Lang stærstur hluti akuryrkju er keyrður áfram með notkun tilbúins áburðar. Helstu næringarefnin sem litið er til í áburði eru nitur (N), fosfór (P), kalí (K), kalk (Ca) og brennisteinn (S) ásamt fjölmörgum snefilefnum. Lífrænn úrgangur inniheldur þessi sömu næringarefni en er ekki besti áburður sem völ er á hvað varðar styrk næringarefna eða kostnaðar við nýtingu. Í ljósi þess að verð á tilbúnum áburði hefur tvöfaldast milli ára, að um takmarkaðar auðlindir er að ræða og óumhverfisvæna framleiðslu hans, þá er lífrænn úrgangur og hliðarafurðir vinnsla orðnar enn mikilvægari auðlindir sem vert er að nýta í auknum mæli.
Rannsóknar- og nýsköpunarverkefnið Sjálfbær áburðarframleiðsla – heildstæð nálgun á hringrásar- hagkerfi var styrkt af Markáætlun Rannís í byrjun árs 2021 þar sem samstarfshópurinn kannar leiðir til að nýta staðbundnar lífrænar auðlindir, aukaafurðir úr ýmiskonar framleiðslu og ferla til að framleiða sjálfbæran áburð fyrir íslenskan landbúnað og landgræðslu. Þessi skýrsla er einn liður í verkefninu þar sem gerð var úttekt á þeim lífræna úrgangi sem fellur til á Íslandi, bæði út frá magni og næringarsamsetningu.
Markmið þessarar skýrslu voru eftirfarandi:
– Að bera kennsl á og reikna út magn lífræns úr- gangs sem fellur til á Íslandi og gæti nýst í framleiðslu á áburði. reikna út magn lífræns úrgangs sem fellur til á Íslandi og gæti nýst í framleiðslu á áburði.
– Að reikna út magn næringarefna (NPK) í lífrænum úrgangi samkvæmt mælingum sem framkvæmdar voru í verkefninu ásamt innlendum og erlendum heimildum þar sem upplýsinga vantaði.
– Að koma með tillögur og greina hvar helstu tækifæri liggja í aukinni notkun á lífrænum úrgangi til áburðarframleiðslu á Íslandi.
Magn lífræns úrgangs frá dýrum var reiknað út frá fjölda dýra, fóðurþörfum þeirra og fóðurnýtingu. Við útreikninga á magni annarra lífrænna efna var stuðst við bókhald Umhverfisstofnunnar. Næringarinnihald lífrænna hráefna var fundið út ýmist með efnamælingum, heimildaleit eða hvoru tveggja.
Niðurstöður þessa verkhluta varpa ljósi á tækifæri til aukinnar nýtingar lífræns úrgangs til áburðar og þeim fyrirstöðum sem eru til staðar. Niðurstöður gefa til kynna að heildarmagn NPK næringarefna í lífrænum úrgangi sem fellur til á Íslandi eru í svipuðu magni og í innfluttum tilbúnum áburði en magn niturs er þó töluvert lægra. Hvað varðar tækifæri til aukinnar nýtingar ber helst að nefna fiskeldisseyru, sláturúrgang og alifuglaskít. Lífrænn úrgangur er oftast vatnsríkur og styrkur næringarefna lágur. Því þarf meira magn úrgangs með tilheyrandi flutningskostnaði eða frekari vinnslu til að fá svipuð áhrif og með innfluttum tilbúnum áburði.