslu- flokka eftir því hvaða framleiðendum, greinum og hópum þeim er einkum ætlað að þjónusta. Áhersluflokkarnir eru:

 1. Kjöt
 2. Mjólkurvörur
 3. Grænmeti og korn
 4. Uppsjávarfiskur
 5. Botnfiskur
 6. Fiskeldi
 7. Þörungar
 8. Nýsköpun, frumkvöðlar og menntastofnanir
 9. Stjórnsýsla og heilbirgðiseftirlit
 10. Umhverfisrannsóknir
 11. Þróunaraðstoð
 12. Þjónustumælingar
 13. Annað

Kjöt 

Tengiliður:

Eva Margrét Jónudóttir

Sérfræðingur

evamargret@matis.is

Markmið rannsókna- og nýsköpunarverkefna um kjöt er að styrkja innlenda kjötframleiðslu og efla verðmætasköpun á landsbyggðinni í samstarfi við framleiðendur og aðra hagaðila. Árið 2022 kom Matís að 15 verkefnum á þessu sviði, þar sem áhersla var lögð á mælingar á næringargildi, nýtingu, kjötgæðum, geymsluþoli, nýtingu hliðarafurða og dýravelferð til að sýna fram á sérstöðu íslenskra afurða. Í sauðfjárræktinni var áherslan á áhrif kynbóta, sláturaðferða og áhrif meðferðar fyrir og eftir slátrun á gæði lambakjöts. Einnig voru gæði íslensks lambakjöts borin saman við gæði erlends lambakjöts. Birt var vísindagrein um áhrif sláturaðferða á gæði lambaskrokka og lambakjöts.

Þrjú verkefni um gæði lambakjöts og velferð sláturlamba
voru unnin í samvinnu við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Landbúnaðarháskóla Íslands og sláturhús. Áhrif meðferðar fyrir slátrun á stress í sláturlömbum var kannað með því að mæla sýrustig í hryggvöðva 24 tímum eftir slátrun í þeim tilgangi að meta áhrif mismunandi sveltitíma heima á bæ, við flutning og í sláturhúsi til að geta sagt til um bestu meðferð. Einnig voru könnuð áhrif mismunandi sýrustigs í lambahryggvöðva daginn eftir slátrun á bragðgæði og aðra eiginleika hryggvöðva lambaskrokka til að geta betur sagt til um hvaða sýrustig er best að nota sem viðmið fyrir stress. Áhrif undirflokka í fitumati á lambaskrokka á eiginleika og bragðgæði hryggvöðva á % fitu, fitusprengingu og bragðgæði lambakjöts voru rannsökuð. Teknar voru saman upplýsingar um gæða- og markaðskerfi Meat Standards Australia (MSA) fyrir lambakjöt og aðferðafræði þeirra við neytendaprófanir var prófuð og borin saman við hefðbundið skynmat á ferskum og þíddum lambahryggvöðvum.

Á árinu var hafist handa við verkefni sem miðar að því að auka nýtingu hliðarstrauma frá sláturhúsum og kjötvinnslum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Norðlenska og miðar að því að bæta framleiðslu og meðhöndlun hráefnis með því að greina sóknarfæri í nýtingu hliðarafurða úr slátrun. Á árinu var einnig hafist handa við úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts, ásamt greiningum á efnainnihaldi kjötsins og aukaafurða sem eru vaxandi verðmæti. Verkefninu er ætlað að leggja fram gögn sem koma í stað úreltra gagna og miðla þeim til hagaðila og neytenda. Skortur á nýjum og uppfærðum gögnum um nýtingu og næringargildi var farinn að há markaðsstarfi. Verkefnið er unnið fyrir Icelandic lamb ehf sem mun hagnýta niðurstöðurnar. Matvælasjóður styrkir verkefnið. Allar niðurstöður munu liggja fyrir á árinu 2023.

Þá var unnið að verkefnum við þróun erfðafræðilegra aðferða til að efla kynbótastarf og auka rekjanleika afurða. Lokið var við þróun á faðernisprófi fyrir íslenskt sauðfé, en slík próf hafa áður verið þróuð hjá Matís fyrir hross og nautgripi. Mikilvægt er að geta staðfest faðerni sauðfjár, sérstaklega til að útrýma arfgengum erfðagöllum. Unnið var að þróun hraðvirkra aðferða við að tegundagreina hráefni í unnum matvælum. Núverandi aðferðir eru dýrar í framkvæmd og seinvirkar. Einnig var unnið að verkefni til að bæta riðugensgreiningar í sauðfé, sem Matís framkvæmir fyrir bændur og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins. Einnig var innleitt erfðapróf til að greina nýtt frjósemisgen í sauðfé, svokallað Lóu gen. Að lokum hófst var unnið að verkefni við að finna erfðaþætti í sauðfé sem valda bógkreppu og lokið við að innleiða greiningarpróf fyrir gulri fitu. Hvoru tveggja eru arfgengir erfðagallar sem valda íslenskum bændum tjóni.

Mjólkurvörur 

Tengiliður:

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Einungis þrjú verkefni voru í gangi á árinu sem höfðu það að markmiði að skapa nýja þekkingu á mjólkurafurðum.

Ber þar fyrst að nefna samstarfsverkefni Matís og Háskólans í Reading, þar sem skoðað var samband fóðurs og árstíðabundinna sveiflna á næringarinnihaldi mjólkur. Mjólkursýni voru tekin úr búðum í Bretlandi í heilt ár (bæði lífræn mjólk og hefðbundin) og mjólkin rannsökuð m.t.t. steinefna og snefilefna. Rannsóknirnar leiddu í ljós að árstíðin hafði vissulega áhrif á ýmis steinefni í mjólkinni, væntanlega vegna mismunandi samsetningar fóðurs.

Mestu áhrifin voru að neysla sumarmjólkur gæti stuðlað að lægri joðinntöku hjá öllum neytendum, sérstaklega gat þetta haft áhrif á yngri börn sem færu úr því að fá allan ráðlagðan dagskammt úr mjólk í einungis þriðjung. Algengt er að fólk fái ekki nægt joðmagn og gæti verið mikilvægt að skoða hvort gefa þurfi kúm sérstaklega joð yfir vissa mánuði ársins. Skoða þarf hvort þetta sama eigi við hérlendis.

Verkefni Matís snerust ekki einungis að kúamjólk, heldur var Matís einnig með forverkefni í gangi sem snýr að því að skoða notkun þörunga í jurtamjólk og jurtamjólkurvörur.

Grænmeti og korn 

Tengiliður:

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafurr@matis.is

Starfsmenn Matís að störfum.

Töluverð gróska hefur verið í rannsóknum og nýsköpun á sviði grænmetis og korns á síðustu misserum hjá Matís, og voru alls átta grænmetisverkefni í gangi á árinu 2022 og sex kornverkefni.

Lokið var við viðamikið verkefni um bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis. Niðurstöðurnar hafa verið gefnar út í skýrsluröð Matís. Meðal niðurstaðna eru hagnýtar upplýsingar um skynræna eiginleika íslensks grænmetis, geymsluþol þess og tillögur um nýtingu hliðarafurða. Vinna sem miðar að því að auka verðmæti hliðarafurða frá garðyrkju hélt áfram á árinu í nýju verkefni sem stutt er af Matvælasjóði. Unnið er að því að skilgreina magn og nýtingarmöguleika hliðarafurða garðyrkjunnar og vonast er til þess að í framtíðinni verði hægt að nýta sumar hliðarafurðir í matvæli og vinna úr þeim verðmæt hollefni. Einnig var hafin vinna við áhættugreiningu hvað varðar nýtingu hliðarafurðanna í matvæli og lagður grunnur að frekari vöruþróun í samstarfi við Orkídeu og Bændasamtök Íslands. Með heildarsýn á virðiskeðju grænmetis er bent á leiðir til bættrar nýtingar og minni sóunar.

Annað verkefni styrkt af Matvælasjóði kannaði möguleikann á betri nýtingu ávaxta – og grænmetishýðis til manneldis. Verkefnið bar saman íslenskt grænmeti við innflutt grænmeti með tilliti til óæskilegra efna. Verkefnið leiddi í ljós að íslenskar afurðir innihéldu sjaldnar og færri varnarefni en innfluttar. Algengast var að finna varnarefni yfir hámarksgildum í ávöxtum og kryddjurtum. Hýði grænmetis reyndist trefjaríkara en innihaldið, en einnig mældist hærri styrkur varnarefna og þungmálma í hýðinu. Í þeim matvælum sem skimuð voru fyrir varnarefnum og þungmálmum í hýði og innra byrði voru efnin þó innan leyfilegra hámarksgilda og óhætt var að neyta þeirra. Verkefnið ítrekaði mikilvægi þess að skola ávexti og grænmeti fyrir neyslu.

Starfsfólk Matís hefur orðið vart við aukna umræðu um pökkun matvæla. Vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi þess að draga úr notkun einnota umbúða. Nú færist í vöxt að selja grænmeti ópakkað. Á hinn bóginn er mikilvægt að draga úr rýrnun grænmetis og plastumbúðir hafa reynst vel til að draga úr vatnstapi og lengja geymsluþol grænmetis. Á síðustu árum hefur orðið ljóst að plastúrgangur í umhverfinu er skaðlegur lífríkinu. Framleiðendur og seljendur standa því frammi fyrir ákvörðunum þegar velja þarf tegund umbúða eða sleppa þeim alveg. Matís fékk styrk úr Matvælasjóði fyrir verkefnið Áskoranir við pökkun grænmetis og var markmiðið að auðvelda framleiðendum og seljendum grænmetis að taka ákvarðanir um val á umbúðum eða hvort óhætt sé að sleppa þeim. Á vef Matís er hægt að finna ráðleggingar um þessi efni og skýringar á þeim þáttum sem skipta máli.

Vegna aukinnar próteineftirspurnar á heimsvísu var litið til þess að nýta gras sem próteingjafa fyrir einmagadýr. Í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Bændasamtök Íslands var hafin vinna við að afla upplýsinga um gæðaeiginleika graspróteina og leita leiða til einangrunar próteina úr grasi. Í framhaldi af þessari vinnu verður skoðaður sá möguleiki að setja upp verksmiðju til próteinvinnslu úr grasi á Íslandi. Matís hefur einnig komið að þróun og prófun matvælaumbúða úr íslenski alaskalúpínu og þara í samstarfi við Efnasmiðjuna, Sedna-Biopack og Sölufélag Garðyrkjumanna.

Uppsjávarfiskur

Tengiliður:

Stefán Þór Eysteinsson

Verkefnastjóri

stefan@matis.is

Matís hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á að vinna náið með sjávarútvegsfyrirtækjum landsins með það fyrir augum að hámarka verðmæti alls þess hráefnis sem verður til. Á árinu 2022 vann Matís að alls 11 rannsóknar verkefnum sem skilgreind eru sem uppsjávarfisksverkefni og voru þau öll unnin með lykilaðilum innan uppsjávariðnaðarins.

Uppsjávariðnaðurinn á Íslandi, í samstarfi við Matís, hefur lengi verið leiðandi í aukinni verðmætasköpun og fullnýtingu á því hráefni sem veitt er. Aukin áhersla á hringrásarhagkerfi samhliða aukinni umhverfismeðvitund hefur ýtt enn fremur undir aukna verðmætasköpun og hafa verkefni Matís tekið mið af því.

Eitt af þeim verkefnum sem Matís hefur unnið að á árinu 2022 snýr að þróun á próteinum sem uppfylla kröfur um gæði og öryggi vara til manneldis úr hliðarstraumum makríls. Verkefnið notast við hráefni sem að öllu jöfnu er nýtt til framleiðslu á fiskmjöli en von er að niðurstöður þess geti tekið þátt í að mæta aukinni prótein og orkuþörf samfélagsins. Að auki vann Matís að verkefni er snéri að því að þróa náttúruleg þráavarnarefni fyrir fiskimjöl þar sem notkun á efninu ethoxyquin er ekki lengur leyfileg, en það er mikið hagsmunamál fyrir iðnaðinn að hægt sé að notast við þráavarnaefni með réttri virkni.

Leitin að nýjum hráefnum úr uppsjávarlagi hafsins heldur áfram og hefur mikil áhersla verið lögð á verkefni er tengjast mögulegri nýtingu á dýrasvifi. Vonir eru bundnar við dýrasvif sem næsta hráefni uppsjávarvinnslna og að unnt verði að vinna fitur og prótein úr svifinu sem hæf eru til manneldis. Matís er þáttakandi í verkefnum er tengjast veiðum, vinnslu og nýtingu dýrasvifs og má þar t.d. nefna verkefnin Rauða Gullið, sem styrkt er af matvælasjóði, og alþjóðlega verkefnið SFI Harvest.

Erfðafræðilegar aðferðir voru í þróun á árinu sem áætlað er að skili aukinni þekkingu á aðskilnaði síldarstofna í Norður-Atlantshafi og þannig vinna að bættri fiskveiðistjórnun, enda er það mikilvægur þáttur í að viðhalda góðri heilsu þeirra stofna. Að auki hefu farið fram þróun á greiningu umhverfis DNA (eDNA) sem ætlað er að finna og rekja loðnu, en það mun auka þekkingu á dreifingu hennar auk þess að stuðla að bættu stofnstærðarmati loðnu á íslenskum hafsvæðum.

Lífmassaver Matís sem staðsett er í Neskaupstað hefur gegnt lykilhlutverki í þróun aðferða í tilraunum til fullvinnslu verðmætra afurða úr hliðarstraumum uppsjávarvinnslu auk annars hráefnis sem fellur til. Lífmassaverið er hægt að nýta við framleiðslu á t.d. próteindufti til manneldis, fæðubótarefnum, startfóðri í fiskeldi, gæludýrafóðri. Ljóst er að áframhaldandi uppbygging lífmassaversins mun stuðla að áframhaldandi nýsköpun í uppsjávariðnaði auk annarra matvælavinnslugreina.

Botnfiskur

Tengiliður:

Hildur Inga Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

hilduringa@matis.is

Árið 2022 voru helstu rannsóknaráherslur innan Matís fyrir botnfisktegundir tengdar bættri nýtingu hliðarhráefna og vannýttra tegunda, að auka virði ákveðinna botnfisktegunda, t.d. ufsa og karfa, með því að leita leiða til að vinna þær í verðmætari vörur. Einnig að bæta gæði og stöðugleika afurða með ferlabreytingum og mati og innleiðingu tækninýjunga sem nýst geta til að bæta eftirlit og mat á gæðum og öryggi innan virðiskeðjunnar. Verkefnin snúa því að öllum hlekkjum virðiskeðjunnar, frá veiðum og vinnslu að borði neytandans. Alls voru 36 verkefni skilgreind sem botnfiskverkefni á árinu en þau voru öll unnin í nánu samstarfi stóran og fjölbreyttan hóp fyrirtækja í sjárvarútvegi og rannsóknaraðila.

Áhersla í verkefnum sem snúa að vinnslu hliðarhráefnis og vannnýttra tegunda var aðallega aukin nýting próteina til manneldis úr t.d. vannýttum tegundum á borð við gulllax og hliðarstrauma eins og þorsk- og karfahausa og prótein sem hægt er að vinna úr vatni sem fellur til við vinnsluna. Greiningar og vinnsla á þessum straumum fór fram með það fyrir augum að auka virði straumanna og þannig nýtingu auðlindarinnar. Niðurstöður verkefnanna benda til þess að mikil tækifæri séu til staða til í að fanga verðmæti úr vannýttu hráefni bolfiskvinnslna með tiltölulega einföldum og hagkvæmum aðferðum við að safna og/eða vinna efnið. Verkefni er snéru að meðhöndlun afla, t.d. við kælingu og frystingu ufsa, þorsks og karfa, litu til þess að straumlínulaga og bæta ferla til að einfalda vinnu við vinnslu, sérstaklega á sjó, en viðhalda eða bæta gæði lokaafurðar. Nokkur verkefni snéru að vinnslu saltfisks, aðferðafræði við útvötnun hans, viðmót neytenda og möguleika á innlendum markaði.

Einnig tók þátt í verkefnum er höfðu það að leiðarljósi að greina möguleika á nýtingu nýrra tæknilausna, t.d. fjölllitrófsgreiningar, við vinnslu og gæðamat botnfisks og að þróa nýjar og spennandi lausnir til að auka gagnaflæði innan virðiskeðjunnar, alla leið til neytenda. Matís kom einnig að verkefnum tengdum t.d. þróunar aðferða við hraðvirka tegundargreiningar, þróun umhverfisvænni umbúðalausna fyrir iðnaðinn, verkefnum er snúa að skelfiski og skelfiskafurðum og að nýtingu sela og hákarls.

Gullax
Þorskur
Ufsi
Djúpkarfi

Fiskeldi

Tengiliður:

Birgir Örn Smárason

fagstjóri

birgir@matis.is

Fiskeldisrannsóknir hafa verið í mikilli sókn hjá Matís á undanförum árum og á árinu 2022 snéru 22% allra verkefna fyrirtækisins að rannsóknum og nýsköpun á því sviði. Matís hefur yfir að ráða góðri aðstöðu og öflugu liði sérfræðinga á sviði fiskeldisrannsókna, þá sér í lagi hvað varðar fóðurrannsóknir. Þessi hluti starfsemi Matís hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum samhliða vaxandi fiskeldi. Fiskeldi gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að því að tryggja fæðuöryggi heimsins, sem og í verðmætasköpun og byggðaþróun hér á landi. Fiskeldisframleiðsla Íslendinga hefur sjöfaldast frá árinu 2015 og útlit er fyrir álíka vöxt á komandi árum. Ef það gengur eftir má búast við að lax fari fram úr þorski sem mikilvægasti nytjastofn okkar. Matís hefur lagt áherslu á að styðja við þessa atvinnugrein eftir fremsta megni og leitað eftir víðtæku samstarfi við greinina. Sérstaklega hefur fyrirtækið beint sjónum að fóðurrannsóknum, en einnig að ræktun og erfðum, atferli, þarmaflóru, vinnslu, vöruþróun, pakkningum, flutningum o.s.frv. Þess utan býður Matís upp á ýmiss konar ráðgjöf og mælingar er varða gæði og matvælaöryggi í virðiskeðju fiskeldis.

Matís rekur tilraunaeldisstöð, sem í daglegu tali er kölluð MARS (Matís Aquaculture Research Station). MARS er nýstárleg rannsóknastöð sem gerir okkur meðal annars kleift að prófa innihaldsefni fyrir fóður, vatnsmeðferðir og atferli falska. Aðstaðan samanstendur af þremur endurnýtingarkerfum (RAS-Recirculating Aquaculture System), þar sem hægt er að stilla umhverfisbreytur fyrir seltu (0-40 ppt) og hitastig (5-35°C), allt eftir þörfum hverju sinni. Í MARS er framleitt fóður og framkvæmdar fóðurtilraunir á ýmsum fiskeldistegundum þ.m.t. á Atlantshafs laxi, beitarfiski (tilapia), bleikju, regnbogasilungi, hvítleggjarækju og ostrum. Þegar kemur að fóðurrannsóknum og fóðurtilraunum hefur Matís töluverða sérstöðu á markaði þar sem fyrirtækið getur einnig boðið upp á gæða-, efna- og örverumælingar, skynmat, sérfræðiþekkingu í tengslum við erfðafræði, vinnslu, vöruþróun, pakkningar, flutninga o.fl. Þessi sérstaða hefur gert Matís að eftirsóttum samstarfsaðila í rannsóknaverkefnum og mörg stærstu fyrirtæki heims í fóðurgerð og fiskeldi kaupa nú fóðurtilraunir og aðra sérfræðiþjónustu af Matís.

Matís hefur skipað sér á stall þeirra fyrirtækja og stofnana í Evrópu sem eru leiðandi í rannsóknum og þróun á nýjum próteinum (e.alternative proteins) til notkunar í fiskeldisfóður. Má í því samhengi nefna skordýraprótein, prótein frá einfrumungum, smáþörungum og þara. Matís stýrir einu stærsta Evrópuverkefni á þessu sviði sem kallast NextGenProteins þar sem rannsóknir hafa verið gerðar á skordýra-, örþörunga- og einfrumupróteini sem innihaldsefni í fóður. Verkefninu lýkur á árinu 2023 þar sem spennandi niðurstöður verða kynntar. Árið 2022 voru tilraunir gerðar í fjöldamörgum rannsóknarverkefnum og rannsóknir fyrir innlend sem og erlend fyrirtæki; til að mynda þróun smáþörungafóðurs fyrir fiskeldi, meltanleikatilraunir með mismunandi fóðurhráefni, súrþang og góðgerlar í fóðri, og vefja og bólgusvörun í laxi, svo eitthvað sé nefnt.

Vinna hófst á árinu við rannsóknir á örverum til auðgunar fiskeldisseyru, verkefni sem styrkt er af Matvælasjóði sem á að skoða möguleikana á því að nota vissar örverur til þess að bæta eiginleika fiskeldisseyru sem árburðarefnis. Mikil umræðu hefur verið undanfarið um nýtingu seyru úr fiskeldi og mun Matís fara af stað með fleiri verkefni þessu tengdu á árinu 2023. Fjöldinn allur af fiskeldistengdum verkefnum hélt áfram vinnu, má þar á meðal nefna verkefni um sýkingarálag í fiskeldi, vöktun sjókvíaeldissvæða, eDNA verkefni, kynbótaverkefni á laxi og svo mætti lengi telja.

Matís kemur einnig að verkefni um þróun lausna til að auka ræktun á tegundum neðar í fæðukeðjunni, svo sem þangi, sæeyrum og ígulkerjum, og eflingu sjálfbærra ferla með innleiðingu á samþættum fiskeldiskerfum (Integrated Multi-Trophic Aquaculture) þar sem mismunandi tegundir eru ræktaðar saman.

Þörungar

Tengiliður:

Elísabet Eik Guðmundsdóttir

verkefnastjóri

elisabet@matis.is

Mikil tækifæri eru í aukinni nýtingu þangs og þara hér á landi. Meðal nýtingarmöguleika sem til skoðunar eru er að gerja stórþara sem gerir kleift að nýta hann í fóður fyrir landdýr og í fiskeldi.

Á Íslandi eru stórþörungar vannýttur lífmassi sem nota má á sjálfbæran hátt til verðmætasköpunar. Áhugi innlendra aðila á nýtingu þörunga fer vaxandi og leita þeir í auknum mæli eftir stuðningi og samstarfi við Matís. Matís hefur um árabil lagt áherslu á rannsóknir á stórþörungum og unnið að hagnýtingu þeirra. Til þess að stuðla að hámarksnýtingu, verðmætasköpun og tryggja sjálfbærni hefur Matís unnið að því að koma á sameiginlegum gæðaviðmiðum fyrir uppskeru og vinnslu þangs og þara (brúnþörunga) sem og uppbyggingu þekkingargrunns innihaldsefna valinna tegunda með tilliti til árstíðasveiflna og breytileika eftir uppskerusvæðum. Matís kom óbeint að vinnu við gerð stöðuskýrslu matvælastofnanna Norðurlandanna um neyslu á stórþörungum m.t.t .matvælaöryggis.

Stórþörungar innihalda snefilefni sem eru mikilvæg mannslíkamanum en geta reynst hættuleg ef styrkur þeirra í matvælum eða fóðri er of hár. Innihald joðs í mismunandi þörungategundum hefur verið magngreint og aðferðir þróaðar til að draga úr styrk joðs í þangi fyrir framleiðslu matvæla og fóðurs. Haldið var áfram að þróa aðferðir til að gerja þara og nýta súrþara sem heilsubætandi fóðurbæti í fiskeldi. Áhugaverðar niðurstöður fengust úr fiskeldistilraunum með nokkrum gerðum fóðurbætis byggðum á þara.

Unnið er að þróun heilsusamlegra bragðefna úr þörungum í matvæli með það að markmiði að draga úr saltneyslu og bæta þar með lýðheilsu. Vinna heldur áfram við að þróa ný og umhverfisvæn innihaldsefni úr brúnþörungum og rauðþörungum til að nota í matvæli, snyrtivörur, líftækni og fiskeldi, m.a. með þróun á nýjum útdráttaraðferðum til að einangra og hreinsa lífvirk efni úr stórþörungum.

Unnið var að rannsóknum og þróun á ensímum og frumusmiðjum sem umbreyta flóknum þangsykrum í ýmiss konar efni, t.d. lífvirk efni og lífplast m.a. fyrir matvæli. Verkefnunum er ætlað að stuðla að nýsköpun og hjálpa fóður-, matvæla- og líftæknifyrirtækjum að koma nýjum vörum á markað.

Einnig var unnið að rannsóknum um innihald þungmálma, sér í lagi arsens, í fjölbreyttu úrvali þörunga sem finnast á Íslandi. Þörungar geta verið ríkir af þungmálmum, m.a. arseni og verkefnið er liður í matvælaöryggisrannsóknum Matís.

Mikill áhugi hefur skapast á ræktun smáþörunga, sem er grein sem nýtir auðlindir sem Ísland er þekkt fyrir, svo sem umhverfisvænt rafmagn og hreint vatn. Smáþörunga er hægt að nýta á ýmsan hátt, svo sem til framleiðslu á lífvirkum efnum. Matís vinnur að nokkrum samstarfsverkefnum þar sem smáþörungar eru ræktaðir til framleiðslu m.a. á nýjum próteinum í fæðu og fóður. Á árinu 2022 lauk verkefni sem gekk út á að þróa náttúrulegt litarefni úr hveraörveru sem hefur ýmsa nýtingarmöguleika, t.d. í matvælaiðnaði.

Nýsköpun, frumkvöðlar og menntastofnanir

Tengiliður:

Þóra Valsdóttir

verkefnastjóri

justine@matis.is

Matís stýrir verkefninu Grænir frumkvöðlar framtíðar, sem hefur það að markmiði að vekja áhuga og efla þekkingu nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á loftslags- og umhverfismálum, nýsköpun og sjálfbærri auðlindanýtingu. Verkefnið, sem styrkt er af Loftslagssjóði, hefur vakið athygli fyrir nýja nálgun í að virkja nemendur í baráttunni gegn lofslagsvánni og hvetja til grænnar nýsköpunar. Verkefninu er stýrt af þeim Ragnhildi Friðriksdóttur, Justine Vanhalst og Katrínu Huldu Gunnarsdóttur.

Í þessum flokki eru verkefni sem einkum stuðla að aukinni þekkingu og færni einstaklinga með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlaþjálfun. Eins og fyrri ár er kennsla á háskólastigi hluti af starfsemi Matís t.a.m. í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Landabúnaðarháskóla Íslands. Auk þess voru á árinu 2022 meðal annars haldin alþjóðleg nýsköpunarnámskeið fyrir háskólanemendur til að efla frumkvöðlastarf með áherslu á sjálfbært fiskeldi, framtíðarpróteingjafa, sérhæfðar næringarþarfir og hliðarafurðir matvælaframleiðslu og matvælavinnslu. Nokkrir háskólanemendur unnu að nýsköpunarverkefnum í sumarvinnu hjá Matís eða á styrkjum frá Nýsköpunarsjóði námsmanna m.a. til að skoða hvort þörungar geti nýst við textíliðju á Íslandi.

Fræðsluverkefnið Grænir frumkvöðlar framtíðar var kynnt víða til að vekja áhuga og efla þekkingu nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á loftslags- og umhverfismálum, nýsköpun og sjálfbærri auðlindanýtingu í þeim tilgangi að virkja þau í baráttunni gegn loftslagsvánni og hvetja
til grænnar nýsköpunar. Þá var kennsluefni þróað fyrir miðstig grunnskóla um sjálfbærni, matvælatækniog framleiðslu þar sem leiðarljósið er heilsusamlegt mataræði fyrir eigin vellíðan og jörðina okkar.

Á árinu 2022 fékk Matís í samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) / Beint frá býli styrk úr Matvælasjóði til að vinna verkefnið Nýjar lausnir fyrir vinnu við merkingar matvæla. Þarfagreining var unnin í samstarfi við félagsmenn. Í kjölfarið var bætt við hráefnum í ÍSGEM gagnagrunninn og vefviðmót grunnsins á vefsíðu Matís var gert aðgengilegra. Loks var þróað einfalt vefforrit til útreikninga á næringargildi út frá uppskriftum. Þetta forrit gerir framleiðendum mögulegt að útbúa næringaryfirlýsingar og innihaldslýsingar fyrir merkingar matvæla. Þetta sparar framleiðendum bæði tíma og fjármuni. Vefforritið er aðgengilegt á vefsíðu Matís ásamt ítarlegri handbók sem lýsir notkun forritsins og hvernig skuli staðið að merkingum matvæla.

Stjórnsýsla og heilbrigðiseftirlit

Tengiliður:

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir

sviðstjóri

asta.h.petursdottir@matis.is

Nokkur verkefni Matís eru sérstaklega talin nýtast stjórnsýslu og yfirvöldum við ákvarðanatöku. Verkefni sem falla í þennan flokk eru fjölbreytt og dæmi um slík verkefni sem voru unnin árið 2022 er auka þekkingu og bæta stjórnun á veiðum evrópska flotans á hafsvæðum utan Evrópu, greining á neysluhegðun sem drifkrafti í matarferðaþjónustu, auka þekkingu á sýklalyfjaónæmi í E-Coli með það að markmiði að útbúa viðbragðsáætlanir til að viðhalda lágu hlutfalli sýklalyfjaónæmis á Norðurlöndunum, sem og að taka fyrstu skref í að uppfæra ÍSGEM gagnagrunninn sem lítið hefur verið viðhaldið síðastliðin ár.

Mörg þessara verkefna eru unnin innan norræns-, norðurslóða- og evrópsks samstarfs. Í þessum flokki eru einnig verkefni sem falla undir formennsku Íslands í Norðurskautsráði og Norrænu ráðherranefndinni.

Matís rekur tilvísunarrannsóknastofur á breiðu sviði örveru- og efnamælinga á Íslandi, þær falla einnig í þennan flokk. Mælingar á tilvísunarrannsóknastofunum eru framkvæmdar í samræmi við alþjóðlegar, opinberar og vottaðar mæliaðferðir. Þær veita einnig öðrum opinberum og einkareknum rannsóknastofum aðstoð og leiðbeiningar við mælingar en nánar er fjallað um þær í kafla 6.

Umhverfis- og sjálfbærnirannsóknir

Tengiliður:

Birgir Örn Smárason

fagstjóri

birgir@matis.is

Matís sinnir vöktun á óæskilegum efnum í sjávarfangi og hefur gert það til fjölda ára. Niðurstöður vöktunarinnar sýna að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn óæskilegra efna, og hafa útflytjendur nýtt sér þær niðurstöður óspart við markaðssetningu sinna afurða. Sophie Jensen stýrir vöktunarverkefninu.

Mikið var um að vera í málefnum tengdum umhverfismálum og sjálfbærni hjá Matís árið 2022. Nýr faghópur var stofnaður sem ber heitið Sjálfbærni & Eldi, sem hefur það að markmiði að styrkja rannsóknir og nýsköpun innan málaflokksins. Faghópurinn vinnur markvisst að því að auka sjálfbærni og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu til eflingar íslenskra afurða og atvinnulífs.

Áherslur hópsins snúa að því að rannsaka hvernig við getum aukið framboð matvæla og eflt matvælaframleiðslu án þess að ganga á auðlindir með ósjálfbærum hætti, hvernig við getum nýtt hliðarstrauma til verðmætasköpunar innan hringrásahagkerfis lífauðlinda, rannsóknir á umhverfisáhrifum matvæla ásamt ýmiskonar þjónustu og rannsóknum í fiskeldi.

Faghópurinn kemur að vinnu við nýsköpunar- og rannsóknarverkefni sem og ráðgjöf og þjónustu til viðskiptavina varðandi sjálfbæra matvælaframleiðslu. Mörg verkefni snúa að greiningu á umhverfisáhrifum og/eða kolefnisspori af framleiðslu, vöru eða þjónustu þar sem notast er við aðferðafræði á borð við lífsferilsgreiningu (LCA). Hópurinn hefur komið að vinnu við þróun staðla innan alþjóðlega staðlaráðsins (ISO) um hvernig skal greina kolefnisspor sjávarafurða. Einnig er lögð áhersla á nýtingu auðlinda innan hringrásarhagkerfisins, aðlögun og lágmörkun loftslagsbreytinga sem og vistkerfanálgun.

Nokkur fjölbreytileiki var á eðli umhverfistengdra rannsókna- og nýsköpunarverkefna hjá Matís árið 2022. Þar ber helst að nefna verkefni tengd loftslagsmálum og plastmengun í hafi, efnamælingar á íslensku sjávarfangi og þörungum, auk örverurannsókna.

Sem hluta af þjónustusamningi við MAR sinnir Matís vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs. Teknar hafa verið saman niðurstöður fyrir sjávarfang árið 2022 (Matís skýrsla 01-23). Markmið verkefnisins er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggis og heilnæmis og að nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum og er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem stöðug útvíkkun og endurskoðun er nauðsynleg. Almennt voru niðurstöðurnar sem fengust árið 2021 í samræmi við fyrri niðurstöður frá árunum 2003 til 2012 sem og 2017 til 2021. Niðurstöður ársins 2022 sýndu að öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma og að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna (díoxín og PCB), varnarefna og þungmálma (kadmíum, blý og kvikasilfur).

Þróunaraðstoð

Tengiliður:

Margeir Gissurarson

verkefnastjóri

margeir@matis.is

Á árinu 2022 tók Matís þátt í fjórum verkefnum sem eru hluti af þróunaraðstoð Íslands. Samstarf við Sjávarútvegsskólann GRÓ-FTP (áður UNU-FTP) hélt áfram og stýrir Matís gæðastjórnunarlínu skólans.

Sjávarútvegsskólinn tók við 27 nemendum á haustmánuðum 2021, fyrir skólaárið 2021/2022 og þar af voru sex nemendur á gæðastjórnunarlínunni. Skólaárið 2022/2023 hófst á haustmánuðum 2022 og af 25 nemendum voru fjórir sem hófu nám á gæðastjórnunarlínu skólans. Til stóð að sex nemendur yrðu hjá Matís en tveir hættu við á síðustu stundu. Gert er ráð fyrir stærri hóp á næsta skólaári.

Meðal annarra verkefna Matís er snúa að þróunaraðstoð var uppsetning rannsóknarstofu í Líberíu til prófunar á fiski, fiskafurðum og neysluvatni. Þá fóru starfsmenn frá Matís með fulltrúum frá Utanríkisráðuneytinu til Síerra Leóne á vormánuðum 2022 til að kanna aðkomu Matís að þróunarverkefnum þar í landi. Seinna sama ár tók Matís þátt í undirbúningi að móttöku sjávarútvegsráðherra Síerra Leóne ásamt sendinefnd. Í september var ráðherranum boðið til Matís og starfsemin kynnt henni. Ísland hefur gert tvíhliða samkomulag um þróunaraðstoð við Síerra Leóne og er Matís reiðubúið til að styðja Utanríkisráðuneytið í því þróunarstarfi með tæknilegri aðstoð ef með þarf.

Sjávarútvegsskólinn GRO-FTP hefur starfað frá 1998 og hefur á þeim tíma útskrifað um 1000 nemendur frá yfir 60 löndum.

Þjónustumælingar

Tengiliður:

Natasa Desnica

fagstjóri

natasa@matis.is

Hjá Matís er boðið upp á fjölbreytilegar mælingar á sviði örveru-, efna- og erfðafræði í þjónustu við fyrirtæki, einstaklinga, yfirvöld og stofnanir. Svanhildur Hauksdóttir mælir hér fríar fitusýrur á rannsóknastofu Matís.

Til að tryggja öryggi, heilnæmi, gæði og rekjanleika í hvers kyns matvælaframleiðslu þarf fjölbreyttar mælingar sem sýna að allir ferlar framleiðslunnar séu í góðum og öruggum farvegi. Matís hefur faggildingu fyrir stórum hluta þeirra aðferða sem notaðar eru en faggilding er gæðastimpill sem vottar alþjóðlega viðurkenndar aðferðir og tækjabúnað.

Rannsóknastofa Matís býður upp á örveru-, efna- og erfðarannsóknir á matvælum, vatni, hráefnum, lyfjum, fóðri og umhverfissýnum. Þjónustumælingar Matís fara fram í Reykjavík og í Neskaupstað. Á árinu fóru yfir 11.000 sýni í örveru- og efnamælingar, en umfang mælinga fyrir hvert sýni er misjafnt þar sem oft eru framkvæmdar margar misflóknar mælingar á hverju sýni. Nær 20% sýna voru mæld í Neskaupstað.

Við mælingar er m.a. lögð áhersla á samsetningu hráefnis og afurða í matvælavinnslu og fóðurgerð auk breytinga á gæðum þeirra sem verða við vinnslu og geymslu t.d. í tengslum við næringargildi, geymsluþol og stöðugleika. Matís framkvæmir auk þess skynmat, en það er kerfis-bundið mat á lykt, bragði, útliti og áferð matvæla til að meta gæði þeirra. Hjá Matís eru einnig framkvæmdar erfða- og tegundagreiningar nytjastofna, búfés og matvæla sem meðal annars má nýta við að koma í veg fyrir matvælasvindl eða við upprunarannsóknir á eldis- löxum sem hafa sloppið úr kvíum og veiðast í ám.

Einnig eru framkvæmdar foreldragreiningar og erfða- valsrannsóknir. Árið 2022 voru riðugensgreiningar gerðar á u.þ.b. 2000 kindum og foreldragreiningar framkvæmdar á um 1300 hrossum. Matís og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins náðu samkomulagi varðandi aðkomu fyrirtækisins að stórfelldum erfðagreiningum fyrir innleiðingu erfðamengisúrvals í íslenska kúastofninum. Erfðamengisúrval mun flýta erfðaframförum í kúastofninum og auka öryggi kynbótastarfsins. Um 6000 gripir voru erfðagreindir árið 2022 og gert er ráð fyrir að þeim fari fjölgandi á næstu árum.

Auk mælinga veitir Matís opinberum aðilum, matvæla- fyrirtækjum, lyfjafyrirtækjum, sláturhúsum og einkaaðilum ráðgjöf í tengslum við mælingar. Matís hefur þá sérstöðu að geta samþættað tilraunaeldisrannsóknir, efna- og örverumælingar og skynmat og veitir því heildstæða þjónustu til viðskiptavina.

Annað

Tengiliður:

Óli Þór Hilmarsson

verkefnastjóri

olithor@matis.is

Í þennan áhersluflokk flokkast hópur fjölbreyttra verkefna sem annað hvort falla ekki undir neinn ofangreindra flokka eða falla undir fleiri en einn áhersluflokk, svo sem verkefni sem þjónusta til jafns sjávarútveg og landbúnað. Einnig eru í þessum flokki verkefni sem snúa að rannsóknum og hagnýtingu á einstökum erfðaauðlindum landsins, einkum örverum og ensímum þeirra.

Alls voru 16 verkefni skilgreind í þennan flokk á árinu 2022, og voru 4 þeirra á sviði matvælaöryggis, 2 á sviði lýðheilsu og 10 á sviði verðmætasköpunar. Dæmi um verkefni sem snúa að matvælaöryggi er greining á þróun á lausnum í tengslum við merkingar matvæla, erfðabreyting hitakærra örvera, og þróun gæðamats á lýsi með furan fitusýrum. Sem dæmi um verkefni er snúa að lýðheilsu má nefna þverfaglega rannsókn á samlífi manneskja og örvera til að móta nýtt sjónarhorn á mannlega heilsu, matarhætti, félagslegt samneyti og samspil manneskja og örvera við umhverfi sitt sem gæti vísað veginn í átt að sjálfbærari framtíð. Meðal verkefna er snúa aðallega að verðmætasköpun í þessum flokki eru aðkoma að þróunarvettvöngum og klösum, nýting hitakærra örvera, þróun litarefna fyrir matvælaiðnað og skimun fyrir lífefnum úr sjávarörverum sem geta nýst á fjölbreyttan hátt s.s. sem lyf eða heilsuvörur.

Víðtækt samstarf

Grunnurinn að árangri af starfi Matís er öflugt samstarf, innanlands sem utan, með fyrirtækjum, stofnunum, yfirvöldum og frumkvöðlum. Kortið hér til hægri sýnir valda samstarfsaðila í rannsóknaverkefnum sem Matís kom að á árinu 2022. Smelltu á kortið til að sjá samstarfsaðila og verkefni unnin í samstarfi við þá.

Samstarfsadilar

Embætti landlæknis

Ægir Seafood

Ajtel

Akraborg

Arctic Fish

Arctic Protein

Arnarlax

Artic Fish

Artic Protein

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisið

Bændasamtök Íslands

Bíóbú

Brim

Búlandstindur

Centra Fyrirtækjaráðgjöf

Dermos

Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda

FISK-Seafood ehf.

Geitfjárræktarfélag Íslands

GHÞ ehf

Grímur Kokkur

Grunnskólinn austan vatna

Haf og Vatn

Hafrannsóknarstofnun

Háskóli Íslands

Háskólinn á Akureyri

Háskólinn á Hólum

Háskólinn í Reykjavík

Héðinn

Hyndla

Ice Fish Farm

Inventec

Ísfélag Vestmannaeyja

Ísfiskur

Ísfugl

Íslandsstofa

Íslenski ferðaklasinn

Íslenskir Saltfiskframleiðendur

Jóhanna B Þorvaldsdóttir, bóndi

Kælismiðjan Frost ehf.

Kokkalandsliðið

Landbúnaðarháskóli Íslands

Laugarnesskóli

Laxar Fiskeldi

Lovísa R Bjarnadóttir, bóndi

Magla

Margildi

Matarauður Íslands atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Matarmarkaður Íslands

Matfugl

Menntaskólinn í Kópavogi

Micro-ryðfrí smíði ehf.

Mjólkursamsalan

MPF Iceland Fish Protein

Nesbúegg

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Primex ehf

Pure Natura

Rannsóknarmiðstöð ferðamála

Rannsóknarstofa í Lyfja og eiturefnafræði

Rannsóknasetur HÍ Sandgerði

Reykjagarður

Reykjalundur

Sæbýli

Sæplast Iceland ehf.

Samband garðyrkjubænda

Samherji

Sif Matthíasdóttir, bóndi

Sigrún Indriðadóttir, bóndi

Síldarvinnslan hf

Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið

Skinney-Þinganes hf.

Skógræktin

Sláturfélag Suðurlands

Slow Food Reykjavík

Sölufélag garðyrkjumanna

Stóra Ármót – Tilraunabú í nautgriparækt

Tilraunastöð HÍ að Keldum.

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Trefjar ehf

Umhverfisstofnun

UNA skincare

UNU-FTP

Varmahlíðarskóli

Vaxa

Vísir

Þorbjörn

Þörungaverksmiðjan / Thorverk

Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins

Íslensk Bláskel

Aurora Seafood

Genís

Útgerðarfélag Akureyrar

Slippurinn

Fóðurverksmiðjan Laxá

Skaginn 3X

KeyNatura

Atmonia

Landsvirkjun

Efnasmiðjan

Önnur starfsemi Matís sem styður við íslenskt atvinnulíf

Matís gefur út og miðlar fjölbreyttu fræðsluefni, og stendur fyrir námskeiðum og þjálfun, t.d. vefnámskeiðum á síðunni namskeid.matis.is. Óli Þór Hilmarsson, verkefnastjóri hjá Matís, ásamt vösku liði heldur utan um miðlun fræðsluefnis.

Auk samstarfs gegnum rannsókna- og nýsköpunarverkefni styður Matís viðskiptavini sína með mæliþjónustu og ráðgjöf, með því að bjóða upp á ýmiss konar fræðslu og þjálfun og með rekstri matarsmiðju. Matís veitir frumkvöðlum og fyrirtækjum ráðgjöf á sviðum sem falla undir sérfræðiþekkingu starfsmanna þess. Matís hefur m.a. unnið fýsileikagreiningar, komið að vöruþróun, vinnsluhönnun og upplýsingaöflun fyrir viðskiptavini sína. Matís gefur út og miðlar fjölbreyttu fræðsluefni, þar á meðal fjölda handbóka eins og fiskbókin, kjötbókin og HACCP bókin. Einnig stendur Matís fyrir ýmiskonar þjálfun og námskeiðum þ.m.t. vefnámskeiðum.

Matís rekur matarsmiðju til að aðstoða frumkvöðla í matvælavinnslu. Þar er aðstaða til fjölbreyttrar matvælavinnslu sem notendur nýta til að framleiða vörur sínar samkvæmt útgefnu leyfi heilbrigðisyfirvalda. Tilraunaeldhús Matís er hluti af matarsmiðju. Frumkvöðlar hafa tækifæri til þess að leigja eldhúsið en þess á milli er það nýtt af nemendum og starfsfólki við vöruþróun og í tengslum við hinar ýmsu rannsóknir á matvælum. Árið 2022 var eldhúsið yfirfarið vandlega. Fjárfest var í ýmiskonar áhöldum og búnaði til að bæta aðstöðuna ásamt því að úreldum tækjum var skipt út fyrir ný.

Ráðgjafaþjónusta við stjórnvöld og nefndarstörf

Í samræmi við þjónustusamning veitir Matís stjórnvöldum ráðgjöf og sérfræðingar fyrirtækisins taka þátt í störfum nefnda og vinnuhópa, svara fyrirspurnum, gefa umsagnir og álit á reglugerðum og lagafrumvörpum sem varða hlutverk Matís.

Einnig sitja sérfræðingarnir í ýmsum stjórnar- og vísindanefndum styrktarsjóða til að koma íslenskum áherslum og stefnum á framfæri og styðja þannig aðkomu íslenskra aðila í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi sem og að verja hagsmuni og samkeppnisaðstöðu Íslands á erlendum vettvangi.

Sérfræðingar Matís vinna í starfshópum Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA), en Matís er samþykkt sem Article 36 stofnun af EFSA. Skilyrði fyrir samþykki, er að stofnun þarf að vera með viðamikinn vísindalegan þekkingargrunn á sviði matvælaöryggis og áhættumats, ásamt því að vera faglega sjálfstæðar og stunda rannsóknir sem tengjast matvælaöryggi.

Sem dæmi hefur sérfræðingur Matís unnið í starfshópi EFSA um flutning ferskra fiskafurða. Á þeim vettvangi hefur Matís unnið mikilvægt starf gegnum árin með því að vinna að hagsmunum íslenskra útflutningsaðila á sjávarfangi. Þessi vinna hefur leitt af sér aukna vitund um hvaða reglur gilda fyrir flutning á heilum, ferskum fiski og eins hvaða reglur eru væntanlegar.

Helstu verkefni starfsfólks Matís árið 2022 í nefndum og vinnuhópum voru:

 • Seta í Vísinda- og tækniráði
 • Seta í fagráði Hafrannsóknastofnunar
 • Formennska í áhættumatsnefnd á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru
 • Seta í ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur
 • Þátttaka í starfshópi um matarsóun
 • Formennska í íslensku matvælarannsóknanefndinni sem er hluti af Norrænu matvælarannsóknanefndinni (NMKL) og tengist Norrænu ráðherranefndinni í gegnum Norrænu embættismannanefndin um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (EK-FJLS Matvæli)
 • Seta í ráðgjafanefnd um bætta nýtingu lífrænna efna í landgræðslu og landbúnaði

Norðurlönd:

 • Stjórnarseta í NMKL
 • Seta í AG-Fisk, starfshópi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem mótar rannsóknir og samstarf milli Norðurlandanna, þar á meðal NordForsk og Nordic Innovation
 • Formennska í Nordval matsnefndinni sem er í samstarfi við NMKL
 • Seta í ráðgjafanefnd Norræna nýsköpunarsjóðsins um Sustainable Ocean Economy
 • Seta í Norrænu nefndinni NKJ um landbúnaðar og matvælarannsóknir og er samstarfsvettvangur rannsóknaráða Norðurlanda og ráðuneyta landbúnaðarmála þar með talið hráefna- og matvælaframleiðsla.

Evrópa:

 • Seta í stjórnarnefnd og vísindanefnd um Horizon Europe rannsóknaáætlunarinnar, klasa 6: Fæða, lífhagkerfi, náttúruauðlindir, landbúnaður og umhverfi
 • Seta í stjórnar- og vísindanefnd Circular Bio-based Europe, CBE
 • Marine Microbiome starfshópur í Atlantic Ocean Research Alliance, AORA

Öryggis- og forgangsþjónusta á sviði matvæla

Matís gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla og hefur verið tilnefnt sem tilvísunarrannsóknarstofa (TVR) á eftirfarandi sviðum:

 1. Greining og prófun vegna sjúkdóma sem berast milli manna og dýra (súnósur), á sviði Salmonella í matvælum
 2. Vöktun á sjávarlífeitri
 3. Rannsóknir á Listeria monocytogenes
 4. Rannsóknir á kóagúlasa jákvæðum klasakokkum, þ.m.t. Stapylococcus aureus
 5. Rannsóknir á Escherichia coli, þ.m.t. verótoxínmyndandi E. coli (VTEC) sem mynda verósýtótoxín
 6. Rannsóknir á dýrapróteini í fóðri
 7. Rannsóknir á varnarefnaleifum
 8. Rannsóknir á þungmálmum í fóðri og matvælum
 9. Rannsóknir á náttúrueiturefnum (m.a. sveppaeiturefni)
 10. Rannsóknir á efnum sem myndast við framleiðslu
 11. Rannsóknir á þrávirkum lífrænum efnum í matvælum og fóðri

Til þess að rannsóknastofur geti hlotið tilnefningu sem TVR þurfa þær að hafa faggildingu á viðkomandi rannsóknaeða prófunarsviði. TVR verður að geta sýnt fram á að mælingar á viðkomandi sviðum séu gerðar í samræmi við alþjóðlegar opinberar og vottaðar mæliaðferðir. Einnig er TVR skuldbundin til að veita öðrum rannsóknastofum aðstoð og leiðbeiningar við tilgreindar mælingar, hvort sem rannsóknastofurnar eru einkareknar eða opinberar. Matís er skylt að taka þátt í samanburðarprófum skipulögðum af tilvísunarrannsóknastofum Evrópusambandsins (EURL) ásamt árlegum fundum skipulögðum af EURL þar sem farið er yfir helstu nýjungar í mæliaðferðum, yfirvofandi breytingar á hámarksgildum í reglugerðum á sviði hverrar tilvísunarrannsóknarstofu o.fl. TVR er skylt að miðla þessum upplýsingum til hagaðila, þ.e. til lögbærra yfirvalda á sviði matvælaöryggis (Matvælastofnunar og Matvælaráðuneytisins sem og tilnefndra opinberra rannsóknastofa.

Ábyrgðaraðilar hafa verið skipaðir hjá Matís fyrir öll 11 sviðin sem Matís er tilnefnt á og hafa verið haldnir upplýsinga- og skipulagsfundir á árinu með þessum ábyrgðaraðilum til þess að þeir séu upplýstir um ábyrgðarsvið sitt og skyldur. Sömuleiðis hefur verið tekin saman ársskýrsla fyrir árið 2022 um starfsemi tilvísunarrannsóknarstofa sem Matís er tilnefnt fyrir (skýrsla Matís 08_23).

Öryggis og forgangsþjónusta Matís felur í sér að tryggja aðgang yfirvalda að öryggisþjónustu hjá faggildri rannsóknastofu. Ef upp kemur matvælavá er þannig hægt að tryggja lágmarkviðbragðstíma við óvæntum uppákomum sem geta ógnað matvælaöryggi og heilsu neytenda. Öryggis- og forgangsþjónusta Matís tryggir einnig að nauðsynlegur tækjabúnaður og sérfræðiþekking séu til staðar til að íslenskir eftirlitsaðilar geti stundað matvælaeftirlit.

Matís um land allt  

Matís gegnir mikilvægu hlutverki í verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi um land allt í öflugri samvinnu við stóran hóp samstarfsaðila. 

Matís gegnir mikilvægu hlutverki í verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi um land allt í öflugri samvinnu við stóran hóp samstarfsaðila. Nær hvert einasta rannsókna- og nýsköpunarverkefni Matís er unnið annað hvort í beinu samstarfi við aðila utan höfuðborgarsvæðisins eða stuðlar með öðrum hætti að uppbyggingu og verðmætasköpun á landsbyggðinni.

Starfsstöðvar Matís eru sex, í Reykjavík, Hvanneyri, Akureyri, Ísafirði, Neskaupstað og Vestmannaeyjum. Ekki var fastur starfsmaður í Vestmannaeyjum á árinu en Matís er í góðu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu og stefnt er að því að ráða starfsmann í starfsstöðina. Vorið 2022 urðu starfsmenn Matís á Hvanneyri tveir talsins og fluttu þeir sig úr aðstöðu Landbúnaðarháskólans yfir í Bændahöll Vesturlands.

Áherslur starfsstöðva Matís 

Megintilgangur starfsstöðva á landsbyggðinni er að efla tengslin við atvinnulíf og hagaðila. Áhersla hefur verið lögð á landbúnaðartengdar rannsóknir á Hvanneyri, fiskeldi á Vestfjörðum, vinnslutækni og bolfiskveiðar á Norðurlandi, og uppsjávarveiðar/-vinnslu á Austurlandi. Starfsfólk Matís er með aðstöðu í Vestmannaeyjum til að tryggja samvinnu við fyrirtæki og koma að þeirri uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu.

Vestfirðir:

Eldissetur

 • Eldistækni: fóðurgerð, fóðrun, afurðarvinnsla, hliðarstraumar, umhverfismál.
 • Upplýsingaöflun um eldi; umhverfismál, atvinnumál, byggðamál, verðmætasköpun.
 • Háskóla-, mennta- og fræðslusetur.

Norðurland:

Vinnslutækni-vettvangur

 • Vinnslutækni og líftækni í matvælavinnslu með áherslu á bolfisk og landbúnaðarvörur.
 • Upplýsingatækni, gagnaúrvinnsla, sjálfvirknivæðing og hagnýting tækifæra fjórðu iðnbyltingarinnar.
 • Tæknivettvangur fyrir þróun og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Austurland:

Uppsjávarvinnsla og hráefnisstraumar

 • Lífmassaver, þróunarsetur fyrir uppsjávarfisk og hliðarstrauma sjávarafurða.
 • Mæliþjónusta.
 • Afurðaþróun – fóður, matvæli, næringarefni, líftækni, ferlagreining.
 • Gagnasöfnun – líkanagerð. Grunnur fyrir lausnir fjórðu iðnbyltingar.
 • Háskóla-, mennta- og fræðslusetur.

Hvanneyri:

Landbúnaður

 • Búfjárafurðir, landbúnaðarafurðir, hliðarstraumar, vöruþróun
 • Innra eftirlit, gæðamál og neytendur
 • Náttúruauðlindir, þekking og mannauður
 • Stundakennsla við LBHÍ, HÍ og GRÓ FTP

Rannsóknasamstarf við menntastofnanir

Matís er mikilvæg brú milli vísinda og matvæla með því að tengja verkefni háskólanemenda við þarfir atvinnuvega og samfélags.

Samstarf Matís við menntastofnanirnar og fyrirtæki skilar sér í markvissri þjálfun nýliða í rannsóknum, gæðamálum og nýsköpun sem er sérsniðin fyrir matvælageirann. Samtal og samstarf við alla hagaðila um áherslur og verkefni tryggir að verkefnin og reynsla nemenda skili sér í öryggi matvæla, framförum og verðmætum.

Sérstakir samstarfssamningar eru við Háskóla Íslands (HÍ) og Matís og Háskólans á Akureyri (HA). Matís og HÍ eru með sex sameiginlega starfsmenn og einn með HA. Matís leigir Háskóla Íslands aðstöðu til kennslu í meistaranámi matvælafræði. Sérfræðingar hjá Matís héldu utan um og kenndu í námskeiðum um öryggi matvæla, matvælaörverufræði, gæðastjórnun og skynmat matvæla við Háskóla Íslands auk þess að kenna í fleiri námskeiðum við HÍ, HA og LBHÍ.

Talsverður fjöldi nemenda í rannsóknatengdu námi vinna lokaverkefnin sín í samstarfi við Matís. Flestir fara þeir að vinna hjá fyrirtækjum að loknu námi, t.d. sem gæðastjórar eða nýsköpunar- og þróunarstjórar. Tíu BS nemendur við Háskólann á Akureyri unnu lokaverkefnin sín undir leiðsögn sérfræðinga frá Matís árið 2022. Einn nemandi við Háskóla Íslands lauk mastersnámi og fimm doktorsnámi árið 2022. Fimm nemendur við HÍ luku doktorsnámi í samstarfi við Matís í líftækni, iðnaðarverkfræði, matvælafræði og örverufræði. Einn nemandi vann við doktorsnám sitt hjá Matís um gerð líkana til að meta áhrif samfélagslegra þátta á fiskveiðar (University of Utrecht).

Á hverju ári koma margir erlendir nemendur til Matís og hefur fyrirtækið þannig fengið samstarfstengingar um allan heim. Þetta eru starfsnemar á meistarastigi sem koma sex mánuði í senn og meistara- og doktorsnemar sem koma aðallega frá Evrópulöndunum. Á árinu 2022 komu hingað 32 starfsnemar frá níu löndum, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Indlandi, Ítalíu, Spáni,
Tékklandi og Þýskalandi

Öflugur rannsókna- og nýsköpunarkjarni um verkefni í sjávarútvegi er starfandi í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og fiskvinnslufyrirtæki. Í honum störfuðu meðal annars tveir nýdoktorar frá Háskóla Íslands og tveir doktorsnemar í matvælafræði. Áherslan er á endurhönnun fiskmjölsvinnsluferla til að hægt sé að framleiða prótein og fiskolíu til manneldis og á að kanna geymsluhæfni makrílflaka við mismunandi aðstæður með tillit til framahaldsvinnslu í reyktar og niðursoðnar afurðir.

Auk þess vörðu tveir aðrir doktorsritgerðir sínar á árinu. Verkefni þeirra voru m.a. um nýtingu á hliðarstraumum frá vinnslu uppsjávarfiska með að kanna umhverfisáhrif, nýja og sjálfbæra próteinframleiðslu í fæðu og fóður og nýsköpun í virðiskeðju botnfiska með áherslu á að endurbæta vinnsluferla um borð í ísfisktogurum til að hámarka gæði hráefnis.

Líftæknihópur Matís vann að fjölda verkefna samvinnu við háskóla og fyrirtæki. Þar á meðal eru verkefni tengd sjávarlíftækni og nýtingu hliðarafurða úr kornvinnslu. Matís hélt áfram að stuðla að nýsköpun með því að aðstoða fyrirtæki á Íslandi við uppbyggingu líftækniiðnaðar. Þrír doktorsnemar unnu að rannsóknum sínum í líftækni á árinu. Verkefnin snúast um þróun hitakærra frumuverksmiðja til framleiðslu verðmætra efna og lífeldsneytis úr þangsykrum, og um áhrif fjölsykra úr sjávarafurðum á ónæmisviðbrögð. Einn doktorsnemi var í verkefni um þróun lítt þekktra baktería sem frumuverksmiðjur með áherslu á efnaskiptalíkön og efnaverkfræði fyrir Rhodothermus marinus og Lactobacillus reuteri útskrifaðist.

Rannsóknir á fjölbreytileika örvera og áhrif þeirra í mismunandi vistkerfum héldu áfram í samvinnu við Háskóla Íslands, aðrar menntastofnanir, stofnanir og fyrirtæki. Þessa rannsóknir hafa meðal annars aukið þekkingu okkar á hlutverki örvera sem tengist matvælaöryggi. Áhersla var lögð á hagnýtingu og samlífi örvera í daglegu lífi manna með þverfaglegri nálgun til að gefa nýtt sjónarhorn á heilsu og samspil manneskja og örvera við umhverfi sitt í átt að sjálfbærari framtíð. Einn doktorsnemandi sem rannsakaði á neðanjarðar örverusamfélögum í basalti á eldfjallaeyjunni Surtsey útskrifaðist.

Stefnumótun

Matís vann að því að móta rannsóknaáherslur til framtíðar í samvinnu við stjórn og MAR. Rannsóknaáherslur Matís til framtíðar byggja á verkefnum Matís um verðmætaukningu í matvælaiðnaði, líftækni, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Matís vann að því að móta rannsóknaáherslur til framtíðar í samvinnu við stjórn og MAR. Rannsóknaáherslur Matís til framtíðar byggja á verkefnum Matís um verðmætaukningu í matvælaiðnaði, líftækni, matvælaöryggi og lýðheilsu. Þær byggja á lögum um hlutverk Matís, matvælastefnu og öðrum skyldum stefnum stjórnvalda í sjávarútvegi og landbúnaði. Þau taka einnig mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2017 um sjálfbæra þróun. Matís er brú á milli atvinnulífs og háskóla og fjárfestir í þekkingu, færni og innviðum til rannsókna og nýsköpunar í matvælaframleiðslu og líftækni í samstarfi við fyrirtæki og háskóla

Matís mætir áskorunum og nýtir tækifæri til verðmætaaukningar í matvælaframleiðslu á sjálfbæran hátt í hringrásarhagkerfi. Áhersla er á sjálfbærar, heildrænar og
þverfaglegar lausnir.
Rannsóknaáherslur Matís til framtíðar eru fjórar:

 • Fæðuöryggi og sjálfbær matvælaframleiðsla
 • Hámörkun verðmæta við nýtingu lífauðlinda
 • og hráefna
 • Örugg og heilnæm matvæli
 • Þróun lausna til að mæta umhverfisáhrifum

Samfara stöðugri uppfærslu núverandi innviða og sérfræðiþekkingar, þarf Matís að byggja upp nýja innviði og þekkingu til að vinna að framtíðaráherslunum. Uppbygging og rekstur lífauðlinda- og matvælavinnsluvers krefst bæði nýrra tækja og starfsfólks með iðnþekkingu og vélstjóramenntun. Í fiskeldinu þarf fóðurfræðing. Svið matvælaöryggis og heilnæmis matvæla þarf uppfærslu tækja til efna-, örveru- og erfðagreininga og sérfræðing í örplasti. Við greiningu og úrvinnslu stórra gagnasafna og gagnagrunna þarf ný forrit og tæki og sérfræðinga í gagnavinnslu og lífupplýsingafræði. Varðandi tækninýjungar í nýsköpun þarf tilheyrandi tæki og sérfræðinga í vinnslueiginleikum matvæla og í stofnfrumurækt.

IS