Frá árinu 2012 hefur Matís lagt grunn að auknu samstarfi við innlendar og erlendar menntastofnanir, sem hefur skilað sér í fjölbreyttum samstarfsverkefnum.
Nú þegar styttist í að sumarfríi háskólanna ljúki er ekki úr vegi að taka Guðjón Þorkelsson sviðssjóra hjá Matís á spjall.
„Matís hefur átt í farsælu samstarfi við menntastofnanir á liðnum árum, hér starfar mikið af ákaflega góðum vísindamönnum og í sérfræðingum á sviði matvælafræða sem hafa komið að kennslu í háskólum hérlendis og erlendis. Árið 2012 var tekin ákvörðun um að styrkja þetta samstarf sem við teljum að hafi þegar stuðlað að verðmætasköpun í matvælaiðnaðinum hér á landi. Við leggjum mikla áherslu á starfsþjálfun nemenda og teljum okkur þannig vera að undirbúa einstaklinga til að takast á við raunveruleg störf strax að loknu námi.“
„Við teljum okkur jafnframt vera að fylgja eftir áherslum um rannsóknir og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis. Matvælafræðin er ört vaxandi grein og í ljósi þess hversu víðtækt hún snertir neytandann verða kröfur um framúrskarandi menntun og þekkingu háværari með degi hverjum. Við teljum að með því að tengja saman menntun og starfsþjálfun verði Matís að brú sem tengi saman háskólana og atvinnulífið. En það er einkar mikilvægt að þessir aðilar vinni saman og nýti þekkingu hvors um sig til framþróunar.“
„Önnur ástæða þess að Matís leggur áherslu á samstarf við menntastofnanir er hagkvæmni í formi samnýtingar á starfsfólki og aðstöðu. Auk þess skiptir það Matís og matvælafyrirtækin miklu máli, að fá nemendur til að vinna að hagnýtum rannsóknarverkefnum og öðlast þannig þjálfun til að verða framtíðarstarfmenn fyrirtækjanna. Matís er mjög stórt rannsóknafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hér er mikil sérfræðiþekking og reynsla sem nýta þarf í kennslu, leiðsögn og starfsþjálfun í matvælavinnslu. Einnig erum við svo heppin að vera með fyrsta flokks aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem einnig nýtast í sama tilgangi.“
„Starfsfólk Matís hefur haldið fyrirlestra og leiðbeint í verklegum æfingum í 10 BS námskeiðum, 4 námskeiðum sameiginlegum fyrir BS og MS nema og 10 MS námskeiðum í matvæla- og næringarfræði og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þá hafa fjölmargir nemendur í meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla unnið að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís og nær alltaf í samvinnu við atvinnulífið,“ segir Guðjón.
„Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við háskólasamfélagið að kennslu og þjálfun nemenda. Þá leitast Matís eftir því að tengja starfsemi sína og samstarfsaðila við fyrirtæki, rannsóknasetur og starfsstöðvar utan Reykjavíkur.“
„Á þessu ári höfum við tekið enn fleiri skref í eflingu matvælafræðináms hér á landi með nýjum samstarfssamningum við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Á Akureyri verður lögð áhersla á frekari eflingu rannsókna og menntunar í sjávarútvegsfræðum, matvælafræðum og líftækni auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna, með það að markmiði að vera í fararbroddi á Íslandi á þeim fræðasviðum sem tengjast sjávarútvegsfræði og líftækni. Samstarf Matís og Bifrastar felst í uppbyggingu á nýrri námslínu í matvælarekstrarfræði og mun Matís að mestu sjá um kennslu og uppbyggingu námsgreina sem tengjast meðferð, innihaldi og framleiðslu matvæla.“