Fréttir

Nýstarlegt fiskiker dregur úr rýrnun fisks

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Promens Dalvík, áður þekkt sem Sæplast, hefur hafið framleiðslu á nýstárlegu fiskikeri sem er léttara en önnur ker og með meira inntaksrúmmál en áður hefur þekkst. Hönnun keranna gerir það að verkum að þau draga úr rýrnun og mari á fiski og bæta gæði hráefnis. Fiskikerið er þróað í samvinnu við Matís ohf. (Matvælarannsóknir Íslands) og FISK Seafood á Sauðárkróki og til verkefnisins fékkst styrkur hjá AVS.

Hönnun kersins er með þeim hætti að við stöflun lokar efra kerið því neðra. Í fjögurra kera stæðu þarf því ekki nema eitt lok. Þá er búið að færa göt fyrir lyftaragafla utar á kerið svo að ekki sé hætta á að óhreinindi berist með botni í neðri ker þegar þeim er staflað. Með þessum hætti er hægt að minnka farg á fiski í neðstu lögum keranna og þar með draga úr rýrnum og mari á fiski.

Álagsprófanir á nýju kerunum hafa gefið góða raun hjá Promens. Þá er gert ráð fyrir að FISK Seafood á Sauðárkróki prófi nokkur ker í nokkrar vikur áður en varan fer endanlega í fjöldaframleiðslu.

Upplýsingar á keri frá veiðum til vinnslu

Stefnt er að því að nýju kerin komi til með að búa yfir RFID flögu sem geymir upplýsingar um fisk frá veiðum til vinnslu og tryggir rekjanleika í gegnum vinnsluna. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir sölu á markaði því þær stuðla að auknu upplýsingaflæði og auka öryggi. Upplýsingakerfið er unnið í samstarfi FISK Seafood, Maritech og Matís, en AVS studdi einnig þennan þátt verkefnisins.

Bjarki Magnússon hjá Promens á Dalvík segir að mikill áhugi sé fyrir þessari framleiðslu, það hafi berlega komið í ljós þegar kerið var kynnt opinberlega á Sjávarútvegssýningunni í Brussel í Belgíu á síðasta ári.