Sýnileg sjálfbærni

Heiti verkefnis: Sýnileg sjálfbærni

Rannsóknasjóður: Verkefnasjóður sjávarútvegsins

Upphafsár: 2024

Tengiliður

Valur Norðri Gunnlaugsson

Fagstjóri

valur.n.gunnlaugsson@matis.is

Íslenskur sjávarútvegur hefur yfirleitt góða sögu að segja. Veiðisókn er stjórnað með kvótakerfi þar sem gætt er að veiðistofnar séu sjálfbærir og ekki sé gengið of langt í veiðum á einstaka stofnum. Hér eru veiðar yfirleitt með lágt sótspor og hefur mikið verið gert á undanförnum árum við að lækka það. Nýting á hráefninu er yfirleitt betri en víða annarsstaðar og flutningur á markaði fer oftar en ekki fram með skipaflutningum, sem hefur margfalt lægra sótspor en flutningar með flugfragt. Þessum sögum hefur lítið verið flaggað í markaðsstarfi í gegnum tíðina.

Við flóknar og tímafrekar lífsferilsgreiningar á veiðum og vinnslu sjávarafurða hefur komið í ljós að ákveðnir þættir skipta lykilmáli þegar sótspor afurða er reiknað út. Veiðarnar og olíunotkun við þær er stór þáttur, nýting hráefnisins er mikilvægur þáttur, vinnsla og flutningur á hráefni og afurðum, og svo þau pökkunarefni sem notast er við, eru stóru atriðin þegar kemur að því að reikna út sótspor afurða.

Í verkefninu verður útbúinn veflægur gagnagrunnur þar sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta farið inn og sett inn upplýsingar varðandi veiðar og vinnslu og reiknað þannig út vænt sótspor fyrir hverja framleiðslulotu fyrir sig. Þessar upplýsingar ásamt öðrum sem bætt verður við grunninn ættu að nýtast í markaðsstarfi og til að segja fullvinnsluaðilum og jafnvel neytendum sögu afurðanna frá veiðum til verslunar og upplýsa notendur um sótspor hennar og hreinleika.