Fréttir

Langvarandi geymsla fisks hefur mest áhrif á gæði fjölómettaðra fitusýra

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Magnea Guðrún Karlsdóttir matvælafræðingur varði doktorsritgerð sína, Oxunarferlar og stöðugleiki frosinna sjávarafurða, í Hátíðarsal HÍ þann 21.3. sl.. Andmælendur voru dr. Santiago Aubourg prófessor hjá CSIC á Spáni, og dr. Sigríður Jónsdóttir fræðimaður við HÍ. Leiðbeinendur voru dr. Hörður G. Kristinsson og próf. Sigurjón Arason.

Neysla á unnum og frystum sjávarafurðum hefur aukist á undanförnum árum. Fita í fiskafurðum er góð uppspretta af fjölómettuðum fitusýrum (PUFA) sem sýnt hefur verið fram á að hafa jákvæð áhrif á heilsu manna. Fiskafurðir með hátt hlutfall af PUFA eru einstaklega viðkvæmar gagnvart þránun. Varðveisla á gæðum fitu er því mikilvæg við geymslu og vinnslu sjávarafurða. Frysting og frostgeymsla er skilvirk aðferð til að lengja geymsluþol fiskafurða, og hefur verið beitt í fjölda ára. Engu að síður geta gæði afurðanna rýrnað í frostgeymslu. Verkefninu var ætlað að auka skilning á mismunandi oxunarferlum sem eiga sér stað í frystum fiskafurðum, og kanna stöðugleika ólíkra fisktegunda við langvarandi frostgeymslu. Rannsökuð voru áhrif mismunandi geymsluhita á hráefnisgæði og stöðugleika fiskafurða, og áhrif hitunar og áframhaldandi frostgeymslu eldaðra afurða á gæði fitunnar. Ennfremur var lagt mat á ýmsar efnamælingar og hraðvirkar mælingar sem gjarnan er beitt til þess að fylgjast eftir með niðurbroti fitu.

Rannsóknir verkefnisins leiddu í ljóst dýpri skilning á mismunandi ferlum oxunar og stöðugleika frystra sjávarafurða og á því hvernig mismunandi geymsluskilyrði og breytileiki hráefnis hefur áhrif á þessa ferla. Hitastig og tími við geymslu reyndust mjög mikilvægir þættir fyrir stöðugleika frystra afurða. Gæði og stöðugleiki fitunnar í frostgeymslu reynast mjög háð fisktegundum. Þá hefur langvarandi geymsla fyrir eldun mest áhrif á stöðugleika fitunnar eftir eldun.

Magnea Guðrún er fædd 1978. Hún lauk BS prófi í matvælafræði frá HÍ 2008 og MSc-prófi í matvælafræði 2010. Samhliða námi hefur Magnea starfað hjá Matís ohf. og sinnt margvíslegum rannsóknarverkefnum.

Foreldrar Magneu eru Karl Jóhann Valdimarsson og Erla Þóra Óskarsdóttir. Eiginmaður Magneu er Ingvar Júlíus Tryggvason og eru börn þeirra Ástrós, Erla Ósk, Eva María og Tryggvi.

Nánari upplýsingar veitir Magnea Guðrún Karlsdóttir.

IS