IceGut: Áhrif mataræðis á þarmaflóru barna á Íslandi frá meðgöngu til fimm ára aldurs

Heiti verkefnis: IceGut

Samstarfsaðilar: Matís, Háskóli Íslands, Landspítali, Háskólinn á Akureyri, Northern Arizona University, Medical University of Graz, Chalmers University of Technology, Helmholtz Zentrum München

Rannsóknasjóður: Rannís - Öndvegisstyrkur

Upphafsár: 2022

Þjónustuflokkur:

adrir-thjonustuflokkar

Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo@matis.is

Þekking á hlutverki örveruflóru manna hefur aukist verulega síðustu ár og gefa niðurstöður rannsókna til kynna að ýmsir umhverfisþættir séu ákvarðandi í þróun og samsetningu örveruflóru í meltingarvegi á fyrstu árum ævinnar. Hins vegar er lítil þekking á því hvernig næring á meðgöngu og við brjóstagjöf hefur áhrif á þróun örverflórunnar, sér í lagi er skortur á rannsóknum þar sem unnt er að taka tillit til upplýsinga um kvilla á meðgöngu, fæðingarmáta, brjóstagjöf, fyrstu kynna barna af fæðu á föstu formi og fæðuvals fram á grunnskólaaldur. IceGut verkefnið mun á þverfaglegan hátt bæta við þessa þekkingu með því að rannsaka þarmaflóru 8% fæddra barna á Íslandi árið 2018. Þróun örveruflóru og efnaskiptaferlar hennar í meltingavegi verða rannsakaðir frá fæðingu og reglulega fyrstu fimm æviár barnanna og niðurstöðurnar tengdar við upplýsingar um næringu á meðgöngu, við brjóstagjöf sem og næringu barnanna sjálfra. Sérstök áhersla verður lögð á einkenni íslensks mataræðis sem er alla jafna ríkt af fiskmeti og fiskilýsi (uppsprettur D-vítamíns og omega 3 fitusýra) á meðan neysla heilkornaafurða er lág. Nýjustu tækni í raðgreiningum og efnaskiptagreiningum verður beitt til að greina samsetningu örveruflórunnar, erfðamengi hennar og efnaskipti. IceGut verkefnið mun leiða til nýrrar þekkingar um tengsl á milli þróunar örveruflórunnar og efnaskipaferla á fyrstu æviárunum við neyslu einstakra næringarefna. Þetta verður fyrsta rannsóknin á örveruflóru í meltingavegi á íslensku þýði barna.