Þriðjudaginn 22. október sl. var áhugavert umfjöllunarefni tekið fyrir í leiðara Morgunblaðsins. Þar var rætt um íslenska sjávarútveg, framfarir sem þar hafa átt sér stað, tækifæri nánustu framtíðar og Sigurjón Arason yfirverkfræðing hjá Matís og prófessor við Háskóla Íslands.
Matís fékk góðfúslegt leyfi Morgunblaðsins til að birta leiðarann í heild sinni.
Ótrúlegar framfarir í sjávarútvegi
Stjórnkerfi fiskveiða á ríkan þátt í gríðarlegri aukningu aflaverðmætis
Þær miklu framfarir sem orðið hafa í sjávarútvegi og vinnslu og markaðssetningu sjávarfangs á undanförnum árum og áratugum hafa ekki farið mjög hátt hér á landi, í það minnsta hafa þær ekki vakið þá athygli sem þær ættu skilið. Þetta er bagalegt því að þessar framfarir hafa þýðingu í umræðunni um skipulag sjávarútvegs hér á landi og hvaða aðstæður honum er boðið upp á.
Í viðtali Morgunblaðsins við Sigurjón Arason, sem nýlega var skipaður prófessor í matvælafræði við Háskóla Íslands en hefur um áratugaskeið unnið að bættri nýtingu sjávarfangs, komu fram margar athyglisverðar staðreyndir um það sem gerst hefur í þessum efnum hér á landi og hvaða þýðingu það hefur haft fyrir efnahag þjóðarinnar. Sigurjón bendir á að nú sé hætt að tala um úrgang og að nú skili það hráefni sem áður var hent á fjórða tug milljarða króna á ári. Þarna er um að ræða afurðir á borð við lýsi, lifur, hrogn og hausa sem áður var lítill gaumur gefinn en skila nú þessum risavöxnu upphæðum í þjóðarbúið.
Stærðirnar sem um er að tefla eru þó margfalt þetta.
Sigurjón segir að verðmæti þess sem komi upp úr sjó sé um 280 milljarðar króna en án þeirrar þekkingar og kunnáttu sem Íslendingar hafa komið sér upp fengjust aðeins um 150 milljarðar króna fyrir aflann. Og hann nefnir sem dæmi að áður hafi saltfisknýting verið 44% en sé nú 58%, í flakavinnslu hafi þótt gott að vera með 42% nýtingu en hún sé nú 50%, og í léttsöltun hafi nýtingin verið 42% en sé nú allt að 70%.
Stundum er talað um sjávarútveg eins og hann snúist aðeins um að moka fiskinum upp úr sjónum og að þar komi þekking og kunnátta hvergi nærri. Eins og þessar tölur sýna er þetta víðs fjarri raunveruleikanum.
Þekking og kunnátta í meðferð aflans eru ekki síður mikilvæg en veiðarnar sjálfar. En þessi þekking og bætta nýting aflans varð ekki til af sjálfu sér og hún hefði ekki orðið til ef ekki væru til öflug fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa séð sér hag í að vinna að umbótum og hafa haft til þess getu.
Kvótakerfið íslenska hefur stuðlað að miklum áhuga útgerðarfyrirtækja á að ná sem mestu út úr þeim afla sem þau hafa haft heimildir til að veiða og að veiða hann á sem hagkvæmastan hátt og á réttum tíma, sem einnig skiptir máli. Í því sambandi má benda á að Sigurjón Arason nefnir að ekki sé tilviljun að margar stærri útgerðir hætti þorskveiðum í júní og júlí, þá sé þorskurinn laus í holdum og lélegri markaðsvara en á öðrum tímum. Og hann segir að menn þurfi að passa sig að missa ekki þorskveiðina úr böndum eins og hann telur að gerst hafi tvö síðustu sumur.
Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís og prófessor við HÍ |
---|
Þetta er nokkuð sem óhjákvæmilegt er að hafa til hliðsjónar við þá skoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem nú á sér stað. En við þá skoðun verður ekki síst að líta til þess hverju stjórnkerfi fiskveiða hér við land hefur áorkað á síðustu áratugum. Sú gríðarlega aukning aflaverðmætis sem náðst hefur fram er engin tilviljun og hefði aldrei náðst ef hér hefði ekki verið unnið eftir skynsamlegu kerfi sem ýtti undir skilvirkni og hagkvæmni.
Og þar sem tækifærin til að auka verðmæti sjávarfangs eru enn til staðar er mikilvægt að þeir sem ákvarðanir taka um framtíðarfyrirkomulag sjávarútvegsins dragi rökréttar ályktanir af sögunni í stað þess að horfa fram hjá þessari mikilvægu reynslu.
Enginn gerði sér í hugarlund fyrir um þremur áratugum að hægt væri að ná jafn miklum árangri og raun ber vitni í þessum efnum og í dag er engin leið að spá um hversu miklu tækifærin sem bíða í hafinu umhverfis landið geta skilað þjóðarbúinu sé rétt á málum haldið.
Það eina sem reynslan hefur kennt okkur og hægt er að fullyrða er að með því að viðhalda skynsamlegu stjórnkerfi fiskveiða og snúa af þeirri óheillabraut sem síðasta ríkisstjórn markaði er hægt að ná gríðarlegum efnahagslegum árangri fyrir þjóðarbúið. Þar er um að ræða stærðir sem geta haft veruleg áhrif á lífsgæði allra landsmanna innan fárra ára og áratuga.
Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.