Matvæladagur MNÍ 2016 verður haldinn föstudaginn 20 . október. Titill ráðstefnunnar í ár: Matvælarannsóknir í breyttum heimi. Fjölgun íbúa jarðar, skuldbindingar loftslagsmálum, takmarkaðar náttúruauðlindir og auknar kröfur um öryggi matvæla mun hafa áhrif á framleiðslu, vinnslu, dreifingu, sölu og neyslu matvæla.
Matvæladagurinn fjallar um vandamál, áskoranir, lausnir og tækifæri sem þessu fylgir á heimsvísu og á Íslandi. Vandamál og tækifæri á heimsvísu og íslenskur veruleiki fara oft saman. Sjálfbær nýting auðlinda kallar á átak í umhverfismálum og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Lausnirnar geta verið að minnka sóun og úrgang með því að þróa dreifileiðir og kælikerfi eða verðmætar afurðir úr því sem áður var hent. Það kallast á við efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni.
Tölvu-, upplýsinga-, líf- og erfðatækni munu hafa enn meiri áhrif á alla virðiskeðju matvæla, rannsóknir og eftirlit en í dag. Rannsóknir á matvælum eru í hlutarins eðli hagnýtar. Þær byggja þó oftast á grunnrannsóknum í þeim greinum vísinda sem matvælafræðin byggir á sem eru fjölmargar. Þær eru lausnamiðaðar og nær alltaf unnar í samvinnu við, fyrir eða að frumkvæði hagsmunaaðila sem geta verið allt samfélagið, opinber stjórnvöld, matvælaframleiðendur, matvæla- og sprotafyrirtæki, neytendur og grasrótarsamtök. Markmiðið er alltaf að bæta hag, auka velferð og tryggja öryggi.
Tilgangurinn er líka að þjálfa upp stjórnendur og starfsfólk framtíðarinnar. Iðnaður sem byggir á færni og þekkingu mun skipta máli fyrir hagsæld á Íslandi í enn ríkari mæli en í dag. Samstarf þar sem brotnir voru niður múrar á milli háskóla og iðnaðar hefur skilað góðum árangri í matvælafræði. Þar hefur Matís verið brúin sem tengir þessa aðila saman. Matvælafræðingum með MS gráðu frá Háskóla Íslands hefur þannig fjölgað um helming á síðustu fjórum ári.
Matvæladagurinn hefur frá fyrstu tíð verið vel sóttur af fjölda fólks úr mismunandi geirum enda er fjallað um matvælaframleiðslu, vöruþróun og gjaldeyrissköpun, matarhefðir, fæðubótarefni, matvælaöryggi, neytendavernd og næringarráðleggingar allt með skírskotun í matvæli, næringu og heilsu. Matur er mannsins megin verður gefið út í tilefni dagsins eins og verið hefur undanfarin ár en í blaðinu er fjallað um ýmis áhugaverð málefni á sviði matvælaframleiðslu, næringar og heilsu með sérstaka áherslu á megin þema hvers Matvæladags.
Rannsakendum, nemendum og fyrirtækjum mun standa til boða að vera með kynningar á sínum rannsóknum og vörum á meðan á skráningu stendur sem og í kaffihléi. Nánari upplýsingar um það verða sendar á fyrirtæki og háskólasamfélagið en áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Þóru Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is varðandi nánari upplýsingar.
Á Matvæladegi er Fjöregg MNÍ afhent en það er veitt fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla og næringar. Fjöreggið er veglegur verðlaunagripur, hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá upphafi verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. Óskað verður eftir tilnefningum af hálfu Fjöreggsnefndar MNÍ.
Framkvæmdanefnd Matvæladagsins vinnur nú í því að leggja síðustu hönd á dagskránna og mun hún verða birt fljótlega. Skemmtinefnd MNÍ hefur einnig verið skipuð en fyrirhugað er að halda árshátíð MNÍ föstudaginn 21. október en það verður auglýst nánar þegar nær dregur.