Fréttir

Krakkar kokka – kynnum íslenskar matarhefðir fyrir börnunum okkar

Tengiliður

Rakel Halldórsdóttir

Sérfræðingur

rakel@matis.is

Nú er rétt að hefjast áhugavert verkefni hjá Matís, í samstarfi við og styrkt af Matarauði Íslands hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Verkefnið gengur út á það að efla þekkingu og vitund íslenskra barna um staðbundna, íslenska frumframleiðslu og mikilvægi viðhalds og uppbyggingu hennar.

Verkefnið er útfærsla á hugmynd um matreiðsluverkefni fyrir skólabörn, í takti við sjálfbærnimarkmið/heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og nauðsyn almennrar hugarfarsbreytingar hvað varðar neyslu, viðhald og uppbyggingu frumframleiðslu. Verkefnið miðar að því að vekja athygli og áhuga íslenskra barna á betri nýtingu matarafurða (minnkun matarsóunar), nýtingu staðbundinna íslenskra afurða í matreiðslu, hugmyndaauðgi og nýsköpun í matreiðslu úr hefðbundnum íslenskum hráefnum.

Séríslenskar matarhefðir og uppruni matvæla er víða orðinn börnum óljós þar sem börn í dag eru orðin vön því að maturinn komi í umbúðum úr verslunum. Þetta á við um stærri og smærri samfélög þar sem aðgengi að frumframleiðslu nærsamfélags er almennt ábótavant og neysla sem byggir á nýtingu náttúruafurða úr villtri náttúru er á undanhaldi ef miðað er við fyrri kynslóðir.

Samstarfsaðilar auk Matarauðs Íslands eru Sveinn Kjartansson, matreiðslumeistari, Hinrik Carl Ellertsson, matreiðslumeistari, og þrír grunnskólar í Skagafirði auk Norðlingaskóla í Reykjavík.

IS