Í morgun sendu Rf og Arkea hf, sem er móðurfélag líftæknifyrirtækisins Prokaria, út sameiginlega fréttatilkynningu þar sem fram kemur að þau hafi undirritað samning um að sérstakt fyrirtæki í eigu Rf muni taka yfir erfðagreininga- og ensímsvið Prokaria.
Nýja fyrirtækið, sem heldur nafni Prokaria, mun taka yfir núverandi verkefni, aðstöðu og tækjabúnað Prokaria og ráða til sín starfsmenn þessara sviða. Dr. Jakob K. Kristjánsson, sem verið hefur forstjóri Prokaria mun taka þátt í þessum breytingunum og taka sæti í stjórn hins nýja félags.
Prokaria hefur á undanförnum árum byggt upp öflugar rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar á sviði erfðagreininga og ensímþróunar. Fyrirtækið er með þróunarsamninga við alþjóðleg stórfyrirtæki í matvælaiðnaði eins og Nestlé og Roquette. Einnig þjónar fyrirtækið fjölmörgum innlendum og erlendum viðskiptavinum í erfðagreiningum á fiski, dýrum og umhverfi. Prokaria hefur verið brautryðjandi hérlendis í þróun og notkun erfðagreininga í fiskeldi og fleiri sviðum.
Arkea hf. verður áfram með rekstur í öðrum dótturfélögum sínum um verkefni á sviði DNA ensíma og próteinframleiðslu úr útblæstri jarðhitaorkuvera. Stefnt er að áframhaldandi góðu samstarfi um þessi og önnur verkefni milli þessara aðila.
Starfsemi Rf hefur þróast mikið á undanförnum árum og framundan eru frekari breytingar á starfseminni. Nýlega voru samþykkt lög á Alþingi um stofnun Matvælarannsókna hf, og verður Rf stór hluti af starfsemi hins nýja fyrirtækis. Í Matvælarannsóknum hf sameinast Rf, Matra, sem er samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Með sameiningunni skapast möguleikar á að byggja upp öfluga rannsóknareiningu á sviði nýsköpunar í matvælaiðnaði, sem mun jafnframt leggja áherslu á að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla með rannsókum á því sviði. Innkoma erfðagreininga- og ensímþrónarsviða Prokaria inn í þetta ferli veitir enn frekari möguleika til uppbyggingar og sóknar fyrir Matvælarannsóknir hf.
Nánari upplýsingar veitir Sjöfn Sigurgísladóttir
Sími 893 8251