Markmið verkefnisins er að þróa iðnaðarferil til einangrunar próteina úr stórþörungum. Ferillinn mun byggja á notkun ensíma sem vísindamenn Matís hafa nýlega borið kennsl á og skilgreint, og eru sérhæfð til niðurbrots fjölsykra stórþörunga.
Vísindaleg þekking á ensímum af þessum toga er almennt lítil og þau almennt ekki til á markaði. Í því felst tækifæri til nýsköpunar og þróunar hagnýtra ferla á þeim byggðum. Í verkefninu munum við þróa aðferð sem byggir á meðhöndlun stórþörunga með ensímunum með það fyrir augum að brjóta niður lífmassann og auðvelda þannig prótein útdrátt í kjölfarið. Prótein-afurðinni sem verður til er ætlað að nýtast sem matvæli. Hana mætti t.d. selja sem fæðubótarefni sem prótein duft, eða nýta til þróunar nýrra matvara þar sem afurðinni er blandað í matvæli s.s. til framleiðslu prótein-drykkja, orkustykkja, o.fl. Slíkar afurðir kynnu að vekja athygli og vinsældir neytenda, m.a. fyrir þær sakir að próteinin eru einangruð úr uppsprettu sem sækja má með sjálfbærum hætti og er vegan.