Fréttir

Matís á framadögum 2017

Framadagar 2017 verða haldnir þann 9. febrúar í Háskólanum í Reykjavík á milli kl 10-16.

Matís tekur þátt og mun kynna möguleg sumarstörf og nemendaverkefni á Framadögum.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Framadaga.

Fréttir

Roð nýtt í verðmætar afurðir

Matís hefur ásamt sprotafyrirtækinu Codland unnið að verkefnum þar sem markmiðið er að nýta roð í verðmætar afurðir.

Í verkefninu Lífvirk efni úr roði sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís er markmiðið að kanna hvort efni sem finnast í roði hafi lífvirkni, svo sem blóðþrýstinglækkandi eiginleika eða geta komið í veg fyrir kölkun á brjóskfrumum. Verkefnið hófst árið 2015 og er til tveggja ára.

Kollagen er að verða sífellt vinsælla sem virka efnið í ýmsum neysluvörum en rannsóknir benda til að tengsl séu á milli reglulegar neyslu efnisins og jákvæðra áhrifa á húð og liði.  Heimsmarkaður fyrir fæðubótarefni sem innihalda kollagen er stór og þá aðallega unnið úr svínum. Áætlanir gera ráð fyrir aukinni eftirspurn fyrir kollagenpeptíðum sem unnið eru úr villtum fiski  og er því hér um tilvalið tækifæri að ræða fyrir íslenska framleiðslu.

Verkefnið Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu sem styrkt er af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni er unnið í samstarfi við norska fyrirtækið Biomega, danska tækniháskólann (DTU) og Biosustain einnig í Danmörku ásamt Matís og Codland. Í því verkefni er markmiðið meðal annars að þróa ný ensím til að vinna kollagen úr aukahráefni frá hvítum villtum fiski svo sem þorski og feitum fiski eins og laxi.

Nánari upplýsingar veitir Margrét Geirsdóttir hjá Matís.

Frá fundi í verkefninu „Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu“ í Noregi í október 2016. Peter Kamp Busk DTU, Hemanshu Mundhada Biosustain, Margrét Geirsdóttir Matís, Alex Toftgård Nielsen Biosustain, Davíð Tómas Davíðsson Codland, Lene Lange DTU og Jan Arne Vevatne Biomega.

Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Codland og Oddur Már Gunnarsson Matís undirrita samstarfssamning milli fyrirtækjanna.

Hluti þeirra starfsmanna og nema sem komið hafa að vinnu við kollagenverkefnin á fundi á Sauðárkróki í Maí 2016. Frá vinstri til hægri:  Dagný Björk Aðalsteinsdóttir MS nemi HÍ, Maxime Clays frá Belgíu, Yonathan Souid frá Frakklandi, miðjuröð: Margrét Geirsdóttir Matís, Eva Kuttner Matís Sauðárkróki, Thomas Degrange Frakklandi, fremsta röð Hilma Eiðsdóttir Bakken, Margrét Eva Ásgeirsdóttir og Guðrún Kristín Eiríksdóttir Matís Sauðárkróki, Rodrigo Melgosa frá Spáni.

Hráefni – Þorskroð

Gelatín úr roði

Peptíð úr kollageni úr roði – leynist þar lífvirkni?

Fréttir

Íslenska geitin kynnt starfsmönnum Matís

Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands og Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli í Hvítársíðu, kynntu geitabúskap og geitaafurðir á Vínlandsleið. Starfsmenn fengu stutta kynningu um geitur og var boðið að smakka geitaafurðir, en þær Sif og Jóhanna voru mættar til að funda við Matís um hugsanlegt samstarf.

Geitur hafa fylgt Íslendingum frá landnámi eins og sést á örnefnum víða um land. Um miðja 20. öld lá við að stofninn þurrkaðist út en síðan hefur verið reynt að viðhalda honum. Árið 2014 taldi íslenski geitastofninn um 987 dýr (skv. www.bondi.is).

Geitur búa yfir verðmætum afurðum sem hægt er að vinna svo sem mjólk, þel, kjöt og skinn. Þá hefur verið hægt að fá krem og sápur sem unnið er úr geitaafurðum og jurtum á Háafelli.

Geitur eru ekki rúnar líkt og kindur, og kemba þarf ullina af þeim með sérstökum kambi. Jóhanna bar hálsklút sem hún benti á að væri unninn úr mjúkri og hlýrri kasmírull af íslenskri geit sem er þekkt fyrir fjölbreytilegt litamynstur. Þar sem íslenska geitin hefur verið einangruð hérlendis í um 1100 ár, er ullin í hávegum höfð því hún er talin líkjast einna mest ull af svonefndum kasmírgeitum.


Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á
Háafelli í Hvítársíðu og Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.

Fréttir

Farsælt samstarf Matís og HÍ árið 2016

Háskóli Íslands og Matís hafa átt í góðu samstarfi um langt skeið og var árið 2016 engin undantekning. Í samræmi við starfssemi Matís þá snýr þessi samvinna mest að verkfræði, matvæla- og næringarfræði, lífefnafræði, líffræði og skyldum greinum og er sérstaklega vert að minnast á samstarfið um meistaranámið í matvælafræði.

Matvælafræði átti undir högg að sækja undir lok síðasta áratugar og færri nemendur sem bæði sóttu námið í grunnnámi og meistaranámi og sem útskrifuðust úr náminu en oftast áður. Með sameiginlegu átaki tókst HÍ og Matís að auka áhuga á náminu svo um munaði enda er nám í matvælafræði hagnýtt nám sem býður upp á fjöldann allan af tækifærum að námi loknu. Tengingin við matvælaframleiðslufyrirtæki er líka sterk, þá sérstaklega í meistaranáminu, og er stór hluti nemenda sem útskrifast hafa sl. fjögur ár sem fengið hafa vinnu strax að námi loknu.

Viltu kynna þér nám í matvælafræði?

Infografia_matvaelafraedi_HI_og_Matis_allar_gradur_vefur
Infografia_matvaelafraedi_HI_og_Matis_meistaranamid_vefur

Fréttir

Matís á afmæli í ár!

Matís varð 10 ára í gær, þann 1. janúar, en þann dag árið 2007 tók Matís opinberlega til starfa. Þá runnu saman rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, MATRA, RF og líftæknifyrirtækið Prokaria, og mynduðu eina sterka heild þar sem rannsóknir á matvælum og í líftækni fengu samastað, þar sem áhersla var á að auka verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Í ljósi þessa ákváðum við að setja saman ársskýrslu þar sem litið væri um öxl og stiklað á stóru í starfssemi Matís. Í skýrslunni þetta árið, sem venju samkvæmt er gefin út fyrsta virka daginn í janúar, er farið yfir víðan völl og segja má að skýrslan þetta árið sé samansett úr mismunandi smásögum, það sem við köllum árangurssögur, og sýnir innihald hennar svo ekki verður um villst að stofnun Matís var rökrétt og mikið framfaraskref á sínum tíma. Ársskýrslan er að þessu sinni á ensku í heild sinni en íslenskir útdrættir, þar sem áhersla er lögð á það sem gerðist í starfssemi okkar á Íslandi, verða gefnir út á næstu dögum.

Ársskýrsla Matís 2016

Við horfum stolt til baka og bjartsýn fram á veginn. Mjög margt áhugavert, skemmtilegt og krefjandi mun eiga sér stað á þessu ári og er óhætt að segja að einn stærsti viðburðurinn sem Matís hefur tekið að sér verði á þessu ári þegar við sjáum um World Seafood Congress (WSC). Viðburðurinn er einn stærsti viðræðuvettvangur í heimi á sviði verðmætasköpunar í sjávarútvegi og matvælaöryggis, og dregur að borðinu fólk úr öllum hlutum virðiskeðju sjávarfangs. Á ráðstefnuna koma starfsmenn útgerða og fiskvinnsla, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim, ekki síst frá þróunarlöndum. Það er okkur sannur heiður að fá tækifæri til að halda þessa ráðstefnu og hlutverkið er okkur mikil hvatning.

Vöxtur Matís hefur verið töluverður á síðastliðnum 10 árum, en slíkt gerist ekki án öflugra starfsmanna.

IS