Fréttir

Matís auglýsir eftir handverksfyrirtækjum

Í sumar fór af stað verkefnið „Craft Reach“ sem hefur það markmið að styðja við sprotafyrirtæki og núverandi smáframleiðendur á afskekktum og strjálbýlum svæðum. Matís er einn af sjö samstarfsaðilum verkefnisins sem styrkt er til þriggja ára af Northern Pheryphery and Arctic programme. Verkefnið mun byggja á velgengni og reynslu verkefnisins „Économusée Craft International“ sem lagði grunninn að þessu verkefni.

Megináhersla verkefnisins er að aðstoða við að byggja upp og markaðssetja handverksfyrirtæki á afskekktum og strjálbýlum svæðum og í leiðinni hvetja unga fólkið og veita því innblástur. Samstarfsaðilar í verkefninu eru frá Noregi, Kanada, Færeyjum, Norður-Írlandi, Írlandi, Íslandi og Grænlandi.

Matís er að nú að leita að handverksfyrirtækjum sem hafa áhuga á því að gerast ÉCONOMUSÉE og tengjast „Craft Reach“ netverkinu. Til að fá meiri upplýsingar er hægt að fara inn á heimasíðuna, www.economusee.eu.

Á Íslandi eru nú þegar til þrjú ÉCONOMUSÉE, þau eru Leir 7 í Stykkishólmi, Arfleifð á Djúpavogi og Gestastofa Sútarans á Sauðárkróki.  

Þau handverksfyrirtæki sem hafa áhuga á því að taka þátt verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

ÉCONOMUSÉE er fyrirtæki sem:

  • Nota hefðbundnar handverksaðferðir
  • Framleiða hefðbundnar og/eða nýjar vörur með ákveðin menningartengsl
  • Opna dyr sínar fyrir almenningi til að kynna handverkið og fólkið þar á bak við
  • Er með húsnæði sem hannað er þannig að hægt er að sýna gestum vinnsluna og vörurnar
  • Miðar að því að verða fjárhagslega sjálfstætt

Nánari upplýsingar um verkefnið eða núverandi handverksfyrirtæki má finna á www.economusee.eu.

Ef þú telur að þú uppfyllir ofangreind skilyrði og hefur áhuga á því að vera hluti af þessu spennandi netverki getur þú haft samband við Gunnþórunni Einarsdóttur ( gunna@matis.is).

Frestur til að sækja um er 21. desember.

IS