Fréttir

Rannsókn á efnasamsetningu og lífvirkni slíms úr karfaaugum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sú venja hefur lengi verið viðhöfð innan íslenska sjávarútvegsins að þegar sjómenn stinga sig á oddhvössum uggum karfa þá hafa þeir einfaldlega skorið í augu fiskjarins og borið slímið í stungusárið.

Aukin verðmæti úr vinnslu á Karfa (Sebastes)
– rannsókn á efnasamsetningu og lífvirkni slíms úr karfaaugum

Með því að nota slímið með þessum hætti hafa sjómenn komið í veg fyrir sýkingu og einnig hefur verkurinn orðið minni en ella og bólgusvörun hverfandi samanborið við þegar augnslím er ekki borið á sárið. Þetta varð kveikjan að verkefninu og þær upplýsingar sem byggt var á þegar farið var á stað með verkefnið. Tilgangur þessa verkefnis var að varpa ljósi á hvort nýta megi slím úr augum karfa (Sebastes) til framleiðslu efna sem hafa eftirsóknarverða lífvirkni sem mögulega mætti nota í ýmsan iðnað, svo sem í snyrtivörur, sem fæðubót ofl.

Niðurstöður sýna að andoxunarvirkni er að finna í augnslími úr karfa og þá fyrst og fremst þegar 50% metanóllausn var notuð við útdráttinn og andoxunarvirkni mæld með svokölluðu DPPH prófi. Lágt próteininnihald reyndist í augnslíminu en hæst mældist það í augnslími sem var hitaþurrkað við 30°C. Með þeim aðferðum sem prufaðar voru reyndist augnslímið hvorki innihalda bakteríuhamlandi virkni né mældist í því β-karótín.

Þetta verkefni var í raun frumrannsókn á efni sem ekki hefur verið skoðað áður og safnað var upplýsingum sem ekki lágu fyrir. Áhugavert væri í framhaldinu að rannsaka aðra eftirsóknarverða lífvirkni, svo sem bólguhamlandi virkni. Einnig væri spennandi að einangra og rannsaka frekar þau prótein sem er að finna augnslíminu.

Nemandi

Friðrik Þór Bjarnason sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri vorið 2014 og meistaranemi í fiskeldi við Háskólann í Bodø Noregi frá haustinu 2014.

Leiðbeinandi

Rannveig Björnsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri hjá Matís.

Verkefnið unnið í Háskólanum á Akureyri og Matís Akureyri, með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Allt hráefni til rannsóknarinnar kom úr vinnslu Samherja hf.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri hjá Matís á Akureyri.

IS