Fréttir

Ungir neytendur vilja sjá matvælagildi sín endurspeglast í þeim matvörum sem þeir kaupa

Viðhorf ungs fólks til matvæla, þarfir og gildi þeirra eru ekki endilega þau sömu og þeirra sem eldri eru, en ungt fólk í dag eru neytendur framtíðarinnar.

Í haust var haldin áhugaverð röð vinnustofa þar sem leiddir voru saman nemendur á Háskólastigi og íslenskur matvælaiðnaður. Vinnustofurnar beindust að núverandi samskiptamynstri og upplýsingagjöf iðnaðarins til neytenda og var markmiðið að styðja við samtal matvælaiðnaðarins við neytendur framtíðarinnar. Í vinnustofunum var velt upp spurningum á borð við „Hvað vill næsta kynslóð neytenda vita um mat og virðiskeðju matvæla?“, „Hver eru matvælagildi þeirra“ og „Hvernig er upplýsingum og þekkingarauka best miðlað til þeirra?“

Verkefnið var unnið af rannsóknar- og nýsköpunarteymi Matís undir stjórn Kolbrúnar Sveinsdóttur, í samvinnu við rannsakendur undir stjórn Önnu Sigríðar Ólafsdóttur hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Verkefnið var unnið í fjórum löndum Evrópu (Bretlandi, Póllandi, Finnlandi og Íslandi). Vinnustofurnar voru hluti stærra verkefnis sem er styrkt af Evrópusambandinu (innan EIT FOOD) og heitir verkefnið WeValueFood en því er stýrt af Institute for Global Food Security, Queen’s University Belfast. Tilgangur WeValueFood felur í sér að finna aðferðir til að auka skilning og styrkja viðhorf ungs fólks þannig að það átti sig á gildi og verðmætum matvæla og verði meðvitaðri um mat í víðu samhengi.

Kolbrún Sveinsdóttir hjá Matís leiddi umræður við nemendur. Nemendur sem þátt tóku í vinnustofunum lögðu mikla áherslu á umhverfisáhrif matvæla, en gegnsæi og heiðarleiki eru lykilatriði fyrir jákvæða ímynd og traust til matvælaframleiðenda. Þeir vilja sjá meira um hvernig matvæli á Íslandi eru framleidd, hvort heldur sem er á samfélagsmiðlum, heimasíðum matvælafyrirtækja eða með merkingum matvæla.

Niðurstöðurnar sýna að ungt fólk vill vita meira um það hvernig matur er framleiddur og ekki síður hvað felst í framleiðsluferlinu frá A til Ö. Upplýsingarnar sem ungt fólk kallar eftir eru meðal annars staðfestar upplýsingar um allt frá uppruna- og umhverfismerkinga til matreiðslu- og geymsluleiðbeininga, en ekki síður upplýsingar um af hverju plast er t.d. notað í umbúðir.

Það er ljóst að næsta kynslóð neytenda vill sjá matvælagildi sín endurspeglast í þeim matvörum sem þau velja. Meðal gilda tengd matvælum voru umhverfisvernd og andstaða við matarsóun áberandi. Til þess að ungir neytendur geti hagað innkaupum sínum í takt við þarfir sínar og gildi þarf gegnsæi og gott aðgengi að upplýsingum.

Með vinnustofunum skapaðist áhugavert samtal milli nemenda og matvælaframleiðanda, sem gaf mikilvæga innsýn bæði fyrir neytendur og matvælaiðnaðinn. Mikilvægt er að fylgja vinnustofunum eftir og styrkja samtal og upplýsingaflæði milli neytenda og framleiðenda til að mæta þörfum neytenda framtíðarinnar.

Upplýsingar um WeValueFood verkefnið.

IS