Fréttir

Grein frá Rf í nýjasta tbl. Ægis

Í desemberblaði tímaritsins Ægir er að finna grein um rannsóknir sem gerðar voru á Rf um samanburð á geymsluþoli annars vegar eldisþorsks og hins vegar villts þorsks. Eins og áður hefur komið fram hafa niðurstöðurnar vakið athygli víða.

Höfundar umræddrar greinar í Ægi eru tveir sérfræðingar á Rf, þær Soffía Vala Tryggvadóttir og Héléne Liette Lauzon. Þessi rannsókn er hluti af stóru rannsóknarverkefni sem hófst árið 2003 og ber heitið Framtíðarþorskur.

Tvær skýrslur hafa komið út í verkefninu, sú fyrri, Framtíðarþorskur: Gæðamat á eldisþorski (nr. 10-04) kom út í október 2004 og sú síðari, Framtíðarþorskur: geymsluþol, áferð, vöðvabygging og vinnsla eldisþorsks (nr. 26-05) og sú sem greinin í Ægir byggir á, kom út í nóvember 2005. Skýrslurnar má skoða með því að smella hér.

Lesa grein í Ægi

Ferskfiskhandbókin

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Stefnumótandi sérfræðingur

margeir.gissurarson@matis.is

Ferskfiskhandbókin sem nú birtist á vefnum, fjallar um innganginn að allri almennri fiskvinnslu. Það skiptir í raun ekki máli hver lokaafurðin verður, þess er ætíð krafist að hráefnið sé af bestu gerð. Það er gamaldags og úrelt viðhorf að lélegt hráefni sé hæft til framleiðslu sumra afurða. Allir neytendur eiga kröfu á að þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing með því að bjóða þeim aðeins upp á það besta.

Gríðarleg þekking hefur orðið til í kjölfar margra rannsókna- og þróunarverkefna undanfarin ár, tæki og búnaður í veiðiskipum hefur tekið stórstígum framförum og það sama á við í flestum vinnslum landsins. Svo allt er til staðar til að framleiða eingöngu gæðaafurðir.

Það er ljóst að þekking er undirstaða þess að framleiða sem mest verðmæti úr sjávarauðlindinni og það er fátt mikilvægara en að gera hlutina rétt frá byrjun, ferskfiskhandbókin er liður í þeirri viðleitni að auka aðgengið að handhægum upplýsingum.

Gerð þessarar handbókar var fjármögnuð af Matís með góðum stuðningi frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins.

Hjá Matís er hægt að nálgast mikinn fróðleik um flest allt sem viðkemur sjávarafurðum og allir starfsmenn fyrirtækisins eru boðnir og búnir til að gera gott betra í samvinnu við íslenskan sjávarútveg.

Handbókina má nálgast hér: Ferskfiskbókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu á kældum fiski

Handbók um hollustu lambakjöts

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Hugmyndir um hollustu lambakjöts hafa verið nokkuð á reiki. Kjötið hefur liðið fyrir neikvæða ímynd sem hefur loðað við lambafituna síðustu áratugi. Þekkingu í næringarfræði hefur fleygt fram á síðustu árum og ný efni og nýjar hliðar á þessum málum hafa komið í ljós. Lambakjötið hefur ýmsa góða kosti frá sjónarhóli næringar mannsins en athygli almennings hefur ekki beinst að þessum þáttum sem skyldi.

Í þessari skýrslu er leitast við að draga saman skýrar upplýsingar um hollustuþætti lambakjöts fyrir almenning og þá sem veita upplýsingar um vöruna. Ljóst er að margt á eftir að koma í ljós um hollustuþætti í lambakjöti á næstu árum og verður spennandi að fylgjast með þróuninni. Í þessu ættu að felast tækifæri fyrir sauðfjárframleiðendur.
Skýrslan er hluti af verkefni um hollustuþætti í lambakjöti. Styrkur frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins gerði vinnuna mögulega.

Handbókina má nálgast hér.

Skýrslur

Stöðugleiki frosinna fiskafurða

Útgefið:

29/03/2000

Höfundar:

Margrét Geirsdóttir

Styrkt af:

Rannsóknarráð Íslands

Markmið þessa verkefnisins er að kanna stöðugleika og geymsluþol frystra þorskafurða. Einnig að skoða hvort hægt sé að nota glermark (glass transition temperature) afurða við gerð spálíkana fyrir geymsluþol í frysti og sem stjórntæki við vöruþróun. Breytingar í stöðugleika afurðanna eru mældar með skynmati, áferðar- og efnamælingum og metið hvaða þættir breytast mest og hafa aðallega áhrif á stöðugleikann.

Einnig er markmið verkefnisins að mæla glermark í þorskholdi og kanna samspil þess og stöðugleika með gerð spálíkana fyrir geymsluþol afurða í frystigeymslu í huga. Þekking á stöðugleika og geymsluþoli verður nýtt við mat á neyslugæðum afurða sem leitt getur til meiri verðmætasköpunar. Þekking á glermarki getur nýst sem tæki við framleiðslustýringu og vöruþróun og þar með leitt til umbóta í vinnslunni.


Miklar tafir hafa orðið á verkefninu, aðallega þar sem nauðsynlegt reyndist að kaupa nýjan frystibúnað á Rf m.a. vegna þessa verkefnis. Keypt var frystikista fyrir mjög lágt hitastig og frystihermar voru settir upp sem gefa möguleika á nákvæmri stillingu og skráningu á hitastigi. Niðurstöður úr mælingum eftir 6 mánuði í frysti verða birtar sumarið/haustið 2000.

Erfiðlega hefur gengið að mæla glermark í þorksholdi. Þegar vinna hófst við að mæla glermark í þorski kom í ljós að kælibúnaður DSC tækis, sem notað er við mælingarnar, réð ekki við að kæla sýni niður í æskilegt hitastig. Styrkur fékkst frá Tækjakaupasjóði Rannsóknarráðs til að bæta við þennan búnað og kom nýr kælibúnaður í ágúst s.l. Er nú hægt að framkvæma mælingar við lægra hitastig og er rannsóknaraðstaða öll önnur eftir að þessi viðbót fékkst. Einnig var keyptur nýr hugbúnaður og tölva fyrir tækið sem eykur möguleika á úrvinnslu gagna. Ekki hefur tekist að mæla glermark í þorskholdi en vonast er til að breyttar mæliaðferðir muni gefa betri raun.

Skoða skýrslu
IS